Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2009

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSALEIGUMÁLA

  

í málinu nr. 11/2009

 

Endurgreiðsla verðtryggingar.

 

I.  Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 24. júlí 2009, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Ekkert svar barst frá gagnaðila við erindi kærunefndar, dags. 11. ágúst 2009, né heldur við bréfi nefndarinnar, dags. 2. september 2009, þar sem veittur var viðbótarfrestur, ella myndi nefndin taka málið til úrlausnar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar þriðjudaginn 3. nóvember 2009.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. 28. október 2006, tók álitsbeiðandi á leigu íbúð í eigu gagnaðila að X nr. 82. Um var að ræða tímabundinn leigusamning. Ágreiningur er um endurgreiðslu verðtryggingu.

 

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

Að gagnaðili greiði álitsbeiðanda verðtryggingu af fyrirframgreiðslu á tímabilinu 1. nóvember 2006 til 31. maí 2009 að undanskildum einum mánuði.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að frá 1. nóvember 2006 til 31. maí 2009 hafi álitsbeiðandi ásamt fjölskyldu sinni leigt íbúð í eigu gagnaðila. Greiddir hafi verið þrír mánuðir fyrirfram.

Í janúar 2009 hafi gagnaðili farið fram að álitsbeiðandi greiddi ekki húsaleigu þann mánuð og í staðinn fengi álitsbeiðandi tvo mánuði til baka þegar álitsbeiðandi flytti úr íbúðinni. Mánuði eftir að álitsbeiðandi skilaði íbúðinni, sem gagnaðili hafi tekið út og verið sáttur við umgengnina, hafi hann endurgreitt fyrirframgreiðsluna en ekki verðtrygginguna.

 

III. Forsendur

Samkvæmt 4. tölul. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, skal tryggingarfé í vörslu leigusala vera verðtryggt og skal hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt verðbótum án ástæðulauss dráttar að leigutíma loknum. Samkvæmt því ber að taka kröfu álitsbeiðanda til greina í málinu.

Það athugast að eingöngu liggja fyrir einhliða fullyrðingar álitsbeiðanda, enda hefur gagnaðili ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni. Þótt þessar fullyrðingar fari ekki í bága við skrifleg gögn málsins er hugsanlegt að niðurstaðan yrði á annan veg ef sjónarmið og andmæli gagnaðila hefðu komið fram. Ber að virða álitsgerðina í því ljósi.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðili greiði álitsbeiðanda verðtryggingu af fyrirframgreiðslu á tímabilinu 1. nóvember 2006 til 31. maí 2009 að undanskildum einum mánuði.

 

Reykjavík 3. nóvember 2009

 

Valtýr Sigurðsson

Benedikt Bogason

Þórir Karl Jónasson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum