Hoppa yfir valmynd
29. september 2006 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 8/2006

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 8/2006:

A

gegn

Vinnuskóla Kópavogs

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 29. september 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 29. maí sl., óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Vinnuskóli Kópavogs hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu í starf forstöðumanns vinnuskólans, en ráðið var í starfið frá og með 20. apríl sl.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Kópavogsbæ með bréfi, dags. 31. maí sl. Umsögn sveitarfélagsins barst með bréfi, dags. 15. júní sl., og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 28. júní sl. Voru síðastnefndar athugasemdir sendar Kópavogsbæ til kynningar með bréfi, dags. 4. júlí sl. Engar frekari athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavextir

Málavextir eru þeir að Kópavogsbær auglýsti í mars 2006 laust til umsóknar starf forstöðumanns Vinnuskóla Kópavogs. Í auglýsingunni kom meðal annars fram að forstöðumaður skyldi annast undirbúning starfs vinnuskólans, skipuleggja verkefni í samráði við garðyrkjustjóra og fara með daglega stjórn skólans. Gerð var krafa um háskólapróf sem nýttist í starfinu og mikla stjórnunar- og skipulagshæfni. Reynsla af mannaforráðum var nauðsynleg sem og hæfni í mannlegum samskiptum. Ráðningartími var tilgreindur frá 20. apríl til 1. september 2006. Sex umsækjendur voru um starfið, þar af voru fjórir sem uppfylltu hæfisskilyrði um menntun. Einn umsækjanda gat ekki hafið störf fyrr en eftir að ráðningartími hófst og því voru þrír umsækjenda boðaðir í starfsviðtal. Að viðtölum loknum var ákveðið að ráða karlmann í starfið.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Kópavogsbæjar vegna ráðningar í starfið og var sá rökstuðningur veittur með bréfi dags. 15. maí sl.

Í kæru til nefndarinnar kemur fram að kærandi hafi gegnt stöðu skólastjóra Vinnuskólans í Kópavogi í þrjú ár. Kærandi telur sig hafa meiri menntun og reynslu en sá sem var ráðinn en hann hafi verið undirmaður kæranda síðastliðin sumur. Af hálfu Kópavogsbæjar er á því byggt að kærandi hafi hvorki getað hafið störf á auglýstum ráðningartíma né unnið fullt starf út ráðningartímabilið. Sá sem var ráðinn hafi hvort tveggja uppfyllt kröfur um hæfni og getað hafið fullt starf í upphafi ráðningartímabils.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að kærandi hafi verið skólastjóri Vinnuskóla Kópavogs í þrjú ár og hafi gegnt stöðu aðstoðarskólastjóra í tvö ár. Nýlega hafi verið ákveðið að breyta heitinu skólastjóri í forstöðumaður, og hafi staðan verið auglýst í framhaldi af því. Kærandi hafi sótt um stöðuna en ekki verið ráðin. Þess í stað hafi karlmaður sem starfað hafi sem undirmaður kæranda verið ráðinn. Að mati kæranda hafi sá sem var ráðinn minni reynslu og menntun en kærandi auk þess sem hann sé yngri en hún.

Kærandi segir starf hennar hjá Vinnuskóla Kópavogs hafa gengið mjög vel, skólinn hafi stækkað mikið síðustu ár, einnig hafi verið mikil gróska í starfi hans. Það hafi því komið kæranda í opna skjöldu þegar hún hafi ekki fengið starfið. Þar að auki hafi það verið mjög bagalegt fyrir kæranda að missa tekjur sem hún hafi gert ráð fyrir. Ástæða þess að hún hafi gert ráð fyrir að fá starfið sé sú að síðustu ár hafi hún gengið inn í starfið og unnið það eftir kennslu á daginn í mars og apríl en verið í fullu starfi er kennslu hafi lokið. Kærandi hafi ekki verið á fullum launum frá mars til apríl heldur hafi verið greidd full laun frá 1. maí í samráði við garðyrkjustjóra Kópavogs. Hann segi nú í rökstuðningi sínum að ástæða þess að kærandi hafi ekki verið ráðin sé sú að hún hafi ekki getað byrjað 20. apríl í fullu starfi. Kærandi segir sig hingað til hafa valdið starfinu þó hún hafi unnið það seinni hluta dags, á kvöldin og um helgar þar til skóla hafi lokið. Að mati kæranda séu það ekki sterk rök að segja að breytt fyrirkomulag á störfum skólans auk mikillar endurnýjunar í yfirstjórn og í hópi leiðbeinanda hafi meðal annars verið ástæða þess að kærandi hafi ekki verið ráðin. Kærandi segir að hún hafi unnið undirbúningsstarfið mikið ein og af þeim ástæðum sjái hún ekki að það skipti máli að mikil endurnýjun hafi verið fyrirsjáanleg meðal starfsfólks þar sem hún sé vön að þjálfa nýtt starfsfólk. Kærandi hafi unnið lengi sem flokkstjóri, yfirleiðbeinandi, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri og telji sig ekki eiga skilið þá meðferð er hún hafi hlotið. Hún fari fram á fjárhagsbætur og miskabætur á þeim forsendum að ráðning þess karlmanns er var ráðinn hafi falið í sér mikla höfnun fyrir kæranda sem hún eigi ekki skilið eftir alla þá vinnu sem hún hafi unnið í þágu Vinnuskóla Kópavogs.

Í greinargerð Vinnuskólans komi ítrekað fram um að kærandi hafi ekki getað byrjað fyrr en einum og hálfum mánuði eftir að ráðningartími hófst. Kærandi kveðst hafa ráðið við starfið undanfarin ár og sjái ekki hvers vegna hún ætti ekki að ráða við starfið nú þrátt fyrir mikið vinnuálag. Þetta sé mikil vinna í stuttan tíma og hefði hún getað ráðið við það þótt hún hefði ekki sinnt stöðunni í fullu starfi. Kærandi hafi mætt miklum skilningi frá grunnskólanum sem hún vinni hjá og þar hafi ávallt verið hægt að hliðra til fyrir hana ef þess hafi þurft með vegna funda eða annars sem til hafi fallið. Undirbúningur Vinnuskólans fari auk þess að miklu leyti fram seinni hluta dags því yfirleitt séu leiðbeinendur boðaðir í viðtal eftir klukkan fjögur þar sem flestir þeirra séu í annarri vinnu á veturna.

 

IV.

Sjónarmið Kópavogsbæjar

Af hálfu Kópavogsbæjar er á því byggt að skipulagi Vinnuskólans í Kópavogi hafi nýverið verið breytt, meðal annars hafi verið fækkað í yfirstjórn skólans og yfirleiðbeinendum fækkað úr sex í fjóra, lögð hafi verið niður staða aðstoðarskólastjóra auk þess sem störfin hafi verið endurskilgreind og verkefni aukin. Markmiðið með þessum breytingum hafi verið markvissari stjórnun, betri nýting fjármuna og meiri skilvirkni.

Í starfsviðtali við kæranda hafi komið fram að hún væri í fullu starfi sem kennari út skólaárið og gæti ekki fengið sig lausa frá því starfi. Kærandi hafi því hvorki getað hafið störf á auglýstum upphafstíma ráðningar né unnið fullt starf út ráðningartímann.

Í viðtali við þann sem var ráðinn hafi komið fram að hann hafði mikinn áhuga og metnað fyrir starfinu og væri mjög jákvæður gagnvart þeim skipulagsbreytingum sem orðið höfðu og var kappsamur um að auka skilvirkni skólans og árangur. Í starfsviðtali hafi komið fram að hann gæti hafið störf á tilgreindum tíma og unnið fullt starf út allan ráðningartímann.

Að lokinni yfirferð umsókna og viðtölum hafi umsóknir um starf forstöðumanns verið kynntar umhverfisráði Kópavogs. Á fundi umhverfisráðs hafi verið samþykkt að gefa þeim karlmanni sem var ráðinn kost á starfinu í ljósi þess að hann hafi uppfyllt öll hæfisskilyrði auk þess sem hann hafi getað hafið störf á umræddum tíma sem og unnið fullt starf út allt ráðningartímabilið.

Kópavogsbær byggir aðallega á því að við töku ákvörðunar um ráðningu í viðkomandi starf forstöðumanns hafi ekki reynt á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000. Í kæru til nefndarinnar sé með engu móti gerð grein fyrir eða rökstutt með hvaða hætti Vinnuskóli Kópavogs hafi gerst brotlegur við ákvæði framangreindra laga. Kærandi hafi verið talin uppfylla þau hæfisskilyrði sem gerð hafi verið krafa um til starfsins líkt og þrír aðrir umsækjendur. Forsenda þess að kæranda hafi ekki verið gefin kostur á starfinu hafi verið sú að hún hafi hvorki getað hafið störf á auglýstum ráðningartíma né unnið fullt starf út ráðningartímabilið.

Upphaf ráðningartíma samkvæmt auglýsingu hafi verið 20. apríl 2006 og hafi sú ákvörðun verið tekin af atvinnurekanda. Almennt sé það viðurkennt að það sé í höndum atvinnurekanda en ekki einstakra umsækjenda að ákvarða og stjórna því með hvaða hætti ráðningartíma einstakra starfa eigi að vera háttað. Það verði jafnframt að teljast eðlileg og sanngjörn krafa atvinnurekanda að umsækjendur sem fyrirhugað sé að ráða til starfa séu við störf á ráðningartíma og uppfylli lágmarkskröfur til starfsins.

 

V.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Af hálfu kæranda er þess óskað í máli þessu að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar ráðið var í starf forstöðumanns Vinnuskóla Kópavogs, en ráðið var í stöðuna vorið 2006.

Starf það sem hér um ræðir var auglýst laust til umsóknar í marsmánuði 2006. Í auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu kom fram að starf forstöðumanns Vinnuskóla Kópavogs fæli í sér að annast undirbúning starfs Vinnuskólans, skipulagningu verkefna í samráði við garðyrkjustjóra og fara með daglega stjórn Vinnuskólans. Í auglýsingunni kom fram að krafist væri háskólaprófs sem nýttist í starfinu, mikillar stjórnunar- og skipulagshæfni auk þess sem reynsla af mannaforráðum væri nauðsynleg svo og hæfni í mannlegum samskiptum. Þá var tekið fram að ráðningartími væri frá 20. apríl til 1. september 2006.

Af hálfu kæranda er til þess vísað í máli þessu að karlmaður sá sem ráðinn var hafi haft minni reynslu og minni menntun en kærandi. Kærandi hafi verið skólastjóri skólans þrjú undanfarin ár og hafi staðið sig vel. Kærandi vísar jafnframt til þess að á þeim tíma hafi hún hafið starf við vinnuskólann eftir að hún hafði lokið kennslu á daginn í mars- og aprílmánuði en síðan hafi hún sinnt starfinu að fullu eftir að kennslu lauk að vori, en kærandi starfaði jafnframt sem grunnskólakennari. Umrætt fyrirkomulag hafi byggst á samkomulagi milli kæranda og garðyrkjustjóra Kópavogs, sem hafi verið yfirmaður kæranda í starfi sem skólastjóri Vinnuskólans. Telur kærandi í kæru sinni til kærunefndarinnar að hún hafi vel ráðið við starfið með þessu fyrirkomulagi á þeim tíma sem hún hafi gegnt starfi skólastjóra vinnuskólans, þ.e. síðdegis og á kvöldin, og um helgar, fram til þess tíma er hún hafi hafið fullt starf, svo sem að framan greinir. Kærandi fellst ekki á þau rök að gera hafi þurft breytingar á umræddu fyrirkomulagi vegna tilvísaðrar endurskipulagningar á starfsemi Vinnuskólans. Að mati kæranda hafi hún getað sinnt undirbúningi starfsins þrátt fyrir það.

Í rökstuðningi garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar, sem kærandi leitaði eftir, kemur meðal annars fram að við ákvörðun um ráðningu í umrætt starf hafi verið litið til menntunar þar sem áhersla hefði verið lögð á háskólamenntun, reynslu umsækjenda, einkum af mannaforráðum og af starfi í vinnuskóla, svo og til annarra þátta. Á þessum grundvelli hafi verið tekin ákvörðun um ráðningu í starfið sem hafi verið tímabundið frá 20. apríl til 1. september 2006, svo sem fram hafi komið í auglýsingu. Sérstaklega var til þess vísað í rökstuðningi að starfsemi Vinnuskólans hafi verið í mikilli endurskoðun og endurskipulagningu. Við það hafi bæst að mikil endurnýjun hafi verið fyrirsjáanleg í yfirstjórn Vinnuskólans og einnig í hópi leiðbeinenda. Við þær aðstæður hafi verið ljóst að mikill tími forstöðumanns Vinnuskólans myndi fara, að mati garðyrkjustjórans, í undirbúning starfsins sem ekki hafi verið unnt að dreifa á aðra yfirmenn eins og áður hafi verið unnt. Sá sem ráðinn var hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar hafi verið í auglýsingu og hafi verið talinn hæfastur til að gegna starfinu, meðal annars með hliðsjón af ráðningartímanum. Í því sambandi hafi vegið þungt að sá sem ráðinn var hafi verið eini umsækjandinn sem hefði hvort tveggja haft haldgóða reynslu af starfi Vinnuskólans, en hann hafði gegnt starfi yfirleiðbeinanda og hafi getað hafið störf af fullum krafti á hinu mikilvæga undirbúningstímabili.

Í greinargerð Kópavogsbæjar til kærunefndarinnar kemur fram að Kópavogsbær hafði um skeið unnið að breytingum á stjórn Vinnuskóla Kópavogs, meðal annars þar sem verkaskipting og hlutverk einstakra starfsmanna hafi þótt óskýrt. Hafi breytingar meðal annars falið í sér umtalsverða fækkun í yfirstjórninni með fækkun yfirleiðbeinenda og með því að leggja niður starf aðstoðarskólastjóra. Þá hafi störf verið endurskilgreind og verkefni aukin. Af þessum ástæðum hafi ráðningartími forstöðumanns verið ákveðinn svo sem fram kom í auglýsingu, þ.e. frá 20. apríl til 1. september 2006, og að um væri að ræða fullt starf.

Viðurkennt er að atvinnurekendum er almennt játað frelsi til að ákveða fyrirkomulag starfsemi sinnar og skipulag, meðal annars varðandi fyrirkomulag einstakra starfa. Á það reynir ekki hvað síst þegar um mótun eða breytingar á starfsemi er að ræða. Svo sem að framan er rakið var af hálfu Kópavogsbæjar lögð áhersla á það við ráðningu í starfið að viðkomandi starfsmaður, sem uppfyllti að öðru leyti kröfur sem gerðar væru til starfsins, gæti hafið fullt starf þegar hinn 20. apríl 2006. Í því sambandi var meðal annars vísað til þeirra breytinga sem ráðgerðar voru á yfirstjórn og vegna þeirra breytinga sem orðið hefðu á mönnun í stjórnunarstöðum hjá skólanum.

Að mati kærunefndar jafnréttismála telst kærandi hafa uppfyllt almennar kröfur sem tilteknar voru í auglýsingu um starfið. Á hinn bóginn liggur fyrir að kærandi gat ekki hafið fullt starf við Vinnuskólann fyrr en í byrjun júnímánaðar 2006. Ekki verður fallist á það með kæranda, eins og hér stendur á, að sjónarmið hennar um framkvæmd starfans meðfram öðru starfi, á tímabilinu frá upphafi ráðningartíma og fram í byrjun júní, hafi getað talist fullnægja áskilnaði Kópavogsbæjar um upphaf starfstíma, en ekki verður séð að hann hafi verið ómálefnalegur.

Þegar af þessum ástæðum verður ekki talið að leiddar hafi verið líkur að því að umdeild ákvörðun um ráðningu karlmanns í starf forstöðumanns Vinnuskóla Kópavogs hafi tengst kynferði kæranda sérstaklega, en karlmaður sá sem ráðinn var telst hafa uppfyllt kröfur þær sem gerðar voru til starfsins og tilteknar voru í auglýsingu.

Rétt er að taka fram, að ekki verður ráðið af gögnum málsins eða öðru því sem fram þykir hafa komið í máli þessu að sjónarmið kæranda varðandi vinnuframlag á tilvísuðu undirbúningstímabili hafi tengst kynferði hennar sérstaklega eða með óbeinum hætti í skilningi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Með vísan til framanritaðs er það álit kærunefndar jafnréttismála, að Kópavogsbær hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum