Hoppa yfir valmynd
23. október 1991 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/1991

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 1/1991:

A
gegn
Orkustofnun

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 23. október 1991 var samþykkt svofelld niðurstaða í máli þessu:

 

Með bréfi dags. 6. desember 1990 óskaði A, jarðfræðingur, eftir því við Jafnréttisráð að það kannaði hvort tímabundin „setning“ í stöðu yfirverkefnisstjóra Jarðhitadeildar Orkustofnunar bryti í bága við ákvæði laga nr. 65 frá 1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Eftir að erindi þetta barst Jafnréttisráði, voru sett ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög nr. 28/1991. Samkvæmt þeim lögum skal sérstök nefnd, kærunefnd jafnréttismála, fjalla um meint brot á lögunum. Jafnréttisráð vísaði því málinu til kærunefndar jafnréttismála. Þar sem ákvörðun sú sem deilt er um í máli þessu, var tekin í gildistíð laga nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, byggir efnisleg niðurstaða kærunefndar á ákvæðum þeirra laga.

MÁLAVEXTIR

Aðdragandi þessa máls er sem hér segir:

Yfirverkefnisstjóri Jarðhitadeildar Orkustofnunar, en það er sá starfsmaður sem gengur næst forstjóra deildarinnar, sótti um og fékk samþykkt launalaust leyfi frá störfum tvö ár. Leyfið hófst þann 1. desember 1990. Af hálfu kæranda þessa máls, A, er því haldið fram að bæði forstjóri deildarinnar og yfirverkefnisstjóri hafi munnlega gengið frá því við hana að hún leysti yfirverkefnisstjórann af í leyfi hans. Það fyrirkomulag sé jafnframt í samræmi við framkvæmd mála undanfarin tvö ár. Jafnframt bendir kærandi á að þegar fyrir lá að yfirverkefnisstjórinn færi í launalaust leyfi, hafi hún verið skipuð varamaður hans í ýmsar nefndir fyrir stofnunina og strax um haustið tekið að sér störf sem talist hafa á verksviði yfirverkefnisstjóra, s.s. vinnu við verkefnaáætlun næsta árs og frágang fjárhagsáætlunar.

Fyrir nefndinni liggur afrit af orðsendingu, dagsettri 17. september 1990, undirritaðri af B, yfirverkefnisstjóra en þá starfandi forstjóra deildarinnar í fjarveru forstjóra, þar sem ýmsum aðilum svo sem forstjóra Orkustofnunar, forstjóra Jarðhitadeildar, starfsmannastjóra stofnunarinnar og fleirum er tilkynnt að hann muni verða í orlofi tímabilið 24. til 28. september og aftur 1. októbertil 30. nóvember 1990 að undanskildum fáeinum dögum. Frá og með 1. desember 1990 verði hann í launalausu leyfi í tvö ár. Tilkynnt er að staðgengill verði A, kærandi þessa máls. Í samræmi við þessa orðsendingu tók A við starfi yfirverkefnisstjóra Jarðhitadeildar Orkustofnunar þann 24. september 1990.

Fyrir nefndinni liggur einnig afrit af minnisblaði frá forstjóra deildarinnar til formanns stjórnar Orkustofnunar þar sem segir að hann hafi ekki séð umrædda orðsendingu fyrr en þann 4. október sl. og þá strax tilkynnt A að staðgengilsstarfið tæki einungis til þess tímabils sem B yrði í orlofi en ekki til þeirra tveggja ára sem hann yrði í launalausu leyfi, þ.e. frá 1. desember 1990. Þar sem þá hafi komið fram að A hafi skilið orðsendinguna frá 17. september þannig að verið væri að setja hana í starf yfirverkefnisstjóra allt tímabilið, bendir forstjóri deildarinnar í minnisblaði sínu á að það sé ekki í verkahring yfirverkefnisstjóra að setja staðgengil í sinn stað. Jafnframt er því mótmælt að frá því hafi verið gengið munnlega við A að hún gegndi starfi B í leyfi hans. Slíkt geti hafa borið á góma en engin ákvörðun þar um hafi verið tekin.

Eftir að deilur um það hvort A væri sett í stöðu yfirverkefnisstjóra Jarðhitadeildar til ríflega tveggja ára hófust, óskaði C, forstjóri Jarðhitadeildar eftir því við hana að hún gegndi starfi yfirverkefnisstjóra til áramóta eða einn mánuð af launalausu leyfi B. Síðar ákvað orkumálastjóri að hún léti af starfinu þann 1. desember, þegar tímabil launalausa leyfisins hæfist en að hún héldi þeim launum sem starfinu fylgir fram til áramóta. Með orðsendingu dags. 6. desember 1990 frá C, forstjóra Jarðhitadeildar er D síðan falið að sinna tilgreindum störfum sem yfirverkefnisstjóri gegndi. Tekið er fram að ekki sé verið að setja hann í stöðu yfirverkefnisstjóra heldur einungis verið að fela honum hluta af þeim störfum sem yfirverkefnisstjóri gegni að öðru jöfnu. Jafnframt er honum tilkynnt að létt verði af honum nokkrum af þeim störfum sem hann hafi gegnt fram til þessa. Þannig er fallið frá því, a.m.k. fyrst um sinn að setja í starf B, yfirverkefnisstjóra.

Erindi A til Jafnréttisráðs, dags. 6. desember 1990, er tvíþætt. Í fyrsta lagi beiðni um að Jafnréttisráð kanni hvort gengið hafi verið fram hjá henni vegna kynferðis og þar með brotin ákvæði laga nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun um hverjum skuli falið starf yfirverkefnisstjóra Jarðhitadeildar. Í öðru lagi heldur A því fram að hún hafi verið sett í stöðu yfirverkefnisstjóra Jarðhitadeildar af þar til bærum aðila, B, þá starfandi forstjóra Jarðhitadeildar í fjarveru forstjóra. Óskað er álits á því hvort afturköllun þeirrar setningar varði víð ákvæði laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Það er mat kærunefndar jafnréttismála að einungis sá þáttur erindisins sem snýr að því hvort brotin hafi verið ákvæði laga nr. 65/1985 heyri undir nefndina. Þessi ákvörðun var tilkynnt kæranda, A.

Með bréfi, dags. 10. janúar 1991, var óskað eftir upplýsingum frá Orkustofnun um menntun og starfsreynslu A og D, ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika D umfram A.

Starfsmannastjóri Orkustofnunar hafnaði því að veita umbeðnar upplýsingar. Beiðnin var ítrekuð tvisvar sinnum, án árangurs. Erindinu var þá beint til orkumálastjóra og síðar formanns stjórnar Orkustofnunar. Engin viðbrögð urðu heldur við þeirri málaleitan.

Það var ekki fyrr en leitað var atbeina E, iðnaðarráðherra sem svar barst frá orkumálastjóra. Með bréfi dags. 5. júlí voru loks sendar upplýsingar um menntun og starfsreynslu þess starfsmanns sem falið var að sinna verkefnum yfirverkefnisstjóra. Engar upplýsingar fengust um menntun A og var því þeirra upplýsinga aflað frá kæranda sjálfum. Engar upplýsingar hafa borist um sérstaka hæfileika D.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er menntun og starfsreynsla þeirra sem hér segir:

A stundaði nám við Raunvísindadeild Háskólans í Osló og lauk þaðan cand. mag. prófi vorið 1967 með jarðfræði, efnafræði og eðlisfræði sem aðalgreinar. Vorið 1970 lauk hún cand. real. prófi í jarðfræði frá sama skóla en það var þá æðsta gráða sem hægt var að taka í þessum fræðum frá skólanum fyrir utan doktorsgráðu. Hún hóf störf á Jarðhitadeild Orkustofnunar árið 1970 sem sérfræðingur. Frá árinu 1989 hefur hún verið fagsviðsstjóri jarðefnafræðisviðs Jarðhitadeildar en var áður fagdeildarstjóri jarðefnafræðideildar. A hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands og gistikennari eitt ár við háskólann í Bristol á Englandi. Síðast liðin tvö ár hefur A leyst af yfirverkefnisstjóra Jarðhitadeildar í leyfum hans og annarri fjarveru.

D lauk BS prófi í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 1976 og cand. real. prófi frá Háskólanum í Bergen árið 1979. Dr. scient. gráðu lauk hann frá sama háskóla árið 1985. Árið 1987 fékk D viðurkenningu iðnaðarráðherra til verkfræðigráðu. Hann hóf störf á Orkustofnun árið 1976 og starfaði þar samhliða námi fram til 1979. Tímabilið 1979 til 1985 var hann fastráðinn sérfræðingur við Jarðhitadeild Orkustofnunar og hefur verið fagsviðsstjóri jarðeðlisfræðisviðs frá 1985. D hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands frá 1981.

NIÐURSTAÐA

Kærunefnd jafnréttismála er sammála um eftirfarandi niðurstöðu:

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er tilgangur þeirra laga að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum.

Í lögunum eru því lagðar ýmsar skyldur á atvinnurekendur svo að tilgangi þeirra verði náð.

Skyldur þessar birtast m.a. í 5. gr. sem kveður svo á að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir vinnu, ráðningu, setningu eða skipun í starf og stöðuhækkun og stöðubreytingar.

Samkvæmt 9. gr. sömu laga skulu atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- eða karlastörf.

7. gr. laganna kveður svo á að hafi kona sótt um auglýst starf en það verið veitt karlmanni, skuli kærunefnd jafnréttismála, sé þess óskað, fara fram á það við hlutaðeigandi atvinnurekanda að hann veiti nefndinni skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika umfram konuna sá hefur til að bera er ráðinn var í starfið. Hið sama gildir hafi karlmaður sótt um starf en það verið veitt konu.

Í kæru A er ákvörðun sú sem var tilefni kærunnar nefnd „setning í stöðu yfirverkefnisstjóra Jarðhitadeildar Orkustofnunar“. Við meðferð málsins hefur það hins vegar komið í ljós að ekki var um setningu eða ráðningu að ræða heldur tímabundna tilfærslu á verkefnum vegna tveggja ára launalauss leyfis þess starfsmanns sem stöðunni gegnir.

Af hálfu kæranda þessa máls er því jafnframt haldið fram að D hafi verið falið að sinna þorra þeirra verkefna sem tilheyra starfi yfirverkefnisstjóra. Kærða var gefinn frestur til 3. október 1991 til þess að hrekja þessa fullyrðingu kæranda, en hefur ekki sinnt um það. Verður því að leggja til grundvallar fullyrðingu kæranda að þessu leyti.

Það er mat kærunefndar jafnréttismála að sú ákvörðun forstjóra Jarðhitadeildar Orkustofnunar að fela tilteknum starfsmanni þorra verkefna yfirverkefnisstjóra í leyfi hans, megi jafna við stöðubreytingu og falli ákvörðunin undir ákvæði 5. gr. laga nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að öðrum skilyrðum uppfylltum, enda er 1. mgr. 5. gr. þannig orðuð að töluliðir 1 til 6 hafa ekki að geyma tæmandi talningu á þeim tilvikum sem falið geta í sér mismunun. Í því sambandi þykir einnig rétt að benda á að um er að ræða starfssvið sem felur í sér meiri ábyrgð en það er kærandi gegnir og er hærra metið til launa.

Þar sem um var að ræða tilfærslu á verkefnum vegna leyfis starfsmanns, var engin staða auglýst laus til umsóknar, sbr. til hliðsjónar 7. gr. I. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærunefnd jafnréttismála telur þó að við mat á því hvort ákvæði 5. gr. laganna hafi verið brotin, beri að hafa hliðsjón af þeim efnisþáttum sem þar eru nefndir, þ.e. menntun og starfsreynslu kæranda og þess sem falið var að sinna verkefnunum, svo og öðrum sérstökum hæfileikum þess starfsmanns.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja um menntun og starfsreynslu þessara tveggja starfsmanna Orkustofnunar, verður ekki séð að D sé hæfari en A til að sinna umræddum verkefnum. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli hefur Orkustofnun ekki fært nein rök fyrir ákvörðun sinni.

Kærunefnd hefur aflað sér upplýsinga um hlutfall kynja í yfirmannastöðum hjá kærða en samkvæmt þeim eru karlar þar í miklum meirihluta. Kærunefnd lítur svo á að túlka beri lög nr. 65 frá 1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þannig, að atvinnurekanda beri að ráða þann umsækjandann sem er af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein, í þeim tilvikum þar sem báðir umsækjendur teljist jafn hæfir til að gegna umræddu starfi. Að öðrum kosti verði tilgangi laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla ekki náð, sbr. 1., 5. og 9. gr. laga nr. 65/1985.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, telur kærunefnd jafnréttismála að sú ákvörðun yfirmanna Orkustofnunar að fela D þorra þeirra verkefna sem yfirverkefnisstjóri Jarðhitadeildar Orkustofnunar gegndi, brjóti í bága við ákvæði 5. gr. l. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 1. og 9. gr. sömu laga, þótt um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.

Þeim tilmælum er því beint til orkumálastjóra að A verði nú þegar falin störf yfirverkefnisstjórans í leyfi hans eða að Orkustofnun finni aðra lausn á málinu sem kærandi getur fellt sig við, sbr. 16 gr. l. 65/1985, nú 20. gr. 1. 28/1991.


Sigurður Helgi Guðjónsson
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum