Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 124/2011

Miðvikudaginn 16. nóvember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 124/2011:

A og B

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A og B hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dags. 2. september 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, frá 1. apríl 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærendur kærðu synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni að C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 1. apríl 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kærenda að C 13.750.000 kr. Verðmat íbúðarinnar var 110% af skráðu fasteignamati eða 15.125.000 kr. Áhvílandi á íbúðinni voru 16.333.869 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærendur eru eigendur bifreiðarinnar X metin á 459.270 kr. Þá komu bankainnstæður kærenda einnig til frádráttar niðurfærslu á lánum þeirra hjá Íbúðalánasjóði, alls 6.693.223 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 5. september 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 26. september 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 27. september 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum.

 

III. Sjónarmið kærenda

Kærendur kæra synjun Íbúðalánasjóðs á endurútreikningi vegna leiðréttingar lána í 110% leiðinni. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 2. september 2011, segja kærendur að ýmsir umsækjendur um niðurfærslu íbúðarlána hafi fengið niðurfærslu á lánum sínum hjá sjóðnum. Þá vísa kærendur til þess að á meðal þeirra sem hafi fengið lán sín endurútreiknuð séu vinnufélagar þeirra sem fái greidd jafnhá laun og þau. Því hafi þau valið að kæra úrskurð Íbúðalánasjóðs um að synja umsókn þeirra um endurútreikning lána þeirra hjá sjóðnum.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður vísar til niðurstöðu útreikninga í máli kærenda sem ber með sér að til staðar hafi verið veðrými í aðfararhæfri eign sem nam hærri fjárhæð en hugsanleg niðurfærsla á veðkröfu og því bar að hafna niðurfærslu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011.

 

V. Niðurstaða

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna. Í 1. mgr. 42. gr. kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun.

Kærendur kæra ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 1. apríl 2011, með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 2. september 2011. Kæran barst því eftir að kærufresturinn var liðinn, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál. Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

A og B er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum