Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 1993 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 13/1992

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 13/1992:

A
gegn
Ríkisútvarpi/Sjónvarpi (RÚV)

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 5. febr. 1993 var samþykkt eftirfarandi niðurstaða í máli þessu:

I

Með bréfi dags. 2. september 1992 óskaði X hdl., f.h. A eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til kæru á hendur Ríkisútvarpi-Sjónvarpi (RÚV) á grundvelli 2. mgr. 19. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, vegna meints brots á ákvæðum ofangreindra laga. Rétt þykir að taka kröfugerð lögmannsins orðrétt upp:

  1. Kært er fyrir brot á 4. tl. 6. gr. laganna vegna ólögmætrar og ósanngjarnrar uppsagnar úr starfi, sbr. bréf B, framkvæmdastjóra Sjónvarps, dags. 26.09.91 til A.

  2. Kært er fyrir brot á 5. tl. 6. gr. laganna þar sem forsvarsmenn stofnunarinnar hafi mismunað starfsmönnum sínum varðandi vinnuaðstæður og vinnuskilyrði, jafnframt því að láta viðgangast að yfirmaður hefði í hótunum við undirmann sinn vegna persónulegra málefna. Forsvarsmenn stofnunarinnar hafi ekki sinnt þeirri skyldu vinnuveitenda að búa starfsfólki sínu viðunandi félagslegt umhverfi á vinnustað.

  3. Með vísan til heimildar í 22. gr. sömu laga er krafist sanngjarnra skaðabóta að mati kærunefndar fyrir fjártjón sem kærandi verður fyrirsjáanlega fyrir vegna athafnaleysis kærða. Ennfremur er krafist fégjalds fyrir hneisu, óþægindi og röskun á stöðu og högum kæranda vegna athafna kærða.

B var sent afrit bréfsins, en því var svarað af lögmanni RÚV, C hdl. með bréfi dags. 15. október 1992. Báðir aðilar skiluðu skriflegum gögnum og til viðtals við kærunefnd jafnréttismála komu kærandi ásamt lögmanni sínum, D, starfsmannastjóri RÚV og E, aðstoðardagskrárstjóri.

Í kærunefndinni sátu eftirtaldir lögfræðingar: Ragnhildur Benediktsdóttir, formaður, Sigurður Helgi Guðjónsson og Þorsteinn Eggertsson, en hann tók sæti Margrétar Heinreksdóttur sem vék sæti í máli þessu.

II

A hóf störf sem aðstoðardagskrárgerðarmaður í innlendri dagskrárdeild (IDD) hjá RÚV í árslok 1985. Haustið 1986 hefst að hennar sögn náið samband hennar og samstarfsmanns hennar og lauk því um mitt ár 1988. Sumarið 1989 endurnýja þau kynni sín, en aðeins um skamman tíma. Eftir að sambandi þeirra lýkur virðist hafa upphafist mikið ósætti og stöðugt áreiti milli þeirra á vinnustaðnum sem utan hans, að sumrinu 1989 undanskildu,

Í lok mars 1991 kvartar hún yfir framkomu samstarfsmannsins við F, dagskrárstjóra IDD. Eftir að hann hafði kynnt sér málavöxtu og haft samband við heimilislækni hennar verður úr, að A fer í veikindaleyfi í sex vikur, frá 9. apríl til 21. maí Að því loknu kemur hún aftur til starfa, en þá mun hafa verið lítið um verkefni við hennar hæfi. Hún beðin um að taka að sér ritarastörf, en þar sem hún hafði ráðgert að taka sumarleyfi á sama tíma verður ekkert úr því. Þá er henni boðið starf skriftu við barnaefni sem hún álítur ekki við sitt hæfi, þar sem um byrjendaverkefni sé að ræða.

Um sumarið fer A í sumarfrí og kemur ekki aftur til vinnu þ. 19. ágúst eins og ráðgert hafði verið. Þann 2. september sendir hún bréf til F þar sem hún vitnar í samtal þeirra og fer fram á, að hún verði undanþegin allri vinnuskyldu til áramóta á launum og að hún fái launalaust leyfi árið 1992, þar sem hún hyggi á framhaldsnám í tengslum við störf sín hjá RÚV. Í bréfinu er einnig farið fram á að þeim möguleika verði haldið opnum að leyfið nái til ársins 1993. Þann 19. september ritar hún bréf til B, en honum hafði verið sent afrit ofangreinds bréfs. Í því fer hún fram á að hún fái annað sambærilegt starf til áramóta. Ennfremur er ítrekuð ósk um launalaust leyfi árið 1992. Kærandi tekur fram að ástæða þess að hún riti þetta bréf sé að henni hafi ekki borist svar við bréfinu frá 2. september.

Þann 26. september svarar B bréfi A frá 2. september. Þar segir að A hafi ekki mætt til vinnu á tilskildum tíma og að skýring hafi ekki borist fyrr en í ofangreindu bréfi. Einnig að A hafi látið þá skoðun í ljós við starfsmannastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra Sjónvarpsins að persónulegar ástæður valdi henni óöryggi á vinnustaðnum. Hann kveður þær ástæður stofnuninni óviðkomandi, og þar sem ljóst virðist að hún muni ekki sinna störfum sínum hjá RÚV er henni sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara frá og með 1. okt. 1991 og var vinnuskyldu ekki krafist á uppsagnartímanum.

Í bréfi A dags. 30. september til B staðhæfir hún að F og annar starfsmaður hafi vitað af veikindum hennar og því hafi ekki verið um ólögmætar fjarvistir að ræða í bréfinu er rakið samtal kæranda við F, en þar hafi komið fram sú skoðun hans, að starfsreynsla hennar nýttist stofnuninni í minna mæli en starfsreynsla samstarfsmannsins og að ómögulegt sé að hafa þau bæði á sama vinnustað.

Fram kemur í gögnum málsins að fyrri hluta árs 1992 voru gerðar ítrekaðar tilraunir til að finna lausn á málinu. Samningaumleitanir þessar báru ekki árangur, en í júní barst kæranda loks meðmælabréf frá vinnuveitanda sínum, en hún hafði farið fram á slíkt bréf í október 1991.

Frá því að A hvarf frá störfum hjá RÚV hefur henni ekki tekist að finna starf við hæfi, en hún hyggur á framhaldsnám erlendis á þessu ári.

III

Tilgangur laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er orðaður í 1. gr. laganna en þar segir, að hann sé sá að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum og skuli sérstaklega bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

Í 3. gr., sbr. 6. gr. laganna segir, að hvers kyns mismunun eftir kynferði sé óheimil. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan stofnana sinna Framangreind ákvæði verður að leggja til grundvallar við beitingu laganna og við túlkun á öðrum ákvæðum þeirra. Eitt mikilvægasta og áhrifaríkasta úrræðið, sem lögin hafa að geyma til að ná framangreindum markmiðum er að finna í 2. mgr. 6. gr. laganna, en þar er mælt svo fyrir að atvinnurekandi skuli sýna kærunefnd fram á, að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðunar hans um t.d. uppsögn úr starfi, sbr. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. og vinnuaðstæður og vinnuskilyrði, sbr. 5. tl. sömu greinar.

Samkvæmt því eru jafnan löglíkur fyrir því að ákvörðun atvinnurekanda byggist á kynjamismunun og verður hann að hnekkja þessum löglíkum eða teljast brotlegur ella. Hann ber hallann af því ef honum lánast ekki slík sönnun með þeim sönnunargögnum og þeirri sönnunarfærslu, sem fær er fyrir kærunefndinni. Því hljóta starfsaðferðir og úrlausnir kærunefndar að draga mjög dám af þessari sönnunarreglu.

Það liggur ekki fyrir í máli þessu svo óyggjandi geti talist, hvers eðlis samband A og samstarfsmannsins var, hvort það var ástarsamband eða annars konar samband, enda skiptir það ekki máli við úrlausn málsins, Hitt er ljóst að samskipti þeirra og ósætti og framkoma hvort við annað var orðin svo slæm og með endemum að skapast hafði óþolandi ástand á vinnustaðnum, sem leiddi til uppsagnar A. Um ástæður og sök í því efni verður ekki skorið úr hér til hlítar, en af gögnum málsins má ráða að þau hafi bæði átt sök á ástandinu, og því kemur ekki til álita að um kynferðislega áreitni á vinnustað hafi verði að ræða.

Eins og að framan er rakið og fram kemur í gögnum málsins reyndu forsvarsmenn RÚV ýmislegt til að lægja öldurnar og koma á friði með A og samstarfsmanninum, enda bar þeim skylda til þess að fínna viðunandi lausn á málinu, án þess að á annað kynið væri hallað. Það er aftur á móti matsatriði, og fer mjög eftir atvikum hvað atvinnurekanda er rétt og skylt að ganga langt í því efni.

Að öllum atvikum virtum telur kærunefndin að forsvarsmönnum RÚV hafi ekki lánast að sýna fram á, að þeir hafi gert allt það sem í þeirra valdi stóð og af þeim mátti ætlast til að búa A viðunandi starfsaðstæður. Ennfremur að þeim hafi heldur ekki tekist að sýna fram á, að hún hafi ekki verið látin gjalda kynferðis síns varðandi lausn málsins. Samkvæmt því hefur forsvarsmönnum RÚV ekki tekist að hnekkja þeim löglíkum fyrir kynjamismunun sem reglan um öfuga sönnunarbyrði í 2. mgr. 6. gr, laganna leggur þeim á herðar. Sama er að segja um uppsögnina. Kærunefndin telur að forsvarsmenn RÚV hafi ekki sýnt fram á, að aðrar gildar ástæður en kynferði hafi ráðið ákvörðun hans um hana. Kemur þar áðurnefnd regla um öfuga sönnunarbyrði aftur til. Uppsögnin hefur verið réttlætt og rökstudd með undangengnum fjarvistum A, en það er mat kærunefndarinnar að eins og á stóð og með hliðsjón af aðdraganda uppsagnarinnar, að þær geti ekki talist næg ástæða til að hnekkja þeim löglíkum, sem eru fyrir því að kynferði A hafi verið ráðandi ástæða. Hafi uppsögnin byggst á því að annað þeirra hafi þurft að hverfa af vinnustaðnum og að samstarfsmaðurinn hafi þótt verðmætari, þá telur kærunefndin það eins og á stóð, ekki heldur vera nægilegt til að hnekkja áðurnefndum löglíkum.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða kærunefndar að forsvarsmenn RÚV hafi ekki sýnt nægilega fram á, að einhverjar aðrar gildar ástæður en kynferði A hafi legið til grundvallar ákvörðun um að segja henni upp störfum. Ennfremur álítur kærunefndin að forsvarsmenn RÚV hafi ekki sýnt fram á, að aðrar ástæður en kynferði hafi valdið því að A voru búnar óviðunandi vinnuaðstæður og vinnuskilyrði.

Í kæru er gerð krafa um greiðslu sanngjarnra skaðabóta að mati kærunefndar, en einnig er krafist fégjalds fyrir hneisu, óþægindi og röskun á stöðu og högum kæranda. í 22. gr. jafnréttislaganna er kveðið á um að dæma megi þann er brotlegur gerist við lögin til að greiða þeim er misgert er við, auk bóta fyrir fjártjón ef því er að skipta, fégjald fyrir hneisu, óþægindi og röskun á stöðu og högum. Þessa grein laganna verður að skilja svo að átt sé við bótakröfur fyrir dómstólum en ekki kærunefnd og eru því ekki efni til að taka afstöðu til þeirra krafna.

NIÐURSTAÐA

Með uppsögn A úr starfi aðstoðardagskrárgerðarmanns hjá RÚV og með því að henni voru skapaðar óviðundandi vinnuaðstæður og vinnuskilyrði á vinnustaðnum verður að telja að RÚV hafi brotið gegn 4. og 5. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til forsvarsmanna RÚV að þeir dragi uppsögnina til baka eða finni aðra lausn á málinu sem A getur sætt sig við, sbr. 20. gr. ofangreindra laga.

Krafa kæranda um greiðslu skaðabóta og miskabóta, sbr. 22. gr. laganna kemur ekki til álita.

 

Sigurður Helgi Guðjónsson
Þorsteinn Eggertsson
Ragnhildur Benediktsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum