Hoppa yfir valmynd
22. desember 1998 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/1998

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  H Ú S A L E I G U M Á L A

 

Mál nr. 13/1998

 

Húsgjald.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 11. september 1998, beindi A, X nr. 5, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, Y nr. 18, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Gagnaðilum var gefinn kostur á því að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.

Greinargerð gagnaðila, dags. 26. október 1998, var lögð fram á fundi nefndarinnar 9. desember sl. og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Með leigusamningi, ódags., tók álitsbeiðandi á leigu 4ja herbergja íbúð í eigu gagnaðila að Y nr. 18. Um var að ræða ótímabundinn leigusamning, frá 1. október 1997. Fjárhæð leigu var ákveðin kr. 42.000,- á mánuði. Ágreiningur er um hússjóðsgjöld.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi hafi ofgreitt kr. 38.828,- í hússjóð og hafi því verið heimilt að draga þá fjárhæð frá leigugreiðslu júlímánaðar.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi greitt kr. 5.972,- á mánuði í hússjóð. Innifalinn hafi verið ýmiss kostnaður sem álitsbeiðandi telur sig ekki hafa borið að greiða, s.s. tryggingar og kostnað við væntanlegan snjómokstur. Mánaðarlega hafi verið sendur ósundurliðaður gíróseðill fyrir hússjóðsgjöldum og hafi þau numið samtals kr. 59.648,- þessa 10 mánuði. Álitsbeiðandi telur sig hafa átt að greiða samtals kr. 24.820,- í hússjóð, þ.e. kr. 23.180,- fyrir hitaveitu og kr. 1.640,- fyrir rafmagn í sameign. Ofgreidd hússjóðsgjöld nemi því kr. 34.828,-. Mismuninn hafi álitsbeiðandi dregið frá húsaleigu júlímánuðar.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að gagnaðilar telja að álitsbeiðanda beri að greiða þau hússjóðsgjöld sem stjórn húsfélagsins hafi ákveðið allt frá árinu 1994, þ.e. kr. 5.972,- á mánuði auk hlutdeildar í vatnsnotkun. Í rekstraryfirliti fyrir árið 1997, dags. 25. október 1998, komi fram að hússjóðsgjöld íbúðarinnar nemi kr. 5.887,- á mánuði. Samkvæmt 23. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 hafi álitsbeiðandi átt að greiða fyrir kaldavatnsnotkun íbúðarinnar, en gagnaðilar hafi hins vegar greitt samtals kr. 10.084,- fyrir hana. Álitsbeiðanda hafi því borið að greiða 10/12 hluta þess gjalds eða kr. 8.403,-. Samtals hafi álitsbeiðandi því átt að greiða kr. 6.727,- mánaðarlega í hússjóð svo gagnaðilar færu skaðlausir úr viðskiptum við álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi hafi aldrei mótmælt hússjóðsgjöldunum fyrr en hann greiddi síðustu greiðsluna 14. júlí sl., en þá hafi hann ákveðið einhliða að skerða leigufjárhæðina um kr. 34.900,-. Slíku gerræði mótmæli gagnaðilar harðlega .

 

III. Forsendur.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 skal leigjandi greiða kostnað af notkun vatns og rafmagns og jafnframt hitunarkostnað, en leigusali greiðir öll fasteignagjöld, þar með talið fasteignaskatt og tryggingariðgjöld. Í 2. mgr. 23. gr. segir að leigjandi skulu ennfremur greiða allan kostnað vegna hitunar, lýsingar og vatnsnotkunar í sameign, svo og kostnað við ræstingu og aðra sameiginlega umhirðu hennar. Leigusali skal greiða framlag til sameiginlegs viðhalds, þar á meðal vegna lyftubúnaðar, svo og kostnað vegna endurbóta á lóð eða húseign og kostnað við hússtjórn. Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga nr. 36/1994 ber leigusala hins vegar að gera skýra grein fyrir umræddum kostnaði.

Það er álit kærunefndar að gagnaðili hafi ekki sýnt fram á viðhlítandi sundurliðun á þeim kostnaðarþáttum húsgjalds sem álitsbeiðanda ber að greiða. Gagnaðila ber því að upplýsa álitsbeiðanda nákvæmlega um kostnaðarþætti húsgjaldsins og á grundvelli þeirra upplýsinga á uppgjör að fara fram. Að öðru leyti getur kærunefnd ekki á grundvelli fyrirliggjandi gagna tekið afstöðu til ágreinings aðila.

 

IV. Niðurstaða.

Kærunefnd tekur ekki afstöðu til þess hvort álitsbeiðandi hafi ofgreitt kr. 38.828,- í hússjóð.

 

 

Reykjavík, 22. desember 1998.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Ólafur Sigurgeirsson

Benedikt Bogason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum