Hoppa yfir valmynd
11. september 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 76/2012

Þriðjudaginn 11. september 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 76/2012:

Kæra A

á athöfnum

félagsþjónustu B

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur lagt fram kæru, dags. 19. júlí 2012, hjá innanríkisráðuneytinu. Kæran var framsend úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 30. júlí 2012.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Í kæru kemur fram að hún varði framkvæmd laga um félagsþjónustu hjá B. Þá segir enn fremur að efni kærunnar séu „Stjórnvaldsákvarðanir Húsnæðisskrifstofu B, og Félagsþjónustu B þess efnis að gera tilraun til þess að rifta áður riftum húsaleigusamningi við undirritaða aftur fyrir dómi, með tilheyrandi hækkun skuldar sem nemur 200.000.-þús króna hækkun amk. við aðkomu lögmanns aftur að málinu.“ Þá segir í kærunni: „Óskir um frest til niðurgreiðslu skuldar, en greiðslu áframhaldandi áfallandi leigu uns lokafrágangur slysamála hefði átt sér stað til handa þeirri sömu voru frambornar eftir áramót í viðtali við fulltrúa og skilningur undirritaðrar á fresti að sá væri fram í maí en fulltrúa fram að maí.“

 

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi gert húsaleigusamning við Fasteignafélag B um leigu íbúðar að C. Fyrir liggja nokkrir samningar en sá nýjasti fyrir tímabilið 1. júlí 2011 til 30. júní 2012. Þann 29. maí 2012 var skorað á kæranda að greiða Húsnæðisskrifstofu C ógreidda leigu að fjárhæð 3.123.069 kr. Með vísan til greiðsluáskorunarinnar var húsaleigusamningnum rift með bréfi, dags. 11. júní 2012. Þann 18. júní 2012 var í Héraðsdómi D lögð fram aðfararbeiðni þar sem krafist var dómsúrskurðar um að kærandi yrði borin út úr íbúðinni að C. Af gögnum málsins má ráða að farið hafi verið í svipaðar aðgerðir áður vegna ógreiddrar leigu kæranda. Ekki er talin þörf á að rekja það nánar hér.

Kærandi óskar eftir því að málsmeðferð þessi verði tekin til skoðunar þar sem um sé að ræða „tilraun stjórnvalds á sveitarstjórnarstigi þess efnis að ganga fram með löggerninga gagnvart undirritaðri öðru sinni í formi þess að dæma útburð úr félagslegu leiguhúsnæði sem áður hefur verið gerð sem löggerningur [?]“.

 

II. Niðurstaða

Aðili máls getur skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 63. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.

Fyrir liggur að kærandi hefur leigt húsnæði af B. Vegna vangoldinnar leigu var farið í tilteknar aðgerðir til að innheimta leiguna. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun um innheimtu vangoldinnar leigu, riftun leigusamnings og aðfararbeiðni þar sem krafist er útburðar teljist ekki til þeirra ákvarðana félagsmálanefndar sem kæranleg er til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála á grundvelli 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. 

Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun verður kæru kæranda vísað frá.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

  

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum