Hoppa yfir valmynd
14. maí 1993 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 19/1992

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 19/1992

A
gegn
Goða h.f.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 14. maí 1993 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 17, desember 1992 óskaði A, skrifstofumaður, eftir því, að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess:

  1. hvort þær skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu Goða h.f. sem leiddu til að yfir hana var settur verkstjóri, brytu gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla,
  2. hvort þær breytingar sem samtímis urðu á vinnuaðstæðum hennar brytu gegn ákvæðum sömu laga.

Kærunefnd jafnréttismála aflaði skriflegra upplýsinga frá B, framkvæmdastjóra Goða hf. Á fund nefndarinnar komu kærandi málsins, A og B og gerðu nánar grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Þá voru vinnuaðstæður hjá fyrirtækinu skoðaðar.

Máli sínu til stuðnings bendir A á að fram til 1. október 1992 hafi starfssvið hennar heyrt beint undir sölustjóra fyrirtækisins. Breytingin feli í sér að yfir hana hafi verið settur verkstjóri sem síðan heyri undir sölustjóra. Ekki hafi verið um nýráðningu að ræða heldur hafi starfssviði verkstjórans verið breytt og hafi hann nú umsjón með allri reikningagerð til viðbótar því að stýra afgreiðslu og dreifingu hjá fyrirtækinu. Þannig hafi verið búinn til nýr stjórnunarliður innan fyrirtækisins án allra skýringa og sjáanlegra ástæðna að hennar mati. Hún hafi fram að þeim tíma sinnt sinu starfi án beinna afskipta verkstjóra eða annars yfirmanns. Þá segir A að verkstjórinn gangi ítrekað inn í störf sín og sýni sér því vítavert virðingarleysi.

A kveður vinnuaðstæður sínar hafa á sama tíma versnað til muna. Hún vinni í gluggalausu herbergi og þær breytingar hafi verið gerðar að hurð sem vísi fram á gang sé nú læst en þess í stað hafi verið opnað inn í vinnslusal en þar sé mikil hráalykt. Þessi breyting feli jafnframt í sér að opið sé á milli hennar skrifstofu og skrifstofu verkstjóra. Með því að loka hurð fram á gang í átt að söludeild og aðalinngangi sé komið í veg fyrir að hægt sé að opna út og fá inn ferskt loft. Engar haldbærar skýringar hafi verið gefnar á þessum breytingum og hún geti því ekki fallist á þær. A segist gera sér grein fyrir því að vissulega séu mikilvæg gögn á skrifstofu hennar en það beri vott um vanvirðu í hennar garð að treysta henni ekki til að gæta þeirra. Hún hafi ætíð læst umræddri hurð þegar hún hafi þurft að bregða sér frá.

Í máli B, framkvæmdastjóra Goða h.f. kom fram að umræddar skipulagsbreytingar hafi einungis verið lítið brot af mun viðameiri breytingum. Fyrirtækið hafi þurft að hagræða og endurskipuleggja starfsemi sína. Þannig hafi þrjátíu starfsmönnum nýlega verið sagt upp störfum og mannafli sé hafður í algjöru lágmarki. í máli framkvæmdastjórans kom fram að umræddur verkstjóri væri dreifingarstjóri fyrirtækisins. Starfssvið dreifingarstjóra væri vöruafgreiðsla og dreifing. Reikningshald væri síðasti hlekkur þess ferils og stefnt væri að því að leggja niður sem sérstakt starf umsjón með reikningshaldi. Í framtíðinni mundi sá starfsmaður sem afgreiddi vörur jafnframt sjá um reikningshald og stemma nákvæmlega af reikninga í samræmi við þyngd afgreiddrar vöru. Við þessa þróun væri kærandi málsins ósáttur. Í máli framkvæmdastjórans kom jafnframt fram að í hans huga snérist þetta mál um skipulagsbreytingar og aga á vinnustað en ekki um mismunun vegna kynferðis. A hefði ætíð verið mótfallin breytingum á starfi sínu og starfssviði.

Framkvæmdastjórinn sagði að vinnuaðstæður kæranda væru mun betri en yfirmanns hennar, dreifingarstjórans. Á skrifstofu hennar væri að vísu ekki opnanlegur gluggi en þar væri loftræsting og skrifstofa dreifingarstjórans aðskildi hana frá vinnslusal. Framkvæmdastjórinn upplýsti að nauðsynlegt hefði verið að loka fram á ganginn því mikill umgangur væri inn í fyrirtækið, bæði inn í söludeild sem væri gegnt skrifstofu kæranda en einnig væri fólki gjarnt á að stytta sér leið inn í vinnslusalinn gegnum skrifstofur kæranda og dreifingarstjórans. Það væri óviðunandi þar sem öll vinnsla með matvæli krefðist mikils þrifnaðar. Aðgangur óviðkomandi fólks inn í vinnslusal væri með öllu óheimill vegna öryggis- og hreinlætissjónarmiða.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt lögum nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er hlutverk kærunefndar jafnréttismála að fjalla um meint brot á lögunum. Þau ákvæði er einkum snúa að nefndinni fjalla um tilvik þegar starfsmaður eða starfsmenn telja sig verða fyrir mismunun af hendi atvinnurekanda á grundvelli kynferðis síns, t.d. varðandi ráðningar í störf, launakjör, stöðubreytingar innan fyrirtækis og vinnuaðstæður, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna.

Mál þetta snýst um tvennt. Í fyrsta lagi hvort tilteknar skipulagsbreytingar er leiddu til breytinga á starfssviði dreifingarstjóra Goða h.f. brjóti gegn ákvæði 3. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991. Í öðru lagi hvort þær breytingar sem samtímis urðu á vinnuaðstæðum kæranda brjóti gegn 5. tl. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um að umræddar breytingar á starfssviði feli í sér að þeim starfsmanni, sem hefur umsjón með afgreiðslu og dreifingu á vörum fyrirtækisins, hafi jafnframt verið falin umsjón með gerð reikninga. Kærunefnd jafnréttismála fellst á það sjónarmið atvinnurekanda að hér sé um að ræða nátengd verk og því ekki óeðlilegt að þeim sé öllum stýrt af sama yfirmanni. Jafnframt fellst nefndin á að hér hafi verið um minniháttar breytingu innan fyrirtækisins að ræða sem ekki hafi verið óeðlilegt að væri framkvæmd án auglýsingar og án þess að öðrum starfsmönnum væri gefinn kostur á að sækja um starfið. Kærunefnd jafnréttismála telur því að umrædd breyting á starfssviði verkstjóra brjóti ekki gegn ákvæði 3. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd jafnréttismála kynnti sér vinnuaðstæður kæranda. Það er mat nefndarinnar að fallast beri á þau rök atvinnurekanda að nauðsynlegt hafi verið af hreinlætis- og öryggissjónarmiðum að loka á milli skrifstofu kæranda annars vegar og aðalinngangs og söludeildar hins vegar. Þrátt fyrir þessar breytingar eru vinnuaðstæður dreifingarstjórans síst betri en kæranda og verður því ekki að mati kærunefndar jafnréttismála talið að þær brjóti gegn ákvæði 5. tl. 1. mgr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála er að sú breyting sem varð á starfssviði dreifingarstjóra Goða h.f. og þær breytingar sem samtímis urðu á vinnuaðstæðum A verða hvað hana varðar ekki taldar brjóta gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum