Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2012

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                             

Miðvikudaginn 22. ágúst 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 2/2012:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dagsettri 30. desember 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs á endurútreikningi lána hans hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði þá ákvörðun Íbúðalánasjóðs að líta ekki svo á að hann hafi lagt fram umsókn um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði, áhvílandi á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila. Kærandi lagði ekki fram formlega umsókn til Íbúðalánasjóðs en hann mun hafa leitað upplýsinga símleiðis hjá Íbúðalánasjóði í lok júnímánaðar 2011. Í desember 2011 óskaði kærandi þess að Íbúðalánasjóður tæki mál hans upp, en við því varð ekki orðið af hálfu Íbúðalánasjóðs.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dagsettu 3. janúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dagsettu 16. janúar 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 18. janúar 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Úrskurðarnefndinni barst bréf kæranda, dagsett 31. janúar 2012, með frekari athugasemdum hans. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 16. apríl 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

III. Sjónarmið kæranda

Af kæru kæranda má ráða að hann hafi ekki sótt formlega um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði, áhvílandi á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila. Í kærunni er tekið fram að móðir kæranda hafi haft samband símleiðis við Íbúðalánasjóð í lok júní 2011 vegna málsins og hafi hún fengið þær upplýsingar að miðað væri við stöðu áhvílandi veðláns og fasteignamat og skuldastöðu í árslok 2010. Af hálfu kæranda kemur einnig fram að hann og móðir hans hafi átt fund með Íbúðalánasjóði í desember 2011 og hafi kærandi þá talið að það hlyti að vera unnt að taka málið upp. Fram hafi komið að það væri ekki unnt og kæranda bent á að kæra til úrskurðarnefndarinnar.

Byggir kærandi á því að hann hafi fengið rangar upplýsingar í júní 2011, þar sem ekki hafi verið tekið tillit til þess að hann hafi tekið lán hjá ættingjum fyrir útborgun við kaup fasteignarinnar, sem hafi verið um 6 milljónir króna, en láninu hafi ekki verið þinglýst á íbúðina. Þá byggir kærandi á því að þrátt fyrir skilvísar greiðslur, og innborganir á höfuðstól lána, hafi staða hans einungis versnað.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að skv. 8. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 hafi sjóðnum einungis verið heimilt að taka við umsóknum um niðurfærslu veðkrafna til og með 30. júní 2011. Formleg umsókn um niðurfærslu veðkrafna liggi ekki fyrir hjá Íbúðalánasjóði en kærandi muni hafa leitað upplýsinga símleiðis í lok júní 2011 og fengið þær upplýsingar að uppreiknuð staða veðkrafna væri undir 110% af verðmæti fasteigna. Miðað hafi verið við uppreiknaða stöðu veðkrafna 1. janúar 2011 og niðurfærsla á veðkröfum hafi einvörðungu tekið til áhvílandi lána en ekki til annarra skulda.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi lagði ekki fram formlega umsókn um endurútreikning lána hjá sjóðnum samkvæmt 110% leiðinni áður en lögbundinn frestur til þess rann út skv. 1. gr. laga nr. 29/2011, um breytingu á lögum nr. 44/1998. Fram hefur komið að móðir kæranda hafi rætt símleiðis við ráðgjafa kærða í júnílok 2011, og heldur kærandi því fram að hún hafi þar fengið þær röngu upplýsingar að ekki þýddi að sækja skriflega um leiðréttingu áhvílandi veðlána Íbúðalánasjóðs.

Í 1. gr. laga nr. 29/2011, um breytingu á lögum nr. 44/1998, kemur fram að Íbúðalánasjóði var heimilt að taka við umsóknum á grundvelli ákvæðisins til og með 30. júní 2011, sbr. einnig lið 4.2 í 4. gr. í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um aðlögun fasteignalána í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011. Samkvæmt skýru orðalagi 1. gr. laga nr. 29/2011 var Íbúðalánasjóði því ekki heimilt að taka við umsóknum eftir að frestur til þess rann út, þann 1. júlí 2011. Í fyrrgreindum lögum er ekki að finna ákvæði um að Íbúðalánasjóði sé skylt að tilkynna lántakendum um möguleika þeirra til úrræðisins, heldur kemur einungis fram í ákvæðinu að umsóknir skuli berast sjóðnum. Þrátt fyrir það var úrræðið kynnt í fjölmiðlum auk þess sem bréf voru send til lántakenda Íbúðalánasjóðs.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði beri að gæta jafnræðis við afgreiðslur þeirra umsókna sem honum berast á grundvelli laga nr. 29/2011. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum. Þar er ekki að finna undanþágur sem heimilað gætu viðtöku umsókna um 110% leiðina eftir 1. júlí 2011.

Til þess verður þó að líta að kærandi hefur byggt á því að móðir hans hafi, fyrir hans hönd, haft samband við Íbúðalánasjóð og fengið þær upplýsingar að ekki þýddi að setja fram skriflega umsókn. Af hálfu úrskurðarnefndarinnar verður því að líta til þess hvort kæranda hafi verið veittar rangar leiðbeiningar í umræddu símtali. Ekki er um það deilt að áhvílandi veðlán Íbúðalánasjóðs voru lægri en sem nemur 110% af verðmæti fasteignar kæranda þann 1. janúar 2011. Hefur kærandi hins vegar borið því við að ekki hefði eingöngu átt að taka tillit til áhvílandi veðlána heldur einnig láns sem hann fékk frá ættingjum sínum við kaup íbúðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 var einungis heimilt færa niður kröfur Íbúðalánasjóðs á hendur einstaklingum ef uppreiknuð staða veðkrafna 1. janúar 2011 var umfram 110% af verðmæti fasteignar. Því voru ekki lagaskilyrði fyrir því að líta til annarra skulda umsækjenda en þeirra sem hvíldu á íbúð umsækjenda. Er einnig litið til þess að kærða ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast og að kærða að fylgja fyrrgreindum reglum, en þar er ekki að finna undanþágur. Með lögum nr. 29/2011 var Íbúðalánasjóði veitt heimild til þess að færa niður veðkröfur sjóðsins á hendur einstaklingum sem uppfylla þau skilyrði sem fram koma í 1. gr. laganna. Verður því að telja að þær leiðbeiningar sem veittar voru í samtali við umboðsmann kæranda í júní 2011 hafi ekki verið rangar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum í 1. gr. laga nr. 29/2011 og lið 4.2 í 4. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta synjun Íbúðalánasjóðs um að taka erindi kæranda til efnislegrar meðferðar.  

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi meðferð máls A, vegna endurútreiknings lána áhvílandi á íbúðinni að B, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum