Hoppa yfir valmynd
7. desember 1999 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/1999

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 56/1999

 

Ákvörðunartaka: Kattahald.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 18. október 1999, beindi A, X nr. 7, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, erindi til nefndarinnar vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 5, hér eftir nefnt gagnaðili.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 27. október 1999. Áður hafði verið samþykkt að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 29. október 1999, var lögð fram á fundi nefndarinnar 17. nóvember sl. og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 5-7, sem byggt var árið 1975. Ágreiningur er um kattahald.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að samþykki allra eigenda þurfi fyrir kattahaldi í húsinu.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að í húsreglum fyrir X nr. 7 sé allt gæludýrahald bannað í húsinu. Kattahald sé einnig bannað í X nr. 5 en þar séu hins vegar kettir. Í ljós hafi komið að samþykki allra eigenda að X nr. 5 liggi ekki fyrir kattahaldi í húsinu og enginn eigandi í X nr. 7 hafi samþykkt kattahald. Álitsbeiðandi bendir á að sameiginlegt þvottahús og gangur sé í húsinu. Álitsbeiðandi sé haldinn kattaofnæmi og vísar í því sambandi til læknisvottorðs, dags. 25. mars 1999.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að einum eiganda að X nr. 5 hafi verið veitt munnlegt leyfi fyrir kattahaldi fyrir gildistöku laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Síðar hafi nýr eigandi flutt í stigaganginn og þar sem köttur hafi verið fyrir hafi hann talið að kattahald væri leyfilegt í húsinu og fengið sér kött. Gagnaðili hafi tilkynnt eigendum kattanna að allir eigendur hússins þurfi að samþykkja kattahald í húsinu.

 

III. Forsendur.

Samkvæmt 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þarf samþykki allra eigenda til ákvörðunar um að halda megi hunda og/eða ketti í húsinu. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými. Óumdeilt er að um sameiginlegt húsrými er að ræða í húsinu X nr. 5-7.

Í málinu liggja fyrir húsreglur fyrir X nr. 7 þar sem fram kemur að gæludýrahald sé með öllu bannað í húsinu. Engar sambærilegar húsreglur gilda fyrir X nr. 5. Í læknisvottorði, dags. 25. mars 1999, kemur fram að álitsbeiðandi sé bæði með slæmt kattaofnæmi og svæsinn asthma. Því sé mjög óæskilegt að hann búi þar sem kettir séu og geti það leitt til lífshættulegs asthmakasts.

Fyrir liggur að íbúa að X nr. 5 var veitt munnlegt leyfi til að halda kött fyrir gildistöku laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Kærunefnd hefur í fyrri álitum bent á að þegar gilt samþykki fyrir dýrahaldi um ótiltekinn tíma hafi verið samþykkt í gildistíð eldri laga um fjölbýlishús þá haldi slíkt samþykki gildi sínu varðandi það dýr þrátt fyrir ákvæði laga nr. 26/1994. Það er hins vegar álit kærunefndar, með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið varðandi ofnæmi álitsbeiðanda og með tilliti til afstöðu hennar, að forsendur séu brostnar fyrir öllu kattahaldi að X nr. 5.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að samþykki allra eigenda að X nr. 5 - 7 þurfi fyrir kattahaldi í húsinu.

 

 

Reykjavík, 7. desember 1999.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum