Hoppa yfir valmynd
25. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2011

Miðvikudaginn 25. maí 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 23/2011:

A 

gegn

fjölskyldu- og félagsmálaráði Reykjanesbæjar

  

og kveðinn upp svohljóðandi 

 

ÚRSKURÐUR

Með bréfi A, dags. 4. apríl 2011, skaut hann til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar um námsstyrk til framfærslu á vorönn 2011.

 

I. Málavextir og málsmeðferð.

Kærandi stundar nám á þriðja ári í lögfræði við Háskóla Íslands. Þetta er síðasta önnin hans í BA-náminu og á hann 30 einingar eftir þar til að útskrift kemur. Kærandi kveðst hafa lokið við allar annir á réttum tíma og lokið við öll fög í fyrstu tilraun. Hann er í sambúð með B sem einnig stundar nám í lögfræði við sama skóla. Kærandi fékk ekki greidd námslán á vorönn 2011 á grundvelli svokallaðrar fimm ára reglu sem er í kafla 2.3.2 í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í reglunni kemur fram að að uppfylltum skilyrðum um námsframvindu geti námsmaður að hámarki fengið lán í allt að fimm aðstoðarár samanlagt. Kærandi kveðst hafa hafið námsferil sinn á Bifröst og stundað þar nám í nokkur ár áður en hann hafi flust yfir í Háskóla Íslands til þess að ljúka námi sínu. Hann kveðst hvorki uppfylla skilyrði úthlutunarreglna sjóðsins né undantekningar frá fimm ára reglunni þar sem hann hafi ekki lokið námi sínu á Bifröst.

Kærandi sótti þann 8. febrúar 2011 um fjárhagsaðstoð hjá Fölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar. Umsókn hans var synjað á fundi fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar, sbr. bréf dags. 9. mars 2011, með vísan í grein 4.3.6 í reglum um fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi bendir á að í 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sé ákvæði sem tryggi framfærslurétt. Á grundvelli þessa ákvæðis hafi verið komið á almannatryggingakerfi sem stefni að þeim markmiðum sem komi fram í ákvæðinu. Á ákvæðinu grundvallist meðal annars lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sem umsókn kæranda um félagslega aðstoð byggi á. Kærandi bendir einnig á að í 12. gr. sömu laga skuli sveitarfélag sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Í 2. mgr. 12. gr. laganna segi að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Löggjafinn hafi mælt fyrir um að sveitarfélög skuli sjá til þess að fólk sem þarfnist aðstoðar fái hana. Þessa lagaskyldu Reykjanesbæjar telji kærandi ekki uppfyllta, með endanlegri höfnun á umsókn hans.

Fram kemur af hálfu kæranda að í 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga segi að sveitarstjórn skuli setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar, sbr. 2. mgr., að fengnum tillögum félagsmálanefndar. Sveitarfélaginu sé eftirlátið mat við töku ákvörðunar um hverjir skuli njóta félagaðstoðar en hins vegar sé ljóst að sveitarfélaginu beri skylda að veita íbúum sínum aðstoð sem geti það ekki sjálfir með hliðsjón af 12. gr. sömu laga. Matið um hvernig sú aðstoð skuli vera sé eftirlátið sveitarfélaginu og verði þau sjónarmið að vera málefnaleg. Kærandi telur það ljóst að löggjafinn hafi mælt fyrir um að sveitarfélaginu sé skylt að veita þeim aðstoð sem þess þurfi og geti Reykjanesbær því ekki sett sér reglu um að námsmenn sem stundi nám í lánshæfu námi fái ekki fjárhagsaðstoð og fylgt henni í blindni án þess að líta til aðstæðna hvers og eins og uppfylla þar með skyldur sínar um skyldubundið mat.

Námsmenn sem stundi lánshæft nám eigi alla jafna rétt til námslána frá Lánasjóði íslenskra námsmanna eigi samkvæmt því að geta séð fyrir sér sjálfir uppfylli þeir skilyrði sjóðsins um lánafyrirgreiðslu. Þess vegna telji kærandi það málefnalegt sjónarmið að hafna umsóknum þeirra um félagslega aðstoð sem rétt eiga til námslána samkvæmt reglum lánasjóðsins en ekki allra þeirra sem stundi lánshæft nám eins og reglan sé orðuð. Upp geti komið ýmis takmarkatilvik þar sem aðilar fái ekki námslán vegna þess að þeir uppfylli ekki skilyrði sjóðsins af ýmsum ástæðum eins og við eigi í tilviki hans og falli því fyrir utan þessa takmarkalausu reglu sem sveitarfélagið hafi sett í grein 4.3.6 í reglum um fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins.

Kærandi telur að sveitarfélagið brjóti á stjórnarskrárvörðum rétti hans, ásamt því að brjóta á áðurnefndum ákvæðum í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga með því að setja sér verklagsreglu sem afnemi allt atvikabundið mat einstakra mála. Með því að setja sér reglu sem kveði á um að allir einstaklingar sem stundi lánshæft nám fái ekki félagsaðstoð sé meginregla stjórnsýsluréttarins um skyldubundið mat stjórnvalda brotin en einnig brjóti sveitarfélagið 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

III. Málsástæður fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar.

Í bréfi fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar, dags. 15. apríl 2011, kemur fram að kærandi sé í lánshæfu námi. Það samræmist ekki reglum sveitarfélagsins að veita einstaklingi fjárhagsaðstoð sem sé í lánshæfu námi. Kæranda hafi því verið synjað um fjárhagsaðstoð.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Reykjanesbæ.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort fjölskyldu- og félagsmálaráði Reykjanesbæjar beri að veita kæranda námsstyrk á vorönn 2011.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna kemur fram að námsmenn í grunnháskólanámi eða sérnámi eigi rétt á almennum námslánum í samtals fimm ár að hámarki, en lánshæft nám er skilgreint nánar í I. kafla úthlutunarreglna Lánasjóðsins. Í grein 4.3.6 í reglum um fjárhagsaðstoð hjá Reykjanesbæ sem fjallar um námsmenn kemur fram að einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna eigi ekki rétt á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Er á það fallist með kærða að umsókn kæranda falli ekki undir skilyrði fyrrgreindra reglna, enda stundar kærandi lánshæft nám í skilningi fyrrgreindra reglna.

Þótt sveitarfélögum sé með lögum nr. 40/1991 veitt ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita, verður slíkt að byggjast á lögmætum sjónarmiðum og vera samræmi við lög að öðru leyti. Í 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð, og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Skal aðstoð og þjónusta jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklinga og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.

Kærandi hefur lagt stund á nám síðastliðin fimm ár og nýtt til þess lánafyrirgreiðslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hefur kærandi haldið námi sínu áfram með eðlilegri námsframvindu, og á hann einungis eina önn eftir af námi sínu til BA-prófs í lögfræði. Reglur Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð útiloka kæranda hins vegar alfarið frá aðstoð, þar sem kærandi leggur nú stund á lánshæft nám. Kærandi nýtur þó ekki námslána þar sem hann hefur fullnýtt þau fimm ár sem lánuð eru til grunnnáms samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Eftir stendur því að kærandi nýtur ekki fjárhagsaðstoðar, þar sem tilvik hans fellur ekki undir fyrrgreindar reglur og var umsókn hans hafnað af þeirri ástæðu einni.

Þótt sveitarfélög hafi samkvæmt framansögðu mat þess hvort og þá með hvaða hætti þau eigi að veita félagslega aðstoð, verða reglur um mat þess að vera málefnalegar. Hér háttar svo til að reglur þær sem gilda um fjárhagslega aðstoð sveitarfélagsins leiða í reynd til þess að ekki fer fram eiginlegt mat á aðstæðum kæranda og því hvort hann eigi rétt til félagslegrar aðstoðar eða ekki. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar, að það að útiloka kæranda með framangreindum hætti og fyrirfram frá fjárhagsaðstoð, og að teknu tilliti til 12. gr. laga nr. 40/1991, standist ekki fyrrgreindar grundvallarreglur íslensks réttar um rétt til félagslegrar aðstoðar. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu heim til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð

 Ákvörðun fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar frá 7. mars 2011 í máli A er felld úr gildi og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar.

 

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                  Gunnar Eydal

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum