Hoppa yfir valmynd
22. júlí 2008 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 2/2008

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 2/2008:

A

gegn

iðnaðarráðherra

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 22. júlí 2008 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru dagsettri 8. febrúar 2008 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort iðnaðarráðherra hefði með skipun í embætti orkumálastjóra við Orkustofnun brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og hvort sú ákvörðun hafi farið gegn markmiðum laganna.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt iðnaðarráðherra með bréfi dagsettu 25. febrúar 2008 og var óskað eftir því að umsögn hans um kæruna bærist fyrir 10. mars 2008. Með tölvubréfi dagsettu 5. mars 2008 óskaði iðnaðarráðuneytið eftir viðbótarfresti til 14. mars 2008 til þess að skila inn umsögn og var sá frestur veittur. Umsögn iðnaðarráðuneytisins um kæruna barst með bréfi dagsettu 14. mars 2008. Kæranda var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögnina með bréfi dagsettu 28. mars 2008. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 10. apríl 2008 og voru þær sendar iðnaðarráðuneytinu til kynningar með bréfi dagsettu 14. apríl 2008. Athugasemdir iðnaðarráðuneytisins við athugasemdir kæranda frá 10. apríl 2008 bárust með bréfi dagsettu 2. maí 2008 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi dagsettu 13. maí 2008. Athugasemdir kæranda við síðastnefndar athugasemdir iðnaðarráðuneytisins bárust með bréfi dagsettu 26. maí 2008 og voru þær sendar ráðuneytinu til kynningar með bréfi dagsettu 27. maí 2008.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavaxtalýsing

Málavextir eru þeir að í nóvember 2007 auglýsti iðnaðarráðuneytið embætti orkumálastjóra laust til umsóknar í Lögbirtingablaði og dagblöðum með umsóknarfresti til 2. desember 2007. Auglýsingin var endurbirt í dagblöðum 2. desember 2007 og umsóknarfrestur framlengdur til og með 9. desember 2007. Í auglýsingunni kom fram að hlutverk Orkustofnunar væri að sinna verkefnum á sviði orku- og auðlindamála og að orkumálastjóri færi með stjórn og daglegan rekstur stofnunarinnar, samanber lög um Orkustofnun, nr. 87/2003. Tekið var fram að orkumálastjóri skyldi auk almennrar ábyrgðar á starfsemi stofnunarinnar meðal annars annast daglega stjórn stofnunarinnar, bera ábyrgð á fjárreiðum og starfsmannahaldi, bera ábyrgð á öflun orkurannsókna, leiða árangursstjórnun við rekstur stofnunarinnar, bera ábyrgð á þeim stjórnsýsluverkefnum sem Orkustofnun er falið samkvæmt lögum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum, vera stjórnvöldum til ráðgjafar í orkumálum og standa fyrir fræðslu um orku- og auðlindamál. Settar voru fram kröfur um háskólapróf sem nýtist í starfi, reynslu af stjórnun og rekstri, leiðtogahæfileika, þekkingu á orku- og auðlindamálum, góða tungumálakunnáttu og hæfni í mannlegum samskiptum. Að lokum var tekið fram að við stöðuveitingar á vegum iðnaðarráðuneytisins væru jafnréttissjónarmið höfð í huga og því væru konur jafnt sem karlar hvattar til að sækja um starfið.

Ráðgjafarfyrirtækið Capacent aðstoðaði iðnaðarráðuneytið í ráðningarferlinu. Níu umsóknir bárust um embætti orkumálastjóra. Þrír umsækjendur, það er kærandi, karlmaðurinn G og karlmaðurinn E, voru taldir uppfylla þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu um starfið og voru þeir allir boðaðir í viðtal hjá Capacent. Í kjölfar viðtalanna tók Capacent saman greinargerð um þessa umsækjendur. Þeir voru síðan boðaðir til annars viðtals hjá ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytisins og skrifstofustjóra orkumála í ráðuneytinu. Fulltrúi frá Capacent var einnig viðstaddur viðtölin. Eftir viðtölin var sú ákvörðun tekin að skipa karlmanninn G í embætti orkumálastjóra.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir skipun iðnaðarráðherra í embætti orkumálastjóra. Sá rökstuðningur var veittur með bréfi dagsettu 8. janúar 2008.

Kærandi telur að iðnaðarráðherra hafi með skipun í embætti orkumálastjóra brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Mismunandi mælistikum hafi verið beitt við mat á hæfni einstakra umsækjenda um embætti orkumálastjóra og kerfisbundið gert meira úr reynslu og menntun þess sem ráðinn var í starfið en efni stóðu til og jafnframt lítið gert úr reynslu og þekkingu kæranda. Skipun iðnaðarráðherra í embætti orkumálastjóra geti ekki talist rétt sé tekið mið af verkefnum Orkustofnunar samkvæmt lögum, hæfnisþáttum sem tilgreindir voru í auglýsingu um embættið og fyrirliggjandi upplýsingum um umsækjendur. Með skipuninni hafi verið farið gegn þeirri óskráðu reglu stjórnsýsluréttarins að velja beri hæfasta umsækjandann.

Iðnaðarráðuneytið hafnar því að ómálefnalegum sjónarmiðum, hvort sem er varðandi kynferði eða annað, hafi verið beitt við skipun karlmannsins G í embætti orkumálastjóra. Skipunin hafi byggst á heildstæðu mati á hæfni umsækjenda á grundvelli framlagðra gagna, framkomu og frammistöðu í viðtölum auk umsagna. Niðurstaða matsins hafi verið sú að karlmaðurinn G stæði kæranda framar. Hæfasti umsækjandinn hafi verið skipaður í embætti orkumálastjóra og því hafi ekki verið brotið gegn lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Í rökstuðningi með kæru til nefndarinnar segir að í ágústmánuði 2007 hafi þáverandi orkumálastjóri tjáð kæranda að hann hefði óskað lausnar frá embætti frá og með 1. janúar 2008 og hefði auk þess fengið samþykki iðnaðarráðherra um leyfi frá störfum síðustu þrjá mánuði ársins og að óskað hafi verið eftir því að kærandi gegndi starfi orkumálastjóra þann tíma. Kærandi hafi strax orðið við þessari ósk.

Iðnaðarráðuneytið hafi auglýst starf orkumálastjóra í nóvember 2007 með umsóknarfresti til 2. desember 2007. Kærandi hafi skilað inn umsókn sinni 30. nóvember 2007, en hinn 2. desember hafi komið ný auglýsing um starfið þar sem umsóknarfrestur hafi verið framlengdur til 9. desember 2007. Kærandi hafi óskað skýringa ráðuneytisstjóra og iðnaðarráðherra á framlengingu umsóknarfrestsins, en þeir hafi svarað því að fáar umsóknir hefðu borist. Umsókn þess sem ráðinn var sé dagsett 4. desember 2007.

Þrír af níu sem sótt hafi um embætti orkumálastjóra hafi verið kallaðir í viðtal hjá Capacent ráðningum, kærandi þann 12. desember 2007 þar sem starfsmaður frá Capacent hafi verið viðstaddur. Þann 18. desember 2007 hafi kærandi farið í annað viðtal þar sem viðstaddir hafi verið starfsmaður Capacent, ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytisins og skrifstofustjóri orkumála í iðnaðarráðuneytinu.

Þann 19. desember 2007 hafi verið hringt frá Capacent og sagt að ekki yrði gengið frá ráðningu fyrr en eftir áramót. Aðspurður af kæranda hafi ráðuneytisstjóri sagt ástæðuna vera að afar flókið væri að fara yfir umsóknargögn. Kærandi hafi þá boðist til að senda inn frekari skýringar eða aðstoða á annan hátt með viðbótarupplýsingar varðandi sig en það hafi verið afþakkað.

Kæranda hafi þann 27. desember 2007 verið tilkynnt um ráðningu G. Óskaði kærandi í framhaldi eftir rökum fyrir ráðningunni, meðal annars hjá ráðherra. Þann 28. desember 2007 hafi kærandi óskað eftir fundi með ráðherra en kærandi taldi eðlilegt að óska eftir slíkum fundi í ljósi stöðu sinnar sem aðstoðarorkumálastjóri og staðgengill orkumálastjóra. Ekki hafi ráðherra orðið við beiðninni. Að áliti kæranda gerði iðnaðarráðherra engan skipulegan samanburð á hæfni umsækjendanna með hliðsjón af þeim hæfniskröfum sem legið hafi til grundvallar í auglýsingu um starfið. Ekki hafi verið gengið úr skugga um að sá sem starfið fékk hefði yfirburði á þeim sviðum sem fullyrt var að hann hefði.

Í samantektum Capacent um kæranda og G komi fram að kærandi teljist hæf til að gegna starfi orkumálastjóra, en að G teljist hæfastur að mati Capacent. Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við rökstuðning Capacent fyrir þessari fullyrðingu.

Í umsögn Capacent um G séu tilgreindir styrkleikar hans sem snúi að menntun og áralangri vinnu að orku- og auðlindamálum. Fullyrt sé að G hafi yfirgripsmikla þekkingu á orku- og auðlindamálum.

Í gögnum um G komi fram að hann hafi doktorsgráðu í verkfræði eins og kærandi. Kærandi hafi hins vegar einnig MBA-gráðu frá Háskóla Íslands. MBA-námið sé tveggja ára starfsmiðað meistaranám fyrir stjórnendur í íslenskum fyrirtækjum og stofnunum sem nýtist vel í umrætt starf. Hvergi komi fram í gögnum um G að hann hafi starfað að orku- og auðlindamálum í víðu samhengi eins og skilja megi af umsögn Capacent. Af fyrirliggjandi gögnum að dæma hafi starf G sem prófessor við Konunglega verkfræðiháskólann í Stokkhólmi (KTH) og fyrri störf hans sem fræðimanns einungis snúið að orkunýtingu húsa sem sé ekki eitt af meginsviðum Orkustofnunar. Af gögnum málsins verði ekki ráðið að G hafi sérþekkingu eða reynslu á meginsviðum Orkustofnunar.

Í umsögn Capacent um kæranda komi fram að hún hafi mikla þekkingu og reynslu á sviði orku- og auðlindamála, hún hafi starfað sem orkumálastjóri í skemmri og lengri tímabil frá árinu 2005. Þá hafi hún stýrt ýmsum umbótaverkefnum sem snúi að rekstri og innri málefnum stofnunarinnar.

Í umsögn um G segi að hann hafi leiðbeint fjölda doktorsefna og sinnt trúnaðarstörfum í dómnefndum og við skipun í stöður við fjölda háskóla. Þá hafi hann einnig starfað sem aðstoðarkennari og setið í opinberum nefndum. Fram komi í umsögn um kæranda að hún hafi starfað við kennslu í verkfræðideild Háskóla Íslands og Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Hún hafi leiðbeint í lokaverkefnum verkfræðinema og verið aðalleiðbeinandi doktorsnema. Hún hafi auk þess kennt breytingastjórnun í MPM-námi verkfræðideildar Háskóla Íslands frá 2006. Í ferilskrá kæranda megi jafnframt sjá að hún hafi setið í dómnefnd um skipun í dósentsstöðu við Háskóla Íslands og gegnt fjölda stjórnunar- og trúnaðarstarfa og setið í opinberum nefndum.

Í umsögn um G sé tilgreint að hann hafi á sínum tíma starfað í verkefnisstjórn orkusparnaðarátaks á árunum 1983–1985. Í þessu sambandi tekur kærandi fram að hún hafi borið ábyrgð á orkusparnaðarverkefnum Orkustofnunar og stýrt því að Orkusetur var stofnað á Akureyri í lok ársins 2005, en það hafi nú umsjón með orkusparnaðarverkefnum í samvinnu við Orkustofnun, iðnaðarráðuneytið, Samorku og fleiri aðila. Einnig segi um G að hann hafi sinnt ýmsum stjórnunarstörfum innan Konunglega verkfræðiháskólans í Stokkhólmi. Honum hafi endurtekið verið falin trúnaðarstörf við umfjöllun og úthlutun rannsóknarstyrkja úr opinberum vísindasjóðum. Í þessu sambandi tekur kærandi fram að hún hafi farsæla stjórnunarreynslu frá Orkustofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Henni hafi endurtekið verið falin trúnaðarstörf við umfjöllun og úthlutun rannsóknarstyrkja úr opinberum vísindasjóðum eins og sjá megi í ferilskrá hennar. Kærandi hafi setið í fagráði iðnaðar- og tæknirannsókna hjá Rannís 1996–2000, í fagráði upplýsingatækni- og umhverfisrannsókna Rannís 1999–2000, sé varamaður í vísinda- og tækniráði frá 2006, sé aðalfulltrúi Íslands í stjórn Nordisk Energiforskning sem úthluti rannsóknarstyrkjum á sviði orkumála frá 2006, sé aðalfulltrúi Íslands í stýrihópi N-INNER rannsóknarsjóðnum sem einnig úthluti alþjóðlegum rannsóknarstyrkjum á sviði orkumála frá 2007, sé í úthlutunarnefnd styrkja úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands og hafi ítrekað komið að umsögnum um styrkumsóknir til Orkusjóðs.

Um G segi enn fremur að hann hafi skipulagt og stjórnað rannsóknum og tengt þær við atvinnulífið og samfélagið. Hann sé virtur innan alþjóðasamfélagsins og hann hafi haldið fjölda erinda á alþjóðlegum ráðstefnum á sviði orkumála. Í þessu sambandi tekur kærandi fram að af gögnum um G að dæma hafi hann haldið erindi um sitt sérsvið, orkunýtingu húsa, en ekki almennt á sviði orkumála eins og skilja megi af fullyrðingu Capacent. Kærandi hafi einnig á sínum tíu ára ferli við rannsóknastörf hjá Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins skipulagt og stjórnað rannsóknum í tengslum við atvinnulífið og samfélagið og þá ekki síst á sínu sérsviði sem snúi að tæringu hitaveitulagna. Rannsóknirnar hafi verið unnar meðal annars í tengslum við orkufyrirtæki hér heima og í nágrannalöndunum. Kærandi hafi eins og G þurft að fjármagna rannsóknir sínar og sem deildarstjóri á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins einnig aðra starfsemi deildarinnar. Það hafi hún gert með því að sækja um styrki í rannsóknarsjóði innanlands og erlendis og til fyrirtækja.

Kærandi hafi ávallt verið árangursmiðuð, sýnt frumkvæði, meðal annars við að koma á alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, náð saman alþjóðlegum samstarfshópum og stýrt alþjóðlegum verkefnum. Hún sé þaulvön áætlanagerð, rekstraráætlunum og verkefnaáætlunum. Þá hafi hún góð alþjóðleg tengsl, bæði á sínu fræðasviði og á sviði orkumála. Hún hafi haldið fjölda erinda á innlendum og alþjóðlegum ráðstefnum um hin ýmsu málefni, svo sem tæringu, vatnstjón, mælingar í hitaveitukerfum, almennt um orkumál, framkvæmd raforkulaga, orkusparnað, árangur norrænu orkurannsóknaráætlunarinnar og svo mætti lengi telja.

Í gögnum Capacent komi fram að bæði kærandi og G telji sig búa yfir leiðtogahæfileikum. Í umsögn um G komi fram að hans hlutverk sé að taka ábyrgð og ákvarðanir og að hann viðhaldi áhuga fólks á verkefnum með því að sýna sjálfur verkefnum áhuga. Í umsögn um kæranda komi fram að hún drífi verkefnin áfram, láti fólk njóta þess sem það vinni að hverju sinni, veiti jákvæða endurgjöf en geti einnig verið gagnrýnin og ræði þá við hlutaðeigandi einstaklinga einslega. Einnig segi um kæranda að hún segist koma heiðarlega fram við fólk og leggi áherslu á að hafa opna umræðu um þau mál sem upp komi. Hún nýti starfsmannasamtöl til þess að taka á styrkleikum sem og veikleikum starfsmanna og ýti undir að fólk efli sig í starfi. Kæranda þykir ekki sýnt með tilvísan til þessa mats Capacent að leiðtogahæfileikar G séu meiri en hennar.

Þá segi í umsögn um G að hann hafi góða tungumálakunnáttu og að auk íslensku hafi hann mjög góð tök á sænsku og ensku. Í þessu sambandi tekur kærandi fram að hún hafi einnig mjög góða tungumálakunnáttu, sérstaklega í íslensku, dönsku og ensku, en hún hafi búið í Danmörku í samtals 12–13 ár og tali og skrifi dönsku sem innfædd.

Í umsögnunum segi að bæði kærandi og G telji sig eiga góðan samskiptaferil að baki.

Capacent geri mikið úr sterkri framtíðarsýn G fyrir Orkustofnun en afar lítið úr framtíðarsýn kæranda. Í gögnum Capacent um kæranda segi að hún kunni að hafa takmarkaða sýn á framtíðarstarf Orkustofnunar innan íslensks samfélags og að hún hafi nefnt að verkefnin yrðu af sama meiði og þau séu í dag. Orkustofnun fylgi ráðuneytinu og nýti þau tækifæri sem gefist. Að auki sé sagt að kærandi hafi takmarkaða reynslu úr umhverfi utan Orkustofnunar. Kærandi telur þetta mat Capacent óskiljanlegt og hvorki í samræmi við það sem fram hafi komið í viðtali hjá Capacent né heldur í samræmi við störf hennar eða ferilskrá. Orkustofnun hafi verið á sífelldu breytingaskeiði frá því að kærandi hóf þar störf bæði varðandi verkefni stofnunarinnar, lagalega umgjörð og innri rekstur. Kærandi hafi tekið virkan þátt í öllum ferlum og stjórnað þeim að meira og minna leyti. Nú standi stofnunin frammi fyrir miklum breytingum varðandi færslu vatnamælingasviðs, vegna nýrra verkefna á sviði olíumála, breyttra áherslna varðandi orkunýtingu, aukinnar áherslu á forðafræði jarðhitans, ýmissa breytinga á verkferlum og verkaskiptingu milli iðnaðarráðuneytis og Orkustofnunar svo og breytinga á sameiginlegum rekstri í Orkugarði eftir að vatnamælingar sameinast Veðurstofunni og Íslenskar orkurannsóknir verða jafnvel gerðar að hlutafélagi. Kærandi hafi ákveðna framtíðarsýn varðandi þessar breytingar, bæði þeim sem snúi faglega að orkumálum og þeim sem snúi að rekstri stofnunarinnar. Hún hafi einnig mikla þekkingu á því hvernig best verði að verki staðið og hafi það komið fram í viðtölum hjá Capacent. Hún hafi stýrt stefnumótunarvinnu á Orkustofnun og tekið þátt í stefnumótunarfundi ráðuneytisins varðandi orkustefnu landsins. Varðandi útrás íslenskra orkufyrirtækja hafi komið fram í viðtali við kæranda að Orkustofnun myndi þar nýta þau tækifæri sem gæfust til að styðja við útrás fyrirtækjanna, meðal annars í samstarfi við ráðuneytið. Þá hafi kærandi nefnt að vegna þeirra breytinga sem séu að verða á áherslum í auðlindamálum hérlendis svo og þeirra breytinga sem hafi orðið á Orkustofnun og Umhverfisstofnun að undanförnu, þar sem rannsóknir og þjónusta hafi verið færðar út úr stofnunum, beri að kanna til hlítar kosti og galla þess að sameina þessar tvær stofnanir í eina auðlindastofnun.

Kærandi spyr hvernig hægt sé að rökstyðja að hún hafi takmarkaða reynslu úr umhverfi utan Orkustofnunar þegar hún hafi gott tengslanet við orkufyrirtækin hér heima og erlendis, verkfræðistofur og aðra sérfræðinga sem komið hafa að orkumálum, setið í stjórn Norrænu orkurannsóknaráætlunarinnar, verið styrkþegi þeirra 1997–2000 og hafi góð tengsl við háskóla og rannsóknastofnanir víða erlendis og hér heima.

Fram komi í umsögn Capacent um G að hann hafi veitt byggingatæknideild Konunglega verkfræðiháskólans í Stokkhólmi forstöðu síðastliðin 13 ár. Um stöðu G í stjórnskipulagi háskólans segir kærandi að skólinn skiptist fyrst í tíu skóla (KTH Schools), einn þeirra sé School of Architecture and the Built Environment. Sá skóli skiptist í sjö deildir þar sem ein deildin sé Civil and Architectural Engineering. Sú deild skiptist í níu skorir en G sé prófessor í einni slíkri sem nefnist Building Technology og telji alls 15 manns þar sem stærsti hlutinn sé nemendur. G sé þar eini prófessorinn og stýri því sinni rannsóknareiningu. Í gögnum Capacent og ráðherra virðist þetta starf vera blásið út í lýsingu á starfsreynslu G.

Kærandi hafi einungis fengið samantekt Capacent yfir það sem umsagnaraðilar sögðu um hana í formi stikkorðalista yfir 22 atriði. Engar upplýsingar hafi borist um uppruna umsagna, tímasetningar þeirra eða frekari skýringar, en sum atriði á listanum séu þess eðlis að kærandi hafi óskað frekari skýringa ráðuneytisins á þeim. Kærandi hafi gefið upp fjóra umsagnaraðila. Einn þeirra segi að aldrei hafi verið leitað til sín eftir umsögn. Annar þeirra segi fulltrúa Capacent einungis hafa haft samband við sig einu sinni og hafi það verið þann 28. desember 2007, daginn eftir að kæranda var sagt frá niðurstöðu ráðherra. Þá segist hann hafa verið spurður leiðandi spurninga.

Í auglýsingu um embætti orkumálastjóra hafi komið fram að orkumálastjóri skuli auk almennrar ábyrgðar á starfsemi stofnunarinnar meðal annars annast daglega stjórn stofnunarinnar, bera ábyrgð á fjárreiðum og starfsmannahaldi, bera ábyrgð á öflun orkurannsókna, leiða árangursstjórnun við rekstur stofnunarinnar, bera ábyrgð á þeim stjórnsýsluverkefnum sem Orkustofnun er falið samkvæmt lögum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum, vera stjórnvöldum til ráðgjafar í orkumálum og standa fyrir fræðslu um orku- og auðlindamál. Kærandi hafi sem aðstoðarorkumálastjóri og staðgengill orkumálastjóra frá árinu 2005 annast daglega stjórnun Orkustofnunar. Kærandi hafi verið sett orkumálastjóri í þrjá mánuði, frá maí til júlí árið 2005 og staðgengilsstörfin frá 2005 hafi verið mikil í fjarverum fyrrverandi orkumálastjóra.

Öll áætlanagerð fyrir orkumálasvið stofnunarinnar hafi verið á ábyrgð kæranda svo og ársuppgjör og gerð fjárlagatillagna. Allir reikningar séu samþykktir af annars vegar verkefnisstjóra og hins vegar kæranda. Kærandi hafi komið á starfsmannasamtölum í stofnuninni árið 2004 og hafi séð um samtöl við starfsmenn orkumálasviðs. Þá sjái kærandi um samþykkt vinnuskýrslna og hafi í síauknum mæli séð um launamál, ráðningar starfsmanna og starfslok þeirra sem hafi hætt. Kærandi hafi setið í stjórn Rekstrarfélags Orkugarðs frá stofnun þess og verið formaður síðastliðin ár. Á árunum 1994–1999 hafi kærandi jafnframt unnið sem verkefnisstjóri á Iðntæknistofnun Íslands og á árunum 2000–2004 sem deildarstjóri á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

Samningar um orkurannsóknir hafi verið á höndum verkefnisstjóra viðkomandi sviða, en kærandi hafi unnið með þeim að samræmingu og skiptingu þeirra fjármuna sem stofnunin hafi haft í rannsóknir hverju sinni. Hún hafi góða yfirsýn yfir þær orkurannsóknir sem stofnunin kaupi og hafi haft úrslitavald um skiptingu fjármuna til rannsókna.

Kærandi hafi haft frumkvæði að gerð gæðahandbókar fyrir stofnunina með starfs- og verklýsingum. Einnig frumkvæði að gerð þjónustusamnings við Orkusjóð og Orkusetur og unnið að því í samvinnu við ráðuneytið að Orkusetur var byggt upp og stöðugildum Orkustofnunar á Akureyri fjölgað úr 1,5 í 4. Kærandi hafi séð um gerð þjónustusamnings um bókasafn Orkustofnunar við Íslenskar orkurannsóknir. Hún hafi unnið að samningum um Rekstrarfélag Orkugarðs og hafi setið í stjórn þess frá upphafi, nú síðasta ár sem formaður. Þá hafi kærandi undirbúið árangursstjórnunarsamning í samvinnu við lögfræðing Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytið. Þá hafi kærandi einnig unnið tillögur að þjónustusamningum milli Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytis um einstök verkefni.

Kærandi hafi í ríkum mæli komið að stjórnsýsluverkefnum sem Orkustofnun séu falin, fyrst sem deildarstjóri orkudeildar frá árinu 2004, en orkudeildin hafi borið ábyrgð á stjórnsýsluverkefnum stofnunarinnar. Eftir skipulagsbreytingar í lok árs 2005 hafi kærandi borið ábyrgð á stjórnsýsluverkefnum sem aðstoðarorkumálastjóri. Þar megi nefna undirbúning að framkvæmd raforkulaga, framkvæmd raforkueftirlits stofnunarinnar, þróun verklagsreglna, laga og reglugerða um raforkueftirlit, niðurgreiðslur til húshitunar og niðurgreiðslur í dreifbýli, gerð verklagsreglna og reglugerða um framkvæmd niðurgreiðslna, aðra aðstoð við laga- og reglugerðarvinnu ráðuneytisins og umsagnir. Þá hafi kærandi einnig komið að verkefnum Orkusjóðs og Orkuseturs í ríkum mæli.

Kærandi hafi verið stjórnvöldum til ráðgjafar í orkumálum, svarað alþjóðlegum úttektarnefndum á sviði loftslagsmála og fulltrúum Alþjóðabankans í samstarfi við utanríkisráðuneytið, setið fundi hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, átt samskipti við fulltrúa umhverfisráðuneytisins, svarað fyrirspurnum frá nefndum Alþingis, aðstoðað iðnaðarráðuneytið og aðra í stjórnsýslunni, haldið reglulega upplýsingarfundi með samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila samkvæmt raforkulögum, verið í nánum tengslum við starfsmenn annarra stofnana og fyrirtækja sem tengjast starfssviði Orkustofnunar, tekið á móti smærri og stærri hópum sem heimsótt hafa stofnunina og staðið fyrir fræðslu um orku- og auðlindamál jafnt í formi fyrirlestra, útgáfu og afgreiðslu fyrirspurna. Kærandi hafi haft frumkvæði að því að bæta útgáfu á ritum stofnunarinnar og auka til muna birtingu gagna á vef stofnunarinnar.

Í auglýsingu um embætti orkumálastjóra hafi verið gerðar kröfur um háskólamenntun sem nýtist í starfi, reynslu af stjórnun og rekstri, leiðtogahæfileika, þekkingu á orku- og auðlindamálum, góða tungumálakunnáttu og hæfni í mannlegum samskiptum.

Áður hefur verið vikið að menntun kæranda sem og reynslu af stjórnun og rekstri á Orkustofnun.

Hvað leiðtogahæfileika varðar hafi kærandi átt farsælt starf á öllum vinnustöðum og ávallt gengið vel að fá fólk til samvinnu. Þá hafi kærandi valist til forystu í ýmsum verkefnum og nefndum bæði vinnutengdum og hjá félagasamtökum eins og sjá megi af ferilskrá hennar og hafi þannig valist til leiðtogastarfa. Kærandi sé árangursdrifin og setji sér og samstarfsmönnum háleit en raunhæf markmið og fari reglulega yfir hvernig til hafi tekist. Þetta verklag hafi skilað sýnilegum framförum.

Kærandi hafi yfirgripsmikla þekkingu á orku- og auðlindamálum eftir starf sitt á Orkustofnun. Hún hafi komið að öllum málaflokkum stofnunarinnar og geti tjáð sig um þá alla. Þá hafi hún mikil og góð tengsl við aðila í orkugeiranum erlendis sem og innanlands.

Kærandi hafi ávallt leitast við að vera hreinskiptin og sanngjörn gagnvart því fólki sem hún hefur umgengist og aldrei fundið fyrir öðru en að það hafi gefist vel í samskiptum við fólk. Auk þess hafi kærandi kennt námskeið við Háskóla Íslands um stjórnun breytinga þar sem sérstaklega sé lögð áhersla á mannleg samskipti við stjórnun fyrirtækja og stofnana.

Kærandi tiltekur að í rökstuðningi ráðherra fyrir skipun karlmannsins í stöðuna segi að hann, G, sé verkfræðingur með eðlisverkfræði sem sérgrein og doktorsgráðu. Einnig segi að G hafi auk þess áunnið sér dósentsgráðu með sérstökum árangri í rannsóknum og vísindastarfi. Varðandi þetta taki kærandi fram að um sé að ræða mat á hæfni til að gegna stöðu vísindamanns við háskóla á viðkomandi sérsviði og að nauðsynlegt sé að benda á þrepin í akademísku umhverfi háskóla þar sem menn geti fengið dósentstöðu eftir doktorspróf og síðan endað í prófessorsstöðu. Það sé því mikilvægara í þessu sambandi að hafa verið starfandi prófessor en að hafa viðkomandi dósentsgráðu.

Einnig segi í rökstuðningi ráðherra að G hafi birt fjölda fræði- og vísindagreina í alþjóðlega ritrýndum bókum og vísindaritum sem tengjast orku- og auðlindamálum. Af þessari setningu megi skilja að G hafi ritað ótal fræðigreinar á breiðu sviði orku- og auðlindamála og þá sérstaklega mála sem tengist Orkustofnun á einhvern hátt. Af gögnum um G fáist hins vegar ekki betur séð en að rit hans snúi einkum að einangrun bygginga. Það sé ekki eitt lykilsvið Orkustofnunar. Það fáist alls ekki séð af framlögðum gögnum að fræði- og vísindagreinar G tengist á nokkurn hátt helstu meginsviðum Orkustofnunar. Kærandi hafi starfað í tíu ár við rannsóknir á rannsóknastofnunum atvinnuveganna, fyrst á Iðntæknistofnun og síðan á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Á tímabilinu hafi kærandi birt fjölmargar fræði- og vísindagreinar, meðal annars í alþjóðlega ritrýndum tímaritum, og tekið þátt í mörgum ráðstefnum og haldið þar erindi um niðurstöður sínar bæði erlendis og hérlendis. Kærandi hafi verið fulltrúi Íslands í International Corrosion Committee, komið á norrænni ráðstefnu um tæringu sem hafði legið niðri í tólf ár og styrkt tengsl Norðurlandanna á sviði tæringar.

Í rökstuðningi ráðherra segi að G teljist með mestu menntun umsækjenda og að enginn vafi leiki á því að menntasvið hans muni nýtast ágætlega í starfi orkumálastjóra. Í þessu sambandi tekur kærandi fram að MBA-gráðan sem hún hafi sé sérstaklega sniðin að þeim sem taka að sér stjórnun fyrirtækja og stofnana. Það fáist því ekki séð að G geti talist með mestu menntun umsækjenda og síst í ljósi þeirra verkefna sem orkumálastjóri standi frammi fyrir og þeirra hæfniskrafna sem komi fram í auglýsingu um starf orkumálastjóra. Hér hljóti MBA-gráðan að vera menntun sem nýtist í starfi. Einnig sé rétt að undirstrika að Orkustofnun hafi á undanförnum árum verið að breytast úr rannsóknastofnun í hreina stjórnsýslueiningu. Jarðhitarannsóknir hafi verið færðar út í sérstaka stofnun, Íslenskar orkurannsóknir, árið 2003 og nú hafi vatnamælingasviðið verið fært undir umhverfisráðuneytið og stefnt sé að því að það fari frá Orkustofnun á árinu 2008 og sameinist Veðurstofunni.

Í rökstuðningi iðnaðarráðherra segi að G hafi sterka stöðu í háskólasamfélaginu. Hann hafi fengið stöðu rannsóknarprófessors til sex ára og síðar verið æviráðinn prófessor við Konunglega verkfræðiháskólann í Stokkhólmi. Í þessu sambandi tekur kærandi fram að þetta hljóti að teljast eðlilegur framgangur vísindamanns sem helgað hafi langa starfsævi sína ákveðinni fræðigrein. Hins vegar verði ekki séð hvernig þessi rökstuðningur tengist hæfniskröfum í auglýsingu um starf orkumálastjóra, enda sé fræðasvið G afmarkað. Kærandi hafi einnig sterka stöðu í háskólasamfélaginu. Hún hafi góð tengsl í háskólaumhverfinu hérlendis sem og víða erlendis.

Í þessu sambandi sé rétt að hafa hliðsjón af röksemdafærslu í málum kærunefndar jafnréttismála nr. 1/1997 gegn Orkustofnun og nr. 13/1997 gegn iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Í máli nr. 1/1997 hafi verið um að ræða ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra orkurannsóknasviðs á Orkustofnun. Þar hafi orkumálastjóri mótmælt að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum og lagt áherslu á að starfið væri fyrst og fremst stjórnunar- og rekstrarlegs eðlis en ekki fræðilegt. Ekki væri verið að útdeila virðingarstöðum fyrir ötult starf, langa starfsreynslu, vísindaleg afrek eða annað því um líkt, eins og þegar háskólakennarar séu forframaðir úr lægri stöðum í prófessorsembætti. Því geti verið nauðsynlegt að víkja frá þeirri röðun sem þessir mælikvarðar kynnu að setja. Bent sé á að forstöðumönnum ríkisstofnana sé falið að reka ríkisfyrirtæki þannig að þau standist samanburð við vel rekin einkafyrirtæki.

Í máli nr. 13/1997 hafi verið um að ræða ráðningu í stöðu orkumálastjóra. Þar hafi ráðuneytið lagt áherslu á að við val milli umsækjenda hefði verið horft til færni og reynslu á sviði stjórnunar, auk menntunar, fræðastarfa og þekkingar á innra og ytra umhverfi Orkustofnunar. Ráðuneytið hafi tekið fram að það væri ekki rétt að starf orkumálastjóra væri öðru fremur fræðilegs eðlis. Hið nýja skipulag gerði ráð fyrir að orkumálastjóri sinnti fyrst og fremst stjórnsýslu- og ráðgjafarhlutverki við stjórnvöld, en að rannsóknum yrði sinnt á sérstakri deild með sjálfstæðum fjárhag án daglegra afskipta orkumálastjóra. Þekking þess sem starfið hlaut af samskiptum og ráðgjöf innan stjórnsýslunnar og þekking hans á þeim úrlausnarefnum sem Orkustofnun stæði frammi fyrir hafi vegið mjög þungt. Reynsla kæranda væri á hinn bóginn mjög fræðileg. Stjórnunarreynsla hennar afmarkaðist við tiltekin verkefni á sviði orkumála. Í niðurstöðu kærunefndarinnar hafi sagt að sem ráðuneytisstjóri hafi sá sem ráðinn var óhjákvæmilega öðlast bæði þekkingu og reynslu af þeim málaflokkum sem undir ráðuneytið heyrðu, þar með töldum orkumálum, auk víðtækrar reynslu af almennri stjórnun og opinberum rekstri. Telja yrði að sú starfsreynsla ásamt reynslu hans af að sinna ráðgjöf við stjórnvöld gerði hann hæfari til að gegna stöðu orkumálastjóra.

Við ráðningu nú í embætti orkumálastjóra virðist lítið gert úr þeim þáttum sem hafi vegið mest árið 1996, það er menntun, færni og reynslu á sviði stjórnunar og reksturs, þekkingu á stjórnsýslunni og þekkingu á innra og ytra umhverfi Orkustofnunar. Þessir þættir ættu þó að eiga enn frekar við í dag þegar búið sé að færa rannsóknareiningarnar að fullu út úr stofnuninni.

Í rökstuðningi sínum segi ráðherra að G hafi á sautján ára ferli sínum sem prófessor öðlast reynslu af stjórnun og rekstri og fjármögnun verkefna. Í rökstuðningnum komi hins vegar ekkert fram varðandi reynslu hans af árangursstjórnun og ekki heldur um kunnáttu á þeim stjórnsýsluverkefnum sem heyri undir Orkustofnun, en báðir þessir þættir hafi verið tilgreindir sem mikilvægar hæfniskröfur í auglýsingu um starf orkumálastjóra.

G sé af ráðherra sagður hafa dýrmæta reynslu úr einkageiranum og sjálfstæðum rekstri og hafi átt þátt í að stofna nokkur sprotafyrirtæki og sinnt nýsköpunarstarfi. Þá sé sérlega tilgreint að hann hafi aflað nokkurra einkaleyfa fyrir uppfinningar sínar. Ekki sé tilgreint hvernig það samræmist þeim hæfniskröfum sem gerðar voru í auglýsingu um starf orkumálastjóra.

Ráðherra geri mikið úr yfirgripsmikilli þekkingu G á mikilvægum sviðum orku- og auðlindamála. Kærandi tekur fram að ekki verði séð af fyrirliggjandi gögnum málsins að G hafi neina sérfræðiþekkingu á helstu meginsviðum Orkustofnunar heldur einungis á sviði orkunýtingar og einangrunar húsa.

Ráðherra segi G hafa sýnt leiðtogahæfileika sem prófessor og að hann hafi meðal annars byggt upp háskóladeild, þar sem afla hafi þurft verulegs fjármagns utan deildarinnar, og skipulagt og stjórnað stórum og umfangsmiklum rannsóknarverkefnum. Kærandi gerir athugasemd við að rannsóknareining G sé kölluð háskóladeild miðað við þá hefð sem skapast hafi um skilgreiningu á deild í háskólaumhverfi. Kærandi hafi skipulagt, stjórnað og einnig aflað fjármagns í umfangsmikil alþjóðleg rannsóknarverkefni í fyrri störfum sínum hjá Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

Það sé mat ráðherra að G hafi í störfum sínum gegnt hlutverki leiðtoga og hafi ótvíræða hæfileika til að leiða mál farsællega til lykta og takast á við breytingar. Í þessu sambandi tekur kærandi fram að hún hafi tekist á við mörg erfið mál og ávallt leitt þau farsællega til lykta. Samskipti kæranda við aðila innan orkugeirans hafi verið góð og hafi hún fundið fyrir mikilli velvild frá starfsmönnum Orkustofnunar svo og frá samstarfsaðilum innan orkugeirans og utan hans sem virtust hafa gert ráð fyrir því að hún yrði ráðin í starf orkumálastjóra.

Ráðherra tilgreini að samskiptahæfileikar G veki sérstaka athygli og að hann sé virtur innan alþjóðasamfélagsins og eftirsóttur til fyrirlestrahalds á alþjóðavettvangi. Kærandi telur sig einnig búa yfir góðum samskiptahæfileikum, hafa góð tengsl auk þess að hafa haldið fjölda erinda utanlands sem innan.

Um trúnaðarstörf, úthlutanir úr vísindasjóðum, ritverk og ráðgjöf við stjórnvöld sé vísað til umfjöllunar um samantektir Capacent. Telur kærandi sig hafa meiri reynslu en G á öllum meginsviðum Orkustofnunar hvað þetta varðar. Sagt sé að G sé tamt að tala á opinberum vettvangi. Kærandi tekur fram að henni hafi heldur ekki reynst það erfitt.

Ráðherra telji G hafa sterka framtíðarsýn og að hann sé líklegri en aðrir umsækjendur til að hleypa nýju blóði í starfsemi stofnunarinnar, en kærandi telur ekki liggja fyrir hvernig lagt hafi verið mat á þennan þátt. Hvernig einhver sem ekki þekki stofnunina geti haft sterkari framtíðarsýn en sá sem hafi starfað þar að undanförnu og haldið ótal stefnumótunarfundi með starfsmönnum stofnunarinnar. Það hljóti að vera nokkuð ljóst að kærandi myndi setja mark sitt á stofnunina þegar fyrrverandi orkumálastjóri hætti þar störfum. Kærandi hafi mótaðar hugmyndir um framtíð stofnunarinnar bæði varðandi fræðilega og rekstrarlega þætti. Það sé ekkert í framlögðum gögnum málsins sem bendi til sérstakrar hæfni G umfram hæfni kæranda og erfitt sé að sjá hvernig rökstyðja megi að hann sé betur til þess fallinn að leiða árangursstjórnun við rekstur Orkustofnunar og bera ábyrgð á stjórnsýsluverkefnum stofnunarinnar.

Kærandi telur að skipun ráðherra í stöðu orkumálastjóra hafi farið gegn stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum, jafnréttisáætlun Orkustofnunar og jafnréttisáætlun iðnaðarráðuneytis. Samkvæmt jafnréttisáætlun Orkustofnunar eigi að auka hlut kvenna og yngra fólks í starfsliði. Þá sé það markmið Orkustofnunar að hafa ávallt á að skipa hæfasta starfsfólki á hverju sviði. Mikilvægur þáttur í því sé að starfsmenn hafi tækifæri til starfsþróunar.

Í jafnréttisáætlun iðnaðarráðuneytis segi að taka skuli mið af jafnréttissjónarmiðum og að kynjunum skuli ekki mismunað með neinum hætti. Þá segi að hlutur kynjanna í störfum hjá ráðuneytinu skuli jafnaður eins og kostur sé og að þess skuli jafnan gætt að sá umsækjandi sé ráðinn sem talinn sé hæfastur til þess að gegna starfi, að teknu tilliti til menntunar og hæfni en án tillits til kynferðis. Séu tveir eða fleiri umsækjendur af báðum kynjum taldir jafnhæfir til ráðningar í auglýst starf skuli að jafnaði ráðinn umsækjandi af því kyni sem sé í minnihluta á viðkomandi sviði.

Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segi að stefnt skuli að því að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og stjórnunarstörfum á vegum ríkisins.

Í þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára 2004–2008 sé lögð sérstök áhersla á jafnréttisáætlanir ráðuneyta, að jafnréttissjónarmið séu tryggð við stöðuveitingar og að sérstaklega sé hugað að stöðu kvenna í ráðuneytunum og stofnunum þeirra. Þá beri iðnaðarráðuneytið ábyrgð á verkefnum um konur og stjórnun fyrirtækja og taki þátt í verkefni um jafnréttisumsagnir stjórnarfrumvarpa.

Hvort heldur sem horft sé til æðstu starfa í orkugeiranum hér á landi eða stofnana ríkisins, þar með talið iðnaðarráðuneytis, séu konur í minnihluta, en kærandi telur að líta hefði átt til þess við ráðningu í embætti orkumálastjóra.

Kærandi áréttar í rökstuðningi sínum til kærunefndarinnar og í athugasemdum að markvisst sé í rökstuðningi iðnaðarráðuneytisins gert minna úr reynslu, þekkingu og hæfni hennar en tilefni sé til. Kærandi ætlist til þess að sami mælikvarði sé notaður við samanburð á umsækjendum. Mikilvægt sé að mat á öllum þáttum í samanburði sé málefnalegt og rökstutt og að horft sé til þeirra atriða sem máli skipta við rekstur stofnunarinnar, það er upplýsinga um embætti orkumálastjóra og verkefna Orkustofnunar, en ekki til annarra atriða sem ráðuneytið telur henta sér betur eftir á til að rökstyðja ákvörðun sína.

Telur kærandi að ráðuneytið hafi með skipun sinni í embætti orkumálastjóra brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og að ekkert hafi komið fram í umsögn þess og rökstuðningi sem breyti kröfu kæranda eða hnekki rökstuðningi hennar.

 

IV.

Sjónarmið iðnaðarráðuneytisins

Iðnaðarráðuneytið gerir þá kröfu að kærunefnd jafnréttismála staðfesti með ákvörðun sinni í máli þessu að skipan G í starf orkumálastjóra frá og með 1. janúar 2008 hafi ekki falið í sér brot á lögum nr. 96/2000.

Embætti orkumálastjóra hafi verið auglýst laust til umsóknar í Lögbirtingablaði 9. nóvember og 30. nóvember 2007. Auglýsing hafi einnig verið birt í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 11. nóvember 2007. Auglýsingin í dagblöðum hafi verið endurbirt 2. desember 2007 og umsóknarfrestur framlengdur til og með 9. desember 2007. Ákvörðun um framlengingu umsóknarfrests hafi verið tekin nokkru áður en auglýstur frestur hafi runnið út þar sem aðeins tveir höfðu skilað umsókn og hafi kærandi ekki verið á meðal þeirra. Í auglýsingu voru gerðar kröfur um háskólapróf sem nýtist í starfi, reynslu af stjórnun og rekstri, leiðtogahæfileika, þekkingu á orku- og auðlindamálum, góða tungumálakunnáttu og hæfni í mannlegum samskiptum. Ráðgjafarfyrirtækið Capacent hafi aðstoðað iðnaðarráðuneytið í umsóknarferlinu.

Níu umsóknir hafi borist um stöðu orkumálastjóra. Þegar iðnaðarráðuneytið og Capacent höfðu farið yfir allar þær umsóknir sem bárust hafi niðurstaða ráðuneytisins verið sú að þrír umsækjendur uppfylltu þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu, kærandi, sem sé með doktorsgráðu, G, sem sé einnig með doktorsgráðu, og E, iðnaðar- og rekstrarverkfræðingur. Þessir þrír aðilar hafi verið boðaðir í viðtal hjá Capacent þar sem þeir hafi allir fengið sömu spurningar. Capacent hafi tekið saman greinargerð um umsækjendurna þrjá. Hafi þeir síðan verið boðaðir til annars viðtals við ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra orkumála í ráðuneytinu. Viðstaddur hafi einnig verið fulltrúi frá Capacent. Að loknum þeim viðtölum hafi það verið niðurstaða ráðuneytisins að valið á hæfasta umsækjanda stæði á milli kæranda og G. Við samanburð á kæranda og G hafi verið litið heildstætt til þess hvernig þeir uppfylltu þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu um starfið.

Ljóst hafi verið að kærandi og G uppfylltu það skilyrði að hafa menntun sem nýtist í starfi orkumálastjóra. Hafa verði í huga að ekki var gerð krafa um ákveðna menntun heldur að hún nýttist í starfi. Bæði kærandi og G hafi lokið doktorsprófi í verkfræði. Kærandi hafi að auki lokið MBA-prófi og G að auki hlotið sérstaka æðri doktorsgráðu. Kærandi og G hafi stundað rannsóknir á sviði orkumála. Rannsóknir kæranda hafi einkum beinst að lögnum og tæringu þeirra. Rannsóknarstörf G hafi einkum beinst að orkunýtingu. Bæði rannsóknar- og ritstörf G á sviði orkumála hafi talist viðameiri en hjá kæranda.

Bæði kærandi og G uppfylli það skilyrði að hafa reynslu af stjórnun og rekstri þó af ólíkum vettvangi sé. Kærandi hafi reynslu af stjórnun og rekstri hjá Orkustofnun frá vorinu 2004. Einnig hafi kærandi stjórnunarreynslu sem deildarstjóri og verkefnisstjóri á Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins en sú reynsla hafi þó ekki talist vega mjög þungt vegna smæðar deildanna. Að auki hafi kærandi reynslu af öðrum vettvangi, meðal annars af félagsstörfum. G hafi stjórnunarreynslu úr einkageiranum af rekstri verkfræðistofu. Hann hafi einnig reynslu af stjórnun og rekstri byggingatæknideildar Konunglega verkfræðiháskólans í Stokkhólmi síðastliðin þrettán ár. Þá hafi hann mikla reynslu af stjórnun og skipulagi rannsókna. Loks hafi hann reynslu af öðrum vettvangi, svo sem af félagsstörfum. Við mat á stjórnunar- og rekstrarreynslu verði að hafa í huga að gerðar hafi verið almennar kröfur um reynslu af rekstri og stjórnun. Reynsla G af stjórnun og rekstri hafi talist meiri en kæranda með tilliti til árafjölda við stjórnun og umfangs.

Bæði kærandi og G hafi góða þekkingu á sviði orku- og auðlindamála þó af ólíkum vettvangi sé. Kærandi hafi starfað á Orkustofnun frá árinu 2004 og þekki vel til starfsemi og reksturs stofnunarinnar. Þá hafi störf hennar fyrir þann tíma verið á sviði tengdu orkumálum. G hafi starfað að orkumálum mun lengur og þekking hans hafi verið talin víðtækari ekki síst vegna starfa hans í háskólasamfélaginu í Svíþjóð og á alþjóðavettvangi.

Bæði kærandi og G standist fyllilega þær kröfur sem gerðar hafi verið um tungumálakunnáttu. Kærandi hafi mjög góða kunnáttu í dönsku en G mjög góða kunnáttu í sænsku. Af umsóknargögnum megi ráða að reynsla G af því að tjá sig í ræðu og riti á enskri tungu sé meiri en kæranda. Báðir hafi að auki þekkingu á öðrum tungumálum.

Þegar litið hafi verið heildstætt til þess hvernig kærandi annars vegar og G hins vegar uppfylltu kröfur um menntun og starfsreynslu hafi það verið mat iðnaðarráðuneytisins að G skaraði fram úr kæranda. Þannig hafi hann þótt hafa víðtækari reynslu af stjórnun og rekstri en kærandi. Í rökstuðningi fyrir skipun G í embætti orkumálastjóra komi fram það mat ráðuneytisins að G hefði mesta menntun umsækjenda. Ekki aðeins væri hann doktor heldur hefði hann að auki áunnið sér dósentsgráðu með sérstökum árangri í rannsóknum og vísindastarfi. En þar sé um að ræða æðri doktorsgráðu sem þeir einir fái sem séu metnir sérstaklega hæfir.

Í auglýsingu hafi einnig verið gerðar kröfur um leiðtogahæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum. Um sé að ræða atriði sem augljóslega vegi þungt þegar um forstöðumann stofnunar sé að ræða. Orkumálastjóri hafi líkt og aðrir forstöðumenn ríkisstofnana ekki einungis samskipti við starfsfólk sitt og iðnaðarráðuneytið heldur fjölda fólks hjá fyrirtækjum og stofnunum bæði hérlendis og erlendis.

Við samanburð á þessum atriðum verði að horfa til framkomu og frammistöðu í viðtölum og umsagna umsagnaraðila. Um matskennd atriði sé að ræða sem erfitt geti verið að bera saman. Áður hafi komið fram að báðir umsækjendur komu tvisvar sinnum í viðtal. Einnig hafi verið haft samband við þá umsagnaraðila sem G benti á og þrjá af þeim umsagnaraðilum sem kærandi benti á. G hafi þótt skara fram úr kæranda í viðtölum hvað framtíðarsýn hans sem leiðtoga Orkustofnunar varðaði. Bæði frammistaða í viðtali og umsagnir hafi bent til þess að samskiptahæfni og leiðtogahæfileikar kæranda væru ekki fullnægjandi. Starfsferill kæranda að námi loknu sé mestmegnis hjá þremur ríkisstofnunum, það er Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Iðntæknistofnun og Orkustofnun. Allt séu þetta stofnanir hins kærða ráðuneytis. Ráðuneytið þekki því nokkuð vel til starfa kæranda og þá mest í gegnum störf hans hjá Orkustofnun. Niðurstaða ráðuneytisins hafi verið sú að kærandi stæði G að baki hvað varðaði leiðtogahæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum enda sé kæranda fremur lýst af umsagnaraðilum sem stjórnanda en leiðtoga.

Heildstætt mat á hæfni kæranda og G hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að G teldist í flestum atriðum hæfari en kærandi og þar með væri hann hæfasti umsækjandinn. Sú óskráða meginregla sé talin gilda í stjórnsýslurétti að skipa beri hæfasta umsækjanda um starf. Iðnaðarráðherra hafi því skipað G í starf orkumálastjóra til fimm ára frá og með 1. janúar 2008.

Kærandi dragi í efa að tekin hafi verið sjálfstæð ákvörðun um mat á hæfni umsækjenda og einnig að samanburður á hæfni þeirra hafi farið fram með skipulegum hætti.

Iðnaðarráðuneytið vísar þessum fullyrðingum kæranda á bug. Ráðuneytið hafi í umsóknarferlinu notið aðstoðar ráðgjafarfyrirtækisins Capacent við móttöku umsókna, upplýsingagjöf, í viðtölum við umsækjendur og umsagnaraðila auk þess sem fyrirtækið hafi tekið saman greinargerð um þá þrjá umsækjendur sem hafi þótt skara fram úr. Þessi vinna ráðgjafarfyrirtækisins hafi hins vegar ekki komið í veg fyrir að ráðuneytið legði sjálft mat á þær umsóknir sem bárust. Greinargerð sú sem Capacent tók saman endurspegli mat fyrirtækisins á umsækjendum. Ráðuneytið hafi haft þetta skjal til hliðsjónar við vinnu sína en það hafi ekki komið í staðinn fyrir sjálfstæða yfirferð á umsóknum og umsóknargögnum og samanburð af hálfu þess.

Í rökstuðningi kæranda komi meðal annars fram að hann hafi sem aðstoðarorkumálastjóri og staðgengill orkumálastjóra frá árinu 2005 annast daglega stjórnun Orkustofnunar og að staðgengilsstörfin hafi verið mikil vegna fjarveru fyrrverandi orkumálastjóra.

Iðnaðarráðuneytið bendir á að hvorki sé í lögum, reglugerð né skipuriti Orkustofnunar, sem staðfest sé af iðnaðarráðherra, kveðið á um stöðu aðstoðarorkumálastjóra eða staðgengils orkumálastjóra. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 87/2003, um Orkustofnun, og eins og fram komi í auglýsingu, fari orkumálastjóri með stjórn og daglegan rekstur Orkustofnunar. Þá segi enn fremur að orkumálastjóri ráði annað starfslið stofnunarinnar. Í 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 308/2004, um Orkustofnun, segi meðal annars að orkumálastjóri fari með stjórn og daglegan rekstur Orkustofnunar, skiptingu fjárveitinga milli rekstrareininga og gerð eða staðfestingu starfslýsingar starfsmanna. Þá sé kveðið á um að orkumálastjóri komi fram fyrir hönd Orkustofnunar. Í erindisbréfi orkumálastjóra sé nánar kveðið á um verksvið og skyldur orkumálastjóra. Ráðuneytið telur að ummæli kæranda beri að skoða í þessu ljósi. Vegna ummæla um fjarvistir fyrrverandi orkumálastjóra vill ráðuneytið taka fram að með bréfi dagsettu 15. apríl 2005 hafi þáverandi orkumálastjóri óskað eftir tímabundnu leyfi frá starfi orkumálastjóra vegna veikinda eiginkonu sinnar. Með bréfi ráðuneytisins dagsettu 18. apríl 2005 hafi kærandi verið sett til þess að gegna embætti orkumálastjóra til 17. júní 2005. Með bréfi dagsettu 18. júní 2005 hafi setningin verið framlengd til 15. júlí 2005. Fjarvistirnar, bæði þá og síðar, hafi verið þess eðlis að skipaður orkumálastjóri hafi nær undantekningarlaust verið í síma- og tölvupóstssambandi bæði við ráðuneytið og stofnunina til upplýsingar og ráðgjafar um einstök mál.

Kærandi geri ítarlega grein fyrir því í rökstuðningi sínum hvernig hann annars vegar og G hins vegar uppfylli þau skilyrði sem gerð voru í auglýsingu til umsækjenda. Kærandi bendi í þessu sambandi réttilega á að efni auglýsingar um starf setji veitingarvaldshafa nokkrar skorður varðandi þau sjónarmið sem leggja megi til grundvallar við skipan í starf. Kærandi vísi til hæstaréttardóms nr. 121/2002 máli sínu til stuðnings.

Iðnaðarráðuneytið gerir verulegar athugasemdir við þennan samanburð og niðurstöðu kæranda. Efni auglýsingarinnar um embætti orkumálastjóra sé tvíþætt. Í fyrri hluta auglýsingarinnar sé að finna upplýsingar um embætti orkumálastjóra og helstu verkefni Orkustofnunar, eins og þeim sé lýst í lögum nr. 87/2003 og reglugerð nr. 308/2004. Í síðari hluta auglýsingarinnar séu settar fram þær menntunar- og hæfniskröfur sem umsækjendur verði að uppfylla og veitingarvaldshafi hafi í þessu tilviki að miklu leyti í hendi sér að setja fram.

Kærandi kjósi að líta svo á að hvort tveggja sé upptalning á þeim kröfum sem gerðar séu til umsækjenda. Þessi skilningur kæranda sé rangur. Lýsing á verkefnum Orkustofnunar hafi af hálfu ráðuneytisins verið sett fram til upplýsingar en sé ekki hluti menntunar- og hæfniskrafna, eins og glöggt megi sjá þegar auglýsingin er lesin.

Menntunar- og hæfniskröfur umsækjenda séu mjög almennt orðaðar í auglýsingunni. Ekki hafi sérstaklega verið gerð krafa um að umsækjendur hefðu reynslu af störfum hjá Orkustofnun. Tilgreining á helstu verkefnum Orkustofnunar í auglýsingunni um starf orkumálastjóra sé ekki sambærileg þeim upplýsingum sem fram komu í auglýsingu um starf sýslumanns á Keflavíkurflugvelli í áðurnefndum hæstaréttardómi, enda sé þar meðal annars tekið fram hvaða atriði myndu hafa áhrif á starfið á næstu árum eftir skipun. Þær kröfur sem í því máli gilda um menntun umsækjenda séu einnig lögbundnar ef frá sé talin kunnátta í tungumálum. Málin séu því ekki á nokkurn hátt sambærileg. Hæstaréttardómur í málinu nr. 121/2002 hafi ekkert fordæmisgildi í máli þessu.

Kærandi telur að skipun ráðherra á orkumálastjóra hafi gengið gegn jafnréttisáætlun Orkustofnunar, jafnréttisáætlun iðnaðarráðuneytis, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007 og þingsályktun um áætlun um jafnréttismál 2004–2008.

Í umsögnum til kærunefndar jafnréttismála hafi iðnaðarráðuneytið gert grein fyrir þeirri niðurstöðu sinni að G hafi verið hæfasti umsækjandinn um stöðu orkumálastjóra. Sá rökstuðningur sýni að ráðuneytið hafi ekki farið gegn jafnréttisáætlun sinni, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar eða þingsályktun um jafnréttismál. Sömu sjónarmið eigi við um jafnréttisáætlun Orkustofnunar en ráðuneytið sé þó ekki bundið af henni við skipun orkumálastjóra. Í þeim auglýsingum um stöðuna sem birtar hafi verið í dagblöðum hafi konur jafnt sem karlar verið hvattar til að sækja um starfið.

Með vísan til framangreinds hafnar iðnaðarráðuneytið því alfarið að ómálefnalegum sjónarmiðum, hvort sem er varðandi kynferði eða annað, hafi verið beitt við skipan G í stöðu orkumálastjóra. Niðurstaðan hafi byggst á heildstæðu mati á hæfni umsækjenda á grundvelli framlagðra gagna, framkomu og frammistöðu í viðtölum auk umsagna. Niðurstaða matsins hafi verið sú að G stæði kæranda framar. Því mati hafi kærandi ekki hnekkt með kæru sinni og þeim gögnum sem henni fylgja. Í lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun, sé ekki að finna ákvæði um sérstakar hæfis- eða menntunarkröfur þess sem gegni stöðu orkumálastjóra. Því gildi almenn hæfisskilyrði 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það sé því í höndum veitingarvaldshafa að setja fram kröfur um menntun og hæfni. Veitingarvaldshafi hafi því talsvert svigrúm til að velja þau sjónarmið sem hann leggi áherslu á við veitingu starfs. Þessu til stuðnings megi meðal annars vísa til máls umboðsmanns Alþingis nr. 1391/1995 og einnig nýlegs álits kærunefndar jafnréttismála nr. 3/2007. Af þessu leiði jafnframt að við úrlausn þessa máls hafi álit kærunefndar jafnréttismála nr. 1/1997 ekkert gildi.

Kærandi haldi því fram að mismunandi mælistikum hafi verið beitt við mat á hæfni umsækjenda og að kerfisbundið hafi verið gert meira úr menntun og reynslu þess sem skipaður var en lítið gert úr reynslu og þekkingu kæranda. Iðnaðarráðuneytið mótmælir þessum staðhæfingum og telur þær ekki í samræmi við þann samanburð á umsækjendum sem rakinn sé í greinargerð ráðuneytisins og þær upplýsingar sem fram komi í ferilskrám kæranda og G.

Iðnaðarráðuneytið bendir á að ekki sé um það deilt í máli þessu að bæði kærandi og G hafi talist hæf til að gegna starfi orkumálastjóra. Mat ráðuneytisins hafi hins vegar verið að G væri hæfari en kærandi og því hafi ráðuneytinu borið að skipa hann í starf orkumálastjóra.

Af athugasemdum kæranda megi helst ráða að unnt sé að skilja á milli menntunar og vísindalegra starfa við mat á menntun umsækjenda. Doktorsnám sé vísindalegt nám og inngangur að áframhaldandi vísindaiðkunum. Afrakstur slíkrar menntunar sé að miklum hluta metinn út frá vísindalegum árangri innan háskóla- og vísindasamfélagsins. G hafi áunnið sér dósentsnafnbót við Konunglega verkfræðiháskólann í Stokkhólmi þegar árið 1982 og síðan orðið hlutskarpastur í tvígang við veitingu í prófessorsstöðu við sama skóla, árin 1990 og 1993. Til viðbótar þessu komi rannsóknir hans og ritstörf sem séu mikil að vöxtum og unnin á löngum prófessorsferli. Kærandi hafi fullgilda doktorsgráðu og hafi stundað rannsóknir og ritstörf en ekkert hæfnismat liggi fyrir um þau vísindastörf sambærilegt því sem liggi fyrir hjá G. Niðurstaða iðnaðarráðuneytisins hafi verið sú að menntun og vísindastörf kæranda væru ekki eins yfirgripsmikil og viðurkennd og í tilviki G. Ráðuneytið hafni því að mat á menntun sé svo einfalt að hægt sé að leggja doktorsgráður þeirra beggja að jöfnu og að MBA-gráða valdi því sjálfkrafa að kærandi teljist hafa meiri menntun.

Kærandi telji að áhersla iðnaðarráðuneytisins á reynslu G af fræðilegum rannsóknum skjóti skökku við þar sem sú hæfniskrafa hafi ekki verið gerð í auglýsingu. Ráðuneytið mótmælir því að óeðlilega mikil áhersla hafi verið lögð á rannsóknarferil G við matið. Þegar rannsóknarferill hans og starfsmanna hans sé skoðaður sé ljóst að rannsóknir hans og vísindalegt frumkvæði hafa beinst að grundvallarspurningum í orkumálum eins og orkugæðum, nýtingu lággildrar orku og endurnýjanlegra orkugjafa, umhverfisáhrifum orkunotkunar og varmafræðilegri líkanagerð. Þar til viðbótar komi svo reynsla hans af alþjóðlegri staðlavinnu. Ráðuneytið bendir á að þekking á orku- og auðlindamálum hafi verið meðal hæfniskrafna í auglýsingu um stöðu orkumálastjóra. Aðkoma G að rannsóknum á sviði orkumála, störf hans á þessu sviði í háskólasamfélaginu í Svíþjóð og á alþjóðavettvangi hafi talist, eins og áður hafi komið fram, leiða til þeirrar niðurstöðu að þekking hans á þessu sviði væri víðtækari en kæranda.

Kærandi fari með rangt mál þegar kærandi segi stjórnunarreynslu G takmarkast við stjórnun rannsóknarhóps við Konunglega verkfræðiháskólann í Stokkhólmi. Hið rétta sé að G hafi frá 1992 veitt forstöðu deild (avdelning för byggnadsteknik) innan byggingaverkfræðisviðs skólans og hann hafi sem prófessor og stjórnandi (avdelningsföreståndare) borið faglega og fjárhagslega ábyrgð á kennslu og rannsóknum þar. Kærandi kjósi að nefna ekki aðra stjórnunarreynslu sem fram komi í ferilskrá og umsókn G, svo sem setu í vísindanefnd Konunglega verkfræðiháskólans í Stokkhólmi (Faculty Board) og setu í stjórn Háskólans í Gävle í Svíþjóð.

Kærandi leggi með endurteknum hætti á vogarskálarnar reynslu sína af ýmsum þáttum í skrifstofuhaldi innan Orkustofnunar, vinnslu staðlaðra upplýsingarita og þá innanhússþekkingu sem hún hafi aflað sér á starfstíma sínum. Iðnaðarráðuneytið ítrekar að í auglýsingu um stöðu orkumálastjóra hafi ekki verið gerðar kröfur um reynslu af störfum frá Orkustofnun heldur hafi hæfniskröfur, þar með talin þekking á orku- og auðlindamálum og reynsla af stjórnun og rekstri, verið settar fram með almennum hætti.

Ljóst sé að hugmyndir kæranda og iðnaðarráðuneytisins um meginhlutverk Orkustofnunar og orkumálastjóra fari ekki saman. Ummæli kæranda þess efnis, að vísindarannsóknir á sviði orkubúskapar í hinu byggða umhverfi, og þar með málefni orkuneytenda og almennings, liggi utan við meginsvið stofnunarinnar, lýsi þröngri og afmarkaðri sýn á starfsemi Orkustofnunar. Áður hefur komið fram að þessi þrönga sýn hafi orðið til þess að hæfileikar kæranda sem leiðtoga stofnunarinnar hafi verið vefengdir. Í þessu sambandi megi vísa til minnisblaðs dagsetts 27. desember 2007 sem tekið var saman af ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra orkumálaskrifstofu. Minnisblaðið sé meðal gagna málsins en þar komi fram að framtíðarsýn kæranda fyrir Orkustofnun og starf orkumálastjóra hafi verið fremur þröng í viðtölum við kæranda. Þetta hafi ráðuneytið ekki talið heppilegt með tilliti til hlutverka Orkustofnunar eins og þau séu rakin í 2. gr. laga nr. 87/2003. Þar segi meðal annars að stofnunin skuli vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál sem stofnuninni séu falin með lögum og veita stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir um þau mál.

Með vísan til þess sem að framan sé rakið hafi kæranda ekki tekist að færa sönnur á að iðnaðarráðuneytið hafi við skipan í starf orkumálastjóra brotið gegn 1. mgr. 22. gr. eða 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar G var skipaður orkumálastjóri og talinn hæfari en kærandi. Beri því að hafna kröfum kæranda.

 

V.

Niðurstaða

Hinn 17. mars síðastliðinn tóku gildi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III gilti umboð kærunefndar jafnréttismála samkvæmt áður gildandi lögum, nr. 96/2000, fram til þess tíma er ráðherra skipaði nýja kærunefnd jafnréttismála. Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð með bréfi félags- og tryggingamálaráðherra dagsettu 16. apríl 2008 og tók skipunin gildi 1. maí síðastliðinn. Þar sem fyrri kærunefnd hafði ekki lokið áliti sínu tók nýskipuð nefnd mál þetta til meðferðar.

Ekki er í lögum nr. 10/2008 kveðið á um lagaskil vegna mála sem til meðferðar voru hjá kærunefnd jafnréttismála fyrir gildistöku nýju laganna. Af hálfu nefndarinnar er litið svo á, að því er varðar mál sem til meðferðar voru við lagaskilin, að nefndin skuli miða álit sitt við lög sem í gildi voru þegar atvik þau urðu sem eru tilefni kæru til nefndarinnar. Álit þetta er því byggt á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar iðnaðarráðherra skipaði í stöðu orkumálastjóra í desember 2007.

Með erindi kæranda til nefndarinnar fylgi ítarlegur rökstuðningur, dagsettur 8. febrúar 2008, sem ber með sér að vera rökstuðningur vegna kvörtunar til umboðsmanns Alþingis og til kærunefndar jafnréttismála. Er þar meðal annars fjallað um vinnubrögð iðnaðarráðherra við undirbúning ákvörðunar um skipun í stöðu orkumálastjóra og ýmis atriði henni tengd svo og um þá niðurstöðu að skipa karlmann í stöðuna. Líta verður svo á að um síðast nefnt atriði leiti kærandi álits kærunefndar jafnréttismála, það er hvort ákvæði laga nr. 96/2000 hafi verið brotin og hvort niðurstaða ráðherra hafi samræmst ákvæðum þeirra laga. Af framangreindu tilefni skal tekið fram að samkvæmt lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, skal hlutverk kærunefndarinnar vera að gefa álit á því hvort ákvæði laganna hafi verið brotin í viðkomandi tilviki. Að öðru leyti fellur ágreiningur sem hér er uppi ekki undir verksvið nefndarinnar, svo sem varðandi stjórnsýslulega meðferð málsins. Þó er það álit kærunefndar að af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla leiði sú skylda að stjórnvald hagi undirbúningi ákvörðunar um ráðningu eða skipun í starf svo, að jafnan megi ráða af henni og undirbúningsgögnum að gætt hafi verið að ákvæðum laganna.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 87/2003, um Orkustofnun, er stofnunin sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn iðnaðarráðherra. Samkvæmt 2. gr. laganna er hlutverk Orkustofnunar meðal annars að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál og veita stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir á þeim sviðum, standa fyrir rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar, orkulindum og fleira, og veita stjórnvöldum ráðgjöf um nýtingu þeirra, safna gögnum um orkulindir og nýtingu þeirra og miðla upplýsingum þar að lútandi, vinna að áætlanagerðum á sviði orkumála, stuðla að samvinnu þeirra sem sinna orkurannsóknum og samræmingu á rannsóknarverkefnum, fylgjast í umboði ráðherra með framkvæmd opinberra leyfa sem gefin eru út til rannsóknar og nýtingar jarðrænna auðlinda og reksturs orkuvera og annarra meiri háttar orkumannvirkja og fara með daglega umsýslu Orkusjóðs, sbr. 8. gr. laganna. Þá er í lögunum gert ráð fyrir að Orkustofnun annist önnur stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.

Samkvæmt 5. gr. laganna skipar ráðherra forstöðumann Orkustofnunar til fimm ára í senn og nefnist hann orkumálastjóri. Orkumálastjóri fer með stjórn og daglegan rekstur Orkustofnunar. Nánar er kveðið á um hlutverk orkumálastjóra í reglugerð nr. 308/2004. Þar kemur meðal annars fram að orkumálastjóri skuli skipta fjárveitingum til stofnunarinnar í samræmi við 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar og sjá til þess að starfsemi stofnunarinnar sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og innan þess fjárhagsramma sem fjárlög afmarka hverju sinni. Þá skal orkumálastjóri sjá til þess að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi og meðferð fjármuna stofnunarinnar. Þá er tekið fram að orkumálastjóri komi fram fyrir hönd Orkustofnunar. Orkumálastjóri ræður annað starfslið stofnunarinnar.

Samkvæmt reglugerðinni skiptist starfsemi Orkustofnunar í þrjú fagsvið, auk skrifstofu orkumálastjóra og sameiginlegrar þjónustu, það er orkumálasvið, Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og vatnamælingar. Undir skrifstofu orkumálastjóra falla sameiginleg málefni stofnunarinnar, svo sem varðandi kynningarmál, lögfræðileg málefni, rekstrarumsjón og samræmingu gagnamála, auk þess sem skrifstofa orkumálastjóra ber ábyrgð á umsögnum stofnunarinnar til stjórnvalda og annarra. Gert er ráð fyrir að hver þáttur í starfsemi stofnunarinnar sé rekinn sem sérstök rekstrareining og fjárhagslega aðgreindar eða aðskildar, eftir því sem við á.

Staða orkumálastjóra var auglýst laus til umsóknar í nóvember 2007 og var upphaflegur umsóknarfrestur til 2. desember 2007, en var síðan framlengdur til 9. desember 2007. Í auglýsingu vegna starfsins kom fram að orkumálastjóri skuli auk almennrar ábyrgðar á starfsemi stofnunarinnar meðal annars annast daglega stjórn stofnunarinnar og bera ábyrgð á fjárreiðum hennar og starfsmannahaldi, bera ábyrgð á öflun orkurannsókna, leiða árangursstjórnun við rekstur stofnunarinnar, bera ábyrgð á stjórnsýsluverkefnum sem stofnuninni eru falin og vera stjórnvöldum til ráðgjafar í orkumálum og standa fyrir fræðslu um orku- og auðlindamál. Gerð var krafa um háskólapróf sem myndi nýtast í starfi, reynslu af stjórnun og rekstri, leiðtogahæfileika, þekkingu á orku- og auðlindamálum, góða tungumálakunnáttu og hæfni í mannlegum samskiptum. Í auglýsingunni var tekið fram að við stöðuveitingar hjá iðnaðarráðuneytinu séu jafnréttissjónarmið höfð í huga og voru konur jafnt sem karlar hvattar til að sækja um starfið. Skipað var í stöðuna til fimm ára frá og með 1. janúar 2008 að telja.

Af hálfu kæranda er óskað álits á því, samanber nánar hér að framan, hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við skipun í stöðu orkumálastjóra. Við úrlausn þess ber nefndinni að meta hvort iðnaðarráðherra hafi reist þá ákvörðun, að skipa ekki kæranda heldur karlkyns umsækjanda í stöðuna, á lögmætum sjónarmiðum.

Með tilliti til málatilbúnaðar kæranda og erinda til nefndarinnar má líta svo á að kærandi telji sig hafa verið hæfari, eða að minnsta kosti jafnhæf, til að gegna stöðunni en sá sem skipaður var. Telur kærandi að samanburður á þeim atriðum, sem máli voru talin skipta í þessu sambandi, samanber lög nr. 87/2003 og reglugerð nr. 308/2004, svo og með tilliti til auglýsingar um stöðuna, leiði í ljós að gengið hafi verið framhjá kæranda við skipun í stöðuna og að kynferði hennar hafi skipt þar máli.

Fyrir liggur að við undirbúning ákvörðunar um skipun í stöðuna voru bæði kærandi og sá sem skipaður var talin hæf til að gegna umræddri stöðu. Nokkur ágreiningur er hins vegar milli málsaðila varðandi samanburð og mat á kostum þess sem skipaður var og kæranda, svo og varðandi vægi þeirra þátta sem hér voru taldir skipta máli og tilteknir voru í auglýsingu um stöðuna.

Í rökstuðningi kæranda fyrir kæru til nefndarinnar kemur meðal annars fram að kærandi telur að menntun sín hafi fallið betur að umræddri stöðu, en auk doktorsprófs í verkfræði sem bæði kærandi og sá sem skipaður var hafi lokið, hafi kærandi aflað sér MBA-gráðu frá Háskóla Íslands. Telur kærandi að MBA-prófgráðan sé sérstaklega sniðin að þeim sem taki að sér stjórnun fyrirtækja og stofnana og nýtist því orkumálastjóra, sérstaklega með tilliti til breyttra aðstæðna hjá Orkustofnun undanfarin ár. Af hálfu iðnaðarráðuneytisins er ekki á það fallist að doktorspróf viðkomandi aðila séu alls kostar sambærileg auk þess sem gæta verði að fleiri þáttum varðandi menntun en samanburð prófgráða. Auk þess hafi rannsóknar- og ritstörf þess sem skipaður var verið viðameiri en kæranda, en deilt er um að hve miklu leyti fræðistörf kæranda og þess sem skipaður var tengdust stöðu þeirri sem um ræðir.

Að því er starfsreynslu varðar og reynslu af stjórnun og rekstri er til þess vísað af hálfu kæranda að hún hafi um skeið gegnt starfi orkumálastjóra og verið aðstoðarorkumálastjóri og staðgengill orkumálastjóra frá árinu 2005. Hafi kærandi í þeim störfum meðal annars haft umsjón með fjármálum, fjárlagatillögum, áætlunargerð og fleira og hafi komið að starfsmannamálum. Áður hafi kærandi verið verkefnisstjóri hjá Iðntæknistofnun og deildarstjóri hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Af hálfu iðnaðarráðuneytisins er til þess vísað í þessu sambandi að sá sem skipaður var hafi haft reynslu af rekstri verkfræðistofu og einnig af stjórnun og rekstri byggingatæknideildar Konunglega verkfræðiháskólans í Stokkhólmi um þrettán ára skeið. Reynsla þess sem skipaður var hafi talist meiri með tilliti til árafjölda við stjórnun og umfang.

Að því er varðar þekkingu á orku- og auðlindamálum er á því byggt af hálfu kæranda að vegna starfs síns hjá Orkustofnun hafi hún öðlast yfirgripsmikla þekkingu á orku- og auðlindamálum en hún hafi komið að öllum málaflokkum hjá stofnuninni. Ekki verði séð að störf þess sem skipaður var, sem fyrst og fremst hafi lotið að orkunýtingu húsa, falli undir meginsvið Orkustofnunar. Af hálfu iðnaðarráðuneytisins er til þess vísað að sá sem skipaður var hafi starfað að orkumálum mun lengur en kærandi og að aðkoma hans að rannsóknum á sviði orkumála og störf í háskólasamfélaginu í Svíþjóð og alþjóðasamfélaginu hafi leitt til þess að þekking hans á orku- og auðlindamálum hafi talist víðtækari en kæranda.

Í auglýsingu um starfið var gerð krafa um leiðtogahæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum. Í útdrætti ráðningarfyrirtækisins Capacent, sem unninn var fyrir iðnaðarráðuneytið úr umsögnum meðmælenda sem umsækjendur gáfu upp, kemur fram óljós en þó marktækur munur á umræddum aðilum að því er framangreind atriði varðar. Þá liggur fyrir að í starfsviðtölum komu að nokkru fram mismunandi sjónarmið hjá þeim varðandi framtíð stofnunarinnar og starfsemi hennar. Af hálfu iðnaðarráðuneytisins var talið að sá sem skipaður var hafi talist hæfari en kærandi þegar litið væri til síðastnefndra þátta.

Af lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun, leiðir að hlutverk forstöðumanns hennar, orkumálastjóra, er að annast daglega stjórnun stofnunarinnar í samræmi við almennar skyldur forstöðumanna ríkisstofnana. Af lögunum leiðir jafnframt að orkumálastjóri hefur viðamikið hlutverk á sviði orkumála almennt í samræmi við þær víðtæku skyldur sem á stofnunina eru lagðar á sviði orkumála samkvæmt 2. gr. laganna, meðal annars að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna, standa að rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar, sbr. 2. tölul., og vinna að langtímaáætlunum á þeim sviðum, sbr. 4. tölul. sömu greinar.

Telja verður að þegar svo stendur á sem hér er lýst hafi sá sem skipar í stöðu nokkurt svigrúm til að vega og meta á heildstæðan hátt hvaða kosti og þætti í fari umsækjenda áhersla skuli lögð á við ákvörðun um skipun í stöðu, þannig að sem best megi ná þeim markmiðum sem að er stefnt á því sviði á hverjum tíma, enda sé við slíkt mat og val byggt á hlutlægum og málefnalegum forsendum. Þá verður einnig að fallast á að áherslur að þessu leyti kunni að taka breytingum frá einum tíma til annars með tilliti til breyttra aðstæðna og viðhorfa á viðkomandi sviði.

Í auglýsingu vegna stöðunnar voru tilteknir nokkrir þættir sem telja verður að málefnalegt hafi verið að líta til við skipun í stöðu orkumálastjóra. Bæði kærandi og sá sem skipaður var höfðu lokið framhaldsnámi á sviði verkfræði og sinnt störfum og verkefnum sem tengjast orku- og auðlindamálum í víðum skilningi. Fallast má á það með kæranda að MBA-nám hennar og störf hjá Orkustofnun frá 2004 hafi skipað henni framar að því leyti til við skipunina. Á móti kemur að sá sem skipaður var hafði mun lengri starfsreynslu, þar með talda áratugalanga reynslu af störfum hjá erlendum háskólum, og hafði að auki um árabil sinnt margs konar störfum, verkefnum og rannsóknum sem ekki verður talið að ómálefnalegt hafi verið að líta til við heildarmat á hæfni umsækjenda um stöðuna.

Þá verður að telja að við lokaákvörðunina hafi verið málefnalegt, í framhaldi af samanburði á framangreindum þáttum, að taka tillit til atriða, svo sem frammistöðu í starfsviðtölum og umsagna um umsækjendur og reynslu af störfum þeirra, en ljóst er að þar er um matskennd og vandmeðfarin atriði að fjalla.

Í rökstuðningi iðnaðarráðuneytisins til kærunefndarinnar er á því byggt að sá sem skipaður var hafi staðið kæranda framar að því er varðar menntun og fræðastörf og að hann hafi haft víðtæka þekkingu á orkumálum vegna fyrri starfa sinna, svo og víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri. Þá hafi sá sem skipaður var skarað fram úr að því er varðar lýsingu á framtíðarsýn fyrir stofnunina og jafnframt að umsagnir um umsækjendur hafi bent til þess hann stæði kæranda framar að því er samskiptahæfni og leiðtogahæfileika varðar. Af hálfu kærunefndar er ekki talið tilefni til að vefengja að málefnalega hafi verið staðið að mati á síðast nefndum þáttum.

Þegar litið er til alls þess sem að framan greinir, umsagnar ráðningarskrifstofu og til ferilskráa kæranda og þess sem skipaður var, svo og til eðlis þeirrar stöðu sem hér um ræðir og að framan er rakið, verður ekki talið að ákvörðun iðnaðarráðuneytisins um skipun í stöðu orkumálastjóra í desember 2007 hafi verið ómálefnaleg þannig að kynferði kæranda teljist hafa skipt máli sérstaklega.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í máli þessu.

 

Andri Árnason

Ingibjörg Rafnar

Þórey S. Þórðardóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum