Hoppa yfir valmynd
27. október 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 38/2000

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

Mál nr. 38/2000

 

Ákvörðunartaka: Lóð.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 4. febrúar 2000, beindu A og B, X nr. 37, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 37-39, hér eftir nefnt gagnaðili. Álit kærunefndar í því máli, nr. 7/2000, er dags. 17. maí 2000. Komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að ákvörðun húsfundar 4. ágúst 1999 hafi verið ólögmæt og því bæri að fjarlægja mannvirki þau sem sett voru á þak bílageymslunnar.

Með bréfi, dags. 17. júlí 2000, fór C f.h. hönd húsfélagsins að X nr. 37-39, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, þess á leit við nefndina að mál nr. 7/2000 yrði endurupptekið.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 27. september 2000. Á fundinum var samþykkt að fara á vettvang og kanna aðstæður. Í kjölfarið samþykkti nefndin að taka málið fyrir að nýju og var A og B, X nr. 37, hér eftir nefnd gagnaðilar, gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Greinargerð gagnaðila, dags. 18. október 2000, var lögð fram á fundi nefndarinnar 26. október 2000 og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi bendir á að í forsendum kærunefndar í máli nr. 7/2000 segi orðrétt: "Að mati kærunefndar verður að telja að framkvæmd sem þessi sé almennt háð samþykki 2/3 hluta eigenda, sbr. 2. mgr. 30. gr., sbr. 3. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994. Hins vegar er til þess að líta að framkvæmdin veldur álitsbeiðanda sérstökum óþægindum vegna þess að umræddur leikvöllur er fyrir framan íbúðarglugga hans sem ekki var gert ráð fyrir á teikningum. Að mati kærunefndar felur slík staðsetning í sér verulega og íþyngjandi röskun á hagnýtingu séreignar álitsbeiðenda. Kærunefnd telur því að samþykki allra þurfi fyrir henni, sbr. 31. gr., sbr. 7. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994, sbr. grunnrök 1. mgr. 27. gr. sem með breyttu breytanda nær yfir tilvik þetta."

Álitsbeiðandi telur að misskilnings gæti um staðsetningu íbúðarinnar. Því til stuðnings vísar hann til ljósmynda sem hann lagði fram með endurupptökubeiðninni. Íbúðin sé einni hæð ofar og til hliðar við umrætt svæði og snúi aðeins einn af gluggum hennar þangað. Umrætt svæði teljist varla leikvöllur. Um sé að ræða einn sandkassa og hellulögn í kringum hann.

Af hálfu gagnaðila er endurupptökubeiðninni mótmælt harðlega og vísað á bug að forsendur nefndarinnar hafi verið rangar og byggðar á misskilningi. Umdeildur sandkassi sé 8 m² og staðsettur á 39 m² bílskúrsþaki. Þar undir sé bílskúr gagnaðila sem þeir geta ekki nýtt vegna grjótkasts og sandausturs af þakinu. Þakið sé lítið og bjóði ekki upp á leiksvæði enda hafi ekkert leiksvæði verið samþykkt á lóðinni. Gagnaðilar hafi fest kaup á íbúðinni með tilliti til skipulags og legu. Úr báðum eldhúsgluggum, austurglugga í stofu og svölum sé útsýni út á umrædd svæði. Íbúðina hefðui þeir ekki keypt ef það hefði legið fyrir að þarna yrði leiksvæði og sandkassi.

 

III. Forsendur

Kærunefnd hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Um almennar forsendur vísast til álitsgerðar í málinu nr. 7/2000 milli sömu aðila.

Við skoðun kærunefndar kom í ljós að umræddur sandkassi og staðsetning hans var minna vandamál fyrir gagnaðila og umfang framkvæmdanna minna en fram hafði komið áður hjá þeim og ljósmyndir gáfu til kynna. Til þess ber að líta að frágangur ofan á bílageymslunni er með þeim hætti að þar er gert ráð fyrir umferð íbúðareigenda. Er því ekki fallist á að framkvæmdin og staðsetning sandkassans feli í sér verulega og íþyngjandi röskun á hagnýtingu séreignar gagnaðila.

Að mati kærunefndar þarf framkvæmdin samþykki 2/3 hluta eigenda, sbr. 2. mgr. 30. gr., sbr. 3. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994. Þar sem ekki verður annað ráðið en að löglega hafi verið staðið að boðun og ákvörðunartöku á umræddum húsfundi um byggingu sandkassa á þaki bílageymslu hússins telst hún lögmæt.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að ákvörðun húsfundar 4. ágúst 1999 um byggingu sandkassa á þaki bílageymslu hússins hafi verið lögmæt.

 

 

Reykjavík, 27. október 2000.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum