Hoppa yfir valmynd
30. desember 1993 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/1993

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 5/1993

A
gegn
Ríkisútvarpi - sjónvarpi.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 30. desember 1993 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 15. apríl 1993 óskaði A, deildarsérfræðingur, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að nefndin kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu forstöðumanns hjá Textavarpi Ríkisútvarps - sjónvarps bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Með bréfi dags. 26. apríl 1993 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá D, framkvæmdastjóra Sjónvarpsins um fjölda umsækjenda, menntun þeirra og starfsreynslu, ásamt upplýsingum um hvaða sérstöku hæfileika sá hefur til að bera sem ráðinn var í starfið, sbr. 8. gr. jafnréttislaga. Svarbréf E, lögmanns Sjónvarpsins er dags. 7. maí 1993. Jafnframt var aflað upplýsinga um fjölda kvenna og karla í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá Ríkisútvarpinu og skipurits yfir stofnunina. Til viðtals við kærunefnd kom A.

Málavextir eru þeir að vorið 1991 var auglýst laust til umsóknar nýtt starf forstöðumanns Textavarps Sjónvarpsins. A var á meðal umsækjenda. Í starfið var ráðinn B. Skömmu eftir að Textavarpinu var hleypt af stokkunum, bauð þáverandi framkvæmdastjóri Sjónvarpsins A starf aðstoðarmanns við Textavarp og þáði hún það. Í lok febrúar 1993 sagði forstöðumaður starfi sínu lausu og var staðan þá auglýst að nýju. Tveir umsækjendur voru um stöðuna, þau A deildarsérfræðingur og starfsmaður Textavarpsins og C, dagskrárritstjóri Hljóðvarps sem var ráðinn.

Fyrir liggja upplýsingar um menntun og starfsreynslu umsækjenda. A lauk BA prófi í kvikmynda- og fjölmiðlafræði frá University of Stirling árið 1991. Hún var jafnframt við myndlistarnám á Ítalíu í eitt ár. Hún hefur starfað hjá Sjónvarpinu með hléum frá árinu 1985, sem aðstoðardagskrárgerðarmaður, sem útsendingarstjóri og frá árinu 1991 verið fastráðin við Textavarp Sjónvarps.

C lauk BA prófi í heimspeki og sögu frá Háskóla Íslands árið 1983. Hann hefur að auki sótt ýmiss námskeið, m.a. í gæðastjórnun og tölvusamskiptum. Hann var kennari á árunum 1977 til 1984, stofnaði og skipulagði Gulu línuna og starfaði þar frá 1984 til 1988. Frá 1. janúar 1989 hefur hann starfað sem dagskrárritari Hljóðvarps.

Erindi sínu til stuðnings bendir A á að hún ein hafi reynslu af störfum í Textavarpi fyrir utan fráfarandi forstöðumann. Vissulega megi benda á tengsl milli starfa við Textavarp og starfa hjá Gulu línunni. Starfsreynsla hennar hljóti þó að teljast mikilvægari og hún því að vera hæfari til að gegna starfinu. A vísar á bug þeirri staðhæfingu lögmanns Ríkisútvarpsins að lengri starfsreynsla þess sem var ráðinn sem skipuleggjandi og stjórnandi réttlæti val á umsækjendum. Hann sé eldri og því eðlilega með lengri starfsreynslu. Hann hafi hins vegar enga starfsreynslu innan Sjónvarpsins sem hún hafi, m.a. sem skipuleggjandi og stjórnandi. Vegna staðhæfingar um að feikigóð meðmæli frá framkvæmdastjóra Hljóðvarps hafi jafnframt skipt máli, bendir A á að fráfarandi forstöðumaður hafi mælt með sér í starfið. A leggur áherslu á að hér hafi kynferði ráðið vali á umsækjendum, enda eigi konur erfitt uppdráttar innan Sjónvarpsins.

Lögmaður Ríkisútvarpsins leggur áherslu á að við val á umsækjendum hafi verið horft til lengri starfsaldurs C sem stjórnanda og skipuleggjanda. Einnig hafi góð meðmæli framkvæmdastjóra Hljóðvarps F haft áhrif.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga er tilgangur laganna að koma á jafnrétti kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

Í lögunum eru lagðar ýmsar skyldur á atvinnurekendur til að ná því markmiði. Má þar nefna að samkvæmt 5. gr. skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf. Telji einhver rétt á sér brotinn samkvæmt ákvæðum 6. gr. og vísar máli til kærunefndar jafnréttismála, skal atvinnurekandi sýna kærunefnd fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Ef umsækjandi um auglýst starf er kona en það hefur verið veitt karlmanni, skal kærunefnd jafnréttismála, sé þess óskað, fara fram á það við hlutaðeigandi atvinnurekanda að hann veiti nefndinni skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika umfram konuna sá hefur til að bera sem ráðinn var í starfið. Karlmaður sem er umsækjandi um starf á sama rétt, hafi starfið verið veitt konu, sbr. 8. gr. laganna.

Kærunefnd jafnréttismála telur að við mat á því hvenær ráðning í stöðu telst brot á jafnréttislögum beri að hafa að leiðarljósi ákvæði 5. gr., sbr. 1. gr. laganna, svo og þau atriði sem talin eru upp í 8. gr., þ.e. menntun, starfsreynsla og aðra sérstaka hæfileika þess sem var ráðinn.

Fleiri karlar eru í stjórnunarstöðum innan Ríkisútvarpsins og hefði því verið rétt að velja til starfsins konu að öðru jöfnu.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar eru umsækjendur tveir, kona og karl sem bæði hafa svipaða menntun. Starfsreynsla C er hins vegar bæði víðtækari og mun lengri en A sem hefur eingöngu starfað hjá Sjónvarpinu. Það er mat kærunefndar að atvinnurekandi hafi sýnt nægilega fram á að við val á umsækjendum hafi sérstök starfsreynsla C skipt verulegu máli, ekki síst stjórnunarreynsla hans og reynsla hans af því að skipuleggja Gulu línuna og störf hans þar.

Kærunefnd jafnréttismála telur því að ráðning í stöðu forstöðumanns Textavarps Sjónvarpsins brjóti ekki gegn ákvæði 8. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr, 6. gr. sömu laga.

Margrét Heinreksdóttir, vék sæti í máli þessu og tók varamaður hennar, Þorsteinn Eggertsson, sæti í nefndinni.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Sigurður Helgi Guðjónsson
Þorsteinn Eggertsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum