Hoppa yfir valmynd
14. desember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 94/2011

Miðvikudaginn 14. desember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 94/2011:

A og B

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dags. 16. júlí 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, frá 24. júní 2011 um synjun á umsókn um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærendur kærðu ákvörðun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni að C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 24. júní 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kærenda að C 16.400.000 kr. Við hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs var miðað við verðmat fasteignasala sem var 17.400.000 kr. Áhvílandi á íbúðinni voru 22.283.621 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærendur eru eigendur bifreiðarinnar X metin á 387.951 kr. og 16,67% eignarhluta fasteignarinnar að D, metin á 3.161.340 kr. miðað við skráð fasteignamat eins og það kom fram í skattframtali kærenda.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 26. júlí 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 11. ágúst 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 12. ágúst 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum.

 

III. Sjónarmið kærenda

Kærendur kæra ákvörðun Íbúðalánasjóðs um endurútreikning íbúðarlána vegna leiðréttingar lána í 110% leiðinni og þá niðurstöðu að veðrými sé á öðrum aðfararhæfum eignum sem lækki niðurfærslu veðskulda sem því nemur. Þá segja kærendur að þau óski eftir endurútreikningi þar sem þau séu ekki lengur eigendur að hlut í umræddri fasteign að D. Kærendur lögðu jafnframt veðbókarvottorð því til staðfestingar, þar sem fram kom að með afsali, dags. 6. júlí 2011, hafi eignarhluta kæranda í fasteigninni verið afsalað til nýrra eigenda. Kærendur telja forsendur breyttar og þau eigi því rétt á leiðréttingu lána í 110% veðsetningarhlutfall af verðmæti fasteignar þeirra að C.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður vísar til niðurstöðu útreikninga sem liggja fyrir í málinu, en í þeim útreikningum taki sjóðurinn tillit til aðfararhæfra eigna sem voru til staðar um síðastliðin áramót. Eignarhluti kærenda í fasteigninni að D hafi verið til staðar samkvæmt skattframtali í lok seinasta árs og sé ekki afskráður hjá kærendum fyrr en í júlímánuði 2011.

 

V. Niðurstaða

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Í málinu er ágreiningur um aðfararhæfar eignir í eigu kærenda sem komu til frádráttar niðurfærslu á lánum þeirra hjá Íbúðalánasjóði. Kærendur gera kröfu um endurútreikning þar sem eignarhluti í þeirra fasteigninni að D sé ekki lengur í þeirra eigu.

Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, sbr. lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnstæður.

Auk fasteignar sinnar að C áttu kærendur bifreið og eignarhluta í annarri fasteign á þeim tíma er umsókn þeirra um niðurfærslu lána var afgreidd hjá Íbúðalánasjóði eins og rakið hefur verið. Við meðferð umsókna ber kærða að gæta jafnræðis og samræmis, og að fylgja lögum nr. 29/2011. Þar er ekki að finna neinar undanþágur eða leiðréttingarheimildir sem taka til þess þegar um seinna til komin atvik er að ræða, svo sem sölu eignarhluta í fasteign eins og á við í tilviki kærenda. Verður því ekki fallist á kröfu kærenda um leiðréttingu á niðurfærslu lána á þann veg að ekki komi til frádráttar á niðurfærslu vegna eignarhluta þeirra í umræddri fasteign. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga nr. 29/2011 og samkvæmt 2. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Íbúðalánasjóðs til kærenda, dags. 24. júní 2011, er tekið fram að ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé kæranleg til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og að kærendur hafi fjögurra vikna frest til þess að kæra. Kærufrestur er nú þrír mánuðir eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð


Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um synjun á endurútreikning á lánum A og B, áhvílandi á íbúðinni að C, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum