Hoppa yfir valmynd
23. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2011

Miðvikudaginn 23. mars 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 3/2011:

A

gegn

félagsmálaráði Seltjarnarness

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :

 

Með bréfi A, dags. 26. janúar 2011, er kærð til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála sú ákvörðun félagsmálaráðs Seltjarnarness að synja kæranda um fjárhagsaðstoð fjóra mánuði aftur í tímann.

  

I. Málsmeðferð og helstu málavextir

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð þann 17. nóvember 2010. Umsókninni var synjað á fundi starfsmanna félagsþjónustu þann 24. nóvember 2010 og síðan einnig af félagsmálaráði Seltjarnarness þann 15. desember 2010. Í bréfi Seltjarnarnesbæjar, dags. 27. desember 2010, kemur fram að kærandi hafi í bréfi sínu, dags. 29. nóvember 2010, áfrýjað niðurstöðu fundar starfsmanna félagsþjónustu Seltjarnarnesbæjar til félagsmálaráðs þess efnis að synja umsókn hans um fjárhagsaðstoð fjóra mánuði aftur í tímann.

Kærandi lenti í bílslysi þann 28. janúar 2007 og hefur hann verið óvinnufær síðan þá, eins og fram kemur í læknisvottorði B, dags. 9. desember 2010. Þar kemur fram að vegna slyssins hafi kærandi verið dapur og framtakslítill og hafi það háð honum síðan. Það hafi hindrað hann í að sækja rétt sinn til sjúkratrygginga og félagsþjónustu. Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri í byrjun nóvember 2010. Svar hafi borist frá Sjúkratryggingum þar sem fram komi að erindið verði ekki tekið upp fyrr en nákvæm endurhæfingaráætlun lægi fyrir. Búið sé að sækja um endurhæfingu á Reykjalundi en óvíst hvenær kærandi komist að þar. Unnið verði áfram að því að gera endurhæfingaráætlun fyrir kæranda sem mundi nýtast áður en hann komist að á Reykjalundi.

Samkvæmt upplýsingum félagsmálaráðs Seltjarnarness fékk kærandi greidda fjárhagsaðstoð í sjö mánuði á árinu 2009, en þá hafi staðið til að hann færi í endurhæfingu. Kærandi hafi ekki látið í sér heyra aftur fyrr en hann lagði fram nýja umsókn um fjárhagsaðstoð í nóvember 2010.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi kveðst hafa verið óvinnufær eftir bílslys sem hann lenti í þann 28. janúar 2007. Samkvæmt niðurstöðu úr taugasálfræðilegri athugun, sem gerð hafi verið af C, sérfræðingi í klínískri taugasálfræði og fötlunum, þann 25. janúar 2008, sé andlegt og líkamlegt úthald hans verulega skert og eigi hann einnig erfitt með að tjá sig munnlega með eðlilegum hætti.

Kærandi kveðst, vegna andlegs og líkamlegs ástands síns, hafa lagst í þunglyndi og verið með vott af félagsfælni og ekki komið neinu í verk vegna þess ástands. Hann kveðst vera svo lánsamur að eiga góða að, hann hafi búið heima hjá móður sinni og hafi hún stutt hann mikið fjárhagslega. Kærandi kveðst fara reglulega í kostnaðarsamar sprautur vegna verkja og hann hafi gengið til sjúkraþjálfara og heimilislæknis. Þetta kosti allt mikla peninga auk kostnaðar vegna lyfjakaupa, sem sé umtalsverður.

 

III. Málsástæður félagsmálaráðs Seltjarnarness

Af hálfu félagsmálaráðs Seltjarnarnesbæjar kemur fram að kærandi hafi fengið fjárhagsaðstoð í sjö mánuði árið 2009, fyrir tímabilið 1. júní til 31. desember 2009. Til hafi staðið að hann færi í endurhæfingu með aðstoð heimilislæknis síns og hafi félagsráðgjafi hjá félagsþjónustu Seltjarnarness veitt honum ráðgjöf um endurhæfingu, sem hefði jafnframt veitt kæranda rétt til lífeyrisgreiðslna. Hafi ráðgjafinn talið að hann hefði leitað þangað þar sem ekkert hefði heyrst frá kæranda í tæpt ár, allt þar til hann lagði fram nýja umsókn um fjárhagsaðstoð í nóvember 2010. Þá hafi verið talið ljóst að kærandi hafi vitað hvert hann ætti að leita eftir aðstoð, og að hann hefði ekki sinnt því að sækja sér endurhæfingu og þá um leið þann lífeyrisrétt sem skapist hjá Tryggingastofnun ríkisins samhliða því. Umsókn um fjárhagsaðstoð sem hann hafi lagt fram hjá Seltjarnarnesbæ í nóvember 2010 hafi hins vegar verið samþykkt frá þeim tíma, allt þar til endurhæfing hefjist og sé það unnið í góðu samráði kæranda og ráðgjafa hans hjá sveitarfélaginu.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Seltjarnarnesbæ sem tóku gildi 22. október 2003.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort félagsmálaráði Seltjarnarness beri að greiða kæranda fjárhagsaðstoð fjóra mánuði aftur í tímann frá því að hann lagði fram umsókn sína um fjárhagsaðstoð þann 17. nóvember 2010.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga,
nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 3. mgr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að aldrei er skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Í 3. mgr. 5. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Seltjarnarnesbæ er samhljóða ákvæði auk þess sem þar er einnig gert að skilyrði að rökstuddar ástæður verði að réttlæta aðstoð aftur í tímann og verði skilyrðum fjárhagsaðstoðar að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um.

Í máli þessu háttar svo til að kærandi þáði greiðslur hjá Seltjarnarnesbæ í kjölfar slyss sem hann varð fyrir. Þar var honum ráðlagt um rétt sinn til þess að sækja sér endurhæfingu og þá um leið lífeyrisrétt sem skapist hjá Tryggingastofnun ríkisins samhliða endurhæfingu. Stóðu starfsmenn Seltjarnarnesbæjar í þeirri trú að kærandi hefði fylgt þeim leiðbeiningum, þar sem kærandi hafði í kjölfar þess ekki samband fyrr en að liðnu ári. Þá varð ljóst að hann hafði ekki sótt um endurhæfingu þrátt fyrir ráðleggingar um annað.

Þegar framangreint er metið, verður ekki talið að mat Seltjarnarnesbæjar um að ekki séu til staðar rökstuddar ástæður sem réttlæti aðstoð aftur í tímann sé ómálefnalegt.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun félagsmálaráðs Seltjarnarness frá 15. desember 2010, þess efnis að synja A um fjárhagsaðstoð aftur í tímann, er staðfest.

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

  

Margrét Gunnlaugsdóttir                                    Gunnar Eydal

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum