Hoppa yfir valmynd
24. október 1999 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/1999

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 40/1999

 

Hagnýting sameignar: Bílastæði.

 

I. Málsmeðferð.

Með bréfi, dags. 8. júlí 1999, beindi A, X nr. Leifsgötu 8, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, X nr. 8, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 1. september 1999. Áður hafði verið samþykkt að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 11. október 1999, var lögð fram á fundi nefndarinnar 24. október sl. og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

X nr. 8, skiptist í fjóra eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar á 3. hæð og gagnaðilar íbúðar í kjallara. Ágreiningur er milli aðila um hagnýtingu sameignar.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að gagnaðila sé óheimilt að leggja bifreið fyrir framan útidyr hússins á a.m.k. 3ja metra breiðu svæði frá útidyrum að gangstétt á lóðarmörkum.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að gagnaðilar leggi bifreið fyrir framan útidyr hússins og hindri með því eðlilega aðkoma að því. Forsaga málsins sé sú að fyrir þremur árum hafi ljósastaur verið fjarlægður úr borgarlandi við innganginn og hafi eigendur kjallaraíbúðar í kjölfarið helgað sér svæðið til einkanota. Útilokað sé að komast að húsinu með góðu móti og sé öryggi íbúanna stefnt í hættu þar sem flóttaleið við bruna og aðkoma sjúkrabifreiðar sé ekki tryggð né í samræmi við byggingarreglugerð. Ítrekuð tilmæli um að leggja ekki við innganginn hafi engan árangur borið.

Álitsbeiðandi vísar máli sínu til stuðnings til ýmissa ákvæða laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, auk ákvæða skipulags- og byggingarlaga, byggingarreglugerðar og umferðarlaga.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að fyrri eigendur kjallaraíbúðar hafi lagt bifreið við innganginn, einnig áður en ljósastaurinn hafi verið fjarlægður. Ekki hafi verið gerð eignaskiptayfirlýsing fyrir húsið og sé umrætt svæði í sameign. Aðrir eigendur hafi helgað sér bílastæði hægra megin við innganginn. Mjög þröngt sé í götunni og mikið um bifreiðar og því reyni menn að finna sér stæði þar sem hægt sé. Eins og fram komi á myndum þeim sem álitsbeiðandi hafi lagt fram í málinu leggi aðrir íbúar hússins að X nr. 6 og 10 upp á gangstéttina með sama hætti. Gagnaðilar reyni eftir fremsta megni að leggja bifreið eins langt til hægri við innganginn og mögulegt er og sé aðkoma að húsinu ekki hindruð með neinum hætti. Þá hafi aðrir eigendur hússins ekki gert athugasemdir við þetta.

 

III. Forsendur.

Teikningar af húsi og lóð liggja ekki fyrir nefndinni en hins vegar liggur fyrir afstöðumynd af svæðinu. Af henni og öðrum gögnum málsins má sjá að unnt er að leggja bifreiðum á lóð hússins milli húss og gangstéttar. Ljósmyndir sem liggja fyrir í málinu sýna að bifreiðum er lagt fyrir framan inngang hússins þétt upp að tröppum eins og fram kemur í álitsbeiðni.

Á lóð skal sjá fyrir greiðri aðkomu sjúkrabíla að aðalinngangi og skulu aðkomuleiðir slökkviliðs að húsi, sem ekki þarf björgunarsvæði, vera a.m.k. 3 m breiðar, samkvæmt ákvæðum 63. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Það er skylda eigenda í fjöleignarhúsum að virða rétt og hagsmuni annarra eigenda við hagnýtingu sameignar, sbr. 4. tl. 13. gr., 34. gr. og 35. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Með hliðsjón af þessum ákvæðum er fortakslaust óheimilt að leggja bifreið fyrir framan aðalinngang hússins og getur yfirlýsing meirihluta eigenda þess, dags. 6. júlí sl., þar sem ekki er gerð athugasemd við að gagnaðilar leggi bifreið sinni fyrir framan aðalinngang, engu breytt í því sambandi.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að gagnaðila sé óheimilt að leggja bifreið fyrir framan aðalinngang hússins á a.m.k. 3ja metra breiðu svæði frá útidyrum að gangstétt á lóðarmörkum.

 

 

Reykjavík, 24. október 1999.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum