Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2012 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/2012

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Akureyrarbæ

 

Launamismunur.

Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum þar sem hún taldi karlmann sem hún bar sig saman við njóta betri starfskjara. Talið var að mismunur í starfskjörum þeirra ætti sér málefnanlegar ástæður og því væri ekki um brot að ræða á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 9. nóvember 2012 er tekið fyrir mál nr. 5/2012 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með bréfi dagsettu 20. júní 2012, óskaði Jafnréttisstofa eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki mál A til meðferðar með vísan til 5. mgr. 4. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Beiðnin ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsett 27. júní 2012 og var í kjölfarið veittur frestur til andsvara fram í ágúst vegna sumarleyfa. Greinargerð og upplýsingar frá kærða bárust með bréfi dagsett 15. ágúst og tölvubréfi dagsett 6. september 2012 sem sent var kæranda til kynningar.
  4. Frekari athugasemdir frá kæranda bárust með bréfi dagsett 19. september og var kærða gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri, sem kærði gerði með bréfi dagsettu 8. október 2012.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR
  6. Kærandi leitaði til Jafnréttisstofu í byrjun árs 2012 þar sem hún taldi til að dreifa kynbundnum launamun, mismunun í tækifærum til endurmenntunar og starfsaðstæðna hjá Slökkviliði Akureyrar. Hjá slökkviliðinu starfa 28 starfsmenn, 25 karlar og þrjár konur. Kærandi gegnir starfi verkefnastjóra í eldvarnareftirliti og ber kjör sín saman við kjör karlmanns er hóf þar störf sem verkefnastjóri 1. september 2010. Kærandi hefur starfað hjá Slökkviliði Akureyrar frá 2007. Hún var um tíma almennur eldvarnareftirlitsmaður en eftir að breyting var gerð á skipuriti starfar hún sem verkefnastjóri.
  7. Með bréfi 28. mars 2012 óskaði Jafnréttisstofa eftir upplýsingum um ýmis atriði varðandi launakjör kæranda og umrædds starfsmanns. Greinargerð bæjartæknifræðings og slökkviliðsstjóra til Jafnréttisstofu er dagsett 18. apríl 2012. Með bréfi, dags. 15. júní 2012, lét Jafnréttisstofa kæranda í té það álit að rökstuddur grunur væri um að Slökkvilið Akureyrar hefði brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, m.a. 19. gr., 2. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 26. gr. Í kjölfarið óskaði Jafnréttisstofa svo eftir því 20. júní að kærunefnd jafnréttismála tæki málið til meðferðar.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  8. Kærandi leitaði til Jafnréttisstofu og óskaði aðstoðar við að kanna hvort um kynbundinn launamun, sérstaklega vegna mismununar varðandi tækifæri eða möguleika á yfirvinnu, mismunun við starfsaðstæður og tækifæri til símenntunar eða endurmenntunar væri að ræða á vinnustað hennar. Hún benti meðal annars á að karl sem ráðinn var við hlið hennar sem verkefnastjóri eldvarnaeftirlits hjá kærða, hafi verið með hærri laun en hún vegna fleiri tækifæra og möguleika til að auka við laun sín með yfirvinnu og fræðslustörfum, án þess að það væru fyrir því málefnalegar skýringar.
  9. Jafnréttisstofa mat upplýsingar frá kæranda þannig að ástæða væri til að kanna málið nánar. Taldi stofnunin að um rökstuddan grun um brot gegn nokkrum ákvæðum laga nr. 10/2008 gæti verið að ræða, sbr. 5. mgr. 4. gr. laganna og ritaði kærða bréf af því tilefni 28. mars 2012. Svarbréf barst stofunni, ásamt ítarlegum gögnum, dagsett 18. apríl 2012.
  10. Jafnréttisstofa féllst ekki á skýringar kærða heldur taldi að upplýsingarnar sem fram komu í bréfinu renndu frekari stoðum undir að mögulega hafi verið brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga, sér í lagi 19. gr., 2. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 26. gr., sbr. einnig 1. mgr. 18. gr. og óskaði eftir því að kærunefnd jafnréttismála tæki málið til meðferðar.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA
  11. Kærði tók fram að svör hans tækju mið af 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hann gerði grein fyrir hvernig kærandi og samstarfsmaður hennar raðast í launaflokka og kom fram að lítill munur væri á þeim í þeim efnum.
  12. Hvað varði mun á yfirvinnu í tengslum við eldvarnareftirlit á milli kæranda og samstarfsmanns hennar skýrist sá munur aðallega af því að 14 tímar hjá samstarfsmanninum hafi verið vegna námskeiðs sem hann sat í Reykjavík á þessum tíma. Kærandi hafi tekið sama námskeið árið 2007.
  13. Kærði rekur að yfirvinnu hjá slökkviliðinu almennt sé hægt að skipta í þrjá flokka, yfirvinnu vegna útkalla slökkviliðsins, æfinga hlutastarfandi slökkviliðsmanna og yfirvinnu vegna flugvallarfræðslu á landinu öllu sem kærði vinni í verktöku fyrir þriðja aðila, Isavia.
  14. Kærði áréttar að yfirvinna vegna útkalla hafi eðlilega verið meiri hjá samstarfsmanni kæranda enda gangi hann sem fullmenntaður slökkviliðsmaður og með mikla reynslu bakvaktir fyrir kærða. Útköll skiptist þannig að 24 af 27 tímum samstarfsmannsins komi til vegna útkalla hans sem slökkviliðsstarfsmanns af bakvakt. Þrír tímar séu vegna vinnu á stöð vegna lagfæringa í tölvumálum og fleira á varðstofu. Útkallstímar kæranda á þessum sama tíma skiptist í 12,5 tíma vegna útkalla og 12 tíma vegna vinnu við dagbókaryfirferð.
  15. Kærði bendir á að yfirvinna samstarfsmannsins vegna æfinga sé vegna sérhæfingar hans og verkefna tengdum fræðslu til hlutastarfandi slökkviliðsmanna liðsins sem og liðsins sjálfs. Yfirvinna vegna flugvallarfræðslu sé sérverkefni samstarfsmannsins vegna menntunar hans og þekkingar. Kærandi hafi fengið tækifæri til að fara með í eina slíka ferð, henni til kynningar sem sjáist á hennar 62 tímum. Á þeim tíma hafi kærandi ekki verið búin með nám atvinnuslökkviliðsmanns, en verkkaupi geri ríka kröfu til þess að þeir sem þessu sinni séu fullmenntaðir með góða þekkingu og reynslu gagnvart flugvöllum og flugvernd. Þess beri að geta að verkkaupi hafi gert athugasemdir við að kærði hafi sent óreynt og ómenntað fólk í flugvallarfræðsluna. Í kjölfarið hafi þjónustan verið sett í fastar skorður með reyndum starfsmönnum.
  16. Kærði bendir á að munurinn á þeirri yfirvinnu kæranda og samstarfsmanns hennar sem tengist eldvarnareftirliti skýrist aðallega vegna þeirra verkefna sem unnið sé að hverju sinni. Tíu af tímum samstarfsmannsins hafi verið vegna kennslu, sem hvort um sig hefði getað sinnt. Í þremur tilfella hafi kærandi verið á atvinnunámskeiði þegar kennslunnar var óskað og því ekki tiltæk og í tvö skipti hafi hún neitað vinnunni. Hjá samstarfsmanninum séu 16 tímar vegna þjálfunar í Hrísey. Á þessu ári hafi kærandi verið frá í um þrjá mánuði vegna vetrarfrís, atvinnunáms og starfsnáms á vöktum og hafi þar af leiðandi ekki haft eins mikil tök á að taka að sér yfirvinnu. Yfirvinna vegna slökkviliðs sé sundurliðuð þar sem hún tengist ábyrgðarsviði hvors aðila fyrir sig.
  17. Kærði rekur að meginþorri þeirrar yfirvinnu sem falli til vegna slökkviliðs sé vegna flugvallarfræðslu og kennslu til hlutastarfandi slökkviliðsmanna. Það séu verkefni sem samstarfsmaðurinn hafi haft með höndum og því skapist þetta ójafnvægi. Engu að síður fái kærandi 18 tíma þar sem hún sé sjálf við nám vegna réttinda sem atvinnuslökkviliðsmaður. Réttindin hafi hún fengið vorið 2011.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  18. Kærandi bendir á að kærði hafi einungis tekið afstöðu í málflutningi sínum til launa- og yfirvinnu en kvartanir kæranda snúist ekki einungis að launamismun heldur einnig möguleikum á því að afla sér betri réttinda, starfsþjálfunar, endurmenntunar og símenntunar. Möguleikar allra, óháð kyni, eigi að vera þeir sömu hvað það varðar.
  19. Kærandi bendir á að í málflutningi kærða komi fram um yfirvinnu að þegar samstarfsmaður hennar hafi komið til starfa 1. september 2010 hafi hann verið ráðinn sem verkefnisstjóri og hafi þá kærandi fengið stöðuhækkun í verkefnisstjórastöðu. Kærandi gerir athugasemd við þann málflutning þar sem kærandi hafi fengið starfsheitið verkefnisstjóri þann 1. nóvember 2009, hún hafi fengið hún launaleiðréttingu þann 1. maí 2010 afturvirkt til 1. nóvember 2009. Ástæða þess hafi verið að breyting var gerð á skipuriti kærða árið 2009. Þá hafi verið lagt niður starf yfireldvarnareftirlitsmanns og hafi þá orðið til tvö stöðugildi verkefnisstjóra í eldvarnareftirliti. Staða verkefnastjóranna í skipuritinu sé jöfn og heyri bæði stöðugildin beint undir slökkviliðsstjóra.
  20. Kærandi áréttar að útkallstímar hennar hafi verið 12 en ekki 24,5. Í málflutningi kærða komi fram að yfirvinna vegna útkalla hafi verið meiri hjá samstarfsmanni hennar þar sem hann sé fullmenntaður slökkviliðsmaður og með mikla reynslu enda hafi hann gengið bakvaktir. Kærandi vekur athygli á því að samstarfsmaður hennar hafi verið ráðinn sem verkefnastjóri eldvarnareftirlits. Hann hafi mjög fljótlega farið inn á bakvaktir með tilheyrandi yfirvinnugreiðslum. Á sama tíma hafi kærandi óskað eftir að fara á bakvaktir en hafi verið neitað og hafi kærandi ítrekað ósk sína munnlega við yfirmann í maí, júni og október 2011 en ávallt hafi henni verið neitað með mismunandi rökum.
  21. Í málflutningi kærða sé fullyrt að yfirvinna samstarfsmanns hennar vegna æfinga hafi verið vegna sérhæfingar hans og verkefna tengdum fræðslu til hlutastarfandi slökkviliðsmanna. Kærandi bendi á að hún hafi ekki fengið tækifæri til að koma að þessari vinnu og hafi þar af leiðandi ekki getað aflað sér þekkingar né reynslu sem hefðu gefið henni möguleika á að koma að þessum æfingum.
  22. Ennfremur haldi kærði því fram að yfirvinna samstarfsmanns hennar vegna flugvallarfræðslu hafi verið sérverkefni hans vegna menntunar og sérþekkingar. Kærandi hafi ekki fengið nein tækifæri til að afla sér þekkingar eða reynslu í þessum fræðum þrátt fyrir að hafa óskað eftir því við yfirmann frá vormánuðum 2009 að koma inn í þessa fræðslu. Áður en þessi fræðsla hafi farið í fastar skorður hafi hinir ýmsu slökkviliðsmenn verið að sinna þessu verkefni, þeir hafi jafnvel verið með sömu eða minni menntun en kærandi. Verkkaupi/flugvallaryfirvöld hafi ekki gert athugasemdir fyrr en um mitt ár 2010 um tilhögun fræðslunnar þannig að það hafi verið nægur tími frá því á vormánuðum 2009 fram á haustið 2010 til auka þekkingu kæranda á þessum starfsvettvangi.
  23. Kærandi gerir athugasemd við umfjöllun kærða um yfirvinnu tengda eldvarnareftirliti. Í þau tvö skipti sem nefnt sé að kærandi hafi hafnað vinnu hafi það verið borið undir hana að kenna á námskeiði með mjög stuttum fyrirvara. Í seinna tilvikinu hafi ósk um kennslu á námskeiði legið hjá samstarfsmanni hennar í viku en þetta hafi ekki verið nefnt við hana fyrr en á síðustu stundu. Einnig þyki kæranda athyglisvert að sjá að kærði nefni vetrarfrí þar sem kærandi eigi ekki rétt á vetrarfríi eins og samstarfsmaður hennar virðist hafa. Að mati kæranda komi þarna fram enn eitt misræmið á milli aðila sem gegni sömu stöðu. Eðlilegt sé að kærunefnd jafnréttismála kanni hvort samstarfsmaður hennar hafi átt rétt á vetrarfríi á þessum tíma og þá á hvaða forsendum.
  24. Kærandi áréttar að samstarfsmaður hennar hafi verið ráðinn til kærða sem verkefnastjóri. Kærandi hafi ekki fengið tækifæri til að sinna þessu starfi þrátt fyrir að vera með menntun sem atvinnuslökkviliðsmaður og nám í stjórnun frá endurmenntun Háskóla Íslands og Lögregluskóla ríkisins ásamt því að hafa starfað í lögreglunni í 15 ár, þar af varðstjóri í fimm ár áður en hún hafi hafið störf hjá slökkviliðinu.
  25. Kærandi leggur á það áherslu að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla leggi ákveðnar skyldur á herðar vinnuveitendum eins og kærða. Þeir skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þannig hafi kærða borið að vinna markvisst að slíkri jöfnun á þeim vinnustað sem kærandi og samstarfsmaður hennar unnu saman á þannig að þau gætu átt sömu möguleika til launaðrar vinnu. Svo virðist sem kæranda hafi ekki verið treyst til þess að afla sér viðbótarþekkingar þar sem hún sé kona.
  26. Að mati kæranda sé það brot á jafnréttislögum þegar konu sé mismunað þannig gagnvart karli í sömu stöðu að hún fái einungis brot af þeirri yfirvinnu og þeim bakvöktum sem í boði eru. Ef vinnuveitandi telji að viðkomandi starfsmann vanti upp á reynslu eða þekkingu beri honum að sjá til þess að starfsmaðurinn geti aflað sér slíkrar menntunar eða starfsreynslu til þess að hann þannig geti í framtíðinni setið við sama borð og aðrir starfsmenn í sömu stöðu, sbr. 20. gr. jafnréttislaga.
  27. Þá sé hvers konar mismunun á grundvelli kyns, bæði bein eða óbein, óheimil. Sá gríðarlega mikli launamunur sem hafi verið á launum kæranda og samstarfsmanni hennar segi í raun allt sem segja þurfi um brot kærða. Skýringar kærða á þeim mikla launamun séu léttvægar og þær samrýmist heldur á engan hátt þeim skyldum sem hvíli á kærða sem vinnuveitanda þess efnis að hann eigi að gefa starfsmönnum sömu tækifæri og megi ekki mismuna þeim eftir kynjum.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA
  28. Kærði áréttar að kæranda hafi ekki verið mismunað í yfirvinnu. Þvert á móti hafi verið markvisst unnið í því að bæta aðstöðu kæranda til möguleika á yfirvinnu með menntun sem atvinnuslökkviliðsmaður en þeim áfanga hafi hún náð sumarið 2011.
  29. Kærði tiltekur að samstarfsmaður kæranda sé með mikla reynslu og menntun og hafi því verið valinn til að standa bakvaktir. Hafi það alls ekkert með kyn að gera. Kærði rekur að samstarfsmaður kæranda hafi starfað sem slökkviliðsmaður í rúm 13 ár, verið aðstoðarslökkviliðsstjóri í fimm ár og slökkviliðsstjóri í tíu ár. Hann hafi einnig umfangsmikla sérþekkingu í stjórnunar- og slökkvifræðum sem hann hafi öðlast með þátttöku í fjölda námskeiða hjá aðilum eins og Brunamálaskólanum, Sjúkraflutningaskólanum, Fortbildning Brandmastare Radningsverked Sandö og Emergency Service College.
  30. Til samanburðar rekur kærði að kærandi hafi orðið atvinnuslökkviliðsmaður árið 2011 og hafi tekið þátt í sjö námskeiðum á vegum Brunamálaskólans og Sjúkraflutningaskólans.
  31. Kærði byggir á því að hann hafi lagt sig fram við að mæta þörfum kæranda og kröfum til menntunar og launabóta. Kærði nefnir sem dæmi að sú breyting sem hafi verið gerð á eldvarnareftirliti að hafa þar verkefnastjóra í stað eldvarnareftirlitsmanns, hafi falið í sér stöðuhækkun fyrir kæranda. Kærði vísar til breytinga á skipuriti árið 2010 þar sem fram komi að eftir breytinguna séu tvö jafngild stöðugildi hjá eldvarnareftirliti.
  32. Kærði mótmælir því að samstarfsmaður kæranda hafi hlotið það hlutverk að sinna aukaverkum einungis á þeim grunni að hann sé karlmaður. Taka verði tillit til þess að mikill munur sé á menntun og reynslu hans og hennar, og að einungis málefnalegar ástæður hafi verið hafðar til hliðsjónar við útdeilingu verkefna.

    NIÐURSTAÐA
  33. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samkvæmt 19. gr. skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns.  Ef leiddar eru líkur að því að karl og kona sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna.
  34. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
  35. Kærði skiptir yfirvinnu kæranda og þess er kærandi ber sig saman við í þrjá flokka, yfirvinnu vegna útkalla, vegna æfinga og við flugvallarfræðslu.
  36. Kærandi fékk greidda færri yfirvinnutíma vegna útkalla en sá er hún ber sig saman við og hefur kærði skýrt það með því að karlmaðurinn gangi bakvaktir yfirmanna. Almennt séu það þeir er gegni stöðum slökkviliðsstjóra, aðstoðarslökkviliðsstjóra og aðalvarðstjóra sem gangi bakvaktir en einnig hafi mönnum með mikla þekkingu af stjórnun á eldstað verið falið að ganga vaktir. Sá er kærandi ber sig saman við hafi starfað lengi við slökkvistörf en mikilvægt sé að þeir sem gangi bakvaktir hafi víðtæka þekkingu og reynslu af útköllum. Gögn málsins sýna að sá sem kærandi ber sig saman við hefur umtalsverða starfsreynslu sem slökkviliðsmaður umfram kæranda. Verður þannig að telja að hlutlægar og málefnalegar ástæður búi að baki ákvörðun kærða um að fela karlmanninum að ganga bakvaktir en kæranda ekki.
  37. Samkvæmt yfirliti kærða vann sá er kærandi ber sig saman við yfirvinnu vegna æfinga gagnstætt því sem gildir um kæranda. Skýrir kærði það með því að um sé að ræða vinnu hans vegna sérhæfingar hans og verkefna tengdum fræðslu til hlutastarfandi slökkviliðsmanna og til liðsins sjálfs. Með vísun til þess er að framan greinir um starfsreynslu þess er kærandi ber sig saman við var það málefnaleg ákvörðun af hálfu kærða að fela honum að sinna fræðslu þessari umfram kæranda.
  38. Sá er kærandi ber sig saman við fékk greidda umtalsvert fleiri eftirvinnutíma vegna flugvallarfræðslu. Hefur kærði skýrt það með því að flugvallarfræðsla sé sérverkefni hans vegna menntunar og þekkingar. Kærandi hafi ekki lokið námi atvinnuslökkviliðsmanns fyrr en vorið 2011. Hún hafi fengið tækifæri til að fara með í eina ferð tengda flugvallarfræðslu henni til kynningar. Verkkaupi hafi hins vegar gert athugasemdir við að óreyndir starfsmenn hafi verið sendir til að sjá um flugvallarfræðslu og í kjölfarið hafi þjónustan verið sett í fastar skorður með reyndum starfsmönnum. Telur kærunefndin að hlutlægar og málefnalegar ástæður búi að baki ákvörðun kærða um hvaða starfsmönnum sé falið að sjá um flugvallarfræðslu.
  39. Yfirvinna tengd eldvarnareftirliti er vegna kennslu á námskeiðum og setu á námskeiðum en umtalsverður munur er á fjölda yfirvinnutíma verkefnastjóranna tveggja. Kærði hefur tiltekið að þessi munur ráðist af nokkrum atriðum. Á árinu 2010 hafi sá er kærandi ber sig saman við setið námskeið í Reykjavík, kærandi hafi tekið sama námskeið á árinu 2007 en það ár fellur utan samanburðar í þessum efnum. Einnig sé um að ræða tilfallandi frágang verkefna. Á árinu 2011 hafi kærandi verið frá vinnu í þrjá mánuði, hún hafi því ekki haft eins mikil tök á því að taka að sér yfirvinnu. Af yfirvinnutímum þess sem kærandi ber sig saman við séu 10 tímar vegna kennslu sem hvort um sig hefði getað sinnt. Í þremur tilfella hafi kærandi verið á atvinnunámskeiði þegar kennslunnar hafi verið óskað og í tvö skipti hafi hún neitað vinnunni. Að sögn kæranda kom það fyrir að hún var beðin með stuttum fyrirvara að sinna kennslu. Breytir það ekki því að kærunefndin telur ekki að leiddar hafi verið líkur að því að verkefnastjórunum hafi verið mismunað hvað möguleika til yfirvinnu tengdri eldvarnareftirliti varðar.
  40. Að því er vetrarfrí varðar hefur kærði skýrt vetrarfrí þess er kærandi ber sig saman við með því að um sé að ræða frí er hann átti rétt á samkvæmt kjarasamningi vegna bakvakta er hann hafði gengið. Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að verkefnastjórunum hafi ekki verið mismunað vegna bakvakta. Leiðir það til þess að málefnalegar ástæður liggja að baki töku karlmannsins á vetrarfríi sem hann öðlaðist rétt til vegna bakvaktanna.
  41. Kærði hefur gert grein fyrir námskeiðum sem hvor verkefnastjóri um sig hefur tekið á vegum kærða. Vegna mismunandi starfsreynslu þeirra eru námskeiðin ekki hin sömu. Er ljóst af gögnum málsins að kærandi hefur fengið tækifæri til að afla sér þekkingar sem eldvarnareftirlitsmaður og atvinnuslökkviðliðsmaður auk þess sem hún tók grunnnám í sjúkraflutningum. Sá er hún ber sig saman við tók endurmenntunar-námskeið í eldvarnareftirliti og endurmenntunarnámskeið í sjúkraflutningum. Verður ekki annað séð en að starfsþjálfun þessi hafi í hvoru tilviki um sig fallið að starfsreynslu viðkomandi starfsmanns. Kærði hefur því ekki mismunað kæranda hvað þetta varðar.
  42. Kærði hefur fjallað sérstaklega um möguleika verkefnastjóranna til líkamsræktar og upplýst að ákvörðun hafi verið tekin um að heimilt væri að stunda líkamsrækt í hádegi þrisvar í viku og að kærði legði fram hálftíma til viðbótar hádegishléi í þessu skyni. Verður ekki séð að kærði hafi mismunað verkefnastjórunum í þessu efni.
  43. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi ekki brotið gegn lögum nr. 10/2008 varðandi starfskjör kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Akureyrarbær braut ekki gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla vegna starfskjara A. 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum