Hoppa yfir valmynd
19. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2009

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

    

í málinu nr. 31/2009

 

Húsfélag: Bókhald, fundargerðabók.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 7. september 2009, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við stjórn húsfélagsins X nr. 14, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 23. september 2009, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 27. september 2009, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar mánudaginn 19. október 2009.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða húsfélagsdeildina X nr. 14, alls 21 eignarhluta. Ágreiningur er um bókhald og fundargerðabók húsfélagsdeildarinnar.

 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að fá að sjá bókhald húsfélagsdeildarinnar, í viðurvist stjórnarmanns.
  2. Að fá að sjá fundargerðabók húsfélagsdeildarinnar.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að með vísan til 69. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, hafi álitsbeiðandi margsinnis farið þess á leit við gagnaðila að fá að líta á bókhald húsfélagsins fyrir yfirstandandi ár svo og að fá að fletta fundargerðabók húsfélagsins. Gagnaðili hafi hins vegar hunsað þessar beiðnir álitsbeiðanda um að veita upplýsingarnar og sinni þar með ekki lögbundinni upplýsingaskyldu sinni.

Þá sé álitsbeiðanda eðli málsins samkvæmt ókunnugt um hvort beiðnir sínar hafi hlotið afgreiðslu gagnaðila þar sem honum sé meinað að sjá fundargerðabókina.

 

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að bókhald húsfélagsdeildarinnar sé gert upp einu sinni á ári, þ.e. eftir áramót, og þá af endurskoðanda húsfélagsdeildarinnar sem geri ársskýrslu sem lögð sé fram til samþykktar á aðalfundi og sé þar með sýnilegt öllum íbúum og félögum í húsfélaginu.

Bendir gagnaðili á að í bréfi til gagnaðila, dags. 5. júní 2009, hafi álitsbeiðandi farið fram á að fá ljósrit af fundargerðum aðalfundar sem og framhaldsfundar, afritum af rekstraryfirliti maímánaðar og yfirlit af öllum greiðslum sem greiddar hafi verið frá 1. maí 2009 til 5. júní. Í svari til álitsbeiðanda, dags. 11. júní 2009, hafi álitsbeiðanda verið boðið að fá fundargerðir sendar á netfang. Því hafi verið hafnað með bréfi álitsbeiðanda, dags. 12. júní 2009. Í sama bréfi gagnaðila, dags. 11. júní 2009, hafi álitsbeiðanda verið boðið að sjá reikninga húsfélagsins að viðstöddum stjórnarmanni.

Þá bendir gagnaðili á að fundargerðabók hafi verið í vörslu álitsbeiðanda til 12. maí 2009. Eftir það hafi ekki verið færðar þar til bókar aðrar fundargerðir en fundargerðir aðalfundar sem haldinn var 28. apríl 2009 og framhaldsfundar hans þann 6. maí 2009. Álitsbeiðanda hafi borist þær fundargerðir og jafnframt þakkað fyrir þær, sbr. bréf dagsett 31. ágúst 2009.

Greinir gagnaðili frá því að 13. maí 2009 hafi verið haldinn stjórnarfundur þar sem stjórn skipti með sér störfum og önnur mál rædd. Samþykkt hafi verið að fundargerð yrði borin upp til samþykktar á næsta stjórnarfundi. Talið sé rétt að aðrir stjórnarmenn samþykki fundargerð áður en hún komi fyrir augu álitsbeiðanda.

Einnig greinir gagnaðili frá því að 21. júní 2009 hafi formaður húsfélagsdeildarinnar átt samtal við álitsbeiðanda og skýrt málavexti, þ.e. að vegna utanlandsferða og sumarfría stjórnarmanna yrðu ekki stjórnarfundir fyrr en með haustinu og erfitt að finna tíma fyrir reikninga þar sem gjaldkeri væri utanbæjar. Álitsbeiðandi hafi sýnt því skilning en síðan hafið að senda ítrekunarbréf á gjaldkera þremur dögum síðar. Einnig hafi komið fram í þessu samtali að þeir tveir reikningar sem álitsbeiðandi hafi ekki greitt meðan hann sinnti gjaldkerastörfum væru komnir í skil.

Telur gagnaðili ljóst að reynt hafi verið að hálfu stjórnar að koma til móts við kröfur álitsbeiðanda að fyrra bragði.

 

Í athugasemdum álitsbeiðanda mótmælir hann því sem fram kemur í greinargerð gagnaðila.

Bendir álitsbeiðandi á að í því símtali sem fjallað er um í greinargerð sé rétt að formaður hafi hringt í sig til að tilkynna að hann væri að fara í frí en hafi sagt að álitsbeiðandi yrði því að semja við gjaldkera. Vissulega hafi álitsbeiðandi haft skilning á því að formaður færi í frí en annað í frásögn af símtalinu sé rangt. Álitsbeiðandi hafi bent formanni á að beiðni sín um upplýsingar væri ekkert samningsatriði, það væri lögbundin skylda stjórnar að veita upplýsingar. Formaður hafi aldrei getið þess við álitsbeiðanda að gjaldkeri væri utanbæjar eða að bíða þyrfti hausts, enda hafi þetta verið stutt símtal, og beindi álitsbeiðandi því skriflegri beiðni um upplýsingar í framhaldinu til gjaldkera. Álitsbeiðandi telur að gjaldkeri geti ekki sagt rétt frá símtali sem hann átti ekki aðild að. Auk þess hafi gjaldkeri verið utanbæjar samkvæmt greinargerðinni, en ekki staddur hjá formanni þegar símtalið hafi átt sér stað. Símtalið hafi farið fram í júní og nú sé komið fram í lok september, enn hafi álitsbeiðandi hvorki séð tangur né tetur af þeim upplýsingum sem óskað hafi verið eftir.

Rétt sé að álitsbeiðanda hafi verið boðið að sjá reikningana að viðstöddum stjórnarmanni en þegar álitsbeiðandi hafi sent fyrirspurn um hvar og hvenær hafi bréf hans verið hunsuð. Enn hafi álitsbeiðandi ekki fengið nein viðbrögð við spurningum sínum um hvar og hvenær sú skoðun geti farið fram.

Greinir álitsbeiðandi frá því að framangreint bréf, ásamt stuttu fyrrgreindu símtali við formann, séu einu viðbrögðin sem hann hafi fengið við beiðninni. Það bréf sem dagsett sé 11. júní 2009 hafi aldrei borist álitsbeiðanda, en hins vegar hafi álitsbeiðandi fengið samhljóða bréf, dags. 12. júní 2009.

Eftir standi að álitsbeiðandi hafi nú hvorki fengið að sjá fundargerðabók húsfélagsins né skoða bókhald/reikninga þess og vísar aftur til 69. gr. laga um fjöleignarhús.

 

III. Forsendur

Í 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að stjórn og framkvæmdastjóra sé skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varða málefni húsfélagsins, rekstur þess, sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu. Skulu eigendur hafa rétt til að skoða bækur félagsins, reikninga og fylgiskjöl með hæfilegum fyrirvara en þó jafnan að viðstöddum stjórnarmanni.

Aðila máls greinir á um hvort álitsbeiðandi hafi verið upplýstur um bókhald húsfélagsins. Að mati kærunefndar er gagnaðila, samkvæmt fyrrnefndu ákvæði, skylt að veita álitsbeiðanda aðgang að þeim bókhaldsgögnum sem hann hefur óskað eftir, með hæfilegum fyrirvara og að viðstöddum stjórnarmanni.

Samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga um fjöleignarhús er á ábyrgð fundarstjóra að rita í sérstaka fundargerðabók meginatriði allra mála sem tekin eru fyrir á húsfundi og allar þær ákvarðanir sem teknar eru svo og hvernig atkvæði hafa fallið ef því er að skipta. Samkvæmt 4. mgr. 64. gr. sömu laga skulu fundargerðir jafnan vera aðgengilegar félagsmönnum sem eiga rétt á að fá staðfest endurrit eða ljósrit af þeim.

Í málinu krefst álitsbeiðandi meðal annars þess að fá að sjá fundargerðabók húsfélagsins. Samkvæmt bréfi álitsbeiðanda sem liggur fyrir í málinu, dags. 31. ágúst 2009, hefur álitsbeiðandi þegar fengið afrit af fundargerðum. Í ljósi framangreinds er þessum kröfulið vísað frá.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi eigi að fá að skoða bókhald húsfélagsdeildarinnar, í viðurvist stjórnarmanns.

 

Reykjavík, 19. október 2009

 

Valtýr Sigurðsson

Karl Axelsson

Pálmi R. Pálmason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum