Hoppa yfir valmynd
10. júlí 1996 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 37/1996

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 37/1996

 

Skylda húsfélags: Ársreikningur.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 14. maí 1996, beindi A, til heimilis að X nr. 6, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við stjórn húsfélagsins að X nr. 6, hér eftir nefnd gagnaðili, varðandi það hvort lagður hafi verið fram fullnægjandi ársreikningur.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 22. maí. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Greinargerð gagnaðila, dags. 11. júní, var lögð fram á fundi kærunefndar 3. júlí og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Á aðalfundi húsfélagsins að X nr. 6, sem haldinn var þann 28. feb. 1996, var lagt fram ársuppgjör frá húsfélagaþjónustu banka. Ágreiningur aðila varðar það hvort ársuppgjör það sem lagt var fram af hálfu hússtjórnar geti talist fullnægjandi og lögmætur ársreikningur.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að forráðamönnum húsfélagsins að X nr. 6 verði talið skylt að leggja fram fullnægjandi og lögmætan ársreikning.

 

Álitsbeiðandi telur að ársuppgjör það sem lagt var fram á aðalfundi geti ekki talist fullnægjandi og lögmætur ársreikningur og vísar til 2. tl. 61. gr., 2. mgr. 69. gr. og 72. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús máli sínu til stuðnings. Álitsbeiðandi bendir á að efnahagsreikning vanti með öllu auk allra skýringa. Ekkert komi fram um skuldastöðu einstaka íbúa, hvergi komi fram endurgreiðsla virðisaukaskatts varðandi vinnu við rafmagnstöflu né hreingerningu og teppahreinsun á sameign.

Af hálfu gagnaðili er því haldið fram að ársuppgjör það sem lagt var fram á aðalfundi sé fullnægjandi og segir það einnig álit þjónustufulltrúa húsfélagaþjónustu bankans. Gagnaðili mótmælir því að engar skýringar hafi legið frammi, þar sem mánaðaryfirlit og reikningar hafi verið lögð fram og öllum gefinn kostur á að kynna sér þau gögn að vild. Gagnaðili segist einnig hafa veitt munnlegar upplýsingar varðandi stöðu og vanskil við hússjóð og endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við rafmagnstöflu.

 

III. Forsendur.

Samkvæmt 72. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús skal stjórn húsfélaga sjá um að bókhald húsfélags sé fært og haldið á réttan og fullnægjandi hátt, auk þess sem glöggir efnahags- og rekstrarreikningar skulu færðir á tíðkanlegan hátt. Samkvæmt 2. tl. 61. gr. laga nr. 26/1994 skal leggja fram ársreikninga til samþykktar og umræðu um þá. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald eru húsfélög undanþegin skyldu til að færa tvíhliða bókhald hafi þau ekki meira aðkeypt vinnuafl en svarar til allt að einum starfsmanni að jafnaði. Það er því ljóst að ekki er skylt að halda tvíhliða bókhald fyrir húsfélagið X nr. 6. Þeim aðilum sem undanþegnir eru skyldu til að halda tvíhliða bókhald er þó skylt að gera ársreikninga, sbr. 3. tl. 3. mgr. 10. gr. og 22. gr. bókhaldslaga. Ársreikningur skal samkvæmt 22. gr. a.m.k innihalda efnahags- og rekstrarreikning og skal hann undirritaður af þeim sem ábyrgð ber á bókhaldinu. Samkvæmt 23. gr. bókhaldslaga skal í efnahagsreikningi tilgreina á kerfisbundinn hátt eignir, skuldir og eigið fé og skal hann gefa skýra mynd af eignum, skuldum og eigin fé í árslok. Í rekstrarreikningi skal á kerfisbundinn hátt sýna heildartekjur og heildargjöld þannig sundurliðað að reikningurinn gefi skýra mynd af rekstrarafkomunni.

Með vísan til þess sem að ofan greinir verður að telja að ársuppgjör það sem lagt var fram á aðalfundi húsfélagsins geti ekki talist fullnægjandi ársreikningur samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús né lögum nr. 145/1994 um bókhald.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að ársuppgjör það sem lagt var fram á aðalfundi húsfélagsins sé ekki fullnægjandi ársreikningur og stjórn húsfélagsins beri því að leggja fram fullnægjandi ársreikning fyrir árið 1995 hið fyrsta.

 

 

Reykjavík, 10. júlí 1996.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum