Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2007

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSALEIGUMÁLA

   

í málinu nr. 23/2007

 

Endurgreiðsla leigufjár. Lokagreiðsla.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 17. desember 2007, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, f.h. R ehf., hér eftir nefndur gagnaðili.

Málatilbúnaður þótti ekki fullnægjandi fyrir nefndinni og óskaði því kærunefndin eftir skýrari álitsbeiðni álitsbeiðanda með bréfi, dags. 19. desember 2007. Álitsbeiðanda var síðan veittur frestur til 18. janúar 2008 til að koma á framfæri nýrri álitsbeiðni til nefndarinnar. Hinn 18. janúar 2008 barst erindi álitsbeiðanda, dags. 17. janúar 2008.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Ekkert svar barst frá gagnaðila við erindi kærunefndar, dags. 21. janúar 2008, né heldur við bréfi nefndarinnar, dags. 8. febrúar 2008, þar sem veittur var viðbótarfrestur, en ella myndi nefndin taka málið til úrlausnar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar þriðjudaginn 22. apríl 2008.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. 5. nóvember 2006, tók álitsbeiðandi á leigu íbúð að X nr. 20b í eigu gagnaðila. Um var að ræða tímabundinn leigusamning. Með tímabundnum leigusamningi, dags. 22. nóvember 2007, hélt álitsbeiðandi áfram að leigja húsnæðið frá 5. nóvember 2007 til 4. janúar 2008. Ágreiningur er um endurgreiðslu leigufjár og greiðslu húsaleigu vegna desember 2007.

 

Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda vera:

  1. Að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda leigufé að fjárhæð 42.735 krónur.
  2. Að álitsbeiðanda beri ekki að greiða gagnaðila leigu vegna desembermánaðar 2007 í annað sinn.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að kærð sé óhófleg hækkun leigufjárhæðar á leigutímabili leigusamnings sem gilti frá 6. nóvember 2006 til 5. nóvember 2007 sem stafar af röngum útreikningi gagnaðila á hækkun leigufjárhæðar samhliða breytingum á vísitölu neysluverðs. Einnig sé kærð óréttmæt hækkun samningsbundins fasts kostnaðar vegna hita og rafmagns á leigutímabili fyrrgreinds leigusamnings.

Álitsbeiðandi líti svo á að gagnaðila beri að endurgreiða sér mismun á óréttmætri hækkun og réttmætri hækkun leigufjárhæðar á leigutímabilinu þar sem útreikningar gagnaðila á breytingum leigufjárhæðar hafi reynst rangir.

Einnig líti álitsbeiðandi svo á að gagnaðila beri að endurgreiða uppsafnaðan mismun á óréttmætri hækkun kostnaðar vegna hita og rafmagns og fastri tilgreindri upphæð, þ.e. 6.000 krónur samkvæmt ofangreindum leigusamningi. Alls hafi álitsbeiðandi greitt gagnaðila fyrir leigu, hita og rafmagn á fyrsta leigutímabili 1.359.794 krónur. Mat á réttilegum greiðslum til gagnaðila fyrir leigu, hita og rafmagn á leigutímabilinu sé 1.317.059 krónur, alls hafi ranglega verið greiddar 42.735 krónur.

Álitsbeiðandi og gagnaðili hafi verið á eitt sáttir um að leigufjárhæð skyldi vera bundin neysluvísitölu eins og tilgreint sé í fyrsta leigusamningi. Frá og með 6. nóvember 2006 hafi álitsbeiðandi greitt skilvíslega 100.000 krónur, þ.e. leigufjárhæð 94.000 krónur auk 6.000 króna vegna hita og rafmagns, í byrjun hvers mánaðar inn á reikning gagnaðila eins og samið hafi verið um.

Í ágúst 2007 hafi gagnaðili gert álitsbeiðanda grein fyrir því að honum hafi láðst að tilkynna álitsbeiðanda um breytta leigufjárhæð hvers mánaðar vegna breytinga á vísitölu neysluverðs og að á öllu undangengnu leigutímabili hafi leigufjárhæðin hækkað mánaðarlega. Gagnaðili hafi tilkynnt álitsbeiðanda að hann skuldaði þar með gagnaðila uppsafnaða hækkun leigu sem að mati gagnaðila hafi numið 33.818 krónum, auk 2.156 króna í uppsafnaða hækkun hita- og rafmagnskostnaðar, eða alls 35.794 krónum. Gagnaðili hafi ekki annast útreikninga sjálfur heldur hafi sagst leitað aðstoðar starfsmanns S ehf. við útreikning á breytingum á leigufjárhæð. Samkvæmt fyrrgreindum útreikningum gagnaðila hafi álitsbeiðandi skuldað gagnaðila 2.156 krónur í uppsafnaða hækkun hita- og rafmagnskostnaðar. Samkvæmt gagnaðila hafi hita- og rafmagnskostnaður þannig hækkað smám saman á fyrsta leigutímabilinu vegnar hækkunar vísitölu neysluverðs. Því hafi álitsbeiðandi andmælt þar sem hann hafi álitið allt frá upphafi að umsamið hefði verið að mánaðarlegur kostnaður vegna hita og rafmagns væri fastur út fyrsta leigutímabilið, enda sérstaklega tilgreindur og hafður utan við kostnað vegna leiguafnota í fyrsta leigusamningi. Í honum kemur fram í 6. tölul. að álitsbeiðandi greiði fjárhæð 6.000 krónur á mánuði í kostnað vegna hita og rafmagns. Í fyrsta leigusamningnum er tekið fram að leigufjárhæð breytist með breytingum á vísitölu neysluverðs en hvergi sé tekið fram að kostnaður vegna hita og rafmagns taki nokkrum breytingum á leigutímabilinu.

Álitsbeiðandi hafi einnig viðrað efasemdir sínar um óeðlilega mikla hækkun leigu, en hlotið lítinn hljómgrunn. Jafnframt hafi álitsbeiðandi tekið fram að það kæmi illa við fjárhag sinn að þurfa að borga slíka fjárhæð uppsafnaða í einu lagi og að betur hefði farið á því að gagnaðili léti vita af hækkun leigu jafnt og þétt svo hægt hefði verið að standa straum af þeim kostnaði mánaðarlega. Gagnaðili hafi því boðið álitsbeiðanda að skipta greiðslunni í tvennt. Þá hafi gagnaðili tilkynnt álitsbeiðanda að samkvæmt þessu væri leigufjárhæð héðan í frá 112.010 krónur á mánuði, í stað 100.000 króna, og færi áfram stighækkandi með vísitölubreytingum. Álitsbeiðandi hafi leitað álits á útreikningum gagnaðila hjá Hagstofu Íslands, Glitni, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og Háskólanum í Reykjavík. Einnig hafi verið leitað ráða um slíka útreikninga, og hvernig bera ætti sig að í máli sem þessu, hjá félagsmálaráðuneyti, löggildum leigumiðlara og reynt var að hafa samband við stjórn Leigjendasamtaka en ekki hafi náðst samband eða samtökin ekki starfandi.

Að beiðni kærunefndar hafi álitsbeiðandi leitað einnig álits löggilts endurskoðanda á útreikningum gagnaðila.

Hjá Hagstofu Íslands, Glitni, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Háskólanum í Reykjavík og T, löggiltum endurskoðanda, kom skýrt fram að hækkunin þætti óeðlilega há miðað við hækkun á vísitölu neysluverðs. Samkvæmt upplýsingum ofangreindra aðila séu tvær leiðir færar við útreikninga sem þessa. Sé notuð breytileg leiguupphæð hvers mánaðar við áframhaldandi útreikninga, en ekki fastan höfuðstól/upphaflega leigufjárhæð 94.000 krónur, skuli deila með vísitölu undangengins mánaðar en ekki upphaflegri grunnvísitölu og margfalda með vísitölu þess mánaðar.

Leið A væri breytileg leiguupphæð hvers mánaðar x vísitala mánaðarins / vísitala undangengis mánaðar. Sömu útkomu megi einnig fá út með því að nota höfuðstól leigufjárhæðar, þ.e. 94.000 krónur, til útreikninga í hverjum mánuði, en ekki breytilega leigufjárhæð, margfalda með vísitölu þess mánaðar en deila þá með grunnvísitölu.

Leið B væri upphaflegur höfuðstóll leigufjárhæðar x vísitala þess mánaðar / upphafleg grunnvísitala.

Álitsbeiðandi telji ekki ljóst hvaða aðferð gagnaðili hafi stuðst við þegar hækkandi leigufjárhæðir hafi verið reiknaðar þar sem engir nákvæmir útreikningar hafi fylgt til útskýringar þeim hækkandi fjárhæðum sem gagnaðili hafi tilkynnt álitsbeiðanda í ágúst 2007. Miðað við þá uppsöfnuðu fjárhæð sem gagnaðili hafi krafist að fá greidda virðast þó útreikningar gagnaðila hafa tekið mið af breytilegri mánaðarleigu hvers mánaðar en jafnframt grunnvísitölu, ranglega samkvæmt ofangreindu. Gagnaðili virðist því hafa blandað saman ofangreindri leið A og B við útreikninga. Hvernig sem á málið sé litið séu útreikningar gagnaðila augljóslega rangir.

Gagnaðili hafi ítrekað neitað að útreikningar þeirra væru rangir er álitsbeiðandi hafi gert athugasemdir vegna hækkunarinnar. Þar sem gagnaðili hafi ekki fallist á að reikningarnir væru rangir hafi álitsbeiðandi ekki séð sér annað fært, þótt ósáttur væri, en að greiða uppsafnaða hækkun leigunnar til þess að halda frið við gagnaðila. Hafi það verið gert í tveimur greiðslum, í september 2007 og október 2007. Hafi álitsbeiðandi greitt 35.794 krónur í uppsafnaða vísitöluhækkun vegna leigu, rafmagns og hita sem réttilega hefði átt að vera 10.476 krónur, sjá útreikninga í fylgiskjali. Mismunur þar á milli sé 25.318 krónur, sem gagnaðili hafi fengið greitt ranglega. Næstu tvo mánuði, þ.e. september og október 2007, hafi álitsbeiðandi greitt mánaðarleigu 112.000 krónur sem hefði þá réttilega átt að vera 102.654 krónur í september og 103.928 krónur í október, sjá útreikninga í fylgiskjali. Þar með hafi álitsbeiðandi greitt of mikið fyrir septembermánuð, eða 9.346 krónum, sem og fyrir októbermánuð, eða 8.072 krónum. Samanlagt hafi álitsbeiðandi greitt 17.417 krónum of mikið fyrir þá tvo mánuði. Alls hafi því álitsbeiðandi greitt gagnaðila 42.735 krónum of mikið í leigufé. Taka skal fram að í útreikning álitsbeiðanda sé gert ráð fyrir óbreyttum hita- og rafmagnskostnaði, 6.000 krónur, allt leigutímabil fyrsta leigusamningsins og miðað sé við útreikninga S endurskoðanda á hækkaðri leigu vegna vísitölubreytinga.

Greinir álitsbeiðandi frá því að eftirmálar hafi verið þeir að álitsbeiðandi óskaði eftir framlengingu leigusamnings um fáeina mánuði meðan hann leitaði að öðru húsnæði og var því annar leigusamningur undirritaður. Við undirbúning annars leigusamnings hafi álitsbeiðandi mótmælt enn og aftur óhóflegri hækkun leigunnar á einu ári. Leigusali hafi krafist að ný mánaðarleiga annars leigusamningsins yrði samanlagt 124.000 krónur, ásamt hita og rafmagni, eða 24% hærri en ári áður þegar mánaðarleiga var 100.000 krónur, ásamt hita og rafmagni, við undirritun fyrsta leigusamningsins í nóvember 2006. Tekur álitsbeiðandi fram að við gerð annars leigusamningsins hafi orðið samkomulag um að hækka kostnað við hita og rafmagn í 10.000 krónur sem í fyrsta leigusamningnum hafi verið 6.000 krónur. Álitsbeiðandi hafi fúslega fallist á þá beiðni leigusala þar sem notkun rafmagns og hita reyndist aukin í húsinu, að sögn gagnaðila. Krafa gagnaðila hafi því verið sú að leigufjárhæð, að undanskildum hita- og rafmagnskostnaði, hækkaði úr 94.000 krónum 114.000 krónur sem nemur um 21 prósentustigs hækkun á einu ári, að sögn gagnaðila einungis vegna hækkunar vísitölu neysluverðs.

Einnig hafi á álitsbeiðandi viðrað efasemdir sínar um útreikningana á ný við fulltrúa leigusala. Hann hafi þá haft í frammi ógnandi tilburði og hótanir á heimili álitsbeiðanda að kvöldi 5. nóvember 2007 vegna efasemda álitsbeiðanda um réttmæti útreikninga hans.

Álitsbeiðandi sjái sér ekki annað fært en að undirrita nýjan samning með mun hærri leigu enda hafi hann og barn hans ekki átt í önnur hús að venda. Enn fremur hafi álitsbeiðandi undirritað samninginn með mun hærri leigu til þess að styggja gagnaðila ekki enn frekar. Álitsbeiðandi hafi aldrei fengið í hendur þá útreikninga sem notaðir voru til grundvallar hækkunar leigufjárhæðar vegna hækkunar vísitölu neysluverðs við gerð annars leigusamnings.

Greinir álitsbeiðandi frá því að gagnaðili hafi fallist að lokum á að mánaðarleiga í öðrum leigusamningi yrði 120.000 krónur, ásamt hita og rafmagni, eða 20% hærri en ári áður. Sé aðeins litið til hækkunar leigufjárhæðar á leigutímabili fyrsta leigusamnings, að undanskildum hita- og rafmagnskostnaði, nemi hækkunin 17 prósentustigum, þ.e. úr 94.000 krónum í 110.000 krónur á einu ári, að sögn gagnaðila einungis vegna hækkunar vísitölu neysluverðs.

Þá kemur fram í álitsbeiðni að kært sé að leigusali skuli fara fram á að álitsbeiðandi borgi fyrirframgreidda leigu síðasta mánaðar leigusamningsins á nýjan leik. Gagnaðili hafi haldið því fram að hann og álitsbeiðandi hafi samið um að fyrirframgreidd leiga síðasta mánaðar fyrsta leigutímabils gengi upp í kostnað vegna golfdúks sem keyptur var og lagður á umrædda leiguíbúð. Álitsbeiðandi líti svo á að ekki hafi verið samið um það og að gagnaðili skuli standa straum af öllum þeim kostnaði, enda sjálfsagt viðhald leiguhúsnæðis í eign leigusala. Álitsbeiðandi líti svo á að honum beri því ekki að greiða gagnaðila leigu vegna síðasta leigumánaðar á nýjan leik.

Álitsbeiðandi biður kærunefnd að gefa álit sitt á því hvort sér beri að greiða gagnaðila leigu vegna síðasta leigumánaðar í annað sinn. Samkvæmt fyrsta leigusamningi skyldi álitsbeiðandi greiða mánaðarlega fyrirfram 100.000 krónur sjötta dag hvers mánaðar. Hinn 6. nóvember 2006, við undirritun samnings, hafi álitsbeiðandi greitt 200.000 krónur vegna leigu fyrir fyrsta og síðasta mánuð leigutímans. Fyrir undirritun samnings í nóvember 2006 hafi álitsbeiðandi skorað á gagnaðila að bæta úr viðhaldi íbúðar með því að leggja slitlag á flotað og illa farið gólf íbúðarinnar, á gólfflöt að flatarmáli varla meira en 40 fm. Leigusali hafi sagst verða við þeirri ósk. Við það tilefni hafi gagnaðili tekið fram að það kæmi sér vel að fá fyrirfram greidda tvo mánuði við gildistöku leigusamnings þar sem það væri kostnaðarsamt að kaupa og leggja gólfdúk. Gagnaðili hafi einnig boðið álitsbeiðanda að taka þátt í að velja útlit gólfdúks á íbúðina sem væri leigjanda að skapi en dregið snarlega í land þegar afgangsdúkur hafi boðist gagnaðila ódýrt. Álitsbeiðandi hafi hvorki sett útlit dúksins fyrir sig né gert athugasemd, enda hafði hann haft takmarkaðan áhuga á útliti leiguíbúðar í annarra eigu. Afgangsgólfdúkur hafi í kjölfarið verið lagður af kunningja gagnaðila og kostnaði þannig haldið niðri, að sögn gagnaðila. Álitsbeiðandi hafi glaðst, fyrir hönd gagnaðila, yfir því að kostnaði gagnaðila yrði haldið niðri þar sem gagnaðili hafi talað opinskátt um fjármál sín.

Greinir álitsbeiðandi frá því að um ári síðar í lok nóvember 2007 hafi hann bent gagnaðila á að nú liði senn að seinasta mánuði hans sem leigjanda og minnti gagnaðila á að álitsbeiðandi hefði þegar greitt síðasta leigumánuð fyrirfram eins og fram komi í fyrsta leigusamningi. Þá hafi gagnaðili tjáð álitsbeiðanda að þeirri fjárhæð hefði verið ráðstafað í téðan gólfdúk, sem gagnaðili sagði álitsbeiðanda hafa „krafist“ að yrði lagður, og að álitsbeiðandi ætti þar með ekki inni áður fyrirfram greiddan síðasta leigumánuð. Gagnaðili hafi rökstutt með því að hann sjálfur og aðrir hefðu áður getað búið á flotuðu gólfinu án gólfefnis og vísaði sömuleiðis í að í fyrsta leigusamningi hafi verið tekið fram að „leigusali tekur þátt í kostnaði við dúkalagningu í íbúðina“. Aldrei hafi gagnaðili minnst á að fyrirframgreiddur síðasti leigumánuður yrði notaður til að greiða kostnað við sjálfsagt viðhald leiguíbúðar í eigu gagnaðila. Hvorki fyrr né síðar hafi komið til tals hver kostnaður hefði verið við dúkalagningu né hver kostnaður við kaup á umræddu gólfefni og hvað þá hver hlutskipting þeirrar greiðslu ætti að vera. Aldrei hafi gagnaðili sýnt álitsbeiðanda reikninga sem sýndu fram á hver kostnaður hefði verið vegna gólfefnis.

Álitsbeiðandi vísar til fyrsta leigusamnings þar sem tekið sé skýrt fram að álitsbeiðandi skyldi greiða tvo leigumánuði fyrirfram í upphafi leigutíma, undir 8. tölul. „Fjárhæð og greiðsla húsaleigu“. Í fyrsta leigusamningi sé tekið fram að tveir leigumánuðir skuli greiðast fyrirfram en ekki einu orði minnst á að annar fyrirframgreiddi leigumánuðurinn skuli vera fyrir kostnaði á gólfefni. Að sama skapi sé í fyrsta leigusamningnum ekki tekið fram að einn leigumánuður skuli greiðast fyrirfram og að álitsbeiðandi skuli greiða 100.000 krónur í gólfefni. Þá sé hvergi í fyrsta leigusamningnum minnst á að álitsbeiðandi standi straum af kostnaði við viðhald, þvert á móti sé í samningnum sérstaklega tekið fram að gagnaðili taki þátt í þeim kostnaði. Þá vísar álitsbeiðandi einnig 5. tölul. húsaleigusamningsins þar sem segir: „Leigusali skal jafnan halda hinu leigða húsnæði í leiguhæfu ástandi, m.a. með því að láta mála húsnæðið og endurnýja gólfdúka þess, teppi og annað slitlag með hæfilegu millibili, eftir því sem góðar venjur um viðhald húsnæðis segja til um.“ Lítur álitsbeiðandi því svo á að gagnaðila beri að leggja gólfdúk en ekki leigjanda.

Þá lítur álitsbeiðandi einnig svo á að íbúðin hafi ekki verið í leiguhæfu ástandi áður en gólfdúkur var lagður. Erfitt hefði verið að þrífa gólf barnaherbergis með viðunandi hætti þar sem ástand flotaðs gólfsins var óásættanlegt í því herbergi. Í 5. tölul. segir einnig: „Telji leigjandi viðhaldi ábótavant skal hann skora á leigusala að bæta úr því.“

Álitsbeiðandi lítur svo á að honum hafi borið að skora á leigusala að bæta úr ábótavönu viðhaldi. Jafnframt segir í 5. tölul.: „Heimilt er að semja sérstaklega um að leigjandi annist á sinn kostnað að hluta eða öllu leyti það viðhald innan íbúðar sem leigusala ber ella að annast, enda lækki leigugjaldið að sama skapi. Ákvæði þess efnist skráist hér og skal þess nákvæmlega getið til hvaða atriða viðhaldsskylda leigjanda nær.“ Ekki séu nein ákvæði skráð í fyrsta leigusamninginn sem segi til um að leigjandi skuli gegna þeirri viðhaldsskyldu leigusala að leggja slitlag á gólf húsnæðisins til að halda því í leiguhæfu ástandi.

Álitsbeiðandi lítur þannig svo á að um sjálfsagða viðhaldsskyldu leigusala hafi verið um að ræða og því beri álitsbeiðanda ekki að taka þátt í þeim kostnaði. Ef kærunefnd líti aftur á móti svo á að álitsbeiðandi eigi engu að síður að greiða hluta kostnaðar við dúkalagningu þá skorar álitsbeiðandi hér með á gagnaðila að leggja fram reikninga fyrir lagningu dúksins.

Þá skal tekið fram að þar sem álitsbeiðandi túlki samning sinn við gagnaðila á þann veg að hann hafi þegar greitt fyrir síðasta mánuðinn, þá taldi hann það rétt sinn að þurfa ekki að greiða fyrir síðasta leigumánuð á nýjan leik á gjalddaga síðasta leigumánaðarins þann 2. desember 2007. Kom því ekki til þeirrar greiðslu.

Hér skal einnig tekið fram að álitsbeiðandi mótmælti framkomu gagnaðila formlega með símskeyti sem umboðsmaður hans hafi tekið við 6. desember 2007. Þar hafi álitsbeiðandi einnig gert athugasemdir við framkomu gagnaðila í þessu máli sem valdið hafi álitsbeiðanda hugarangri og óþægindum, ekki síst hótanir og ógnandi tilburðir fulltrúa leigusala á heimili álitsbeiðanda 5. nóvember 2007.

 

III. Forsendur

Í málinu liggur fyrir skjal sem sagt er stafa frá gagnaðila og sýnir útreikning vísitöluhækkunar húsaleigu frá 6. nóvember 2006 til ágúst 2007 miðað við grunnvísitölu neysluverðs. Samkvæmt þeim útreikningi nam ógreidd uppsöfnuð vísitöluhækkun vegna leigu 33.818 kr. og vegna rafmagns og hita 2.156 krónur eða samtals 35.794 krónur.

Álitsbeiðandi hefur lagt fram útreikninga miðað við sömu forsendur þar sem sýnd er breytileg fjárhæð hvers mánaðar á tímabilinu miðað við vísitölu undangengis mánaðar, bæði varðandi leigu, hita og rafmagn. Kærunefnd hefur yfirfarið útreikinga þessa sem hafa að geyma allar forsendur og leiða þeir í ljós að gagnaðili hefur ofreiknað húsaleigu sem því nemur. Í ljósi þessa ber að fallast á kröfu álitsbeiðanda.

Samkvæmt gögnum álitsbeiðanda hafði gagnaðili krafið hann um greiðslu vegna gólfefnis, en um það er ágreiningur hvort álitsbeiðanda hafi yfir höfuð borið að greiða þann kostnað. Liggur því ekki fyrir að gagnaðili eigi þá kröfu á hendur álitsbeiðanda og var honum óheimilt að ráðstafa leigugreiðslu vegna síðasta leigumánaðar upp í þá kröfu. Verður honum því ekki gert að greiða aftur leigu vegna þess mánaðar.

Það athugast að eingöngu liggja fyrir einhliða fullyrðingar álitsbeiðanda, enda hefur gagnaðili ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni. Þótt þessar fullyrðingar fari ekki í bága við skrifleg gögn málsins er hugsanlegt að niðurstaðan yrði á annan veg ef sjónarmið og andmæli gagnaðila hefðu komið fram. Ber að virða álitsgerðina í því ljósi.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda leigufé að fjárhæð 42.735 krónur.

Það er álit kærunefndar að húsaleiga vegna desember 2007 hafi verið greidd.

 

Reykjavík 22. apríl 2008

 

Valtýr Sigurðsson

Benedikt Bogason

Þórir Karl Jónasson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum