Hoppa yfir valmynd
23. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 184/2011

Miðvikudaginn 23. maí 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 184/2011:

A

gegn

Akureyrarbæ

 

og kveðinn upp svohljóðandi 

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 5. desember 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun félagsmálaráðs Akureyrar frá 23. nóvember 2011 á umsókn hans um greiðslu húsaleigubóta.

 

I. Málavextir.

Umsókn kæranda um húsaleigubætur vegna leigu íbúðar að B er dagsett 14. september 2011. Þar kemur fram að hann er námsmaður. Undir umsóknina rita jafnframt auk hans, C og D en þau eru öll systkin sem eiga lögheimili á Akureyri, en stunda nám í Reykjavík. Í athugasemdadálki í umsókninni um húsaleigubætur kemur fram að aðilar að húsaleigusamningnum séu þrír og beri þeir jafnan kostnað og telji sig því eiga fullan rétt til húsaleigubóta sem einstaklingar. Í meðfylgjandi húsaleigusamningi, dags. 28. ágúst 2011, sem D undirritar, kemur fram að hún sé leigutaki fyrir sína hönd og einnig fyrir hönd C og A. Fram kemur að leigjendur leigi hver sérherbergi ásamt þriðjungshlut í sameiginlegu rými sem fylgi íbúðinni.

Umsókn kæranda um húsaleigubætur var hafnað af húsnæðisdeild Akureyrar með bréfi, dags. 7. nóvember 2011. Hann kærði þá ákvörðun til félagsmálaráðs Akureyrar sem staðfesti niðurstöðu húsnæðisdeildar þann 23. nóvember 2011.

 

II. Málsástæður kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram að samkvæmt úrskurði húsnæðisnefndar Akureyrarbæjar, dags. 7. nóvember 2011, og félagsmálaráðs Akureyrarbæjar, dags. 25. nóvember 2011, sé einungis heimilt að gera einn húsaleigusamning vegna hverrar íbúðar og einnig að hámarkshúsaleigubætur einstaklings eða íbúðar séu 18.000 kr. Tilefni erindisins sé að þrír einstaklingar sem stundi nám við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík séu allir með lögheimili á Akureyri og leigi saman íbúð í Reykjavík. Kærandi bendir á að eftirfarandi komi fram í bæklingi velferðarráðuneytisins um húsaleigubætur:

Námsmenn á framhalds- og háskólastigi sem leigja herbergi á heimavist eða á stúdentagörðum með sameiginlegum aðgangi að eldunaraðstöðu, stofum og baðherbergjum eiga rétt til húsaleigubóta. Í þessum tilvikum telst aðstaða þeirra „íbúðarhúsnæði“. Leigusamningi er þá þinglýst á viðkomandi herbergi. Undanþága þessi gildir ekki um námsmenn sem leigja herbergi „úti í bæ“ eða hluta af íbúð á frjálsum leigumarkaði.

Það sé mat kæranda að við ákvörðun stjórnvalda, hvað varði námsmenn, gæti ekki jafnræðis þar sem ekki sé tryggt að allir námsmenn eigi kost á búsetu á heimavist eða á stúdentagörðum. Einstaklingar sem leigja saman „úti í bæ“ sitji ekki við sama borð og einstaklingar sem komist inn á stúdentagarða sökum þess að húsnæðiskostnaður sé líklegri til að vera mun hærra hlutfall af mánaðarlegu framfærslufé þeirra.

 

III. Málsástæður kærða.

Af hálfu Akureyrarbæjar kemur fram að við móttöku þriggja umsókna um húsaleigubætur, sem allar hafi byggt á grundvelli sama húsaleigusamnings, hafi ein umsóknin verið tekin til greina, umsókn D. Greiddar hafi verið út húsaleigubætur í samræmi við samanlagðar tekjur umsækjenda. Umsóknum kæranda og C bróður hans hafi verið hafnað á grundvelli 7. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, en húsnæðisdeild og félagsmálaráð Akureyrarbæjar hafi talið umrætt húsnæði ekki uppfylla kröfur laganna til að heimilt væri að greiða öllum þremur umsækjendunum húsaleigubætur. Fram komi í 7. gr. laganna að með íbúðarhúsnæði í lögunum sé átt við „venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu og eru lágmarksskilyrði a.m.k. eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða eldunaraðstöðu og sérsnyrtingu og baðaðstöðu“. Þá komi fram í 3. mgr. lagagreinarinnar að húsaleigubætur greiðist ekki vegna leigu á einstaklingsherbergjum eða ef eldhús og snyrting er sameiginleg fleirum. Loks er bent á að í
5. mgr. lagagreinarinnar komi meðal annars fram að þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr. 7. gr. laganna um íbúðarhúsnæði hafi fatlaðir sem búi saman á sérstökum sambýlum fyrir fatlaða rétt til húsaleigubóta. Undanþága þessi gildi einnig um námsmenn sem séu í námi á framhalds- eða háskólastigi og leigi á heimavist eða námsgörðum.

Um sé að ræða þrenn systkin sem leigi saman eina íbúð í skilningi laganna. Ef litið sé á það sem svo að um sé að ræða leigu á einstaklingsherbergjum eins og 3. mgr. vísi til, sé ekki heimilt að greiða húsaleigubætur. Í 5. mgr. komi þó fram undanþága fyrir námsmenn sem leigi herbergi á heimavist eða námsgörðum, að heimilt sé að greiða þeim húsaleigubætur. En undanþága sú gildi eingöngu um leigu húsnæðis á heimavist eða námsgörðum og óumdeilt sé að hér sé ekki um slíkt að ræða, heldur íbúð á frjálsum leigumarkaði. Því hafi húsnæðisdeild Akureyrarbæjar litið á málið sem svo að um sé að ræða eina íbúð í skilningi laganna og greitt þeim húsaleigubætur samkvæmt því.

Bæturnar hafi því verið reiknaðar út í samræmi við 2. gr. reglugerðar um húsaleigubætur, nr. 118/2003, en þær hafi ekki verið skertar vegna tekna umsækjenda, eins og segi í 9. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. hafi leigutakinn, D, því fengið samkvæmt umræddum leigusamningi greiddar fullar húsaleigubætur, 18.000 kr., en hún sé systir kæranda.

Fram kemur af hálfu Akureyrarbæjar að ekki verði litið framhjá því að leigutaki og umsækjandi séu ekki sami aðili, en það gefi augaleið að aðili geti ekki fengið húsaleigubætur vegna íbúðar sem hann er ekki leigutaki að. Þetta komi skýrt fram á umsóknarblaði. Í 11. gr. laganna komi fram að sem fylgiskjal með umsókn skuli fylgja „leigusamningur undirritaður af báðum aðilum og þinglýstur“, en í því felist að ekki sé hægt að teljast leigutaki/leigjandi nema hafa undirritað leigusamning. Auk þessa megi benda á 13. gr. laganna, en í 2. mgr. komi fram að bæturnar greiðist til leigjanda (umsækjanda) en þó sé heimilt að greiða þær til leigusala samkvæmt sérstakri skriflegri beiðni leigjanda. Ekki sé hægt að fara fram hjá þessu ákvæði með því að þinglýsa þremur húsaleigusamningum fyrir sömu íbúðina, því eins og fram komi í 4. mgr. 13. gr. greiðist húsaleigubætur eingöngu á grundvelli eins húsaleigusamnings um sömu íbúð fyrir sama tímabil. Kærði álíti sig hafa farið í einu og öllu eftir lögunum.

Kærði bendir einnig á að ekki sé hægt að líta svo á að honum sé um að kenna mismunun þá er kærandi vísi til, sé hún á annað borð fyrir hendi. Víst sé að ekki gildi sömu reglur um húsaleigubætur vegna venjulegs íbúðarhúsnæðis og herbergja á heimavistum eða námsgörðum. Húsnæðisdeild og félagsmálaráð Akureyrarbæjar hafi í einu og öllu farið eftir lögum og reglugerð um húsaleigubætur, en eigi kærði að greiða húsaleigubætur líkt og kærandi fari fram á verði til lagabreytinga að koma. Slíkt sé ekki á færi sveitarfélagsins og beri því að falla frá kröfum kæranda. 

  

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Akureyrarbæ beri að greiða kæranda húsaleigubætur vegna leigu íbúðar að B sem hann leigir ásamt tveimur systkinum sínum. Húsaleigan er samtals 130.000 kr.

Í erindi sínu hefur kærandi óskað eftir því að úrskurðarnefndin taki til skoðunar þann mismun sem sagður er vera í fyrirkomulagi á greiðslum húsaleigubóta til námsmanna. Kærandi kærir hins vegar synjun á umsókn kæranda um greiðslu húsaleigubóta. Sú synjun er byggð á ákvæðum laga nr. 138/1997, og það er sú ákvörðun sem úrskurðarnefndinni ber að endurmeta. Í 2. mgr. 7. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, kemur fram að með íbúðarhúsnæði í lögunum sé átt við venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu og séu lágmarksskilyrði a.m.k. eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða eldunaraðstöðu og sérsnyrtingu og baðaðstöðu. Í 3. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að húsaleigubætur greiðist ekki vegna leigu á einstaklingsherbergjum eða ef eldhús eða snyrting er sameiginleg fleirum. Kærandi uppfyllir því ekki skýr ákvæði 2. og 3. mgr. 7. gr. laga um húsaleigubætur og á þar af leiðandi ekki rétt á greiðslu húsaleigubóta. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Akureyrarbæjar.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Gunnar Eydal og Margrét Gunnlaugsdóttir, meðnefndarmenn. 

 

Úrskurðarorð:

 Ákvörðun Akureyrarbæjar frá 23. nóvember 2011, í máli A, er staðfest.

  

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Gunnar Eydal                         Margrét Gunnlaugsdóttir

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum