Hoppa yfir valmynd
27. júní 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 44/2012

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn 27. júní 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 44/2012:

 

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :


Með bréfi, dags. 15. mars 2012, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 6. mars 2012 um styrk að fjárhæð 35.000 kr.

 

I. Málavextir.

Kærandi sótti þann 24. febrúar 2012 um styrk vegna sérstakra erfiðleika að fjárhæð 35.000 kr. Fjárhæðin var ætluð til kaupa á nauðsynjum. Í bréfi Þjónustumiðstöðvar B, dags. 24. febrúar 2012, var umsókn kæranda um styrk synjað með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi skaut málinu til velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem staðfesti ákvörðun starfsmannanna þann 6. mars 2012 með þeim rökum að eigi verði talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi aðstoð vegna sérstakra erfiðleika.

Kærandi er 75% öryrki vegna slyss sem hann varð fyrir árið 1984, en áður vann hann við smíðar. Hann er í sambúð og er sambýliskona hans á vinnumarkaði. Kærandi kveðst vanta aðstoð til kaupa á nauðsynjum. Kærandi reki bifreið og greiði af láni vegna tölvukaupa. Mánaðarlegar tekjur kæranda nemi samtals 314.267 kr. sem samanstanda af greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins, greiðslum frá lífeyrissjóði og frá Vinnumálastofnun.

 

II. Málsástæður kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann sé í mikillum fjárhagslegum vandræðum og hann vanti umræddan styrk fyrir brýnustu nauðsynjum. Því hafi hann farið fram á greiðslu hans. 

 

III. Sjónarmið kærða.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vísar til reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem tóku gildi 1. janúar 2011 og voru samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði þann 25. nóvember 2010.

Bent er á að í 24. gr. nefndra reglna komi fram að heimilt sé að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika að uppfylltum öllum þar til greindum skilyrðum. Kærandi hafi verið synjað um styrk vegna sérstakra erfiðleika þar sem hann uppfylli ekki öll skilyrði 24. gr. reglnanna. Hann hafi ekki verið með fjárhagsaðstoð sér til framfærslu undanfarna sex mánuði eða lengur, sbr. a-lið 24. gr. reglnanna, auk þess sem tekjur kæranda séu töluvert yfir viðmiðunarmörkum grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg. Þá liggi ekki fyrir að kærandi njóti ekki lánafyrirgreiðslu í banka, sbr. b-lið reglnanna, og ekki liggi fyrir á hvern hátt lánið muni breyta skuldastöðu kæranda til hins betra þegar til lengri tíma sé litið, sbr. d-lið 24. gr. reglnanna.

Það hafi verið mat velferðarráðs að skilyrði 24. gr. væru ekki uppfyllt og því bæri að staðfesta synjun þjónustumiðstöðvar um styrk að fjárhæð 35.000 kr.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda styrk að fjárhæð 35.000 kr. til kaupa á nauðsynjum.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Reykjavík hefur sett sér reglur um fjárhagsaðstoð sem tóku gildi þann 1. janúar 2011. Er í þeim reglum að finna almenn skilyrði styrks og lána, sem að áliti úrskurðarnefndarinnar eru almenn og fyrirsjáanleg.

Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu verður ekki séð að kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu styrks, þar á meðal því skilyrði 24. gr. reglnanna að hafa verið með fjárhagsaðstoð sér til framfærslu undanfarna sex mánuði eða lengur, sbr. a-lið 24. gr. reglnanna. Þá hefur ekkert komið fram um að mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda.

Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
 

Úrskurðarorð:
 

Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkur frá 7. mars 2012, í máli A, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttur,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum