Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 1999 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 7/1999:

Samband íslenskra bankamanna
gegn
Reiknistofu bankanna.
_____________________________________

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 26. nóvember 1999 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

Með bréfi dags. 5. mars 1999 fór Samband íslenskra bankamanna (SÍB) þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun Reiknistofu bankanna (RB) í október 1998 á greiðslu fæðingarstyrks og launa til A, starfsmanns RB, í 14 daga fæðingarorlofi hans bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislaga).

Kærunefnd óskaði eftir afstöðu RB til erindisins, sem svaraði með bréfi dags. 19. apríl 1999.

Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram af hálfu aðila málsins:
1. Kæra dags. 5. mars 1999 ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf RB dags. 19. apríl 1999.
3. Svarbréf kæranda dags. 30. apríl og 12. október 1999.

A hefur verið starfsmaður RB frá 1981. Kona hans starfaði sem hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Þau eignuðust barn 24. júní 1998. Hún tók fullt fæðingarorlof, sem hún dreifði á eitt ár, en hún hafði áunnið sér fullan rétt til greiðslna í fæðingarorlofi frá vinnuveitanda sínum. Hann tók fæðingarorlof í tvær vikur frá 1. til 15. júlí 1998.

Með bréfi dags. 7. ágúst 1998 fór A þess á leit við RB að sér yrðu greidd laun fyrir 14 daga fæðingarorlof sem hann hafði tekið í samræmi við 2. gr. laga nr. 57/1987, sbr. lög nr. 147/1997. Til vara gerði hann kröfu um að halda þeim réttindum sem launagreiðslum fylgdu fyrir umrætt tímabil. Kröfur sínar byggði hann á grein 6.2.1 í kjarasamningi samninganefndar bankanna fyrir hönd banka og sparisjóða og Sambands íslenskra bankamanna frá 3. apríl 1997, en þar segir m.a.: "Vegna barnsburðar skal kona eiga rétt á að vera fjarverandi í sex mánuði (sbr. lög nr. 59/1987) og skal fastráðin kona njóta fullra launa fyrstu þrjá mánuðina."

Ennfremur gerði hann kröfu um greiðslu fæðingarstyrks í samræmi við eftirfarandi bókun með kjarasamningnum: "Bankinn greiðir fæðingarstyrk við barnsburð. Greiðslan skal nema kr. 34.003."

Yrði ekki fallist á greiðslu launa, gerði hann þá kröfu til vara að engin skerðing yrði á réttindum þeim, sem launagreiðslum fylgdu, enda þótt launagreiðslur féllu niður fyrir umrætt tímabil. Vísaði hann þar um til bókunar með kjarasamningnum þar sem segir: "Allar fjarvistir vegna fæðingarorlofs teljast til starfstíma við mat á réttindum."

Það er álit kæranda, m.a. með tilvísun í dóm Hæstaréttar frá 5. febrúar 1998 í máli nr. 208/1997, að ákvörðun RB brjóti í bága við lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Með bréfi dags. 23. október 1998 synjaði RB kröfum A, að höfðu samráði við samninganefnd bankanna, á þeirri forsendu að bankamenn í fæðingarorlofi feðra eigi ekki rétt á greiðslu launa á grundvelli ákvæðis 6.2.1 í kjarasamningnum. Samninganefnd bankanna telji að dómur Hæstaréttar frá 5. febrúar 1998 í máli nr. 208/1997 gildi ekki í umræddu tilviki þar sem í dóminum sé fjallað um aðstæður þar sem fullir fjórir mánuðir hafi verið liðnir frá fæðingu barns. Ennfremur verði sú ályktun dregin af dóminum að heimilt sé að taka sérstakt tillit til kvenna vegna barnsburðar, sbr 3. gr. jafnréttislaga. Í dóminum sé vísað til tvíþætts hlutverks fæðingarorlofslaga, annars vegar að konur fái tækifæri til að jafna sig eftir barnsburð og hins vegar að foreldrar geti annast barn sitt.

Það hafi verið mat nefndarinnar, m.a. með vísan í tilskipun Evrópusambandsins, 92/85 EBE, um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem séu þungaðir, hafi nýlega alið börn eða hafi börn á brjósti, að ekki sé óeðlilegt að álykta að heimilt sé að taka sérstakt tillit til kvenna við greiðslu fæðingarorlofs í a.m.k. 14 vikur eftir fæðingu barns. Með sömu rökum hafnaði RB kröfu A um greiðslu fæðingarstyrks, enda komi hann til greiðslu strax eftir fæðingu.


NIÐURSTAÐA
Um greiðslu launa í fæðingarorlofi.

Lög nr. 57/1987 voru fyrstu almennu lögin um fæðingarorlof hér á landi. Í 1. gr. laganna er fæðingarorlof skilgreint sem leyfi frá launuðum störfum vegna meðgöngu og fæðingar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna eiga foreldrar rétt á sex mánaða fæðingarorlofi og geta þeir skipt því með sér, þannig að sameiginlegt orlof þeirra verði aldrei lengra en það. Með 1. gr. laga nr. 147/1997 var 2. gr. laga nr. 57/1987 breytt þannig að auk fyrrnefnds réttar foreldra á faðir, sem er í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð með móður barnsins, rétt á tveggja vikna fæðingarorlofi sem taka má hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns. Notfæri faðir sér ekki rétt samkvæmt þessari málsgrein fellur hann niður.

Í athugasemdum með 1. gr. laga nr. 147/1997 segir: "Hér er fjallað um sjálfstæðan rétt föður til tveggja vikna fæðingarorlofs. Faðir má taka þetta fæðingarorlof hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns. Með heimkomu barns er bæði átt við heimkomu barns af fæðingarstofnun og heimkomu barns sem er ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur. Mikilvægt þykir að binda töku fæðingarorlofs föður við fyrstu vikurnar sem barnið er á heimilinu, m.a. vegna tengslamyndunar milli föður og barns. Þar sem erfitt er að tryggja að faðir, sem ekki er í hjúskap eða sambúð með móðurinni, geti nýtt sér eða nýti sér fæðingarorlofstímann til samvista við barnið er gert ráð fyrir að þessi réttur sé háður því skilyrði að faðirinn sé í hjúskap eða skráðri sambúð með móður barnsins við upphaf töku fæðingarorlofs. Þessi réttur er sjálfstæður réttur föður þannig að notfæri hann sér ekki réttinn fellur hann niður. Hann getur því ekki færst yfir til móður til lengingar fæðingarorlofs hennar. "

Í 9. gr. laga nr. 57/1987 segir að um greiðslur í fæðingarorlofi fari eftir ákvæðum laga um almannatryggingar. Ákvæði um þessar greiðslur eru nú í 15., 16. og 16. gr.a. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Í 15. gr. laganna er fjallað um fæðingarstyrk sem greiðist móður við hverja fæðingu barns í sex mánuði nema um sérstakar aðstæður sé að ræða til lengingar eða styttingar svo sem fleirburafæðingu eða andvanafæðingu. Tekið er fram að ákvæði greinarinnar taki ekki til félagsmanna í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga er njóti óskertra launa í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum þann tíma sem óskert laun séu greidd. Ákvæðið tekur eingöngu til móður og er ekki bundið atvinnuþátttöku hennar.

Samkvæmt 16. gr. laganna eiga foreldrar, sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi, rétt á fæðingardagpeningum samkvæmt nánari ákvæðum greinarinnar. Tekið er fram að þeir sem eigi rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eigi þó ekki rétt til greiðslu fæðingardagpeninga.

Samkvæmt 16. gr. a. í lögum um almannatryggingar, sbr. 3. gr. laga nr. 147/1997, á faðir í sérstöku tveggja vikna fæðingarorlofi rétt á greiðslu fæðingarstyrks í hlutfalli við lengd orlofsins. Þá á hann rétt á hlutfallslegri greiðslu fæðingardagpeninga í samræmi við ákvæði d-liðar 16. gr.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 57/1987 skerða ákvæði þeirra ekki þann heildarrétt sem verkalýðsfélög kunna að hafa samið um. Samkvæmt grein 6.2.1 í kjarasamningi samninganefndar bankanna fyrir hönd banka og sparisjóða og Sambands íslenskra bankamanna frá 3. apríl 1997 skal kona eiga rétt á að vera fjarverandi í sex mánuði vegna barnsburðar og skal fastráðin kona njóta fullra launa fyrstu þrjá mánuðina.

Í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, er kveðið á um að allir skuli jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda, meðal annars án tillits til kynferðis. Í 2. mgr. segir að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna.

Samkvæmt 4. gr. jafnréttislaga skulu konum og körlum greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þar er kveðið á um, að með launum sé átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun, beina eða óbeina, hvort heldur sé með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti og sagt, að með kjörum sé átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur samningsréttindi. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 208/1997 segir um greiðslu launa í fæðingarorlofi: "Ótvírætt verður að telja að greiðslur þær, sem hér er um rætt, falli undir skilgreiningu 4. gr. laga nr. 28/1991." Laun í fæðingarorlofi teljast því til kjara í skilningi 4. gr. jafnréttislaga.

Í 3. gr. jafnréttislaga segir að hvers konar mismunun eftir kynferði sé óheimil. Í lokamálslið sömu greinar segir að það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar.

Hvað varðar rétt til greiðslu launa í fæðingarorlofi hefur RB einkum byggt á því að ekki sé um ólögmæta mismunun að ræða gagnvart kæranda þar sem 3. gr. jafnréttislaga heimili að sérstakt tillit sé tekið til kvenna vegna barnsburðar. Ennfremur sé, m.a. með vísan til tilskipunar Evrópusambandsins, 92/85/EBE, um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti, og sé hluti af EES-samningnum, ekki óeðlilegt að álykta að heimilt sé að taka sérstakt tilliti til kvenna við greiðslu fæðingarorlofs í a.m.k. 14 vikur eftir fæðingu barns.

Í lögum um almannatryggingar er sem fyrr greinir tekið sérstakt tillit til kvenna vegna barnsburðar með því að fyrsti mánuður fæðingarorlofs er af heilsufarsástæðum bundinn móður og samþykki hennar þarf til að koma svo faðir geti tekið einhvern hluta hins sex mánaða orlofs. Hagsmunir móðurinnar eru því vel tryggðir að þessu leyti. Þessi ákvæði almannatryggingalaga útiloka þó ekki að atvinnurekendur geti, með hliðsjón af því svigrúmi sem 3. gr. jafnréttislaga veitir, veitt konum rétt umfram karla með tilliti til barnsburðar. Kærunefnd telur þó að veigamikil rök þurfi að vera fyrir slíkri jákvæðri mismunun og tryggt þurfi að vera að hún stuðli að því að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, en fjöldi kannana sýnir að konur standa þar höllum fæti í samanburði við karla. Á þetta jafnt við um ráðningar og launakjör.

Að mati kærunefndar jafnréttismála stuðla fjarvistir kvenna frá vinnu vegna meðgöngu, barnsburðar og umönnunar barns eftir fæðingu að því að viðhalda lakari stöðu kvenna en karla á vinnumarkaði. Fæðingarorlof feðra þjónar hins vegar þeim tilgangi að jafna fjarvistir mæðra og feðra frá vinnu vegna barnsfæðinga, styrkja tengsl föður og barns og jafna ábyrgð foreldra á barni sínu. Hið nýja tveggja vikna fæðingarorlof feðra gerir foreldrum auk þess kleift að vinna saman að umönnun nýfædds barns og er til þess fallið að létta álagi af móður fyrstu vikurnar eftir fæðingu barns. Fæðingarorlof feðra er því mikilvægt jafnréttismál og er konum ekki síður en körlum til hagsbóta. Það er því þýðingarmikill liður í að auka jafnrétti kynjanna að feður taki í ríkari mæli fæðingarorlof en verið hefur. Ákvæði almannatryggingarlaga um greiðslur til feðra í tveggja vikna fæðingarorlofi stuðla að því að feður taki slíkt orlof. Greiðslur fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga frá Tryggingarstofnun eru þó í flestum tilvikum mun lægri en launatekjur og þessi munur oft svo mikill að hætt er við að foreldrar setji hann fyrir sig og feður nýti ekki rétt til töku fæðingarorlofs. Kjarasamningsákvæði sem tryggja feðrum laun í fæðingarorlofi eru þannig mun betur til þess fallin að hvetja feður til þess að taka fæðingarorlof. Slík ákvæði stuðla einnig að því að tryggja í reynd frelsi foreldra til að ákveða hvernig þau eigi að skipta með sér fæðingarorlofinu.

Lög um almannatryggingar tryggja feðrum aðeins rétt til greiðslu frá Tryggingarstofnun í 14 daga á fyrstu 8 vikum eftir fæðingu eða heimkomu barns. Með hliðsjón af 15. og 16. gr. má ætla að þessi greiðsla sé bundin því skilyrði að faðirinn eigi ekki rétt á launagreiðslum frá atvinnurekanda í umræddu orlofi. Réttur föður til frekara fæðingarorlofs er háður samþykki móður.

Í þessu máli er um það að ræða að kjarasamningur banka og sparisjóða og Sambands íslenskra bankamanna frá 3. apríl 1997 veitir konum, sem samningurinn tekur til, rétt til launa í þriggja mánaða fæðingarorlofi. A, sem fær greidd laun eftir þessum kjarasamningi, nýtti sér lögvarinn rétt sinn til töku 14 daga fæðingarorlofs á fyrstu átta vikunum eftir fæðingu barns síns. Eiginkona hans tók sex mánaða orlof og fékk á þeim tíma greidd laun frá öðrum atvinnurekanda. Þau voru því samtímis í fæðingarorlofi í umrædda 14 daga. A hefur verið neitað um laun frá atvinnurekanda sínum í þessa 14 daga á þeim grundvelli að kjarasamningur tryggi konum en ekki körlum sem hjá honum starfa þriggja mánaða launað fæðingarorlof.

Kærunefnd telur ekki skipta máli í þessu sambandi að eiginkona A tók 6 mánaða fæðingarorlof á launum frá öðrum atvinnurekanda. Þá skipti heldur ekki máli að einungis feðrum stendur til boða slíkt 14 daga viðbótarorlof enda getur réttur föður til töku fæðingarorlofs aldrei orðið ríkari en réttur móður þar sem fyrsti mánuður fæðingarorlofsins tilheyrir móður. Umræddur 14 daga viðbótarorlofsréttur föður er þannig sjálfstæður réttur sem skerðir á engan hátt fæðingarorlofsrétt móður heldur er fyrst og fremst ætlað að hvetja feður til töku fæðingarorlofs.

Kærunefnd er ljóst að umrætt ákvæði kom inn í kjarasamning áður en hið sérstaka 14 daga fæðingarorlof feðra var fest í lög. Ákvæðið hefur eflaust verið talið konum til hagsbóta á þeim tímum sem ekki þótti nein þörf á að feður tækju sér fæðingarorlof. Breyttir tímar og breytt löggjöf þykir hins vegar hafa kollvarpað þeim grundvelli sem ákvæðið er upphaflega reist á.

Með vísan til alls framangreinds er það álit kærunefndar jafnréttislaga að með því að takmarka ákvæði 6.2.1 í kjarasamningi banka og sparisjóða og Sambands íslenskra bankamanna frá 3. apríl 1997 við konur sé ekki verið að vinna að jafnrétti kynja eða að því að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði. Nefndin telur þ.a.l. að sú túlkun rúmist ekki innan þess svigrúms sem 3. gr. jafnréttislaga veitir til jákvæðrar mismununar gagnvart konum. Samkvæmt því er það álit kærunefndar jafnréttismála að synjun Reiknistofu bankanna á að greiða A laun í 14 daga fæðingarorlofi hans, sem eru innan þeirra 3ja mánaða sem ákvæði 6.2.1. kveður á um, mismuni konum og körlum með þeim hætti að ekki samrýmist 1. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, sbr. 4. gr. sömu laga.


Um greiðslu fæðingarstyrks samkvæmt kjarasamningi.

Samkvæmt bókun við fyrrnefndan kjarasamning skal bankinn greiða fæðingarstyrk við barnsburð. Greiðslan skal nema kr. 34.003. Í upplýsingabæklingi um fæðingarorlof, sem gefinn var út af SÍB í ársbyrjun 1998, er fjallað um fæðingarstyrk við barnsburð og segir þar m.a. í lið 5.5: "Í kjarasamningum í febrúar 1989 var samið um að greiða fæðingarstyrk við barnsburð. (Hann er birtur með launatöflu SÍB). Hann er eingreiðsla sem greiðist um leið og fæðingarvottorð berst starfsmannahaldi. Konur í hlutastarfi fá einnig fullan fæðingarstyrk ." Af þessu má ráða að stéttarfélagið telji að fæðingarstyrkur sé eingöngu ætlaður konum. Rétt er að taka fram að þessi fæðingarstyrkur er eingreiðsla frá atvinnurekanda og annars eðlis en fæðingarstyrkur samkvæmt 15. gr. laga um almannatryggingar.

Fæðingarstyrkur er greiddur konum í upphafi fæðingarorlofs. Greiðslan er óháð því hvort kona tekur fullt fæðingarorlof eða ekki. Á þeim tíma nýtur konan fullra launa frá atvinnurekanda. Hún ávinnur sér orlofsrétt og önnur þau réttindi sem starfi fylgja á meðan að fæðingarorlof varir. Ekkert liggur fyrir um í máli þessu að fæðingarstyrknum sé ætlað að mæta tekjutapi, skertum möguleikum á launahækkunum eða öðrum kjarabótum sem fjarvera frá vinnustað getur óhjákvæmilega haft í för með sér. Líta verður því svo á að greiðsla fæðingarstyrks sé kjarauppbót sem greidd er við tilteknar aðstæður starfsmanns vegna sérstakra útgjalda sem þá óhjákvæmilega verða hjá starfsmanni.

Það er álit kærunefndar að kostnaður vegna fæðingar barns hljóti að jafnaði að lenda á föður jafnt sem móður, búi faðirinn á heimili barnsins. Nefndin telur ennfremur að fæðingarstyrkurinn falli ekki undir ákvæði lokamálsliðar 3. gr. jafnréttislaga, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga, enda þeir hagsmunir sem ákvæðið verndar nægjanlega tryggðir með ákvæði kjarasamningsins um þriggja mánaða launað fæðingarorlof. Það er því álit nefndarinnar að sú ákvörðun RB að túlka umrædda bókun með kjarasamningi þannig að hún tryggi konum en ekki körlum þennan rétt samrýmist ekki 1. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til Reiknistofu bankanna að kæranda verði greiddur fæðingarstyrkur og laun í 14 daga fæðingarorlofi hans. 
 


Sigurður Tómas Magnússon

Hjördís Hákonardóttir

Gunnar Jónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum