Hoppa yfir valmynd
3. maí 1995 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/1995

ÁLITSGERÐ

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

Mál nr. 7/1995

 

Atkvæðagreiðsla: Húsfundur.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 20. mars 1995, vísaði formaður hússtjórnar X til nefndarinnar ágreiningi um framkvæmd atkvæðagreiðslu og kosninga á fundum húsfélagsins.

Kærunefnd tók erindi þetta fyrir á fundi 22. mars sl. þar sem samþykkt var að gefa álitsbeiðanda færi á að bæta úr annmörkum á erindinu þannig að það uppfyllti lagaskilyrði til að kærunefnd gæti tekið það til úrlausnar. Með bréfi, dags. 27. mars sl., barst kærunefnd síðan viðauki við fyrra bréf þar sem farið var að kröfum kærunefndar í öllum aðalatriðum.

Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 var gagnaðila gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum. Greinargerð hans, dags. 21. apríl sl., hefur borist nefndinni.

Á fundi kærunefndar 26. apríl sl. var fjallað frekar um málið og samþykkt að taka það til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Stjórn Húsfélagsins X útbjó kjörskrá til nota við atkvæðagreiðslur á húsfundum. Byggist hún á hlutfallstölum íbúða samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu. Samkvæmt kjörskrá eru 26 eignarhlutar með sjálfstæða hlutfallstölu, þ.e. hlutfallstölu sem þeir eru einir um að hafa, en eignarhlutar eru 67. Útbúnir hafa verið kjörseðlar, þar sem fram koma númer eignarhluta og hlutfallstala hverrar íbúðar.

Á aðalfundi félagsins komu fram efasemdir um frágang atkvæðaseðlanna og framkvæmd kosninga. Kom fram ósk, þ.á m. frá gagnaðila, um að álits kærunefndar fjöleignarhúsamála yrði leitað um ágreining þennan.

 

Sérstaklega var óskað eftir áliti um:

1. Hvort atkvæðagreiðsla skuli vera leynileg?

2. Hvort við minniháttar atkvæðagreiðslu skuli heimilt að viðhafa nafnakall?

3. Hvort heimilt sé að nota atkvæðaseðla þá sem útbúnir hafi verið?

4. Hvort þriggja manna kjörstjórn sé heimilt að annast talningu atkvæða?

5. Hvort nauðsynlegt sé að fela utanaðkomandi aðila að framkvæma talningu atkvæða?

 

Í erindi álitsbeiðanda kemur fram, að ekki verði séð fyrir því rök að atkvæðagreiðsla á húsfundum sé leynileg, enda komi ekki fram krafa um það í lögum um fjöleignarhús. Þá sé ekkert því til fyrirstöðu að viðhafa nafnakall á fundum við minniháttar atkvæðagreiðslur með hliðsjón af kjörskrá.

Á stjórnarfundi 30. nóvember 1993 hafi verið lagðar fram tillögur um gerð atkvæðaseðla til nota við hlutfallskosningar. Í aðalatriðum séu atkvæðaseðlar þeir sem útbúnir hafi verið í samræmi við þessar tillögur.

Á stjórnarfundi 15. mars 1994 hafi formaður lagt fram tillögu um kjörskrá og sýnishorn atkvæðaseðla. Þá hafi verið bókað að ekki þætti ástæða til að atkvæðagreiðsla væri leynileg. Ákveðið hafi verið að skipa í kjörstjórn núverandi endurskoðendur og formann húsfélagsins. Endurskoðendur höfnuðu hins vegar setu í kjörstjórn. Á aðalfundi húsfélagsins 5. apríl 1994 fór stjórnarkosning fram samkvæmt kjörskrá og með umræddum atkvæðaseðlum. Gagnaðili mómælti notkun atkvæðaseðlanna og taldi kjörstjórn vanhæfa til talningar atkvæða.

Af hálfu gagnaðila er því haldið fram að almenn fundarsköp eigi að gilda um meðferð mála á húsfundum. Þannig skuli kosning vera skrifleg og þá jafnframt leynileg sé um kjör til stjórnar að ræða og fleiri í framboði en kjósa skuli. Eins og bókun úr fundargerð aðalfundar 1993, sem vísað er til í greinargerðinni, beri með sér hafi þessara sjónarmiða ekki verið gætt.

Í umræddum húsum búi aðallega eldra fólk og margt óvant félagsstörfum. Þetta fólk þori ekki að láta álit sitt í ljós á fundum eða við stjórnarmenn, enda hafi þeim sem það hafi gert verið sýnd ókurteisi og dæmi séu jafnvel um hótanir. Kveðst gagnaðili hafa oftar en ekki mátt þola óviðurkvæmilegar athugasemdir og móðganir, m.a. á fundum, vegna þess að hún hafi leyft sér að leggja fram tillögur og mótmæla meðferð mála. Það sé því réttlætismál að kosið sé leynilega, a.m.k. við kjör stjórnar og gagnvart fjárhagsskuldbindingum.

Gagnaðili telur ótækt að nota atkvæðaseðla eins og þá sem útbúnir hafi verið fyrir aðalfund 1994 og telur að hægt sé að viðhafa leynilega atkvæðagreiðslu og þá eftir hlutfallstölum, svo að fyllsta hlutleysis sé gætt.

Gagnaðili mótmælir því að stjórnarmenn séu í kjörstjórn eða við talningu atkvæða. Þá eigi talning atkvæða að sjálfsögðu ekki að fara fram á heimili stjórnarformanns heldur á fundum.

 

III. Forsendur.

1. Í áliti kærunefndar verður nú fjallað um liði 1, 2 og 3 í einu lagi þar sem þeir liðir lúta sömu rökum.

Í lögum nr. 26/1994 er ekki að finna ákvæði um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu á húsfundum, gerð atkvæðaseðla eða framkvæmd talningar þeirra. Þegar ákvæði um fyrirkomulag kosninga er ekki að finna í lögum eða samþykktum félaga er rík venja að þessi atriði ráðist af almennum fundarreglum eða fundarsköpum.

Í 39. gr. laga nr. 26/1994 kemur fram, að allir eigendur fjöleignarhúss eigi óskoraðan rétt á að taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina og sameiginleg málefni sem snerta hana beint eða óbeint. Um ákvörðunartökuna og réttaráhrif hennar gilda ákvæði 41. gr. laganna en samþykkt ákvarðana ræðst af afli atkvæða, allt eftir eðli ákvörðunar.

Við atkvæðagreiðslu á húsfundum er ekkert í vegi fyrir því að beita því fyrirkomulagi sem einfaldast er hverju sinni, svo sem handauppréttingu. Hins vegar er það meginregla, samkvæmt almennum fundarreglum, að hver og einn fundarmanna getur krafist þess að ákvörðun sé tekin á leynilegan hátt, þ.e. skriflega. Er þá skylt að verða við þeirri ósk. Rökin, sem að baki þessari reglu búa, eru þau að með skriflegri atkvæðagreiðslu sé verið að styrkja það mikilvæga lýðræðislega atriði, að unnt sé að neyta atkvæðis síns óttalaust og án þess að verða fyrir áhrifum eða þrýstingi frá öðrum.

Það er álit kærunefndar, með vísan til ofangreindra raka, að skylt sé að viðhafa leynilega atkvæðagreiðslu að því marki sem unnt er. Í sýnishorni atkvæðaseðla, sem notaðir eru við kosningar í húsfélaginu, kemur fram að þeir greina, auk hlutfallstölu eignarinnar, auðkenni viðkomandi fasteignar. Samkvæmt því áliti kærunefndar, að kosning skuli vera leynileg, þ.e.a.s. atkvæðaseðlar ekki með númeri íbúðar, skulu atkvæðaseðlar þeir sem hér um ræðir ekki notaðir, komi fram beiðni eins eða fleiri fundarmanna um leynilega kosningu.

2. Um liði 4 og 5.

Í 1. mgr. 64. gr. laga nr. 26/1994 segir, að formaður húsfélags stjórni húsfundi, en sé hann ekki viðstaddur velji fundurinn sjálfur fundarstjóra úr hópi félagsmanna.

Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram, að gert er ráð fyrir að atkvæði sem greidd eru á húsfundi séu talin og færð til bókar á þeim sama fundi. Samkvæmt því eiga allir fundarmenn húsfélagsins rétt á því að vera viðstaddir talningu atkvæða. Aðstæður geta hins vegar ráðið því að nauðsyn verði talin á að talning atkvæða fari fram annars staðar en á fundinum sjálfum. Ber þá að leggja tillögu fram á fundinum til samþykktar eða synjunar um að svo skuli gera og sjá til þess við staðarval að þeir sem þess óska eigi kost á að fylgjast með talningu.

Ekkert er því í vegi að skipuð sé þriggja manna kjörstjórn til að annast talningu atkvæða enda hafi tillaga um það verið samþykkt á fundi. Í slíka kjörstjórn eru stjórnarmenn kjörgengir, sem og aðrir fundarmenn. Sé slík tillaga ekki samþykkt, stjórnar formaður húsfélagsins talningu ásamt fundarmönnum eða þeim sem hann kallar til sér til aðstoðar. Engin þörf er því á að fela utanaðkomandi aðila að framkvæma talningu atkvæða.

 

IV. Niðurstaða.

1. Það er álit kærunefndar að atkvæðagreiðsla á húsfundum X skuli vera leynileg, komi fram um það krafa eins fundarmanna eða fleiri.

2. Heimilt er að viðhafa nafnakall enda komi engin tillaga fram um annað, svo sem um leynilega kosningu.

3. Í því tilviki sem óskað hefur verið leynilegrar atkvæðagreiðslu skal ekki nota atkvæðaseðla sem bera með sér auðkenni íbúðar.

4. Þriggja manna kjörstjórn er heimilt að annast talningu atkvæða enda hafi fundur samþykkt það. Atkvæði skulu talin á húsfundi nema annað hafi verið samþykkt af fundinum.

 

 

Reykjavík, 3. maí 1995.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Ingólfur Ingólfsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum