Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2004

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSALEIGUMÁLA

í málinu nr. 7/2004

 

Dráttarvextir af gjaldfallinni húsaleigu. Kostnaður við innheimtu tryggingavíxils.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 17. september 2004, mótteknu 22. september 2004, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 5. október 2004, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 16. október 2004, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 6. desember 2004. Niðurstaða fékkst ekki en ákveðið var að óska frekari gagna frá gagnaðila. Á fundi nefndarinnar 4. janúar 2005 var málið leitt til lykta.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. 14. ágúst 2002, tók gagnaðili á leigu íbúðarhúsnæði í eigu álitsbeiðanda að X, tímabilið 1. september 2002 til 1. apríl 2004. Í álitsgerð kærunefndar húsaleigumála í máli nr. 2/2004, dags. 1. júlí 2004, gaf kærunefnd álit sitt á ágreiningi sömu aðila um sama leigusamning varðandi lok leigutíma og skil leiguhúsnæðis. Álitsbeiðandi í máli þessu var gagnaðili í máli 2/2004 og er ágreiningur aðila nú um dráttarvexti af gjaldfallinni húsaleigu og kostnað vegna innheimtu tryggingavíxils.

 

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

Að gagnaðili greiði sér dráttarvexti af gjaldfallinni húsaleigu frá gjalddaga til greiðsludags.

Að gagnaðili greiði sér 4360 krónur vegna bankakostnaðar við innheimtu tryggingavíxils.

 

Álitsbeiðandi bendir í álitsbeiðni á að kærunefnd hafi í máli 2/2004 talið að gagnaðili ætti að greiða húsaleigu út júnímánuð 2003. Álitsbeiðandi krefst þess að gagnaðili greiði dráttarvexti af hinni gjaldföllnu húsaleiguskuld, sbr. 3. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Álitsbeiðandi segir að gagnaðili neiti enn að greiða húsaleiguskuld í samræmi við álit kærunefndar í máli 2/2004. Þá telur álitsbeiðandi að gagnaðili eigi að greiða sér þann kostnað sem Íslandsbanki hafi krafið álitsbeiðanda um vegna innheimtu tryggingavíxils.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að þegar álit kærunefndar hafi legið fyrir hafi gagnaðili haft samband við álitsbeiðanda til að ljúka því í samræmi við álitið. Álitsbeiðandi hafi ekki viljað það enda ekki talið málinu lokið og gagnaðili þá sent álitsbeiðanda skeyti til staðfestingar á þessum vilja sínum. Gagnaðili bendir á 5. gr. laga um vexti og verðbætur, nr. 38/2001, þar sem segir að hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Verður að skilja gagnaðila svo að hann telji að gjalddagi umræddrar húsaleiguskuldar hafi ekki verið fyrir fram ákveðinn. Í greinargerðinni kemur einnig fram að gagnaðili telur að álitsbeiðandi hafi átt að hafa samband við sig og láta vita af því að umræddur víxill yrði sendur í innheimtu.

Í athugasemdum álitsbeiðanda er bent á að um tryggingavíxillinn hafi verið samið og hann hafi verið til tryggingar mögulegum vanefndum gagnaðila. Hann skuldi nú hluta leigu sem fallið hafi í gjalddaga hinn 1. júní 2003. Ekki hafi þýtt fyrir sig að hafa samband við gagnaðila vegna víxilsins því hann hafi neitað að skulda nokkuð þar til álit kærunefndar lá fyrir.

Fyrir kærunefnd liggur afrit símskeytis sem gagnaðili sendi álitsbeiðanda hinn 10. ágúst 2004 þar sem segir: „Óska hér með eftir því að þú afhendir mér tryggingavíxil sem ég afhenti þér í september 2002 vegna leigusamnings á íbúð þinni að [X]. Í framhaldi af úrskurðarnefndar húsaleigumála Félagsmálaráðuneytisins, tel ég eðlilegt að þú takir ákvörðun um að ganga frá þessu máli í samræmi við úrskurð nefndarinnar, eða ella stefna mér fyrir dómstóla eins og lög gera ráð fyrir.“

Báðir aðilar vísa jafnframt til gagna í máli 2/2004.

 

III. Forsendur

Í máli nr. 2/2004 var það niðurstaða kærunefndar að gagnaðila þessa máls væri skylt að greiða húsaleigu til loka júnímánaðar 2003. Ekki er hægt að skilja álitsbeiðanda öðruvísi en svo að hann krefjist þess nú að gagnaðili greiði dráttarvexti af skuldinni frá 1. júní 2003 og til greiðsludags.

Í 4. mgr. 33. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að nú hafi leigjandi eigi gert skil á leigunni innan sjö sólarhringa frá gjalddaga og sé þá leigusala rétt að krefjast hæstu lögleyfðu dráttarvaxta af henni til greiðsludags. Gjalddagi húsaleigunnar var 1. júní 2003. Af skeyti sem gagnaðili sendi álitsbeiðanda hinn 10. ágúst 2004 er ljóst að hann vildi ljúka málinu í samræmi við álit kærunefndar. Líta verður á símskeytið sem tilboð um greiðslu og er gagnaðila því óskylt að greiða dráttarvexti eftir 10. ágúst 2004.

Til tryggingar vanefndum gagnaðila á húsaleigusamningi aðila var settur tryggingavíxill. Álitsbeiðandi setti hluta víxilsins í innheimtu hinn 16. janúar 2004 og hefur bankinn krafið álitsbeiðanda um 4360 krónur vegna innheimtunnar. Með álitsbeiðni fylgja gögn um útlagðan kostnað álitsbeiðanda vegna þessa og telur álitsbeiðandi að gagnaðili eigi að greiða þennan kostnað.

Samkvæmt meginreglum samninga- og kröfuréttar ber skuldara að halda kröfuhafa skaðlausum af nauðsynlegum innheimtukostnaði vegna vanefnda skuldara. Það er því álit kærunefndar að gagnaðila beri að greiða kostnað við innheimtu víxilsins.

Hluti af erindi álitsbeiðanda sneri að þeirri leigumiðlun sem var umboðsaðili álitsbeiðanda og á það ekki undir kærunefnd og er því vísað frá. Álitsbeiðanda hefur verið leiðbeint um að vísa þeim hluta til félagsmálaráðuneytisins.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að greiða dráttarvexti af eftirstöðvum húsaleigu fyrir júnímánuð árið 2003 frá 1. júní 2003 til og með 10. ágúst 2004.

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að greiða álitsbeiðanda 4360 krónur vegna innheimtu tryggingavíxils.

 

 

Reykjavík 4. janúar 2004

 

 

Valtýr Sigurðsson

Benedikt Bogason

Þórir Karl Jónasson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum