Hoppa yfir valmynd
19. maí 1999 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 21/1999

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 21/1999

 

Eignarhald: Bílastæði.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 24. mars 1999, beindi A f.h. B, C, D og E, öll til heimilis að X nr. 33, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við F, X nr. 33, hér eftir nefnd gagnaðili.

Erindið var fram á fundi nefndarinnar 23. apríl 1999. Áður hafði verið samþykkt að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Athugasemdir gagnaðila hafa ekki borist en frestur var veittur til 9. apríl 1999. Á fundi nefndarinnar 19. maí 1999 var málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Um er að ræða fjölbýlishúsið X nr. 33. Húsið skiptist í fjóra eignarhluta, þ.e. íbúð í kjallara (17,7%) sem er í eigu gagnaðila, íbúð á 1. hæð (28,8%) sem er í eigu álitsbeiðenda, íbúð á 2. hæð (28,7%) sem er í eigu álitsbeiðenda og íbúð í risi (24,9%). Bílskúrar fylgja 1. og 2. hæð, þ.e. eignarhlutum álitsbeiðenda. Ágreiningur er um bílastæði á lóð hússins og aðkeyrslu að bílskúrum.

 

Krafa álitsbeiðenda er:

Að gagnaðila sé óheimilt að leggja bifreið fyrir framan bílskúra eða í aðkeyrslu.

Í álitsbeiðni kemur fram að á lóð hússins sé tvöfaldur bílskúr. Bílskúr til hægri tilheyri 1. hæð og bílskúr til vinstri 2. hæð. Aðkeyrsla að þeim sé tvöföld en mjög löng. Hæglega sé unnt að leggja þar 3-4 bifreiðum hverri fyrir aftan hina. Aðkeyrslan sé hins vegar ekki það breið að unnt sé að leggja þar fleirum en tveimur bifreiðum hlið við hlið, þ.e. einni fyrir framan hvorn bílskúr. Þar sem aðkeyrslan sé mjög löng hafi álitsbeiðendur stundum lagt bifreiðum sínum fyrir aftan hvor aðra, enda sé það alfarið þeirra mál og gagnaðila óviðkomandi. Gagnaðili og aðrir á hans vegum hafi hins vegar ítrekað lagt í stæði fyrir framan bílskúrana og í aðkeyrsluna. Bifreið hafi oft verið lagt fyrir framan bílskúrinn til hægri, eða þá með þeim hætti að bifreiðin sé að hluta í aðkeyrslunni og hluta á gangstétt við húsið, þannig að aðgengi að bílskúrnum sé hindrað. Augljóst sé að gagnaðili geti ekki lagt bifreið í aðkeyrsluna nema með því að valda álitsbeiðendum verulegum óþægindum og hindra aðgengi þeirra.

Álitsbeiðendur benda á að lögregla hafi ítrekað verið kölluð á vettvang vegna þessa ágreinings og hafi dóttir gagnaðila lofað að leggja ekki í stæði fyrir framan bílskúr. Þrátt fyrir það hafi bifreiðum á vegum gagnaðila verið lagt með uppteknum hætti. Þá hafa álitsbeiðendur reynt sættir á húsfundi en án árangurs.

Álitsbeiðendur telja að bílastæðin fyrir framan bílskúr og aðkeyrslan að þeim sé séreign 1. og 2. hæðar, eðli máls samkvæmt. Þeir hafi sjálfir kostað umrædda aðkeyrslu og séð um allt viðhald, umhirðu hennar o.fl.

Álitsbeiðendur vísa máli sínu til stuðnings til 9. tl. 5. gr. og 9. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

 

III. Forsendur og niðurstaða.

Gagnaðili hefur hvorki sent kærunefnd athugasemdir sínar né komið á framfæri sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þrátt fyrir að honum hafi verið gefinn kostur á því. Ber því að leggja til grundvallar í málinu atvikalýsingu álitsbeiðenda.

Á lóð hússins nr. 33 við X eru tveir sambyggðir bílskúrar. Bílskúrarnir tilheyra eignarhlutum 1. og 2. hæðar sem eru í eigu álitsbeiðenda. Aðkeyrslan að bílskúrunum er tvöföld, nokkuð löng og breið. Hins vegar er þar ekki rými fyrir bílastæði við hlið aðkeyrslunnar. Samkvæmt 9. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús telst einkabílastæði fyrir framan bílskúr séreign. Í því felst í því tilviki sem hér um ræðir að öll aðkeyrslan að bílskúrunum verður að teljast sérnotaflötur álitsbeiðenda enda bera þeir af honum allan kostnað, s.s. stofnkostnað, viðhald, umhirðu o.fl. Þar af leiðir er gagnaðila óheimilt að nýta aðkeyrsluna sem bílastæði.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að gagnaðila sé óheimilt að leggja bifreiðum fyrir framan bílskúra og í aðkeyrslu.

 

 

Reykjavík 19. maí 1999.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum