Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 20/2010

Þriðjudaginn 22. febrúar 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 20/2010:

A

gegn

fjölskylduráði Hafnarfjarðar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 29. nóvember 2010, skaut A, til úrskurðarnefndar synjun fjölskylduráðs Hafnarfjarðar frá 1. desember 2010 um óskerta fjárhagsaðstoð í nóvember 2010. Hann óskar þess að fá fulla fjárhagsaðstoð í nóvember 2010.

 

I. Málavextir

Samkvæmt gögnum máls þessa hefur kærandi verið atvinnulaus um tíma og hefur fengið fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustunni í Hafnarfirði í um það bil tvö ár, en hann nýtur ekki réttar til atvinnuleysisbóta. Hann hefur verið skráður í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun. Kærandi tók í október 2010 þátt í svokölluðu „súrefnisnámskeiði“ hjá Atvinnumiðstöð Hafnarfjarðar, en það er samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar og Vinnumálastofnunar og er einkum ætlað að sinna langtímaatvinnulausum og ungu fólki og aðstoða það við að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Þátttakendur sækja námskeið sem Atvinnumiðstöðin skipuleggur og Félagsþjónustan greiðir þeim fjárhagsaðstoð á sama tíma. Í námskeiðunum felst meðal annars að þátttakendur fara í starfsþjálfun í nokkra daga hjá atvinnufyrirtæki sem valið er í samráði við þátttakendur og þar sem kærandi hafði lýst því yfir að hann hefði áhuga á að læra til kokks var honum útveguð starfsþjálfun í því fagi í tvær vikur, tvo daga hvora vikuna, á veitingahúsinu B. Fram kemur að kærandi hafi mætt vel á námskeiðið en þegar komið hafi að starfsþjálfuninni hafi hann ekki sinnt um að mæta, kvaðst hafa sofið yfir sig fyrri daginn og ekki fundist við hæfi að mæta þann seinni.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi kveðst hafa fengið fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu og hafi verið sendur á fyrrgreint súrefnisnámskeið. Hann hafi mætt afar vel á námskeiðið og betur enn flestir aðrir. Hann hafi síðan átt að fara í starfsþjálfun en hafi sofið yfir sig. Kærandi kveðst geta farið aftur í starfsþjálfun í desember. Dregnar hafi verið af bótum hans 56.000 kr. en þær séu í heild 112.000 kr. Kærandi kveðst vera sá eini á námskeiðinu sem hafi misst bætur þrátt fyrir að hann hafi mætt betur en aðrir á námskeiðið sjálft og finnst kæranda finnst þetta vera afar óréttlátt.

 

III. Málsástæður fjölskylduráðs Hafnarfjarðar

Fram kemur hjá fjölskylduráði Hafnarfjarðar að kærandi hafi verið atvinnulaus um tíma og hafi fengið fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustunni í Hafnarfirði í um það bil tvö ár þar sem hann njóti ekki réttar til atvinnuleysisbóta. Hann hafi jafnframt verið skráður í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun, en skv. 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ sé þeim sem sæki um fjárhagsaðstoð samkvæmt reglunum skylt að leita sér að atvinnu og taka þeirri vinnu sem bjóðist nema því aðeins að veikindi, örorka, hár aldur eða aðrar gildar ástæður hamli því. Kæranda hafi verið boðið að taka þátt í námskeiði og starfsþjálfun í kjölfarið en Félagsþjónustan veiti þátttakendum slíkra námskeiða fjárhagsaðstoð á sama tíma. Kærandi hafi mætt vel á námskeiðið en hann hafi ekki stinnt um að mæta í starfsþjálfunina. Með hliðsjón af 2. mgr. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ og reglum Vinnumálastofnunar um þátttöku í atvinnuleitarúrræðum hafi verið ákveðið á afgreiðslufundi Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði 2. nóvember 2010 að veita kæranda aðeins fjárhagsaðstoð sem næmi hálfri grunnupphæð framfærsluaðstoðar skv. 11. gr. reglnanna þann mánuðinn. Kærandi hafi áfrýjað niðurstöðunni til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem hafi staðfest hana á fundi sínum 1. desember 2010.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Þess ber að geta að kæra barst úrskurðarnefndinni með erindi dagsettu 29. nóvember 2010, en hin kærða ákvörðun er dagsett 1. desember 2010. Af kærunni má þó ljóslega ráða að kærð er sú ákvörðun félagsþjónustunnar í Hafnarfirði sem dagsett er 1. desember 2010, og jafnframt hvaða málsástæður hann hefur fært fram fyrir henni. Verður kæra hans því tekin til efnislegrar umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort fjölskylduráði Hafnarfjarðar beri að greiða kæranda fulla fjárhagsaðstoð í nóvember 2010 í stað hálfrar framfærslu eins og gert var.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi er atvinnulaus og honum var boðið að taka þátt í námskeiði sem hann sótti vel og í kjölfarið var gert ráð fyrir því að hann færi í starfsþjálfun en hann sinnti því ekki. Í 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa sé heimilt að greiða honum allt að hálfri grunnfjárhæð framfærsluaðstoðar þann mánuðinn sem hann hafnar vinnu svo og mánuðinn þá á eftir. Í 2. mgr. sömu greinar segir að sama eigi við atvinnulausan umsækjanda sem ekki framvísi skráningarskírteini eða dagpeningavottorði frá svæðisvinnumiðlun án viðhlítandi skýringa. Að auki er af hálfu Hafnarfjarðarbæjar vísað til reglna Vinnumálastofnunar um þátttöku í atvinnuleitarúrræðum.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu telur að hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð og að mat fjölskylduráðs Hafnarfjarðar á aðstæðum kæranda hafi verið málefnalegt. Er því fallist á hina kærðu ákvörðun, enda er svo litið á af hálfu úrskurðarnefndinnar að þátttaka kæranda í fyrrgreindu námskeiði og síðari forföll hans úr verklegu námi, falli undir það þegar atvinnu hefur verið hafnað í skilningi framangreindra reglna.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

 Ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðar frá 1. desember 2010, í máli A, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                               Gunnar Eydal

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum