Hoppa yfir valmynd
16. desember 1993 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/1993 

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 1/1993

Verslunarmannafélag Reykjavíkur f. h. A*
gegn
Hagkaupum h.f.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 16. desember 1993 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 25. janúar 1993 óskaði Verslunarmannafélag Reykjavíkur f.h. A, svæðisstjóra, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort sá munur sem væri á launum A og forvera hennar í starfi bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Við meðferð málsins var kröfugerðin útfærð nánar og í framhaldi af því einnig óskað eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort sá munur sem væri á launum svæðisstjóra bakarís og annarra svæðisstjóra matvöruverslunar Hagkaupa h. f. bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga.

Kærunefnd jafnréttismála aflaði skriflegra gagna frá Hagkaupum h.f. Á fund nefndarinnar komu kærandi, A ásamt lögfræðingi Verslunarmannafélags Reykjavíkur, C og af hálfu kærða D, starfsmannastjóri Hagkaupa og E, aðstoðarverslunarstjóri.

Málavextir eru þeir að A sótti um starf svæðisstjóra bakarís Hagkaupa h.f. í Kringlunni um mánaðamótin janúar/febrúar 1992. Um starfið sótti einnig B, bakari. Hann var ráðinn svæðisstjóri en A til afgreiðslustarfa í bakaríinu. Í ágústmánuði 1992 veiktist B og hefur verið frá starfi síðan. A tók þá við starfi hans sem svæðisstjóri. Hún fór fram á að fá þau laun er B hafði haft, þ.e. kr. 72.000. - á mánuði en því var hafnað. Skömmu síðar voru laun hennar hækkuð úr kr. 55.000.- í kr. 66.000.- á mánuði. Þessu vildi A ekki una og leitaði til Verslunarmannafélags Reykjavíkur, (V.R.). Eftir árangurslausar samningaviðræður milli lögfræðings V.R. og forráðamanna Hagkaupa hf., var málinu vísað til kærunefndar jafnréttismála.

Verslunarmannafélag Reykjavíkur leggur áherslu á að A eigi rétt á sömu launum og forveri hennar, þar sem um sama starf sé að ræða. B sé lærður bakari, en hafi nýlokið námi þegar hann hóf störf hjá Hagkaupum h.f. A hafi aftur á móti 12 til 13 ára starfsreynslu í bakaríi.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að iðnnám B hafi ekki nýst í starfi og sé því ekki réttlætanlegt að mismuna þeim á grundvelli þess. Bakaríið í Kringlunni sé sölubakarí, útibú frá Myllunni, þar sem allur bakstur fari fram. Þessu til stuðnings bendir lögfræðingur V. R. á að í auglýsingu Hagkaupa h.f. hafi starfinu verið lýst svo:

  • að sjá um að setja frosið deig í tímastillta ofna og baka brauð o.fl.

  • stjórnun starfsfólks á svæðinu og að manna stöður t.d. um helgar.

  • afgreiðsla einkum á álagstímum.

Af þessu megi sjá að bakaramenntun sé ekki áskilin enda hvorki tekið fram þegar starfið var upphaflega auglýst né talin ástæða til að leita eftir öðrum bakaramenntuðum starfsmanni þegar B veiktist eða auglýsa starfið að nýju, A hafi verið beðin um að gegna starfinu og ekki hafi annað komið fram en að hún væri fullfær um það. Mótmælt er þeirri staðhæfingu kærða að A gegni ekki sama starfi og B. A viti ekki annað en að hún sé svæðisstjóri í bakaríi Hagkaupa h.f., Kringlunni, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgi. Gott viðmót við viðskiptavini, góð og fljót afgreiðsla og innsýn í sölu dagsins vegi þyngra í sölubakaríi en menntun í framleiðslu á brauði og kökum.

Í greinargerð lögfræðingsins segir að lokum:

„Uppbygging Hagkaupa gerir ráð fyrir svæðisstjórum í hverri einingu fyrir sig. Allir svæðisstjórarnir bera sömu ábyrgð og ættu því að hafa sambærileg laun, að minnsta kosti er ekkert sem réttlætir launamun eftir kynjum. Eftir því sem ég kemst næst þá er einungis einn svæðisstjóri í matvörudeild Kringlunnar kona, þ.e.a.s. A, og eru laun hennar lægst svæðisstjóranna. Því til staðfestingar hefur mér verið tjáð að svæðisstjóri í kjötborði sem hóf störf á sama tíma og A og hefur ekki fagmenntun hafi nú 85.000 kr. á mánuði, en þessar upplýsingar get ég ekki sannreynt. Séu þessar upplýsingar réttar er nauðsynlegt að fá skýringar hjá Hagkaup hvernig stendur á þessum launamun milli karla og kvenna fyrir sömu störf.

Hér er því ekki einungis spurning um hvort verið er að mismuna á grundvelli menntunar og hvort það sé réttlætanlegt, heldur einnig hvort mismunað sé eftir geðþóttaákvörðunum og ávallt konum í óhag.“

Af hálfu forsvarsmanna Hagkaupa h.f. er í fyrsta lagi lögð áhersla á að menntun B hafi nýst í starfinu. Enda þótt ekki hafi verið auglýst sérstaklega eftir bakaramenntuðum starfsmanni sé eðlilegt að vinnuveitandi nýti þá menntun sem best þegar völ sé á slíkum starfsmanni. Ákveðið hafi verið að bjóða upp á kökuskreytingar í bakaríinu og gefa út bækling til kynningar á þeirri þjónustu. Því hafi þótt sérstakur fengur að fá til starfa fagmenntaðan mann sem íklæddur einkennisbúningi starfsgreinar sinnar ætti þátt í að efla ímynd bakarísins. Þannig hafi ráðning bakara verið hugsuð á nákvæmlega sama hátt og þegar ráðnir væru matreiðslumenn og kjötiðnaðarmenn til starfa við kjötborð þó svo að engin kjötvinnsla færi þar fram. Í greinargerð Hagkaupa h.f. dags. 16. mars 1993 segir: „Með því að ráða fagmenn eins og kjötiðnaðarmenn, kokka og bakara til starfa í verslunum næst einkum fernt fram:

  1. Það hefur áhrif á ímynd viðkomandi verslunar (ímyndin verður betri) og þ.a.l. sölu að fagmaður sé við afgreiðslu í viðkomandi deild.

  2. Að ráða fagmann tryggir að viðkomandi hafi nægilega þekkingu á þeirri vöru sem hann/hún er að selja og meðhöndla.

  3. Fagmaður getur veitt viðskiptavinum réttar og góðar upplýsingar um vöruna og þeir taka frekar mark á því sem hann segir, fremur en einhverjum sem ekki hefur viðkomandi menntun.

  4. Með því að hafa fagmann við störf skapast möguleiki á að verða við séróskum viðskiptavina. Kjötiðnaðarmaður getur úrbeinað eftir sérstökum óskum, kokkur getur kryddað og bakari getur t.d. skreytt kökur eftir séróskum.

Menntun í iðngrein hlýtur að teljast trygging fyrir því að viðkomandi hafi ákveðna og góða þekkingu á þeirri vöru og vinnslu sem menntun hans varðar. Það gefur auga leið að þegar einstaklingur sem ekki hefur menntun, þrátt fyrir að hann hafi svo og svo margra ára reynslu, er ráðinn til starfa, þá er vinnuveitandi ekki að greiða fyrir sömu þekkingu og reynslu og ef um fagmann er að ræða.“

Af hálfu forsvarsmanna Hagkaupa h.f. er í öðru lagi fullyrt að A gegni ekki sama starfi og B. Í greinargerð Hagkaupa dags. 22. júlí 1993 segir: „A hefur ekki, t.d. hvað varðar stjórnunarstörf, sinnt því sama og B. Hún hefur ekki nema að mjög litlu leyti (í mun minna mæli en B gerði) tekið þátt í ráðningu starfsmanna og aldrei komið nálægt uppsögnum. Hún hefur hins vegar séð um að setja starfsmenn inn í starfið eftir að deildarstjóri eða verslunarstjóri var búinn að ganga frá ráðningu þeirra.“

Um þá fullyrðingu að svæðisstjóri bakarís sé lægst launaður svæðisstjóra hjá Hagkaupum h.f. segir í sömu greinargerð: „Titillinn svæðisstjóri segi í raun og veru ekki neitt um það hvert starfið er né hver ábyrgð viðkomandi er. Sem dæmi má nefna að í sumum tilfellum eru svæðisstjórar aðstoðarmenn deildarstjóra. Þeir geta borið ábyrgð á vörum sem eru mjög viðkvæmar fyrir rýrnun s.s. kjötvörur eða hins vegar verið með vörur þar sem rýrnun er ekki mikið viðfangsefni. Þeir geta haft með misjafnlega marga starfsmenn að gera og eins er þátttaka þeirra í stjórnunarstörfum mjög mismunandi t.d. hvað varðar þátttöku þeirra í ráðningum og uppsögnum. Þá er sú sala sem er á bak við hvern svæðisstjóra mjög mismunandi en hún er verulega marktæk um mismikið mikilvægi starfa þeirra. Það að líkja saman starfi svæðisstjóra í bakaríi og kjötborði segir allt það sem segja þarf um þennan mun. Svæðisstjóri í bakaríi getur látið skila allri þeirri vöru sem hann selur ekki en í kjötborði verður að nýta allt og selja. Í kjötborði er ennfremur um að ræða miklu meiri verðmæti, … Eins og fram kemur hér að ofan er það á misskilningi byggt að tveir einstaklingar sem báðir bera titilinn svæðisstjóri vinni endilega sömu störf. Þ.a.l. er alls ekki um að ræða launamun milli karla og kvenna.“

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

Samkvæmt 4. gr. sömu laga skulu konum og körlum greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Samkvæmt 6. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir vinnu.

Í máli þessu er í fyrsta lagi óskað álits kærunefndar jafnréttismála á því hvort sá munur sem er á launum A og forvera hennar brjóti gegn ákvæðum jafnréttislaga.

Í öðru lagi er óskað afstöðu nefndarinnar til þess hvort sá munur sem er á launum svæðisstjóra bakarís og annarra svæðisstjóra matvöruverslunar Hagkaupa h.f., Kringlunni brjóti í bága við jafnréttislög.

 

Um kæruatriði 1.

Þegar A tók við starfi svæðisstjóra í ágúst 1992 vora laun hennar hækkuð til samræmis við byrjunarlaun B, í kr. 66.000.- Laun hennar hafa ekki hækkað þann tíma sem hún hefur gegnt þessu starfi, þ.e. í rúmt ár. Kærunefnd jafnréttismála fellst ekki á þau rök Hagkaupa h.f. að réttlæta megi mun á launum A og forvera hennar með því að starfsviði hafi verið breytt. A er ókunnugt um annað en að hún gegni starfi svæðisstjóra bakarís með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Telja verður því að henni hafi verið rétt að líta svo á að hún gegndi sama starfi og B.

Hins vegar telur kærunefnd það ekki stríða gegn ákvæðum jafnréttislaga að sá sem tekur við starfi af öðrum starfsmanni, hvort sem það er tímabundið eða ekki, fái lægri laun ef launamunurinn skýrist af öðrum atriðum en kynferði. Menntun er eitt þeirra atriða sem laun ráðast af. Það er ekki andstætt ákvæðum jafnréttislaga að greiða menntuðum starfsmanni hærri laun en ómenntuðum, a.m.k. þegar menntunin tengist starfinu. Því ber að fallast á þau rök Hagkaupa h.f. að A eigi ekki rétt á sömu launum og forveri hennar hafði.

 

Um kæruatriði 2.

Ákvæði 4. gr. laga nr. 28/1991 um að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf felur í sér að starfsmaður á rétt á því að við ákvörðun launa hans gildi sömu reglur og sjónarmið og lögð er til grandvallar við ákvörðun launa annarra starfsmanna atvinnurekandans. Jafnframt felst í ákvæðinu að þau megi ekki fela í sér misrétti eftir kynferði.

Til að ákvarða megi hvort laun starfsmanns brjóti í bága við ákvæði jafnréttislaga, verður að krefjast þess af atvinnurekanda að hann upplýsi og skýri hvernig laun starfsmanna hans eru ákvörðuð, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Kærandi þessa máls ber saman laun sín og annarra svæðisstjóra matvörudeildar Hagkaupa hf. í Kringlunni og er ekki um það ágreiningur að laun hennar eru lægst. Samkvæmt upplýsingum Hagkaupa h.f. eru svæðisstjórarnir sex, þar af ein önnur kona sem ber starfsheitið aðstoðarmaður deildarstjóra og er svæðisstjóri í kassadeild.

Það er niðurstaða kærunefndar að A sé rétt að bera saman laun sín og annarra svæðisstjóra og að hún eigi kröfu á því að sömu sjónarmið séu lögð til grundvallar við ákvörðun launa hennar og annarra svæðisstjóra matvörudeildar, sbr. 4. gr. jafnréttislaga. Þær skýringar sem fram hafa komið á mismunandi launum svæðisstjóra eru m.a. menntun þeirra, fjöldi starfsmanna, velta og nýting eða rýrnun vöru. Með vísan til þess má fallast á að ekki sé óeðlilegt að laun svæðisstjóra bakarís séu lægst.

Þeir svæðisstjórar sem A ber sig saman við hafa flestir starfað í eitt til tvö ár eða svipaðan tíma og A. Samkvæmt upplýsingum kærða munu þeir allir hafa fengið launahækkanir á því tímabili nema A. Kærunefnd telur að A eigi rétt á því að laun hennar hækki á sama hátt og annarra og þar með verði dregið úr þeim mun sem er á launum hennar og annarra svæðisstjóra matvörudeildarinnar. Með hliðsjón af upplýsingum um laun, menntun og starfssvið svæðisstjóranna telur kærunefnd að þau laun sem B fékk eftir þrjá mánuði í starfi séu ekki fjarri því sem telja verður réttmætt að A eigi rétt á eftir eitt ár í starfi.

Með vísan til 20. gr. jafnréttislaga er þeim tilmælum beint til Hagkaupa h.f. að A fái sambærilega launahækkun og aðrir svæðisstjórar hafa fengið og að sú launahækkun gildi frá þeim tíma sem hún hafði gegnt starfinu í eitt ár.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Helgi Guðjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum