Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2005

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSALEIGUMÁLA


í málinu nr. 8/2005

Endurgreiðsla húsaleigu. Tímabundinn leigusamningur.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 25. október 2005, mótteknu 26. október 2005, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni voru frekari athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 31. október 2005, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 9. janúar 2006.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. 1. desember 2004, tók álitsbeiðandi á leigu íbúð í eigu gagnaðila. Um var að ræða tímabundinn leigusamning frá 1. desember 2004 til 1. desember 2005 og var umsamin leiga 70.000 krónur á mánuði.

 

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

Að gagnaðila beri að endurgreiða húsaleigu fyrir september sl. 70.000 krónur.

Að gagnaðila beri að greiða álitsbeiðanda bætur vegna mismunar á húsaleigu, flutningskostnaðar og vinnutaps vegna flutninga, alls 76.451 krónur.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Í álitsbeiðni kemur fram að upphaflega hafi aðilar samið um að leigutími húsnæðisins yrði til eins árs, þ.e. frá 1. desember 2004 til 1. desember 2005. Gagnaðili hafi tekið fram að þar sem sonur hans hygðist kaupa húsnæðið og leigja það áfram þá væri álitsbeiðanda hugsanlega fært að vera þar lengur. Eftir um 2-3 mánaða veru í húsnæðinu hafi gagnaðili haft samband við álitsbeiðanda og óskað að sýna íbúðina vegna fyrirhugaðrar sölu hennar.

Gagnaðili hafi seinna haft samband við álitsbeiðanda og óskað eftir að ákvæði um uppsögn í leigusamningi aðilanna yrði breytt á þann hátt að hann yrði þrír mánuðir. Hafi álitsbeiðandi samþykkt það. Eftir undirritun á nýjum leigusamningi, dags. 1. mars sl., hafi álitsbeiðandi uppgötvað að gagnaðili hafði breytt ákvæði eldri leigusamnings um lok leigutímabils úr 1. desember 2005 í 1. júní 2005. Þá þegar hafi álitsbeiðandi hafið leit að nýju leiguhúsnæði. Álitsbeiðandi hafði samband við son gagnaðila sem fullvissaði álitsbeiðanda um að hann hefði hug á að kaupa húsnæðið. Þann 13. júlí sl. hafði sonur gagnaðila samband við álitsbeiðanda og tilkynnti að húsnæðið hefði verið selt. Álitsbeiðandi benti á að hún hefði þriggja mánaða uppsagnafrest en sonurinn hafi svarað því til að gott væri ef álitsbeiðandi gæti fundið nýtt leiguhúsnæði án þess þó að tiltaka nokkurn frest. Álitsbeiðandi hafi leitaði eftir nýju leiguhúsnæði og fundið íbúð sem losnaði þann 1. október sl. Þann 1. september sl. hafi álitsbeiðandi greitt gagnaðila húsaleigu fyrir septembermánuð, alls 70.000 krónur.

Þann 6. september sl. hafi nýr eigandi húsnæðisins ruðst inn í húsnæðið og hafist handa við að færa til eigur álitsbeiðanda og að rífa nagla úr veggjum. Auk þess hafi formaður húsfélags hússins gert sig líklegan til þess að skipta um lyklaskrá á íbúðinni. Hafi álitsbeiðandi neyðst til að hafa samband við lögreglu til stöðva frekari framkvæmdir. Sonur gagnaðila hafi því næst haft samband við álitsbeiðanda og farið fram á að húsnæðið yrði rýmt hið fyrsta en haft í hótunum við sambýlismann álitsbeiðanda þegar þeirri ósk var hafnað. Hafi málsaðilum loks tekist að ná samkomulagi um að álitsbeiðandi myndi rýma húsnæðið þann 10. september sl. gegn því loforði gagnaðila að álitsbeiðanda mætti nýta lengur geymslu og bílskúr húsnæðisins. Einnig hafi álitsbeiðanda verið lofað endurgreiðslu leigufjárhæð fyrir septembermánuð.

Álitsbeiðandi segir húsnæðið hafa verið rýmt eins og um var samið. Sökum þess hversu skjótt ósk um rýmingu á húsnæðinu barst hafi sambýlismaður álitsbeiðanda neyðst til að taka leyfi frá vinnu auk þess sem álitsbeiðandi hafi orðið fyrir útgjöldum vegna flutninga á búslóð. Hins vegar hafi gagnaðili ekki endurgreitt leigu fyrir septembermánuð. Tekur álitsbeiðandi fram að sér hafi ekki verið afhent skrifleg uppsögn heldur einungis verið tjáð um sölu húsnæðisins símleiðis þann 13. júlí sl. Telur álitsbeiðandi rétt sinn ótvíræðan þar sem gagnaðili hafi athugasemdalaust þegið leigugreiðslur fyrir júlímánuð, ágústmánuð og septembermánuð.

      

III. Forsendur

Gagnaðili hefur ekki sent kærunefnd athugasemdir sínar eða komið á framfæri sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 þrátt fyrir að honum hafi verið gefinn kostur á því. Byggir kærunefnd því niðurstöðu sína fyrst og fremst á málsatvikum eins og þeim sem er lýst í álitsbeiðni, dags. 25. október 2005.

Svo sem hér hefur verið rakið komst á ótímabundinn leigusamningur um eignina eftir skriflegur samningur rann út 1. júní 2005, sbr. 1. mgr. 10. gr. húsaleigulaga. Álitsbeiðandi féllst á víkja úr húsnæðinu án uppsagnarfrests 10. september sl. þrátt fyrir að hafa greitt húsaleigu fyrir þann mánuð.

Eins og málið liggur fyrir telur kærunefnd að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda húsaleigu frá 10. september sl. til 1. október sl, eða krónur 46.667. Að öðru leyti getur kærunefndin ekki tekið afstöðu til kröfugerðar álitsbeiðanda þar sem kröfuliðir hafa ekki verið rökstuddir með viðhlítandi gögnum.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda húsaleigu frá 10. september sl. til 1. október sl., eða krónur 46.667.

    

 

Reykjavík 9. janúar 2006

 

 

Valtýr Sigurðsson

Benedikt Bogason

Þórir Karl Jónasson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum