Hoppa yfir valmynd
2. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 21/2008

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

  

í málinu nr. 21/2008

 

Kostnaðarhlutdeild: Grindverk.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 17. apríl 2008, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 28. apríl 2008, athugasemdir álitsbeiðanda, ódags. en mótt. 30. apríl 2008, og athugasemdir gagnaðila, dags. 3. og 4. maí 2008, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar mánudaginn 2. júní 2008.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða raðhúsið X nr. 1a–1c sem er í eigu Búseta. Ágreiningur er um kostnaðarskiptingu á grindverki.

 

Kærunefnd telur að krafa álitsbeiðanda sé:

Að gagnaðila beri að greiða mestan hluta þess kostnaðar sem verður við uppsetningu grindverks endaíbúðarinnar.

 

Í álitsbeiðni kemur meðal annars fram að í X nr. 1a–c hafi tvær fjölskyldur búið þar frá upphafi, en gagnaðili hafi flutt þangað um tveimur árum síðar. Haldnir séu fundir einu sinni á ári og þá sé helst fjallað um blett sem sé sameiginlegur með öðrum húsum í nágrenninu.

Kemur fram í álitsbeiðni að sérgarðar séu við hvert hús, afgirtir með runnum sem hafi verið settir niður í upphafi. Þá hafi hver aðili um sig séð um þann kostnað og hver aðili fyrir sig hafið séð um sinn garð öll þessi ár og ekki hafi verið haft neitt samráð um hvernig fólk hafi útbúið garða sína. Ekki sé neinn samgangur milli garða eða um nein sameiginleg afnot að ræða. Endaíbúðir hafi þrisvar sinnum stærri garða en miðíbúðirnar eins og sú sem álitsbeiðandi býr í. Aldrei hafi verið neitt ósamkomulag með þetta fyrirkomulag og hingað til allir verið sáttir. Gagnaðili hafi farið fram á það síðasta sumar að íbúar myndu girða garðana, en álitsbeiðandi hafi verið því mótfallinn. Gagnaðili hafi sótt málið fast og að lokum hafi álitsbeiðandi samþykkt að girða, en þá hafi allir þrír íbúar verið orðnir sammála um það að girða. Gagnaðili hafi þá farið fram á að kostnaður vegna grindverksins yrði greiddur sameiginlega, þ.e. kostnaði skipt jafnt, þar sem þetta kostaði gagnaðila svo miklu meira, að það gæti ekki verið sanngjarnt. Gagnaðila hafi verið bent á að hann hefði einnig mun stærri garð til eigin nota með tilheyrandi möguleikum. Einnig hafi gagnaðila verið bent á að ekki væri hægt að segja að þetta væri sameiginlegt þar sem aðrir íbúar hefðu ekki nein afnot af garðinum.

Álitsbeiðandi óskar eftir áliti nefndarinnar á því hvernig beri að skipta kostnaði á grindverki ef af uppsetningu verði. Að lokum kemur fram í álitsbeiðni að ekki sé til fundargerð um þetta mál enda einungis verið fjallað um þetta óformlega. Ekki sé hægt að halda fund strax þar sem íbúi 1a dvelji erlendis í sumar.

 

Í greinargerð gagnaðila kemur meðal annars fram að hann undrist erindi álitsbeiðanda. Bendir gagnaðili á að íbúar eigi varla í þessum íbúðum heldur Búseti, fyrir utan rúma eina milljón króna sem íbúar hafi greitt til að fá leigðar þarna íbúðir.

Mótmælir gagnaðili því að haldinn sé fundur einu sinni á ári því enginn fundur hafi verið haldinn í að minnsta kosti fjögur ár, eða síðan nýtt húsfélag hafi verið stofnað og samstarfi við hitt Búsetahúsið á móti hafi verið slitið. Garður gagnaðila sé örmjór og liggi að umferðargötu án þess að gangstétt sé á milli. Bílar hafi runnið inn í garðinn oftar en einu sinni í hálku og brotið tré, þess vegna hafi gagnaðili misst áhugann á að girða því það myndi kosta endalaust viðhald á girðingunni. Mikill halli sé á X í áttina að horni garðsins hjá gagnaðila.

Að lokum tekur gagnaðili fram að honum beri engin skylda til að borga krónu í girðingu þar sem Búseti eigi húsin.

 

III. Forsendur

Ágreiningslaust er í málinu að aðilar eru ekki þinglýstir eigendur að íbúðum í húsinu að X nr. 1a–1c heldur eru þær í eigu eins aðila, þ.e. Búseta, sem á og rekur eignina í samræmi við samþykktir Búseta hsf.

Í 1. mgr. 1. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, þar sem fjallað er um gildissvið laganna segir að fjöleignarhús teljist í lögum þessum hvert það hús sem skiptist í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem bæði getur verið allra og sumra. Samkvæmt efni sínu taka lögin eingöngu til húsa sem lúta hefðbundnum eignarráðum tveggja eða fleiri eigenda og á sú skýring sér jafnframt stoð í lögskýringagögnum. Þá er kveðið á um í 80. gr. laganna að valdsvið kærunefndar fjöleignarhúsamála sé bundið við að leysa úr ágreiningi eigenda fjöleignarhúsa um réttindi sín og skyldur samkvæmt þeim lögum.

Þar sem ágreiningsefni aðila málsins fellur utan gildissviðs fjöleignarhúsalaga samkvæmt framansögðu er málinu vísað frá nefndinni.

 

IV. Niðurstaða

Máli þessu er vísað frá kærunefnd fjöleignarhúsamála.

 

Reykjavík, 2. júní 2008

 

Valtýr Sigurðsson

Karl Axelsson

Pálmi R. Pálmason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum