Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 51/2011

Miðvikudaginn 24. ágúst 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 51/2011:

A og B

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:


A og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dagsettri 19. apríl 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs frá 6. apríl 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærendur kærðu synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 6. apríl 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kærenda að C 19.600.000 kr. Verðmat íbúðarinnar nam 110% af fasteignamati 21.560.000 kr. Áhvílandi á íbúðinni voru 22.683.545 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærendur eru eigendur bifreiðarinnar SI 538 sem metin er á 328.050 kr. Kærendur áttu einnig bankainnstæður, alls 2.187.209 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dagsettu 24. maí 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dagsettu 8. júní 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 15. júní 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum.

 

III. Sjónarmið kærenda

Kærendur kæra synjun Íbúðalánasjóðs um endurútreikning íbúðarlána vegna leiðréttingar lána í 110% leiðinni. Kærendur segja að samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði séu aðfararhæfar eignir þeirra, sem lækki niðurfærslu veðskulda í tilviki þeirra, 12 ára gömul bifreið í eigu kærenda og innstæða á innlánsreikningi þeirra.

Kærendur mótmæla því að veðrými sé til staðar á bankainnistæðunum. Benda kærendur á að þann 31. desember 2010 hafi skuld þeirra við Lánasjóð íslenskra námsmanna numið 9.015.471 kr. Telja kærendur augljóst að ef þau hefðu ekki tekið námslán hjá Lánasjóðnum á sínum tíma þá ættu þau engar innstæður á bankareikningi sínum, enda hafi þau lokið námi sínu annars vegar í febrúarmánuði 2008 og hins vegar í febrúarmánuði 2009 og hafi því ekki verið lengi á vinnumarkaði. Er það mat kærenda að bankainnstæða þeirra sé ekki hrein eign sem eigi að koma til lækkunar á niðurfærslu láns þeirra hjá Íbúðalánasjóði, heldur sé hún í reynd veðsett rúmlega fjórfalt hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Kærendur telja því að ekki sé hægt að líta framhjá skuld þeirra hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna þegar meta eigi aðfararhæfar eignir þeirra.

Kærendur gera því kröfu um að synjun Íbúðalánasjóðs á endurútreikningi láns þeirra verði dregin til baka.

 

IV. Sjónarmið kærða

Í ákvörðunarbréfi sínu dags. 6. apríl 2011 bendir Íbúðalánasjóður á að skilyrði fyrir endurútreikningi láns kærenda séu ekki uppfyllt að fullu, þar sem veðrými sé á öðrum aðfararhæfum eignum þeirra og því lækki niðurfærsla veðskulda sem því nemi. Með vísan til þess hafi umsókn kærenda verið hafnað.

Í bréfi sínu til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála dags. 8. júní 2011, kom fram að til grundvallar afgreiðslu Íbúðalánasjóðs á umsókn kærenda séu lög nr. 29/2011, um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum, sem og samkomulag lánveitenda á íbúðamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Verðmæti fasteignar þeirra reiknað til 110% verðmæti fasteignar, miðað við fasteignamat er 21.560.000, en áhvílandi íbúðarlán sé samtals 22.683.545 kr. Mismunurinn, reiknuð niðurfærsla veðkröfu, skerðist vegna aðfararhæfra eigna sem er bifreið og bankainnstæða samtals 2.515.259 kr. Niðurfærslu á veðkröfum samkvæmt fyrrgreindum reglum sé eingöngu ætlað að leiðrétta veðstöðu áhvílandi lána í þeim tilvikum sem falla þar undir, en sé ekki ætlað að létta heildarskuldabyrði kærenda að öðru leyti.

 

V. Niðurstaða

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Í máli þessu liggur fyrir að íbúðarlán kærenda er umfram 110% af fasteignamati íbúðar kærenda. Íbúðalánasjóður synjaði kærendum um endurútreikning íbúðarláns þeirra þar sem aðfararhæfar eignir með veðrými í eigu kærenda komu til lækkunar á niðurfærslu íbúðarláns þeirra.

Kærendur hafi farið fram á að mál þeirra verði endurskoðað, þar sem þau telja að bankainnstæða þeirra eigi ekki að koma til lækkunar á niðurfærslu íbúðarláns þeirra. Þá byggja þau á því að taka beri tillit til skuldar þeirra hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna til lækkunar á aðfararhæfum eignum samkvæmt fyrrgreindum reglum.

Í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum, á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðir og bankainnstæður. Ekki er um það deilt að innstæða á bankareikningi kærenda er hærri en sem nemur mismuni á áhvílandi veðláni og verðmati fasteignar miðað við 110% mat hennar.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á það með kærendum að undanskilja eigi bankainnstæðu frá aðfararhæfum eignum þeirra. Þá er til þess að líta að samkvæmt lögum nr. 29/2011 tekur heimild kærða einungis til niðurfærslu veðlána sem veitt hafa verið af Íbúðalánasjóði. Þá er beinlínis tekið fram í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 að við ákvörðun um niðurfærslu veðlána megi draga frá verðmæti annarra aðfararhæfra eigna umsækjenda, en þar er ekki vikið að öðrum skuldum umsækjenda, svo sem námslána og í tilviki kærenda.

Íbúðalánasjóði ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Samkvæmt gögnum málsins eru eignir lántaka samkvæmt framansögðu hærri en sem nemur mismuni á áhvílandi veðláni og verðmati fasteignarinnar miðað við 110% mat hennar. Þá er ekki að finna í fyrrgreindum reglum neinar undanþágur sem gætu átt við í þeim tilvikum þegar sérstaklega standi á hjá umsækjendum. Þá má ráða af lögskýringargögnum að beinlínis hafi verið ákveðið að víkja frá reglum um svokallað lágmarksveðrými eða lágmarksfjárhæð sem líta mætti fram hjá við ákvörðun um niðurfærslu lána. Af þessu leiðir að allar eignir umsækjenda koma til frádráttar við ákvörðun um niðurfærslu, svo fremi sem þær teljist aðfararhæfar í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum í 2. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Íbúðalánasjóðs til kærenda, dags. 6. apríl 2011, er tekið fram að ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé kæranleg og að kærendur hafi fjögurra vikna frest til þess að kæra. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, er kærufrestur nú þrír mánuðir eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.
 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð


Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um endurútreikning á lánum A og B, áhvílandi á íbúðinni að C, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum