Hoppa yfir valmynd
22. desember 2011 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/2011

Mál nr. 6/2011:

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Akureyrarbæ

Ráðning í starf. Hæfnismat.

Akureyrarbær auglýsti í janúar 2011 starf verkefnastjóra fjölmenningarmála laust til umsóknar. Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að ráða konu í starfið en hann taldi sig vera hæfari eða að minnsta kosti jafn hæfan og kona sem ráðin var. Akureyrarbær taldi hins vegar að konan hefði verið hæfasti umsækjandinn, meðal annars á grundvelli tungumálakunnáttu og reynslu. Kærunefnd jafnréttismála horfði til þess að sú sem ráðin var uppfyllti skilyrði um kunnáttu í þriðja tungumáli ásamt því að uppfylla aðrar kröfur er áskildar voru fyrir ráðningu í starfið en kærandi uppfyllti ekki kröfu um kunnáttu í þriðja tungumáli. Taldi nefndin því nægilega fram komið að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starfið. Akureyrarbær taldist því ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf verkefnastjóra fjölmenningarmála í janúar 2011.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 22. desember 2011 er tekið fyrir mál nr. 6/2011 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 17. júlí 2011, kærði, A, ákvörðun Akureyrarbæjar um að ráða konu í 50% starf verkefnastjóra fjölmenningarmála. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Akureyrarbær brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi dagsettu 29. júlí 2011. Kærði óskaði tvívegis eftir fresti til að skila inn greinargerð og barst greinargerð ásamt gögnum 5. september 2011, sem kynnt var kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 6. september 2011.
  4. Kærandi kom frekari athugasemdum á framfæri með bréfi, dagsettu 18. september 2011. Kærða var með bréfi kærunefndar, dagsettu 21. september 2011, gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kæranda. Kærði sendi nefndinni athugasemdir sínar, dagsettar 4. október 2011, sem sendar voru kæranda 21. október 2011.
  5. Hinn 10. nóvember 2011 var haldinn fjarfundur með fulltrúum kærða auk þess sem lögmaður kærða afhenti frekari gögn. Kæranda var í kjölfarið gefinn kostur á að gera athugasemdir við fundargerð fundarins og framkomin gögn en þær bárust 8. desember 2011.
  6. Fjarfundur var einnig haldinn með kæranda þann 18. nóvember 2011. Fundargerð fundarins var send kærða og bárust athugasemdir hans
    8. desember 2011.
  7. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram á nefndum fundum með málsaðilum og í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála.

    MÁLAVEXTIR
  8. Samfélags- og mannréttindadeild kærða auglýsti laust 50% starf verkefnastjóra fjölmenningarmála í janúar 2011. Kærandi var einn af 18 einstaklingum sem sóttu um starfið. Að lokinni yfirferð umsókna og ferilskráa voru níu umsækjendur sem best þóttu uppfylla hæfniskröfur boðaðir í viðtöl og var kærandi á meðal þeirra. Að loknum viðtölum og yfirferð allra gagna var niðurstaðan sú að bjóða konu starfið sem hún þáði.
  9. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi vegna ráðningarinnar með bréfi dagsettu 9. febrúar 2011. Kærði sendi kæranda rökstuðning í bréfi dagsettu 17. febrúar 2011.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  10. Að mati kæranda er hvergi í rökstuðningi kærða gerð fullnægjandi grein fyrir því að sú sem ráðin var sé hæfari en kærandi. Hann hafi meiri menntun, þ.e. próf í félagsráðgjöf frá Sosialhøgskolen í Stavanger, Noregi, og starfsleyfi sem félagsráðgjafi á Íslandi ásamt meistaragráðu í endurhæfingarráðgjöf. Menntun kæranda hafi verið borin saman við menntun konunnar sem ráðin var. Hafi hún verið sögð hafa cand. mag. próf í félagsráðgjöf en M.Sc. gráða sem kærandi hefur sé æðri prófgráða en cand. mag.
  11. Kærandi bendir á að starfsreynsla þeirrar sem ráðin var hafi einnig verið metin sem mikilvægur þáttur við ákvarðanatökuna. Sérstaklega hafi verið nefnd reynsla konunnar sem yfirmaður flóttamannabúða í Lettlandi ásamt því að hún hafi starfað sem félagsráðgjafi á vegum Sameinuðu þjóðanna þar í landi. Að mati kæranda sé vandséð að sú reynsla konunnar geti skipt sköpum varðandi starf verkefnastjóra. Kærandi bendir á að það sé þekkt að móttaka flóttamanna þarfnist annarrar faglegrar þekkingar og ólíkra aðferða en um sé að ræða við það starf sem um ræði í þessu máli. Að auki hafi í starfsviðtalinu ekki verið talað um móttöku flóttamanna eða þá sérhæfðu aðferðafræði sem sé viðhöfð í vinnu með flóttafólk. Móttaka flóttamanna sé heldur ekki talin upp sem verkefni í auglýsingu um starfið. Sem eftiráskýring hafi reynsla konunnar af vinnu með flóttamönnum verið tiltekin sem veigamikill þáttur í því að hún hafi orðið fyrir valinu.
  12. Kærandi rekur að hann hafi langa og yfirgripsmikla þekkingu og reynslu í ráðgjöf, bæði sérhæfðri klínískri og faglegri ráðgjöf, til einstaklinga og fjölskyldna og til hópa sem séu á jaðri samfélagsins og flokkist því undir fjölmenningarráðgjöf, bæði hér á landi og erlendis. Kærandi hafi mikla þekkingu og reynslu í að veita einstaklingum ráðgjöf um málefni heilbrigðis- og félagsþjónustu auk skólakerfisins á Akureyri. Kærandi sjái ekki að sú sem ráðin var hafi yfir höfuð reynslu eða þekkingu á þessu sviði. Þessi reynsla og þekking kæranda hljóti að vera veigamikil í því starfi sem um getur.
  13. Kærandi bendir á að hann hafi fræðilega þekkingu á fjölmenningarráðgjöf sem hann hafi öðlast í meistaranámi í Bandríkjunum. Auk þess hafi meistaranám hans byggst á grundvallaratriðum fjölmenningarhyggju. Ekki hafi komið fram í rökstuðningi kærða að sú sem ráðin var hafi sambærilega sérþekkingu á fjölmenningarmálum.
  14. Kærandi nefnir að hann hafi verið fulltrúi Íslands í sérfræðinganefnd Evrópuráðsins um kynjajafnrétti um þriggja ára skeið og hafi þar fengið víðtæka þekkingu á málefnum flóttafólks í Evrópu, meðal annars innsýn í mansal og aðra kúgun tengda kynjamisrétti, en á þeim tíma sem kærandi hafi verið fulltrúi í nefndinni hafi mikill tími farið í að fjalla um skelfilegar afleiðingar borgarastyrjaldanna á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar.
  15. Kærandi hafi einnig yfirgripsmikla þekkingu og reynslu í því að veita ráðgjöf og fræðslu til einstaklinga og hópa um íslenskar aðstæður sem varða almannatryggingar, heilbrigðiskerfið, dómskerfið, félagsþjónustu og menntakerfið hér á landi. Þetta sé mikilvægur hluti af starfi verkefnastjórans. Framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar hafi upplýst í viðtali að mikill hluti starfsins færi í að veita erlendum íbúum bæjarins ráðgjöf á framangreindum sviðum. Ekki verði séð af rökstuðningi framkvæmdastjórans að sú sem ráðin var hafi þessa þekkingu eða sambærilega reynslu af íslensku samfélagi.
  16. Kærandi bendir á að í rökstuðningi kærða hafi þess sérstaklega verið getið að sú sem ráðin var hafi persónulega reynslu af mörgum þeim þáttum sem komi inn á borð verkefnastjóra fjölmenningarmála. Hún hafi góðar tengingar við samfélag innflytjenda á Akureyri og reynsla hennar sem innflytjandi hafi verið mikilvægur þáttur í ákvarðanatökunni. Ekki virðist hafa verið tekið tillit til að kærandi hafi einnig persónulega reynslu af því að vera innflytjandi; í fimm ár í Noregi og tvö ár í Bandaríkjunum. Kærandi þekki einnig vel til samfélags innflytjenda á Akureyri, hafi reyndar u.þ.b. 30 ára reynslu og þekkingu á innflytjendasamfélaginu þar.
  17. Tungumálakunnátta þeirrar sem ráðin var sé talin vera ein höfuðástæða þess að hún var ráðin í starfið. Kærandi hafi góða íslenskukunnáttu ásamt mjög góðri kunnáttu í norsku og ensku. Það sé vandséð að kunnátta í lettnesku og rússnesku sé afgerandi þáttur í umræddu starfi. Kærandi bendir á að mestur fjöldi innflytjenda á Akureyri og Norðurlandi eystra sé frá Póllandi, Tékklandi, Þýskalandi, Danmörku og Slóvakíu. Innflytjendur frá Rússlandi og Lettlandi séu örfáir þannig að afskaplega lítið reyni á kunnáttu í rússnesku og lettnesku í starfi verkefnastjóra. Framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar hafi upplýst kæranda í viðtali að túlkaþjónusta væri góð.
  18. Kærandi telur að í rökstuðningi tiltaki kærði ranglega að hann hafi ekki starfað að innflytjendamálum hérlendis. Í starfsviðtalinu hafi komið fram að hann hafi unnið með mál innflytjenda í starfi hjá Jafnréttisstofu. Einnig hafi kærandi sinnt verkefnum tengdum fjölskyldum og einstaklingum af erlendum uppruna, til dæmis frá Taílandi, í starfi sínu sem forstöðumaður dagdeildar geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri. Kærandi geti ekki séð að sú sem ráðin var hafi slíka reynslu.
  19. Í starfsviðtali við kæranda hafi komið fram að mikilvægur hluti starfsins væri samstarf á Evrópuvettvangi og Norðurlandasamstarf. Það sé ljóst að tungumál á þessum vettvangi sé enska og Norðurlandamál, en í þessum málum hafi kærandi meiri færni en sú sem ráðin var. Kærandi hafi til dæmis á starfstíma sínum hjá Jafnréttisstofu verið varamaður í stjórn í NIKK, Nordisk Institutt for Kvinne- og kjönnsforskning, í Osló.
  20. Kærandi gerir einnig alvarlegar athugasemdir við ráðningarferlið. Sá starfsmaður sem sinnti starfinu áður hafi tekið þátt í starfsviðtalinu en virðist ekki hafa aflað sér upplýsinga um fyrri störf eða menntun kæranda. Einnig gerir kærandi athugasemdir við að ekki hafi verið haft samband við umsagnaraðila. Kærandi hafi þó óskað eftir því að haft yrði samband við þessa aðila. Kærandi hafi unnið lengi með flestum þeirra sem hann hafi tiltekið og hefðu þeir getað gert góða grein fyrir faglegri hæfni, reynslu og færni í mannlegum samskiptum. Að mati kæranda hafi starfsviðtalið verið sett á svið til fullnægja formskilyrðum.
  21. Að mati kæranda hafi hvergi verið sýnt fram á að sú sem ráðin var sé hæfari en hann til starfans og telur hann sig hæfari en þá sem ráðin var.
  22. Loks telur kærandi að jafnréttisstefna kærða hafi verið sniðgengin við ráðninguna því mikill kynjahalli sé hjá starfsfólki samfélags- og mannréttindadeildar, konum í vil.

    SJÓNARMIÐ AKUREYRARBÆJAR
  23. Kærði rekur að þegar yfirferð umsókna og ferilskráa um hið auglýsta starf hafi verið lokið, hafi níu umsækjendur sem best þóttu uppfylla hæfniskröfurnar, verið boðaðir í viðtöl og hafi kærandi verið á meðal þeirra. Að loknum viðtölum og vandlegri yfirferð allra gagna hafi verið niðurstaðan að bjóða konu starfið sem hún hafi þegið.
  24. Kærði tiltekur að sú sem ráðin var hafi útskrifast með cand. mag. gráðu í félagsráðgjöf frá Social Work College í Osló í Noregi 1997. Hún hafi starfað meðal annars sem félagsráðgjafi í innflytjendabúðum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Lettlandi 1998 og síðan sem yfirmaður flóttamannabúða í sama landi 1999-2001. Tungumálakunnátta hennar sé mjög góð og tali hún, auk lettnesku og íslensku, norsku, ensku og rússnesku. Ráðning hennar hafi meðal annars byggt á því að hún hafi ein umsækjendanna uppfyllt allar hæfniskröfur sem settar hafi verið fram í auglýsingunni um starfið. Hún hafi háskólamenntun sem nýtist vel í starfi og þekkingu á málefnum innflytjenda af starfi með flóttamönnum og innflytjendum í Lettlandi. Þó persónuleg reynsla af því að vera innflytjandi á Íslandi hafi ekki verið ein af hæfniskröfunum hafi það verið talinn ótvíræður kostur og viðbót við aðra reynslu hennar af málefnum innflytjenda.
  25. Kærði bendir á að sú sem ráðin var hafi komið mjög vel út úr viðtalinu. Hafi hún sýnt að hún hafi mikinn metnað til góðra starfa og kynnt hugmyndir sínar að nýjungum í starfi að fjölmenningarmálum hjá kærða. Í ljósi þessa, þ.e. menntunar, reynslu, tungumálakunnáttu og góðrar frammistöðu í viðtali, hafi það verið mat kærða að hún væri hæfust þeirra 18 sem sóttu um starfið.
  26. Kærði tekur fram að við ráðningar sé unnið eftir jafnréttisstefnu bæjarins. Framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar, sem hafi staðið að hinni kærðu ráðningu, gegni starfi jafnréttisráðgjafa bæjarins. Því sé ljóst að við umrædda ráðningu hafi ráðningaraðilar verið mjög vel upplýstir og meðvitaðir um löggjöfina og markmið hennar. Kærði hafi stuðst við verklagsreglur um ráðningar stjórnenda og annars starfsfólks m.t.t. kynjasjónarmiða.
  27. Kærði bendir á að kynjahlutfall í samfélags- og mannréttindadeild sé þannig að alls vinni þar 25 starfsmenn, þar af tíu karlmenn. Þegar litið sé til þeirra sem gegna starfi verkefnastjóra sé skipting á milli kynja jöfn í deildinni. Undir merkjum Alþjóðastofu Akureyrar starfi verkefnastjóri fjölmenningarmála í 50% starfi. Þegar hin umdeilda ráðning hafi farið fram hafi einnig starfað þar ráðgjafi, karlmaður, í 25% starfi. Inn á borð þessara tveggja starfsmanna hafi oft komið viðkvæm mál sem meðal annars snerti stöðu kvenna af erlendum uppruna og því sé mikilvægt að bæði kyn starfi að málaflokknum.
  28. Kærði telur að kærandi hafi ekki verið jafn hæfur og sú sem ráðin var. Háskólamenntun kæranda sem félagsráðgjafi, ekki síst þeir námsþættir sem hafi lotið að fjölmenningarmálum, sem og reynsla hans af ráðgjafarstörfum, hefði án efa nýst vel í starfi verkefnastjóra fjölmenningarmála. Hins vegar hafi komið fram í bæði ferilskrá kæranda og viðtali að hann hafi ekki starfað að innflytjendamálum hérlendis auk þess sem hann hafi ekki haft kunnáttu í þriðja erlenda tungumáli.
  29. Þá bendir kærði einnig á að í auglýsingu um starfið hafi verið gerð krafa um háskólamenntun sem nýtist í starfi. Ekki hafi verið tiltekið að viðkomandi þyrfti að hafa sérstaka gráðu eða framhaldsmenntun eða að það komi umsækjanda til sérstakra tekna við hæfnismat. Sú fullyrðing kæranda að telja sig hæfari vegna lengra náms í félagsráðgjöf standist því ekki.
  30. Við ráðningu í starf verkefnastjóra fjölmenningarmála hafi verið leitast við að viðhafa vandaða málsmeðferð í samræmi við stjórnsýslulög, nr. 37/1993, jafnréttislög, jafnréttisstefnu bæjarins og verklagsreglur bæjarins um ráðningar. Farið hafi verið vandlega yfir umsóknir og fylgiskjöl og hæfustu umsækjendurnir boðaðir í viðtal. Í viðtölunum hafi verið farið yfir menntun, starfsreynslu og persónulega eiginleika umsækjenda.
  31. Kærði byggir á því að vinnuveitandi hafi ákveðið svigrúm við mat á hæfni umsækjenda. Sama eigi við um mat á þeim forsendum sem lagðar séu til grundvallar við ákvörðun um ráðningu. Slíkt mat sæti ekki endurskoðun nema það sé bersýnilega ómálefnalegt. Kærði hafi ráðið hæfasta umsækjandann í starf verkefnastjóra og við mat á því hver hafi verið hæfastur hafi kærði eingöngu byggt á málefnalegum sjónarmiðum.
  32. Kærði byggir á því að kynferði kæranda hafi ekki haft þýðingu við ákvörðun um ráðningu í starfið og hafi því ekki verið um brot á jafnréttislögum að ræða.
  33. Athugasemdum kæranda við aðkomu fráfarandi verkefnastjóra að ráðningunni er vísað á bug sem röngum og tilefnislausum og því mótmælt að starfsviðtalið hafi verið sett á svið.
  34. Kærði tekur fram að ástæða þess að ekki hafi verið rætt við umsagnaraðila sem kærandi hafi gefið upp hafi verið sú að framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar, sem hafi séð um framkvæmd ráðningarinnar, hafi persónulega starfað með kæranda á tveimur vinnustöðum, síðast á árunum 2000 til 2003. Hún þekki því vel til starfa hans og ferils og hafi ekki talið þörf á að leita til umsagnaraðila. Þegar kærandi sótti um starfið hafi hann verið í afleysingastarfi hjá búsetudeild og framkvæmdastjórinn hafi rætt við yfirmann hans þar.
  35. Með vísan til framangreinds telur kærði að ráðning í starf verkefnastjóra fjölmenningarmála hjá bænum hafi byggst á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum þar sem eiginleikar og hæfileikar þess umsækjanda sem ráðin var umfram aðra umsækjendur hafi legið til grundvallar. Ráðningin hafi því hvorki brotið gegn jafnréttislögum né öðrum lögum með nokkrum hætti.

    ATHUGASEMDIR MÁLSAÐILA
  36. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða voru sjónarmið hans í kæru áréttuð og gerðar frekari athugasemdir við málatilbúnað kærða. Ekki þykir ástæða til að rekja þær nánar.
  37. Kærði kom einnig á framfæri athugasemdum sínum þar sem brugðist var við athugasemdum kæranda sem ekki er talin ástæða til að rekja sérstaklega.

    NIÐURSTAÐA
  38. Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. laganna hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  39. Í auglýsingu um starf verkefnastjóra fjölmenningarmála komu fram menntunar- og hæfniskröfur vegna starfsins. Voru gerðar kröfur um háskólamenntun sem nýtist í starfi, þekkingu á málefnum innflytjenda, góða íslenskukunnáttu og góða kunnáttu í öðrum tungumálum. Í því sambandi var áskilin kunnátta í ensku, dönsku/norsku/sænsku og þriðja tungumáli. Loks var krafist góðra skipulagshæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum.
  40. Kærandi hefur próf í félagsráðgjöf til starfsréttinda frá Noregi, starfsleyfi sem félagsráðgjafi hér á landi og meistaragráðu í endurhæfingaráðgjöf frá Bandaríkjunum. Hann hefur ríflega 30 ára margþætta starfsreynslu sem félagsráðgjafi og af ýmsum störfum í félags- og heilbrigðisþjónustu. Sú sem ráðin var í starfið hefur cand. mag. próf í félagsráðgjöf frá Noregi. Hún hefur fjögurra ára starfsreynslu sem félagsráðgjafi og sem yfirmaður flóttamannabúða í Lettlandi. Í umsókn kæranda var tiltekið um kunnáttu í erlendum tungumálum að hann hefði góða kunnáttu í ensku og norsku og hefði ágætan skilning á sænsku og dönsku. Í umsókn þeirrar er ráðin var kom ekkert fram um tungumálakunnáttu.
  41. Við úrvinnslu umsókna um starfið voru níu einstaklingar, sem að mati kærða uppfylltu best þær kröfur er áskildar voru, teknir í viðtal. Meðal þeirra voru bæði kærði og sú sem ráðin var. Fyrir liggur að sumir þeirra er boðaðir voru til viðtals virtust ekki uppfylla kröfu um þriðja tungumál. Hefur kærði skýrt það með því að ástæða hafi þótt til að ganga úr skugga um það með viðtölum hvort einhverjir umsækjanda hefðu kunnáttu í þriðja tungumáli þrátt fyrir að tiltaka það ekki í umsókn. Viðtal við kæranda leiddi ekki í ljós frekari tungumálakunnáttu og hefur hann staðfest það við kærunefnd jafnréttismála. Í viðtali við þá sem ráðin var kom fram að hún hefur kunnáttu í rússnesku, lettnesku, ensku og norsku.
  42. Í rökstuðningi kærða fyrir ráðingu í starf verkefnastjóra fjölmenningarmála kemur fram meðal annars að sú sem ráðin var hefði margvíslega starfsreynslu og hefði til að mynda starfað sem yfirmaður flóttamannabúða í Lettlandi og verið félagsráðgjafi á vegum Sameinuðu þjóðanna í innflytjendabúðum þar í landi. Einnig er tiltekið að hún hafi, auk íslensku, kunnáttu í lettnesku, rússnesku, ensku og norsku, en kærandi hafi ekki kunnáttu í þriðja tungumáli.
  43. Fram er komið að kærandi uppfyllti kröfur um menntun og starfsreynslu fyrir ráðningu í starf verkefnastjóra fjölmenningarmála. Hann uppfyllti hins vegar ekki hlutrænt skilyrði um tungumálakunnáttu sem sett var fyrir ráðningu í starfið. Kærunefnd telur áskilnað kærða um kunnáttu í þriðja tungumáli hafa verið studdan málefnalegum rökum. Í því sambandi skal tekið fram að kærði hefur upplýst að þegar krafa var gerð um kunnáttu í þriðja tungumáli, auk ensku og Norðurlandamáls hafi verið ákveðið að gera ekki kröfu um tiltekin tungumál. Ástæða þess hafi verið sú að í starfinu hefði kunnátta í fleiri en einu máli komið sér vel þar sem innflytjendur í sveitarfélaginu eigi uppruna í fleiri en einum heimshluta. Sem dæmi megi nefna að töluverður fjöldi innflytjenda sé frá Austur-Evrópu þar sem rússneskukunnátta er útbreidd. Með tilliti til þess að sú er ráðin var uppfyllti skilyrðið um kunnáttu í þriðja tungumáli ásamt því að uppfylla aðrar kröfur, er áskildar voru fyrir ráðningu í starfið, er nægilega fram komið að mati kærunefndar jafnréttismála að aðrar ástæður en kynferði lágu til grundvallar ákvörðun um ráðninguna.
  44. Með vísan til framangreinds hefur kærði ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf verkefnastjóra fjölmenningarmála í janúar 2011.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Akureyrarbær braut ekki gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf verkefnastjóra fjölmenningarmála í janúar 2011.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum