Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2003 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/2003

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 6/2003:

 

A

gegn

Fangelsismálastofnun ríkisins

 

--------------------------------------------------------------

           

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 21. nóvember 2003 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með ódagsettri kæru A sem barst 25. apríl 2003, óskaði kærandi eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort fangelsisyfirvöld brytu gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með því að mismuna konum og körlum varðandi möguleika á afplánun fangelsisvistar á Íslandi.

Kæran var kynnt Fangelsismálastofnun ríkisins með bréfi dags. 5. maí 2003. Var þar, með vísan til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000, óskað eftir upplýsingum um hvað ráði vali stofnunarinnar á vistunarstöðum fanga sem afplána fangelsisdóma, svo og hvar megi gera ráð fyrir að karlkynsfangi, sem dæmdur hefði verið fyrir sama brot og kærandi, hefði verið vistaður. Einnig var óskað eftir upplýsingum um aðstöðumun fanga annars vegar í fangelsinu í Kópavogi og hins vegar á Kvíabryggju. Þá var að öðru leyti óskað eftir umsögn um erindi kæranda og þau atriði sem stofnunin teldi skipta máli við úrlausn málsins.

Með bréfi, dags. 24. júní 2003, var kæranda kynnt umsögn Fangelsismálastofnunar og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Engar frekari athugasemdir hafa borist.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  

II

Málavextir

Þegar kærunefnd jafnréttismála barst ofangreind kæra afplánaði kærandi 14 mánaða fangelsisdóm fyrir auðgunarbrot í fangelsinu að Kópavogsbraut 17 í Kópavogi. Fangelsið að Kópavogsbraut 17 er eina fangelsið í landinu sem vistar kvenfanga, en þar afplána karlmenn einnig refsidóma. Auk þess eru karlfangar vistaðir í fangelsinu á Litla-Hrauni á Eyrarbakka, á Akureyri, á Kvíabryggju á Snæfellsnesi og í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í Reykjavík. Í erindi kæranda til nefndarinnar er á því byggt að mismunun sé viðhöfð við ákvörðun vistunarstaða fanga hér á landi og að karlkynsfangar eigi kost á vistun í fangelsi sem sé mun opnara en það fangelsi sem kvenfangar eigi kost á. Af hálfu fangelsismálayfirvalda er til þess vísað að ýmis atriði ráði vali á vistunarstöðum fanga og að aðstaða sé mismunandi á einstökum vistunarstöðum. Vistunarstaður fanga sé því ákveðinn með tilliti til aðstæðna í hverju tilviki. Allir kvenkynsfangar séu vistaðir í fangelsinu að Kópavogsbraut 17.

 

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að Fangelsismálastofnun ríkisins hafi brotið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, vegna mismunar á möguleikum kvenna og karla við afplánun fangelsisvistar á Íslandi.

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið dæmd fyrir auðgunarbrot og verið gert að afplána dóminn í fangelsinu að Kópavogsbraut 17 í Kópavogi. Hún telur að hefði karlmaður fengið sambærilegan dóm fyrir auðgunarbrot og það væri hans fyrsta brot, hefði hann fengið að afplána dóminn á Kvíabryggju sem sé mun opnara fangelsi en fangelsið í Kópavogi. Útivistarsvæðið þar sé víðfemt og án girðinga, útivistartíminn sé mun rýmri og fangarnir séu ekki læstir inni í klefum sínum. Þar sé og meiri vinnu að fá og þar af leiðandi hafi fangarnir hærri laun. Heimsóknir séu frjálsari og fangar fái að taka á móti gestum sínum á herbergjum. Þá séu reglur varðandi geymslu muna í herbergjum mun strangari í fangelsinu í Kópavogi en á Kvíabryggju. Kærandi greinir frá því að útivistarsvæðið við fangelsið í Kópavogi sé lítið og með hárri girðingu þar sem útivist sé einungis leyfð í eina klukkustund á dag. Þar séu fangar læstir inni í klefum sínum kl. 22:00 alla daga.

Kærandi telur kynferði sitt hafa þýðingu í máli þessu og að ákvæði 22. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla,nr. 96/2000, hafi verið brotið.

 

IV

Sjónarmið Fangelsismálastofnunar ríkisins

Fram kemur í greinargerð Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 30. maí 2003, að við mat á því hvar vista beri afplánunarfanga styðjist Fangelsismálastofnun við ákvæði laga um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna beri við þá ákvörðun að taka tillit til aldurs, kynferðis, búsetu og brotaferils fangans, auk þessa sé meðal annars tekið mið af lengd dóms, heilsufari og félagslegum aðstæðum dómþola.

Fangelsismálastofnun greinir frá því að flestum sem boðaðir séu til afplánunar sé gert að mæta í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, á því séu þó einkum tvær undantekningar. Konum sé gert að mæta í fangelsið að Kópavogsbraut 17 og þeim sem búa á Norðurlandi sé oft heimilað að mæta beint í fangelsið þar,  sem staðsett sé á lögreglustöðinni á Akureyri.

Í greinargerð Fangelsismálastofnunar kemur fram að unnt sé að vista 138 fanga í fangelsum landsins á sama tíma. Þar af séu 87 á Litla-Hrauni, en þar eru undantekningarlítið vistaðir dómþolar sem fá þriggja ára dóm eða lengri eða hafa ítrekað afplánað refsingu. Á Kvíabryggju séu 14 pláss og það fangelsi sé opið að því leyti að hvorki séu þar rimlar fyrir gluggum né svæðið sérstaklega afgirt. Fangelsismálastofnun greinir frá því að þar séu einkum vistaðir dómþolar sem hafi engan eða stuttan sakaferil eða þá þeir sem ætla megi að sé treystandi til þess að afplána dóm við slíkar aðstæður. Fangelsismálastofnun greinir einnig frá því að í fangelsinu að Kópavogsbraut 17 séu 12 pláss og þar séu allir kvenfangar hér á landi vistaðir, en þeir séu ekki nema fjórir til átta að jafnaði. Þar séu því einnig vistaðir karlfangar. Við val á þeim síðarnefndu sé einkum horft til lengdar dóma, sakaferils og ástands við komu í fangelsið. Í greinargerðinni kemur einnig fram að í fangelsinu á Akureyri séu níu pláss og þar hafi einkum verið vistaðir dómþolar sem afpláni styttri fangelsisrefsingu. Þó hafi þar einnig á seinni árum verið vistaðir dómþolar í nokkra mánuði, einkum ef þeir hafa sjálfir óskað eftir því eða þeir séu búsettir á Norðurlandi.

Fangelsismálastofnun kveður það rangt hjá kæranda að karlmenn sem hefji fyrstu afplánun og dæmdir eru fyrir auðgunarbrot séu ávallt vistaðir á Kvíabryggju, enda séu þar aðeins 14 fangarými. Þá sé sú fullyrðing kæranda ekki rétt að karlmenn sem dæmdir séu til eins til tveggja ára fangelsisrefsingar eigi yfirleitt möguleika á afplánun dóms á Kvíabryggju. Fangelsismálastofnun mótmælir þeirri fullyrðingu kæranda að þeir sem dæmdir eru fyrir hliðstæð brot og kærandi séu aðeins vistaðir á Kvíabryggju og bendir á að þar séu einnig vistaðir karlmenn sem dæmdir hafa verið fyrir ýmiss konar brot, þ.m.t. ofbeldis- og kynferðisbrot. Þá tekur stofnunin fram að reglur um leyfilega muni í klefum séu svipaðar í öllum fangelsum landsins.

 

V

Niðurstaða

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort mismunandi vistun karl- og kvenfanga í íslenskum fangelsum brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Í máli þessu ber því að líta til 22. gr. laga nr. 96/2000, en þar segir í 1. mgr. að hvers kyns mismunun eftir kynferði, hvort heldur bein eða óbein, sé óheimil. Í 2. og 3. mgr. nefndrar greinar eru þó tilgreind nokkur tilvik sem réttlæta mismunun eftir kynferði.

Kærandi telur að kvenfangar búi ekki við sömu aðstæður og karlfangar í íslenskum fangelsum og nefnir í því sambandi sérstaklega að kvenfangar fái ekki að afplána dóma í fangelsinu á Kvíabryggju sem kærandi telur mun álitlegri kost en fangelsið að Kópavogsbraut 17. Nefnir hún í því sambandi meðal annars að fangelsið á Kvíabryggju sé mun opnara fangelsi, eins og rakið hefur verið hér að framan.

Um framkvæmd afplánunar refsidóma hér á landi fer eftir lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988. Í 1. mgr. 8. gr. laganna er kveðið á um að Fangelsismálastofnun ákveði í hvaða fangelsi afplánun fari fram og að við þá ákvörðun skuli tekið tillit til nokkurra þátta, þar á meðal kynferðis fanga. Í máli þessu er fram komið að við ákvörðun á afplánunarstað fyrir kvenfanga hér á landi komi aðeins eitt fangelsi til greina, en það er fangelsið að Kópavogsbraut 17. Þar sem kvenfangar eru mun færri hér á landi en karlfangar og að jafnaði afplána aðeins fjórar til átta konur dóma í fangelsinu að Kópavogsbraut 17, eru karlfangar einnig vistaðir þar.

Af greinargerð Fangelsismálastofnunar má ráða að þau fangelsi sem standa refsiföngum hér á landi til boða séu nokkuð ólík, bæði hvað varðar staðsetningu, öryggisatriði, vinnuframboð, menntunarmöguleika og útivist. Í greinargerðinni kemur fram að í fangelsinu að Kópavogsbraut 17 sé aðstaða til bóklegs náms, sem til dæmis sé ekki til staðar í fangelsinu á Kvíabryggju. Þá sé vegna staðsetningar fangelsisins að Kópavogsbraut 17 stutt í alla sérfræðiþjónustu og í flestum tilfellum styttra fyrir aðstandendur að heimsækja fanga í fangelsið en til dæmis fangelsið á Kvíabryggju eða á Litla-Hrauni.

Að áliti kærunefndar jafnréttismála er óhjákvæmilegt að heimila stjórnvöldum ákveðið svigrúm við ákvörðun á fyrirkomulagi afplánunar, meðal annars eftir kynferði, búsetu, aldri og brotaferli fanga. Kærunefnd jafnréttismála telur því að sú skipan hér á landi að vista alla kvenfanga í sama fangelsi sé byggð á hlutlægum þáttum, sbr. til hliðsjónar lokamálslið 2. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000. Þá er það mat kærunefndar jafnréttismála, þegar litið er heildstætt til vistunarkosta fanga hér á landi, að vistun kvenfanga í fangelsinu í Kópavogi, feli ekki í sér mismunun í skilningi laganna.

Samkvæmt öllu framansögðu er það álit kærunefndar jafnréttismála að Fangelsismálastofnun ríkisins hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, í máli þessu.

 

 

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Ása Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum