Hoppa yfir valmynd
9. september 2000 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 19/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 19/1999:

 

A

gegn

landbúnaðarráðherra

--------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 9. september 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með bréfi dags. 7. desember 1999 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála, að hún kannaði og tæki afstöðu til þess, hvort lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislög, hefðu verið brotin við skipun í stöðu héraðsdýralæknis Borgarfjarðar- og Mýraumdæmis, en í stöðu þessa var skipað í nóvember 1999. Erindi kæranda fylgdu ýmis gögn, m.a. umsókn kæranda um stöðuna, starfs- og námsferill.

Erindi kæranda var kynnt kærða, landbúnaðarráðherra, með bréfi dags. 16. desember 1999. Var þar m.a. með vísan til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 28/1991 óskað upplýsinga um fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna, menntun og starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem skipaður var, hæfnisröð umsækjenda, hvað hafi ráðið vali þess sem skipaður var, fjöldi og kyn þeirra sem skipaðir eru í stöður héraðsdýralækna, auk annarra upplýsinga.

Með bréfi landbúnaðarráðuneytisins, dags. 10. janúar 2000, ásamt fylgiskjölum, komu fram svör við framangreindum fyrirspurnum ásamt athugasemdum ráðuneytisins við erindi kæranda.

Með bréfi dags. 17. janúar 2000 var kæranda kynnt erindi ráðuneytisins, dags. 10. janúar 2000, og óskað umsagnar kæranda. Var sú umsögn veitt með bréfi dags. 2. febrúar 2000, þar sem athugasemdir voru gerðar við fyrrgreint erindi ráðuneytisins. Með bréfi dags. 14. mars 2000 var landbúnaðarráðuneytinu gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkomin sjónarmið kæranda og komu þær athugasemdir ráðuneytisins fram í erindi dags. 24. mars 2000. Var kæranda á ný gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum með bréfi dags. 27. mars 2000 og bárust þær með bréfi dags. 4. apríl 2000. Vegna þeirra athugasemda var landbúnaðarráðuneytinu með bréfi dags. 6. apríl 2000 gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum, og bárust þau með bréfi dags. 13. apríl 2000.

Með lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem tóku gildi 22. maí 2000, ákvæði til bráðabirgða, féll umboð þáverandi kærunefndar jafnréttismála niður, en nefndin hafði þá ekki lokið umfjöllum um mál þetta. Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð hinn 25. júlí 2000 og tók hún þá við meðferð máls þessa. Álit þetta er veitt á grundvelli laga nr. 28/1991, sem í gildi voru á þeim tíma þegar tilvísuð skipun átti sér stað.

Þykja sjónarmið málsaðila hafa komið nægjanlega fram í skriflegum athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar, og var ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavextir

Með auglýsingu sem birtist m.a. í Morgunblaðinu 19. september 1999 auglýsti landbúnaðarráðneytið laus til umsóknar embætti héraðsdýralækna skv. 11. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, en lögin áttu að taka gildi hinn 1. desember 1999. Var m.a. auglýst laust til umsóknar embætti héraðsdýralæknis í Borgarfjarðar- og Mýraumdæmi. Fyrir liggur að um embættið sóttu þrír aðilar, kærandi, B og C. Einn umsækjenda, B, var skipaður í embætti héraðsdýralæknis í Gullbringu- og Kjósarumdæmi, og stóðu þá eftir tveir umsækjendur. Var C skipaður í stöðu héraðsdýralæknis Borgarfjarðar- og Mýraumdæmis frá og með 1. desember 1999.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt, að landbúnaðarráðherra hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislögum, nr. 28/1991, við skipun í stöðu héraðsdýralæknis Borgarfjarðar- og Mýraumdæmis, auk þess sem stjórnsýslulög hafi verið sniðgengin. Kærandi vísar til þess að hún hafi haft meiri starfsaldur og menntun en karl sá sem skipaður var í umrædda stöðu, C.

Fram kemur í umsókn kæranda um stöðuna, að hún hafi lokið búfræðinámi frá Hvanneyri árið 1969, stúdentsprófi árið 1973, og lokið dýralæknaprófi frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1981. Fyrir liggur að kærandi fór í námsleyfi árið 1992 og hlaut mastersgráðu frá Háskólanum í Sydney í Ástralíu, í geislunarfræðum dýra, í ágúst árið 1993. Kærandi hefur að auki sótt ýmis námskeið, bæði hérlendis og erlendis.

Að loknu námi í dýralækningum starfaði kærandi m.a. á Nýja Sjálandi, á árunum 1982-1983. Eftir það hafi hún komið hingað til lands og hafi starfað nær óslitið síðan sem héraðsdýralæknir. Fyrst starfaði kærandi sem héraðsdýralæknir í Strandasýslu, frá árinu 1983, auk þess sem hún hafi verið heilbrigðisfulltrúi frá árinu 1985. Frá hausti 1989 leysti kærandi af hólmi héraðsdýralækninn í Búðardal, í eitt ár, en varð héraðsdýralæknir Þingeyjarumdæmis vestra frá árinu 1991 til 1996. Á árinu 1996 tók kærandi við tímabundinni ráðningu sem héraðsdýralæknir Hvolsvallarumdæmis og gegndi því starfi til 1. maí 1999. Hugðist kærandi þá fara í námsleyfi, en af því varð ekki vegna veikinda.

Af hálfu kæranda er á það bent, að hún hafi haft meiri menntun og starfsreynslu en sá sem stöðuna hlaut, auk þess sem hún hafi sótt mun fleiri námskeið og fræðslufundi en viðkomandi. Telur kærandi að hún hafi starfað nánast samfleytt við héraðsdýralæknastörf frá árinu 1983, er hún lauk dýralæknanámi, utan þess námleyfis sem áður er getið, og nokkurra mánaða leyfis sem hún hafi tekið frá hausti 1990 og fyrsta ársfjórðung 1991, en þá hafi hún beðið þess að nýtt embætti losnaði. Telur kærandi sig þá ekki hafa tekið sumarleyfi undanfarin tvö ár. Telur kærandi að tilfærslur milli embætta hafi verið að rekja til þess, að hún hafi, þegar færi hafi gefist, fært sig til betri svæða og betri embætta, en algengt sé að dýralæknar byrji í erfiðari umdæmum en færi sig með þessum hætti milli svæða.

Í umsögn sinni til nefndarinnar rekur kærandi, að hún hafi veikst í maí 1999 og hafi hún af þeim sökum verið lögð inn á spítala í júlí s. ár, og hafi hún að mati lækna verið óvinnufær fram til 1. nóvember 1999, sbr. vottorð sem kærandi hefur lagt fram, dags. 23. nóvember 1999. Telur kærandi að í samtali við landbúnaðarráðuneytið hinn 10. nóvember 1999 hafi verið óskað eftir nýju veikindavottorði fyrir kæranda, en kærandi fullyrðir, að ekki hafi verið rætt um orsök veikinda sinna, líðan, starfshæfni eða hvort kærandi væri enn í veikindaforföllum. Hafi hún samdægurs leitað til læknis, en vottorð mun hins vegar ekki hafa verið gefið út fyrr en 23. nóvember 1999.

Loks vekur kærandi athygli á því, að þrjár konur hafi fengið embætti héraðsdýralækna hinn 1. desember 1999, á Vestfjörðum, í Búðardal og á Suðurlandi, en í tveimur fyrrgreindu tilvikunum hafi þær verið einu umsækjendurnir.

 

IV.

Sjónarmið landbúnaðarráðherra

Af hálfu landbúnaðarráðherra er á því byggt, að sá sem skipaður var, C, hafi verið talinn hæfari en kærandi. Hæfni umsækjenda skipti höfuðmáli við skipun í starf, og þar sem ekki hafi verið um að ræða jafn hæfa einstaklinga, væri ekki unnt að beita 2. gr. laga nr. 28/1991, sem fjallar um tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu kvenna.

Fram kemur í umsögn landbúnaðarráðherra, dags. 10. janúar 2000, að það sem ráðið hafi vali umsækjanda, C, hafi fyrst og fremst verið hæfni umsækjanda, stöðugleiki í starfi, auk námskeiða sem umsækjandi hafi sótt. C hafi haft mun betri starfsreynslu, auk þess sem hann hafi sótt fjölda námskeiða og aukið við menntun sína, reynst vel í starfi og stöðugleiki hafi einkennt störf hans. Stöðugleiki hafi ekki einkennt störf kæranda, og var í þessu sambandi vísað til sundurliðunar á starfsferli. Á það var bent, að um nýtt embætti hafi verið að ræða og þeir aðilar sem kæmu til starfa gengju inn í nýtt kerfi sem ekki hafi verið áður við lýði.

Í erindi ráðuneytisins kemur jafnframt fram, að er ráðuneytið hafi haft umsóknir til skoðunar, hafi verið haft samband við kæranda til að athuga hagi hennar, þar sem hún hafi verið veik frá 1. maí 1999. Hafi kærandi upplýst að hún væri ennþá veik og myndi skila inn læknisvottorði. Í læknisvottorð, sem dags. hafi verið 23. nóvember 1999, hafi komið fram að kærandi hafi verið vinnufær frá 1. nóvember 1999. Af þessum sökum telji ráðuneytið, að trúverðugleiki veikindavottorðs kæranda og viðkomandi aðila í starfi sé umhugsunarverður. Vilji hafi hins vegar verið til staðar til að skipa aðila sem gat sinnt embættinu frá 1. desember 1999, þ.e. hafið störf strax, til að taka þátt í öllum þeim undirbúningi sem ætti sér stað við mótun nýrra starfa.

Ráðuneytið hefur gefið út erindisbréfi til héraðsdýralækna í samræmi við 6. mgr. 11. gr. laga nr. 66/1998, sem dags. er 24. nóvember 1999, þar sem starfi héraðsdýralækna og starfsskyldum er lýst.

Af hálfu ráðuneytisins hefur verið upplýst, að við embætti héraðsdýralækna starfi 17 manns, þar af séu 3 konur en 14 karlar. Um þær stöður sem auglýstar voru lausar til umsóknar hafi 25 sótt um, 7 konur og 18 karlmenn. Í Austurlandsumdæmi hafi tveir sótt um stöðu, karl og kona, en konan sem boðin var staðan, hafi fallið frá umsókn sinni. Á tveimur stöðum hafi karlar verið valdir fram yfir konur, þ. á m. í Mýra- og Borgarfjarðarumdæmi.

 

V.

Niðurstaða

Það er álit kærunefndar jafnréttismála, að tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 hafi verið að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Í því skyni skyldi sérstaklega bæta stöðu kvenna. Val atvinnurekenda á starfsmönnum hefur mikla þýðingu við jöfnun stöðu kynjanna, og voru þeim því lagðar skyldur á herðar að þessu leyti.

Skv. 6. gr. laganna var óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gilti það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf og um stöðubreytingar. Atvinnurekandi skyldi, ef máli var vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. var kveðið á um að öll laus störf skyldu standa opin jafnt konum sem körlum.

Í 8. gr. var að finna mikilvægar leiðbeiningar um hvaða þætti bæri að leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda um starf en þar var tilgreind menntun, starfsreynsla og aðrir sérstakir hæfileikar. Túlka verður jafnréttislögin nr. 28/1991 svo að ef umsækjendur af gagnstæðu kyni teljast ámóta hæfir, þá skyldi ráða umsækjanda sem er af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Tilgangi laganna verði ekki náð með öðrum hætti, sbr. 1. gr., 1. ml. 3. gr. og 5. gr. laga nr. 28/1991.

Líta verður svo á, að við mat á hæfni umsækjenda um opinbert starf, skuli sá sem stöðuna veitir leggja til grundvallar þau atriði, sem talið er að varpi ljósi á hæfni umsækjenda til að gegna því starfi sem um ræðir. Ræðst það af aðstæðum í hverju tilfelli hvaða sjónarmið leggja skal til grundvallar, en við það mat ber að taka tillit til málefnalegra sjónarmiða í samræmi við stjórnsýslulög og jafnréttislög, hér lög nr. 28/1991.

Af hálfu landbúnaðarráðherra hefur verið á því byggt, að við röðun umsækjenda hafi einkum verið litið til hæfni þeirra, stöðugleika í starfi auk námskeiða sem umsækjendur hafi farið á. Þar að auki var sérstaklega á það bent af hálfu landbúnaðarráðherra, að litið hafi verið svo á, er staðan var veitt, að kærandi hafi verið óvinnufær vegna veikinda, og að það hafi haft áhrif á ákvörðun ráðuneytisins við val milli umsækjenda.

Fyrir liggur í málinu, að í fylgiskjali með umsókn kæranda kemur fram, að kærandi hafi áætlað að taka námsleyfi frá júní 1999, en vegna veikinda frá maí s. ár, hafi hún ekki getað hafið námsleyfi. Þá liggur fyrir sjúkradagpeningavottorð frá 30. júlí 1999, þar sem fram kemur, að kærandi sé óvinnufær og verði það um óákveðinn tíma. Engu að síður sótti kærandi um stöðuna með umsókn dags. 19. október 1999, í samræmi við auglýsingu um lausar stöður héraðsdýralækna, sem veita átti frá 1. desember 1999. Aðila greinir á um efni símtals milli landbúnaðarráðuneytisins og kæranda í nóvember 1999, er umrædd veikindi báru á góma. Hvernig sem því símtali var háttað verður að líta svo á, að landbúnaðarráðneytinu hafi borið að leita eftir því með afdráttarlausari hætti hjá kæranda, hvort hún treysti sér til að taka við umræddri stöðu frá 1. desember, hafi það atriði átt að ráða úrslitum um val milli umsækjenda. Verður því ekki fallist á að leggja hafi mátt þetta sjónarmið til grundvallar eins og hér stóð á.

Svo sem áður greinir átti hæfni umsækjenda að ráða úrslitum við skipun í stöðuna, einkum stöðugleiki í starfi og námskeið sem umsækjendur hefðu sótt.

Í dómi Hæstaréttar frá 5. nóvember 1998 kemur fram það mat réttarins, að menntun og starfsreynsla kæranda teldist eftir almennum mælikvaðra hafa skipað henni skör framar en C, er skipað var í stöðu héraðsdýralæknis Mýrasýsluumdæmis í mars 1994. Ekki verður séð að þátttaka í námskeiðum eða starfsreynsla frá þeim tíma og fram til ársins 1999, hafi í neinu verulegu breytt framangreindri stöðu, a.m.k. ekki svo, að C teldist þá að þessu leyti hæfari en kærandi.

Að því er varðar stöðugleika í starfi verður ekki séð, að landbúnaðarráðherra hafi fært fyrir því málefnaleg rök, að þær breytingar sem orðið hafa á starfsstöðvum kæranda frá árinu 1983 eigi sér ekki eðlilegar skýringar, eða að þær hafi leitt til þess að draga megi í efa hæfni kæranda til að gegna umræddu embætti.

Óumdeilt er, að konur eru í minnihluta í hópi héraðsdýralækna hér á landi, en eingöngu þrjár konur gegna embættum héraðsdýralækna af 17 sem skipað er í skv. l. nr. 66/1998. Bar landbúnaðarráðherra því að gæta þess við skipun í embætti héraðsdýralæknis í Borgarfjarðar- og Mýraumdæmi, að velja konu, enda teldist hún a.m.k. jafn hæf og karlkyns umsækjandi.

Með vísan til framanritaðs, er það álit kærunefndar, að landbúnaðarráðherra hafi með skipun C í embætti héraðsdýralæknis í Borgarfjarðar- og Mýraumdæmi brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. nú 24. gr. laga nr. 96/2000.

Þeim tilmælum er beint til landbúnaðarráðherra að fundin verði lausn sem kærandi getur sætt sig við.

 

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Stefán ÓIafsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum