Hoppa yfir valmynd
21. desember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2009

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

    

í málinu nr. 23/2009

 

Kostnaðarhlutdeild: Meindýraeyðir.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 5. júní 2009, mótt. 16. júlí 2009, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, f.h. B og C, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 50, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var lagt fyrir nefndina; umboð til handa álitsbeiðanda, dags. 10. september 2009, ódagsett greinargerð gagnaðila, mótt. 28. september 2009, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 6. október 2009, og ódagsettar athugasemdir gagnaðila, mótt. 12. október 2009. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar mánudaginn 21. desember 2009.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 50. Álitsbeiðandi sem er dóttir eigenda umræddrar íbúðar bjó þá þar. Ágreiningur er um kostnað vegna meindýraeyðis.

 

Kærunefnd telur að kröfur álitsbeiðanda séu:

Að gagnaðila beri að greiða reikning vegna meindýraeyðis.

 

Í álitsbeiðni er greint frá því að kakkalakkar hafi verið í fjöleignarhúsinu X nr. 50 og búið sé að fá meindýraeyði til að eitra tvisvar í öllum íbúðum og þrisvar í sumum öðrum en án árangurs.

Álitsbeiðandi hafi flutt út 28. febrúar en hafi ekki viljað flytja kakkalakkana með. Álitsbeiðandi hafi því látið formann húsfélagsins vita með fyrirvara að kakkalakkarnir væru komnir aftur og það þyrfti að eitra fyrir 28. febrúar svo álitsbeiðandi myndi ekki flytja þá með sér. Ekki hafi það verið gert fyrir tilsettan tíma og því hafi það verið neyðarúrræði hjá álitsbeiðanda að hringja sjálfur í meindýraeyði. Formaðurinn hafi sagt að álitsbeiðandi hefði ekki átt rétt á að hringja sjálfur því annar hafi verið pantaður. Sá hafi reyndar ekki komið áður en álitsbeiðandi flutti. Því hafi formaðurinn neitað að greiða reikning viðkomandi meindýraeyðis.

Álitsbeiðandi krefst þess að gagnaðili greiði umræddan reikning enda hafi þetta tilheyrt gagnaðila og vegna vanrækslu hans hafi því ekki verið sinnt. Í fyrri skiptin sem eitrað hafi verið hafi það hvorki verið vel gert né samþykkt á húsfundi að fá þann tiltekna meindýraeyði. Sá meindýraeyðir sem álitsbeiðandi pantaði hafi sagt að ekki hefði verið borað í sökkla undir innréttingar og engar gildrur verið settar í sameign til að veiða kakkalakka á flótta undan eitrinu, enda hafi þeir ekki verið í íbúð álitsbeiðanda fyrr en eftir tvær fyrstu eitranirnar. Meindýraeyðirinn sem álitsbeiðandi pantaði hafi hringt og sagt að þar sem gagnaðili neiti að greiða yrði álitsbeiðandi að borga reikninginn sem álitsbeiðandi gerði. Þá hafi hann sagt að haldinn hefði verið húsfundur um efnið, sem hvorki álitbeiðandi né eigendur hafi verið boðaðir til.

Þá hafi álitsbeiðandi engin gögn sem styðji mál sitt, hvorki fundargerðir né annað.

 

Í greinargerð gagnaðila er bent á að á síðasta aðalfund hafi eigendur íbúðarinnar verið boðaðir en hvorki getað mætt né sent neinn fyrir sig. Á sínum tíma þegar í ljós kom að kakkalakkar væru í stigahúsinu hafi samstundis verið leitað eftir tilboðum um eitrun sem og að loftræsisstokkarnir yrðu þrifnir. Gengið hafi verið á allar íbúðir og haft samband við eigendur um að stjórnin fengi tiltekna aðila til að annast verkið. Það hafi því ekki verið haldinn fundur um efnið sem álitsbeiðandi eigi að vita.

Þá hafi maki álitsbeiðanda tilkynnt hinn 25. febrúar að þau væru að flytja úr íbúðinni og jafnframt að þau hefðu séð tvo kakkalakka þar inni. Á þessum tíma hafi eitrunin enn verið í gangi. Svona verk taki tíma, en rétt hafi verið af hálfu álitsbeiðanda að fyrir eitrunina hafi engir kakkalakkar verið í íbúðinni. Kveðst formaðurinn sagst mundu hafa samband við meindýraeyðinn sem hann og gerði. Maki álitsbeiðanda hafi þá sagst ætla að koma með lykil til formanns um helgina svo meindýraeyðirinn kæmist inn í íbúðina.

Tveimur dögum síðar hafi annar maður komið að máli við formanninn og sagðist sá hafa verið að eitra í umræddri íbúð, en hann hafi vantað kennitölu til að geta sent reikning. Formaðurinn mótmælti því þar sem gagnaðili hefði ekki pantað hann heldur tilteknir íbúar í húsinu, en þeim bæri að greiða reikninginn. Sama dag hafi formaðurinn útskýrt þetta fyrir álitsbeiðanda.

Gagnaðili telur að hver eigandi fyrir sig greiði fyrir meindýraeyði þar sem kakkalakkarnir séu ekki í sameign. Það sem fram fari inni í hverri íbúð fyrir sig eigi að vera á kostnað þess sem þar býr. En samt sem áður hafi það verið sameiginleg ákvörðun að haga þessu svona, þ.e. að fá einn aðila til að gera þetta fyrir nokkrar íbúðir.

Þá séu kakkalakkarnir ekki aðeins á ábyrgð meindýraeyðis heldur einnig íbúa. Standi fólk sig hvorki varðandi þrif né reyni að koma í veg fyrir að kakkalakkarnir komist í vatn þá taki eitrunin lengri tíma.

Gagnaðili mótmælir því að haldinn hafi verið fundur um þetta mál. Þetta hafi verið rætt á aðalfundi húsfélagsins sem eigandinn hafi verið boðaður á en ekki séð sér fært að sækja.

 

Í athugasemdum álitsbeiðanda bendir hann á hvað varði lykilinn þá hafi maki sinn ætlað að láta formanninn fá lykil að íbúðinni ef þyrfti að eitra eftir að þau flyttu út. Fyrri athugasemdir og kröfur eru jafnframt ítrekaðar.

 

Í athugasemdum gagnaðila eru ítrekuð fyrri sjónarmið sem ekki þykir ástæða til að rekja frekar hér.

 

III. Forsendur

Eins og fram kemur ákvað stjórn húsfélagsins að láta eitra fyrir kakkalökkum í stigahúsi eignarinnar. Hafi verið leitað tilboða í verkið svo og að þrífa loftræsisstokka. Haft hafi verið samband við alla íbúa hússins og þeir látnir vita um fyrirhugaðar aðgerðir.

Álitsbeiðandi ákvað hins vegar áður en til þess kom og með stuttum fyrirvara að fá meindýraeyði til að eitra í íbúð sinni þar sem hún var að flytja úr íbúðinni.

Það er mat kærunefndar að gegn mótmælum gagnaðila sé honum óskylt að greiða reikning fyrir vinnu meindýraeyðis, enda hefur ekki verið sýnt fram á að skilyrði 37. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, hafi verið fyrir hendi.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila sé óskylt að greiða viðkomandi reikning vegna meindýraeyðis.

 

Reykjavík, 21. desember 2009

 

Valtýr Sigurðsson

Karl Axelsson

Pálmi R. Pálmason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum