Hoppa yfir valmynd
28. október 2013 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/2013

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Heilbrigðisstofnun Austurlands

Launakjör.

Kærandi, sem er karl, er yfirlæknir á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Vopnafirði. Kærandi taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að kærandi og kona sem starfaði einnig hjá kærða nytu mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Upplýst var að starfandi læknar í umdæminu væru allt karlar að undanskildum einum lækni sem er kona. Kærunefnd jafnréttismála taldi að af málavöxtum yrði ekki ráðið að honum hefði verið mismunað í launum á grundvelli kyns.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 28. október 2013 er tekið fyrir mál nr. 5/2013 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 2. maí 2013, kærði A ætlaðan mismun á launakjörum milli hans og læknis sem er kona og starfar á Egilsstöðum. Kærandi telur að með hinum ætlaða launamismun hafi Heilbrigðisstofnun Austurlands brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 15. maí 2013. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 24. maí 2013, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 31. maí 2013.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 10. júní 2013, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 20. júní 2013. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með tölvupósti þann 26. júní 2013 og voru þær sendar kæranda með bréfi, dagsettu 1. júlí 2013. Kærunefndin óskaði eftir staðfestingu á kæruefni og frekari gögnum frá kæranda með bréfi, dagsettu 2. júlí 2013, og bárust þau með bréfi, dagsettu 18. júlí 2013. Með bréfi, dagsettu 8. október 2013, óskaði kærunefndin eftir frekari upplýsingum frá kærða. Umbeðnar upplýsingar bárust með tölvupósti þann 21. október 2013 og voru þær sendar kæranda með tölvupósti þann 22. október 2013. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti þann 24. október 2013.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR
  6. Kærandi er yfirlæknir á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Vopnafirði. Kærandi telur að hann njóti lægri launakjara fyrir sömu störf og kona sem starfar sem læknir hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum. Kærandi hefur í nokkur ár óskað eftir bættum launakjörum hjá kærða.
  7. Í umdæmi stofnunarinnar eru tvö einmenningshéruð, annars vegar Djúpivogur en þar er einn lausráðinn læknir sem er karlmaður og hins vegar Vopnafjörður þar sem kærandi starfar sem fastráðinn læknir. Þá eru í umdæminu skilgreind önnur þrjú héruð eða deildir þar sem starfa fleiri en einn læknir. Á Seyðisfirði starfa tveir fastráðnir læknar sem eru báðir karlar. Í Fjarðabyggð starfar einn fastráðinn læknir sem er karl, einn lausráðinn karl í námsstöðu og ein staða er óreglulega mönnuð afleysurum af báðum kynjum. Á Egilsstöðum starfa fjórir fastráðnir læknar, þar af þrír karlar og ein kona. Á Neskaupstað starfa tveir fastráðnir læknar sem eru karlar, tvær stöður eru leystar með afleysingamönnum og framkvæmdastjóri lækninga er karl. Stöðufjöldi lækna er samtals 16, þar af starfa 11 í heilsugæslu og fjórir við sjúkrahús. Þar af eru 15 karlar og ein kona. Heildarfjöldi starfsmanna stofnunarinnar í september 2013 var 398, þar af 341 kona og 57 karlar. Að jafnaði starfa um 320 starfsmenn við stofnunina en í september eru sumarafleysingastarfsmenn taldir með. Launakjör ákvarðast samkvæmt kjarasamningum og stofnanasamningum viðkomandi stéttarfélags.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  8. Kærandi tekur fram að hann sinni starfi heilsugæslulæknis í Vopnafjarðarlæknishéraði. Hann standi vakt allan sólarhringinn vikum saman. Kærandi telur að vakt læknis á Vopnafirði sé í öllum aðalatriðum sams konar og vaktir í öðrum héruðum á svæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Læknar séu allir á svokallaðri gæsluvakt 1 og beri því að koma tafarlaust í útkall ef nauðsyn krefji. Árum saman hafi það viðgengist að vaktlaun lækna annars staðar en á Vopnafirði séu mun hærri en hjá kæranda. Hann hafi mótmælt þessu og krafist sömu launa. Hingað til hafi honum verið synjað meðal annars með þeim rökum að þá yrðu heildarlaun hans svo há. Kærandi bendir á til skýringa að hann sé á vakt allan sólarhringinn alla daga vikunnar átta mánuði á ári í héraðinu.
  9. Kærandi vísar til 19. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og bendir á að hann sé með lægri laun en kona sem starfi sem læknir á Egilsstöðum. Kærandi kveðst hafa leitað til stéttarfélags síns en það hafi neitað að styðja hann með þeim rökum að niðurstaðan í málinu yrði líklega sú að laun annarra lækna hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands yrðu lækkuð. Kærandi lítur þannig á að hagsmunum hans sé fórnað fyrir hagsmuni samstarfsmanna hans án þess að tilraun sé gerð til að leiðrétta augljóst launamisrétti.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA
  10. Kærði tekur fram að kærandi fái ekki greidd lægri laun en kona á sama vinnustað fyrir sömu vinnu. Séu launagögn kærða skoðuð komi það greinilega fram að karlar og konur á sama vaktsvæði fái greidd sömu laun. Hjá kærða gildi sú regla að karlar og konur fái greidd sömu laun fyrir sömu vinnu byggð á þeim samningum sem í gildi séu. Tilvísun um að kona fái greidd hærri laun en kærandi fyrir sömu vinnu hafi ekkert með það að gera hvort viðkomandi sé kona eða karl heldur tengist það stofnanasamningi. Verið sé að blanda saman greiðslum á mismunandi starfssvæðum. Væri kona ráðin til starfa á starfsstöð kæranda fengi hún greidd sömu álagslaun. Ynni kærandi á annarri starfsstöð fengi hann sömu álagslaun og læknar þar óháð kyni.
  11. Kærði bendir á að kæran sé tilkomin vegna ákvörðunar um mismunandi greiðslu álags á laun. Kærði greiði kæranda samkvæmt stofnanasamningum sem byggðir séu á kjarasamningum við Læknafélag Íslands og þar af leiðandi snúi málið að starfskjörum er þar komi fram en ekki jafnrétti kynjanna hjá kærða enda búi karlar og konur við sömu kjör. Hagsmunum kæranda sé ekki fórnað þar sem greitt sé eftir samningum líkt og fram komi í fylgigögnum. Álagslaun á gæsluvakt í Djúpavogslæknishéraði séu þau sömu og greidd séu í Vopnarfjarðarlæknishéraði og sú fullyrðing röng að kærandi einn fái greitt lægst álag.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  12. Kærandi tekur fram að fullyrðing kærða um að laun kæranda séu samkvæmt stofnanasamningi sem byggður sé á kjarasamningum við Læknafélag Íslands sé röng. Stofnanasamningur sé sérstakur samningur sem gerður sé með aðkomu fulltrúa stéttarfélaga við ákveðnar starfsstéttir. Enginn stofnanasamningur sé milli kærða og lækna stofnunarinnar svo kæranda sé kunnugt um. Læknar kærða fái greitt fyrir vaktir samkvæmt samningi sem fyrrverandi forstjóri hafi gert við lækna stofnunarinnar, hvern og einn fyrir sig. Kæranda hafi ekki staðið til boða sambærileg laun fyrir gæsluvaktina og læknum á vaktsvæði Egilsstaða og Fjarðasvæðisins. Hann hafi fengið þær upplýsingar að laun hans yrðu alltof há ef hann fengi greidd sömu laun og læknar á svæðum þar sem fleiri skipti með sér vaktinni.
  13. Kærandi telur sig hafa allgóðar heimildir fyrir því að á Seyðisfirði þyki við hæfi að greiða X kr. á klst. fyrir gæsluvakt 1 en þar sitji tveir læknar í héraði þar sem 676 íbúar búi á litlu svæði. Í Vopnafjarðarlæknishéraði, þar sem 790 manns búi á um 2.400 km2 svæði, þyki við hæfi að greiða einum lækni X kr. á klst. fyrir 90% vakttímanna og X kr. á klst. fyrir 10% þeirra. Kærandi telur markmiðið með þessu að allir hafi nokkurn veginn sömu árslaun án tillits til þess hversu margar klukkustundir séu að baki vinnuframlagi. Á Egilsstöðum og í Fjarðabyggð sé vaktkaupið ennþá hærra eða X kr. á klst. sem sé 2,17 sinnum hærra en kaup kæranda. Kærandi telur að hann vinni sömu vinnu og læknar á öðrum vaktsvæðum kærða og beri sömu skyldur. Álagið sé síst minna vegna stærðar vaktsvæðisins, landfræðilegrar legu og vetrareinangrunar. Kærandi sé eini læknirinn á svæðinu en læknar þeirra svæða sem hafi hæst laun hafi ávallt mann á bak við sig til að fara í stærri útköll. Kærandi telur að jafnvel þótt útköll séu fleiri og álag meira þar sem fleira fólk búi sé greitt sérstaklega fyrir öll útköll á vöktum með svokölluðum grænum seðlum. Þannig fái sá sem taki fleiri útköll á vaktinni hærri laun og umbun fyrir álagið.
  14. Kærandi vísar til þess að hann hafi árum saman farið þess á leit að vinna hans hjá kærða yrði virt á sama verði og vinna samstarfsfólks hans og laun væru samræmd. Hann hafi þó ávallt fengið synjun. Hann geri sér grein fyrir því að launamunurinn hafi ekki með kynjamun að gera eins og staðan sé. Væri staðan hins vegar sú að ef á Vopnafirði væri kona í vinnu á þeim kjörum sem þar séu og eingöngu karlar í öllum öðrum stöðum telur kærandi að kærði yrði að bera fram haldbær og sannfærandi rök fyrir því hvers vegna launamunurinn væri.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA
  15. Kærði heldur því fram að mál kæranda snúi að kjaramálum en ekki jafnréttismálum. Hann tekur fram að fullyrðing kæranda um að ekki sé í gildi stofnanasamningur sem taki til hans sé rétt. Kærði tekur fram að læknar á Egilsstöðum og í Fjarðabyggð, sem hafi sinnt afleysingum á Djúpavogi og séu fastráðnir hjá kærða, séu á sömu vaktkjörum og kærandi. Heilbrigðisstofnun Austurlands sé ein stofnun og því einn vinnustaður. Innan hans séu þó talsvert mörg starfssvæði og deildir. Kærði hafi verið að jafna gæði milli svæða, samræma þjónustuframboð eins og kostur er. Einnig hafi verið í gangi endurskoðun á kjörum, vöktum og fleira í þeim dúr og þeirri vinnu sé ekki lokið. Kærði bendir á að ekkert hafi komið fram sem rökstyðji að kærandi fái greidd lægri laun en kona sem vinni á sama starfssvæði og hann. Málið sé því kjaramál og eigi að afgreiða hjá Læknafélagi Íslands og kærða. Kærði gerir kröfu um að málinu verði vísað frá.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  16. Kærandi bendir á að aðrir læknar sem fari frá öðrum svæðum kærða til vinnu á Djúpavogi til að leysa mönnunarmálin þar fái greidda fjóra yfirvinnutíma á dag auk dagpeninga, fastra launa og gæsluvakta. Þessir yfirvinnutímar séu greiddir alla daga og ekki unnir. Kærandi telur því að um sé að ræða dulbúna hækkun á gæsluvaktargreiðslum. Yfirstjórn kærða geti ekki bent á neinn annan stað þar sem kjörin séu eins og á Vopnafirði. Þá staðfestir kærandi að kæruefnið snúi að því að kærunefndin úrskurði um hvort launamunur milli hans og annarra lækna kærða varði við lög nr. 10/2008, þar sem læknir sem sé kona og starfi á Egilsstöðum njóti betri launakjara en hann.
  17. Kærandi véfengir hvorki upplýsingar frá kærða um fjölda lækna í sambærilegu starfi og kærandi né upplýsingar um hlutfall kvenna og karla í starfi hjá kærða og hvernig launakjör þeirra séu ákvörðuð. Það er þó mat kæranda að allir heilsugæslulæknar sem starfi hjá kærða séu í raun að vinna sambærileg störf, þ.e. heilsugæslulækningar í dreifbýli. Eini munurinn sé að læknishéruðin séu misstór og þess vegna mismargir læknar sem þar starfi. Eðli vaktarinnar sé það sama hvort sem héraðið sé stórt eða lítið og ábyrgðin síst minni í fámennari héruðum þar sem færri læknar standi vaktina og þurfi jafnvel einir að sinna slysum og bráðum veikindum. Vaktábyrgðin verði svo eðlilega meiri þar sem færri læknar séu til að skipta á milli sín vöktum.

    NIÐURSTAÐA
  18. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  19. Læknar er starfa hjá kærða starfa á sex starfsstöðvum innan þess svæðis er heyrir undir kærða, tvö héraðanna eru einmenningshéruð en í hinum starfa fleiri læknar. Stöðufjöldi lækna í umdæminu er 16, þar af starfa 11 í heilsugæslu, fjórir starfa við sjúkrahús og einn er framkvæmdastjóri lækninga. Af starfandi læknum eru 15 karlar en einn læknir er kona. Af gögnum málsins, meðal annars bréfaskiptum kæranda og Læknafélags Íslands, má ráða að kærandi hafi um margra ára skeið verið ósáttur við launakjör sín og talið meðal annars að hann inni af hendi meira vinnuframlag en læknar er starfa á öðrum starfsstöðvum stofnunarinnar án þess að sjá megi þess stað í launagreiðslum til hans.
  20. Kærandi hefur tiltekið að einn af þeim læknum er hann ber sig saman við sé kona. Af málflutningi kæranda verður þó ekki ráðið að honum hafi verið mismunað í launum á grundvelli kyns, sbr. 25. gr. laga nr. 10/2008, enda kemur fram að margir hinna læknanna er starfa hjá kærða eru karlar. Kærandi hefur enda staðfest það sjálfur í athugasemdum sínum til nefndarinnar að launamunurinn hafi ekki með kynjamun að gera. Engin efni eru því til að fallast á það með kæranda að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008 hvað varðar launakjör kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur ekki brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ákvörðun launakjara A.

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum