Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 1991 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/1991

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 4/1991:

A
gegn
Fræðsluskrifstofu Suðurlands

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 20. nóvember 1991 var samþykkt svofelld niðurstaða í máli þessu:

 

Með bréfi, dags. 4. september 1991, óskaði A, kennari, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði hvort ráðning kennara við Njálsbúðarskóla, Vestur-Landeyjum, Rangárvallasýslu bryti í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

MÁLAVEXTIR

Aðdragandi þessa máls er sem hér segir:

A, kennari og kærandi þessa máls hefur undanfarin þrjú ár verið settur í stöðu kennara við Njálsbúðarskóla, Vestur-Landeyjum. Vorið 1991 var staðan auglýst og voru umsækjendur tveir, A og B. Á fundi skólanefndar V-Landeyjarhrepps þann 31. júlí 1991 var samþykkt með tveimur atkvæðum að ráða konuna til starfans. Einn nefndarmaður sat hjá. Jafnframt lá fyrir að þáverandi skólastjóri Njálsbúðarskóla mælti með ráðningu hennar. Ráðningin hlaut síðan staðfestingu fræðslustjóra Suðurlands.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftir upplýsingum frá fræðslustjóra Suðurlands um menntun og starfsreynslu þessara tveggja umsækjenda, ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var umfram kæranda. Í svarbréfi fræðslustjóra, dags. 27. september 1991, kemur fram að bæði hafa lokið kennaraprófi, hann frá Kennaraskóla Íslands en hún frá Kennaraháskóla Íslands. Kennsluferill þeirra er nokkuð áþekkur, hann hefur starfað sem grunnskólakennari frá árinu 1988 en hún frá árinu 1989.

Í bréfi fræðslustjóra segir orðrétt: „Í samræmi við venjur afgreiddi undirritaður ráðningu kennarans skv. áliti skólanefndar og starfandi skólastjóra.

Fyrir þessum afgreiðslumáta er gömul og góð hefð, að ganga ekki á samhljóða álit heimamanna ef öllum fyrirmælum laga um starfsréttindi er fullnægt. Það er nokkuð víst að þegar settum kennara er neitað um endursetningu þá er yfirleitt um alvarlega samstarfsörðugleika að ræða eða eitthvað annað í starfi viðkomandi, sem skólanefnd og skólastjóri telja sig ekki geta unað við. Mér er kunnugt um að undanfarin tvö ár hefur verið mikil óánægja ríkjandi í skólanum milli A og skólastjóra, auk þess sem meirihluti skólanefndarinnar treysti sér alls ekki til þess að halda samstarfinu við A áfram.“

Með bréfi fræðslustjóra fylgdi afrit af fundargerð frá fundi sem haldinn var að hans tilstuðlan þann 16. ágúst 1991 með fulltrúum í skólanefnd Njálsbúðarskóla, skólastjóra skólans og stjórn foreldrafélagsins. Tilefni fundarins var að ræða ráðningu kennara við Njálsbúðarskóla og þann ágreining sem uppi var um endursetningu A í þá stöðu.

Kærunefnd jafnréttismála ákvað að gefa kæranda kost á að tjá sig um svarbréf fræðslustjóra. Í bréfi A, dags. 17. október 1991, er ábendingum fræðslustjóra um samstarfsörðugleika alfarið hafnað og þar m.a. fullyrt að um sé að ræða pólitískar ofsóknir tiltekinna manna í hreppnum.

NIÐURSTAÐA

Kærunefnd jafnréttismála er sammála um eftirfarandi niðurstöðu:

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Í lögunum eru því lagðar ýmsar skyldur á atvinnurekendur svo að tilgangi þeirra verði náð, sbr. 5. og 6. gr. laganna.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að túlka beri lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þannig að atvinnurekanda beri að ráða þann umsækjandann sem er af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein, svo fremi um sé að ræða hæfari eða jafn hæfan umsækjanda. Að öðrum kosti verði tilgangi laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla ekki náð, sbr. 1. og 5. gr. laga nr. 28/1991.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar eru umsækjendur tveir af gagnstæðu kyni. Ljóst er að karlar eru mun færri í störfum grunnskólakennara og við Njálsbúðarskóla eru allir aðrir fastir starfsmenn konur. Menntun umsækjenda og starfsreynsla eru sambærileg. Því hefði að öðru jöfnu borið að ráða karlinn. Hins vegar liggja fyrir þær upplýsingar að vegna samstarfsörðugleika milli stjórnenda skólans og stjórnar foreldrafélagsins annars vegar og A hins vegar hafi fræðslustjóri umdæmisins talið nauðsynlegt að halda sérstakan fund með aðilum. Í bréfi A, dags. 17. október 1991, eru upplýsingar fræðslustjóra um ágreining aðila í reynd staðfestar.

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd jafnréttismála að atvinnurekandi, þ.e. fræðslustjóri Suðurlands, hafi sýnt fram á svo viðunandi sé að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans um að ráða B til starfans, sbr. lokamgr. 6. gr. laganna. Ákvörðunin brýtur því að mati kærunefndar jafnréttismála ekki í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Sigurður Helgi Guðjónsson
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum