Hoppa yfir valmynd
10. júní 2004 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 3/2004

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 3/2004:

   

A

gegn

Prentsmiðjunni Odda hf.

   

   

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 10. júní 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

    

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 28. janúar 2004, óskaði A eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort uppsögn kæranda úr starfi hennar hjá Prentsmiðjunni Odda hf. bryti í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Prentsmiðjunni Odda hf. með bréfi, dags. 12. febrúar 2004. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, var óskað eftir uppsagnarbréfi kæranda, upplýsingum um fjölda og kyn starfandi offsetprentara hjá Prentsmiðjunni Odda hf., afstöðu fyrirtækisins til erindis kæranda og öðru því sem Prentsmiðjan Oddi hf. vildi koma á framfæri og teldi til upplýsinga fyrir málið. 

Svar barst frá Prentsmiðjunni Odda hf., dags. 3. mars 2004. Með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dags. 4. mars 2004, var kæranda kynnt svarið og henni gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri við nefndina. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dags. 9. mars 2004, með frekari athugasemdum og var fyrirtækinu sent það með bréfi kærunefndar, dags. 16. mars 2004, og gefinn kostur á að koma sínum athugasemdum á framfæri. Svarbréf prentsmiðjunnar er dagsett 1. apríl 2004 og var kæranda sent það til kynningar með bréfi dagsettu 16. apríl 2004.

Kærunefnd jafnréttismála sendi Prentsmiðjunni Odda hf. síðan bréf þann 3. maí 2004 þar sem sérstaklega var óskað afstöðu til fullyrðinga í greinargerð kæranda og nánari upplýsinga um tilgreind atriði. Svar barst þann 17. maí 2004 sem kæranda var sent til kynningar.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

   

II.

Málavextir

Málsatvik eru þau að kærandi hóf störf sem nemi í offsetprentun hjá Prentsmiðjunni Odda hf. í ágúst 1999 og lauk hún náminu vorið 2001 með ágætiseinkunn.

Kærandi starfaði við litlar prentvélar, svokallaðar tveggja lita GTO vélar. Þann 1. ágúst 2003 störfuðu samtals níu prentarar við slíkar vélar hjá fyrirtækinu, þar af voru þrír nemar, en alls störfuðu hjá Prentsmiðjunni Odda hf. 32 prentarar við prentun. Eftir uppsögn kæranda var engin kona í þeim hópi. 

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2003, var kæranda sagt upp störfum hjá Prentsmiðjunni Odda hf. og var það, að sögn fyrirtækisins, vegna samdráttar í verkefnum sem sinnt er með þeim vélum sem kærandi vann við. Kærandi var ósátt við þessa uppsögn og taldi að hún hafi verið látin gjalda kynferðis síns. Eftir að hafa leitað ráðgjafar hjá Jafnréttisstofu kom hún kæru á framfæri við kærunefnd jafnréttismála, dags. 28. janúar 2004.

    

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að Prentsmiðjan Oddi hf. hafi með uppsögn hennar brotið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Hún hóf störf hjá Odda í ágúst 1999 sem nemi í offsetprentun og lauk því námi vorið 2001 með ágætiseinkunn. Árið 2002 hafi verið boðaðar nýjar áherslur í starfsmannamálum og hafi allir starfsmenn verið teknir í starfsmannaviðtal. Þáverandi yfirverkstjóri hennar hafi tjáð henni í viðtalinu að allir væru sammála um að hún skilaði sínu vel, mætti vel og væri þægileg í umgengni. Í framhaldi af þessu samtali hafi hún fengið þá launahækkun sem hún bað um.

Í bréfi kæranda, dags. 9. mars 2004, kemur fram að hún hafi unnið við hlið prentarans sem í greinargerð prentsmiðjunnar sé talinn faglega mjög góður prentari, sem ekki var sagt upp, og sé sagður hafa verið í þjálfun á stærri vélar. Hann hafi lokið sveinsprófi um leið og kærandi þannig að faglega ættu þau að standa í svipuðum sporum. Hún muni ekki til að henni hafi verið boðin sérstaklega þjálfun á stærri vélar, en þegar hún hafi verið beðin um það hafi hún gengið í hans störf og unnið á sömu vél og hann hafi alla jafna séð um. Hún muni ekki til þess að kvartað hafi verið yfir vinnu hennar. Hún telji að ef fólk eigi að geta orðið líklegt til að þróast í starfi þurfi það að fá tækifæri til þess. 

Kærandi kveðst hafa haft áhuga á að læra hæðarprentun sem ennþá sé notuð töluvert í sérverkefni hjá Odda og hafi hún ítrekað borið upp þá ósk bæði við yfirverkstjóra og aðra sem haft hafi með það að gera innan fyrirtækisins en þeirri beiðni hafi ekki verið sinnt. Þriðji prentarinn sem vísað sé til í greinargerð Odda sé lærður í hæðarprentun og það talið honum til tekna þegar kom að uppsögnum. Hann sé hins vegar ekki lærður offsetprentari eins og kærandi, enda hafi það komið í hennar hlut ásamt fleirum að leiða hann fyrstu skrefin og kenna honum á GTO vélarnar.

      

IV.

Sjónarmið Prentsmiðjunnar Odda hf.

Fram kemur í greinargerð Prentsmiðjunnar Odda hf., dags. 3. mars 2004, að þar starfi nú 32 prentarar við prentun, allt karlar. Kærandi hafi starfað við litlar prentvélar, svokallaðar GTO vélar, og þann 1. ágúst 2003 hafi samtals níu prentarar starfað við slíkar vélar hjá fyrirtækinu. 

Eftirfarandi kemur fram í greinargerð prentsmiðjunnar um prentarana sem störfuðu við áðurnefndar prentvélar, aðra en nemana þrjá sem hafa sérstöðu sem slíkir:

„ - Einn prentari var einnig lærður bókbindari og því boðin staða í þeirri deild.

- Annar prentari, sem þykir faglega mjög góður prentari, var einnig í þjálfun á stærri prentvél og þótti því líklegur til að þróast í starfi á stærri vélar.

- Þriðji prentarinn var einnig lærður í hæðarprentun og leysti af á slíkum vélum þegar á þurfti að halda.

- Fjórði prentarinn hafði 35 ára starfsaldur og mjög mikla reynslu í iðninni.

- Tveimur var sagt upp störfum vegna samdráttar, þar á meðal A.“

    

Fyrirtækið hafi staðið frammi fyrir því að fækka þyrfti starfsmönnum er sinntu þessu tiltekna verkefni vegna samdráttar. Þrír nemar voru í hópnum og hafi verið óheimilt að segja þeim upp störfum. Aðrir prentarar hafi verið metnir á faglegum grundvelli og hafi verið litið til starfsreynslu og þekkingar á öðrum tegundum prentvéla í prentsmiðjunni sem gerði það kleift að nýta starfskrafta þeirra á annan hátt ef tilefni gæfist til. 

Í greinargerð Prentsmiðjunnar Odda hf. er jafnframt tekið fram að staðhæfing kæranda um jafna stöðu hennar og prentarans sem prentsmiðjan taldi faglega mjög góðan prentara ætti ekki við rök að styðjast. Þau væru að sönnu með ámóta langan starfsaldur hjá Odda hf. en hann hefði hins vegar starfað um 15 mánaða skeið hjá prentsmiðjunni Gutenberg auk þess sem viðkomandi prentari hafi öðlast heldur meiri reynslu á starfstíma sínum sem meðal annars kemur fram í því að hann starfar við fjögurra lita GTO vél, en slík vinnsla er flóknari en vinnsla við tveggja lita GTO vélar eins og kærandi vann við. Hann hafi auk þess verið kominn í þjálfun á stærri fjögurra lita prentvélar. Af þessum sökum hafi hann verið kominn með reynslu sem metin var meiri en sú reynsla sem kærandi hafði öðlast. 

Þá er tekið fram í greinargerðinni að sá prentari sem er lærður sem hæðarprentari hafi haldið starfi sínu frekar en kærandi þar sem hann hafi meistararéttindi sem hæðarprentari og að litið sé á það í dag sem fullgild offsetprentunarréttindi. Komi það til af því að tækniþróunin í þessum iðnaði hafi verið afar mikil og til að úrelda ekki þau réttindi sem menn hafi öðlast jafnvel þó prenttæknin hafi breyst séu réttindin virt með þessum hætti. Það þýði að maður sem hafi réttindi sem hæðarprentari og hafi fengið tilsögn í offsetprentun sé heimilt að vinna við slíkt og talinn hafa fullgild réttindi á því sviði. Þessi maður hafi auk þess starfað sem prentari samfleytt frá árinu 1969 og hafi á þeim tíma öðlast afar mikla og góða reynslu í sínu fagi. Þótt starfstími hans í Odda telji ekki jafn mörg ár og heildarstarfsreynsla hans hafi það verið mat stjórnenda að reynsla hans væri mun meiri en reynsla kæranda.

Af ofanröktu hafi það verið niðurstaða Prentsmiðjunnar Odda hf. að segja kæranda upp störfum en þess var sérstaklega getið af hálfu fyrirtækisins að kærandi hafi verið mjög vel liðin á vinnustaðnum og hafi fengið góð meðmæli frá deildarstjóra í prentsal.

    

V.

Niðurstaða

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við uppsögn hennar úr starfi offsetprentara hjá Prentsmiðjunni Odda hf. Reynir einkum á ákvæði 1. mgr. 24. gr. laganna sem leggur bann við mismunun á grundvelli kynferðis, meðal annars er grípa þarf til uppsagna.

Fyrir liggur í máli þessu að tveimur starfsmönnum af þeim níu sem sinntu ámóta verkefnum var sagt upp af hálfu Prentsmiðjunnar Odda hf. þann 27. ágúst 2003, kæranda og karlmanni. Jafnframt liggur fyrir að eftir uppsögn kæranda starfar engin kona sem prentari hjá prentsmiðjunni.

Prentsmiðjan Oddi hf. hefur gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lögð hafa verið til grundvallar við ákvörðun um það hvaða tveimur starfsmönnum af þeim níu skyldi sagt upp þegar fækka þurfti prenturum. Vegna ákvæða laga um iðnnám var fyrirtækinu óheimilt að segja nemunum þremur upp störfum. Þá var einn prentari lærður bókbindari og var honum boðið að flytjast í bókbandsdeild fyrirtækisins og tveir prentarar bjuggu að löngum starfsaldri í iðngreininni og fjölþættari þekkingu. Sýnist því valið í raun hafa staðið milli kæranda og annars prentara sem lauk sveinsprófi á sama tíma og hún og hafði ámóta langan starfsaldur hjá fyrirtækinu. 

Á því er byggt af hálfu fyrirtækisins að sá prentari hafi verið búinn að læra á tæknilega flóknari prentvélar en kærandi og því verið talinn líklegri til að nýtast fyrirtækinu í fjölþættari verkefnum. Þessari staðhæfingu hefur kærandi ekki andmælt sem slíkri heldur byggir á því að honum hafi boðist fleiri tækifæri í starfi en henni til að læra á nýjar vélar. Prentsmiðjan Oddi hf. var innt sérstaklega eftir afstöðu til þessarar staðhæfingar kæranda og andmælti fyrirtækið henni með vísan til þess að kæranda hafi með sama móti, eins og öðrum starfsmönnum, staðið til boða sú endurmenntun sem samið sé um í kjarasamningum. Hvað varðar þróun í starfi hafi tvennt ráðið öðru fremur varðandi þann prentara sem hélt starfinu. Annars vegar sú staðreynd að hann hafi búið að starfsreynslu hjá annarri prentsmiðju áður en hann hóf störf hjá Prentsmiðjunni Odda hf. og hins vegar að hann hafi verið talinn góður fagmaður, áhugasamur og fljótur að tileinka sér nýja hluti og sýnt frumkvæði í að sækjast eftir nýrri þekkingu. Var jafnframt á því byggt af hálfu fyrirtækisins að í raun væri ekki mikið um að starfsmönnum væri beinlínis boðin þjálfun við flóknari prentunarverkefni heldur þyrftu þeir að bera sig eftir því sjálfir. Það hefði nefndur prentari gert. Kærandi hefur ekki fært fram rök gegn þessum fullyrðingum af hálfu fyrirtækisins en tók fram að henni hafi ekki staðið til boða þjálfun í flóknari prentverkefnum. Slíkt virðist almennt ekki hafa staðið starfsmönnum sérstaklega til boða og verður ekki talið að hallað hafi á kæranda í þeim efnum umfram aðra starfsmenn. 

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að Prentsmiðjunni Odda hf. hafi verið heimilt að líta til meiri reynslu prentarans sem kærandi hefur kosið að bera sig helst saman við auk þeirra sérsjónarmiða sem rakin hafa verið um faglega þekkingu hans. Það hafi því ekki verið ómálefnalegt að segja kæranda frekar upp störfum en greindum starfsmanni. 

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 er óheimilt að mismuna starfsmönnum við uppsagnir á grundvelli kynferðis. Ef máli er vísað til kærunefndar og leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við uppsögn úr starfi, skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðuninni, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000. Með vísan til þess sem rakið hefur verið um forsendur Prentsmiðjunnar Odda hf. fyrir því hvernig staðið hafi verið að vali á þeim starfsmönnum sem sagt var upp störfum þann 27. ágúst 2003 þykir fyrirtækinu hafa tekist á málefnalegan hátt að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun þess. 

Það er því niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að með uppsögn kæranda úr starfi hafi Prentsmiðjan Oddi hf. ekki brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

   

    

Björn L. Bergsson

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum