Hoppa yfir valmynd
23. desember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2005

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

í málinu nr. 35/2005

 

Skylda hússtjórnar. Viðhald sameignar. Ákvörðunartaka. Lögmæti húsfunda og fundargerða.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 5. júlí 2002, mótteknu 13. júlí 2005, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við, húsfélagið X, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga, nr. 26/1994, um fjöleignarhús.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 2. ágúst 2005, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 15. ágúst 2005, athugasemdir gagnaðila, dags. 23. ágúst 2005 og 2. september 2005 og frekari athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 14. september 2005, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 23. desember 2005.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X, alls níu eignarhlutar og er álitsbeiðandi eigandi eins þeirra. Ágreiningur er um varðveislu, viðhald, endurbætur og rekstur sameignar. Einnig er deilt um skiptingu kostnaðar í sameign, ákvarðanatöku í húsinu, aðgang að gögnum húsfélagsins, framkvæmd húsfunda og loks kostnað álitsbeiðanda vegna nauðsynlegra lögfræðilegra ráðlegginga og aðstoðar.

 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

I. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri skylda til að grípa til aðgerða í brunamálum X í samræmi við kröfur opinberra aðila, en álitsbeiðanda sé að öðrum kosti heimilt, að grípa til úrræða 38. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994.

II. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að sjá til þess að loftnetsbúnaður fyrir sjónvarp sé til staðar og í lagi fyrir alla húseigendur en álitsbeiðanda sé annars heimilt að grípa til viðgerða á kostnað húsfélagsins, sbr. 38. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994.

III. Að viðurkennt verði að útlagður kostnaður álitsbeiðanda vegna skoðunar á loftneti beri að greiðast af gagnaðila.

IV. Að viðurkennt verði að álitsbeiðenda sé óskylt að taka afstöðu til óska eigenda atvinnuhúsnæðis á jarðhæð um að breyta því íbúðarhúsnæði fyrr en fyrir liggja teikningar af breytingum og frekari upplýsingar um hvað breytingarnar á ytra byrði hússins kunna að hafa í för með sér.

V. Að gagnaðila sé skylt að veita álitsbeiðanda aðgang að bókhaldi húsfélagsins og reikningum.

VI. Að gagnaðila beri að rita fundargerðir á húsfundum sem séu lesnar upp í lok funda.

VII. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að taka þátt í kostnaði álitsbeiðanda vegna nauðsynlegra lögfræðilegra ráðlegginga og aðstoðar.

 

I.

Í álitsbeiðni kemur fram að með bréfi Slökkviliðs Y til gagnaðila hafi verið farið fram á að gagnaðili tæki brunavarnir hússins til gagngerrar endurskoðunar og lagfæringa. Hins vegar hafi álitsbeiðandi ekki afrit af bréfinu en hafi ítrekað óskað eftir að sér verði það afhent. Það hafi enn ekki verið gert og skorar álitsbeiðandi á gagnaðila að leggja umrætt bréf fram í máli þessu. Gagnaðili hafi ekkert aðhafst varðandi brunavarnir í húsinu, beri við fjárskorti og að ekki hafi fengist samþykki einfalds meirihluta fyrir úrbótunum. Telur álitsbeiðandi að um sé að ræða bráðnauðsynlegar aðgerðir sem þoli ekki bið og séu á ábyrgð gagnaðila.

Álitsbeiðandi bendir á að samkvæmt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994 beri húsfélögum og eigendum fjöleignarhúsa að sjá til þess að ástand húss sé viðunandi og í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru af hálfu opinberra aðila. Að mati álitsbeiðanda er laklegt ástand brunavarna alvarlegt mál og skapi hættu fyrir íbúa viðkomandi húss.

Loks bendir álitsbeiðandi á að enn hafi gagnaðili ekki gripið til neinna aðgerða til að verða við kröfum brunamálayfirvalda. Telur álitsbeiðandi þess vegna nauðsynlegt að fá viðurkennt af hálfu nefndarinnar að gagnaðila beri skylda til þess að grípa til umbeðinna úrbóta.

Í athugasemdum gagnaðila kemur fram að aðili sá sem álitsbeiðandi beindi kröfum sínum upphaflega að hafi selt eignarhluta sinn í umræddu húsi og látið af störfum sem formaður umrædds húsfélags. Kaupandi hafi fengið eignina afhenta 19. ágúst s.l. og sama dag hafi kaupandi og seljandi undirritað yfirlýsingu þar sem kaupandi hafi m.a. tekið að sér að boða til húsfundar auk þess sem honum var gerð grein fyrir stöðu mála varðandi málefni húsfélagsins. Gagnaðili vísar til afrits af fundargerð húsfélagsins, dags. 31. ágúst s.l., þar sem ákveðið var að bregðast við ábendingum forvarnardeildar Slökkviliðs Y. Samkvæmt umræddri fundargerð var ákveðið að setja upp reykskynjarakerfi og formanni var falið að fá tilboð í verkið og jafnframt var ákveðið að setja slökkvitæki á hvern stigapall. Að öðru leyti tekur gagnaðili ekki afstöðu til krafna álitsbeiðanda í athugasemdum sínum.

Í frekari athugasemdum sínum telur álitsbeiðandi ástæðu til að ætla að ákvæðum og samþykktum fundarins verði ekki fylgt eftir enda hafa þau mál sem lögð voru fyrir kærunefndina ítrekað verið rædd á fundum og óskað úrbótum. Hafa engin viðbrögð verið sýnd og í ljósi þess telur álitsbeiðandi nauðsynlegt, þrátt fyrir samþykkt framangreinds húsfundar, að skorið verði úr þeim álitaefnum sem óskað er eftir í álitsbeiðni.

Álitsbeiðandi telur algjörlega óviðunandi að hún sé þvinguð til að hlíta aðgerðarleysi gagnaðila í brunamálum og búa í húsinu í því ástandi sem það er. Því verði henni heimilað að undangengnu mati á nauðsyn, umfangi og kostnaði við endurbæturnar, allt í samræmi við 38. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, að láta framkvæma úrbætur á brunakerfi hússins í samræmi við opinberar kröfur sem gerðar hafa verið.

    

II.

Í álitsbeiðni kemur fram að sjónvarpsmál í húsinu séu í miklum ólestri og hafi álitsbeiðandi ekki séð sjónvarp í nokkra mánuði sökum þess. Álitsbeiðandi hafi skorað á gagnaðila að grípa til aðgerða enda sé þetta mál sameignarinnar. Gagnaðili hafi hins vegar talið að vandamálið mætti rekja til séreignar álitsbeiðanda. Á húsfundi þann 20. apríl s.l. lýsti álitsbeiðandi vilja til að láta gera við það loftnet sem fyrir er en ekki náðist samþykki einfalds meirihluta fyrir því. Þar sem gagnaðili telji sig ekki skylt að viðhalda loftneti hússins og grípi ekki til nauðsynlegra aðgerða þá er álitsbeiðandi knúinn að leita álits kærunefndar á skyldu gagnaðila þar að lútandi skv. lögum.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að á framgreindum húsfundi, þann 31. ágúst s.l., hafið verið tekið til umræðu málefni varðandi loftnet hússins. Fram hafi komið að sjónvarp væri óskýrt í einstökum íbúðum, en umfangs vandans var ekki að fullu ljóst. Ákveðið hefði verið að setja upp blað í stigagangi hússins þar sem öllum íbúum var ætlað að merkja við ástand mála í íbúðum sínum. Í framhaldi af því yrði ákveðið hver yrðu næstu skref varðandi loftnetið, s.s. hvort afla eigi tilboða í að skipta um það eða grípa til annarra lausna.

Álitsbeiðandi telur algjörlega óviðunnandi að hún þurfi að búa við aðgerðarleysi gagnaðila í þessu máli. Álitsbeiðanda sé því heimilt að uppfylltum skilyrðum 38. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 að láta framkvæma úrbætur á sameiginlegu loftneti hússins grípi gagnaðili ekki til nauðsynlegra aðgerða.

 

III.

Í álitsbeiðni kemur fram að þar sem gagnaðili hafi ekki viljað hefjast handa við viðgerðir á loftneti hússins hafi álitsbeiðandi fengið fagmann frá Ö til að skoða og meta hvort loftnetskerfi íbúðar álitsbeiðanda væri bilað en svo reyndist ekki vera. Niðurstaða þessa sé því sú að loftnet hússins sé líklega í ólagi. Telur álitsbeiðandi að kostnaður vegna þessarar skoðunar sem er 10.950 krónur sé sameiginlegur kostnaður.

Gagnaðili hefur ekki gert sérstakar athugasemdir varðandi þennan kröfulið.

 

IV.

Í álitsbeiðni kemur fram að eigandi atvinnuhúsnæðis á jarðhæð hafi óskað eftir samþykki sameigenda fyrir breytingu á húsnæðinu í íbúðarhúsnæði. Hafi engar teikningar eða uppdrættir verið lagðir fram um í hverju breytingarnar felast og hefur álitsbeiðandi hafnað því að taka afstöðu til krafna viðkomandi eiganda fyrr en frekari gögn og upplýsingar liggja fyrir um breytingarnar.

Telur álitsbeiðandi ljóst að hugsanlega kunni umræddar breytingar að hafa í för með sér breytingar á ytra byrði hússins sem koma öllum eigendum við og því telur álitsbeiðandi mjög varhugavert að samþykkja breytingarnar án þess að frekari upplýsinga um í hverju þær felast liggi fyrir.

Gagnaðili hefur ekki gert sérstakar athugasemdir varðandi þennan kröfulið.

 

V.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi ítrekað farið fram á að henni verði veittur aðgangur að reikningum vegna orkukostnaðar í sameign og reiknings vegna kaupa á útidyrahurð fyrir húsið. Þrátt fyrir það hefur hún ekki fengið afrit af umbeðnum reikningum né fengið aðgang að bókhaldi félagsins. Telur álitsbeiðandi nauðsynlegt að viðurkenndur verði réttur hennar til aðgangs að umræddum bókhaldsgögnum húsfélagsins.

Gagnaðili hefur ekki gert sérstakar athugasemdir varðandi þennan kröfulið.

 

VI.

Álitsbeiðandi telur að fundarhöld í húsfélaginu séu ekki í samræmi við kröfur fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 og hefur mótmælt fundartímum, fundarboðum, fundarstöðum og ýmsu öðru tengt fundunum. Hafi álitsbeiðandi m.a. gert athugasemdir við það að fundargerðir hafi ekki verið ritaðar á fundum eins og lög gera ráð fyrir heldur hafi fyrirsvarsmaður gagnaðila annað hvort komið með fundargerðir fyrirframritaðar á fundi eða þá að fundargerðir hafi verið ritaðar eftir á, af fyrirsvarsmanni eða fulltrúa hennar, án þess að fundarmenn hafi fengið að gera athugasemdir.

Álitsbeiðandi bendir á að í fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994 komi skýrt fram hvernig beri að ganga frá fundargerðum húsfélaga og krefst álitsbeiðandi þess að viðurkennt verði að gagnaðila beri að fara eftir þeim ákvæðum, sbr. 1.-3. mgr. 64. gr. laganna. Loks bendir álitsbeiðandi á að hún hafi óskað eftir því að leitað yrði til húsfundaþjónustu til að koma fundum húsfélagsins á réttan kjöl en því hafi verið hafnað af hálfu fyrirsvarsmanns gagnaðila.

Gagnaðili hefur ekki gert sérstakar athugasemdir varðandi þennan kröfulið.

 

VII.

Í álitsbeiðni kemur fram að starfsemi gagnaðila sé mjög ógagnsæ og óljós. Fundir hafi ekki verið boðaðir með lögmætum hætti né hafi verið ritaðar fundargerðir eins og lög áskilja. Fyrirsvarsmaður gagnaðila hafi í flestum tilvikum tekið ákvarðanir fyrir hönd gagnaðila og því sé ákvarðanataka ekki í samræmi við fjöleignarhúsalög nr. 26/1994. Telur álitsbeiðandi að þar sem hún sé ólöglærð þá hafi hún verið knúin til þess að leita ráðlegginga og aðstoðar hjá Húseigendafélaginu til að gæta hagsmuna sinna gagnvart gagnaðila. Kostnaður við þá aðstoð hafi numið samtals 30.175 krónum frá áramótum. Telur álitsbeiðandi óviðunandi að gagnaðili komist upp með að fylgja hvergi lögum og reglum sem um hann gilda og að íbúar þurfi að sitja sjálfir vegna þess uppi með kostnað við að leita réttar síns.

Gagnaðili hefur ekki gert sérstakar athugasemdir varðandi þennan kröfulið.

 

III. Forsendur

I.

Gagnaðilar sendu kærunefnd fundargerð húsfundar frá 31. ágúst sl. Að öðru leyti hafa þeir ekki tekið afstöðu til krafna álitsbeiðanda né komið á framfæri sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, þrátt fyrir að þeim hafi verið gefinn kostur á því. Er því í úrlausn málsins alfarið stuðst við sjónarmið álitsbeiðanda eftir því sem þau fá stuðning í gögnum málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. fjöleignahúsalaga nr. 26/1994 er hlutverk og tilgangur húsfélaga aðallega að sjá um varðveislu, viðhald, endurbætur og rekstur sameignarinnar, svo hún fái sem best þjónað sameiginlegum þörfum eigenda og stuðla að og framfylgja því sem samþykktum, reglum og ákvörðunum að hagnýting hússins, bæði séreigna og sameignar, sé ávallt með eðlilegum hætti og þannig að verðgildi eigna haldist. Á húsfélagi hvílir sú skylda að annast viðhald og rekstur sameignarinnar og öll önnur málefni í samræmi við ákvæði fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Er stjórn húsfélags rétt og skylt að taka hvers kyns ákvarðanir sem lúta að venjulegum daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignarinnar, sbr. 1. mgr. 70. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, og skv. 2. mgr. 10. gr. sömu laga getur stjórnin látið framkvæma á eigin spýtur minni háttar viðhald og viðgerðir og bráðnauðsynlegar og brýnar ráðstafanir sem þola ekki bið.

Af gögnum málsins er ljóst að brunamál hússins að X hafa sætt aðfinnslum Slökkviliðs Y. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. brunavarnarlaga nr. 75/2000 er það eigandi mannvirkis sem ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og taki mið af þeirri starfsemi sem í mannvirkinu fer fram á hverjum tíma. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. sömu laga er það eigandi og eftir atvikum forráðamaður mannvirkis sem ber ábyrgð á eigin brunavörnum, að þær séu virkar og að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Jafnframt er þeim skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur sem eiga sér stoð í lögum og reglugerðum um brunavarnir, byggingarmál, öryggismál, hollustuhætti og mengunarvarnir og eiturefni og hættuleg efni.

Að mati kærunefndarinnar hvílir ótvírætt sú skylda á gagnaðila að bregðast við ábendingum Slökkviliðs Y og grípa til aðgerða í brunamálum hússins. Samkvæmt fundargerð húsfundar frá 31. ágúst sl. var ákveðið að bregðast við aðfinnslum Slökkviliðs Y, m.a. með því að koma upp reykskynjarakerfi og setja slökkvitæki á hvern stigapall.

Sá kostnaður vegna sameignar, sem leiðir af löglegum ákvörðunum stjórnar húsfélags, almenns fundar þess eða ráðstöfunum sem einstakur eigandi hefur heimild til að gera, er sameiginlegur, sbr. 1. tl. 43. gr. laga nr. 26/1994. Sú meginregla er sett fram í 39. gr. laga nr. 26/1994 um ákvarðanir um framkvæmdir á sameign, að þær skuli taka á fundi eigenda fjöleignarhúss, húsfundi. Um heimildir eiganda til að grípa til einhliða ráðstafana er fjallað í 38. gr. laganna. Þar kemur fram að eiganda er rétt að láta framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra, ef hún eða séreignarhlutar liggja undir skemmdum vegna vanrækslu á viðhaldi og húsfélagið eða aðrir eigendur hafa ekki, þrátt fyrir tilmæli og áskoranir, fengist til samvinnu og til að hefjast handa í því efni. Er regla 38. gr. laga nr. 26/1994 því undantekning frá meginreglu 39. gr. laganna og ber því að túlka gildissvið hennar þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum.

Kærunefnd bendir á að lagalegur réttur álitsbeiðanda sé ótvíræður skv. 38. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 að skilyrðum ákvæðisins uppfylltum hverju sinni. Á þessu stigi málsins getur kærunefnd ekki metið hvort þeim skilyrðum verði fullnægt og fellst því ekki á þá kröfu álitsbeiðanda.

 

II.

Samkvæmt 7. tl. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús falla allar lagnir, svo sem fyrir heitt vatn, kalt vatn, skolp, rafmagn, síma, dyrasíma, sjónvarpsloftnet og útvarpsloftnet, sem þjóna sameiginlegum þörfum og þörfum heildarinnar, án tillits til þess hvar þær liggja í húsinu, undir sameign fjöleignarhúss. Samkvæmt 8. tl. 8. gr. laga nr. 26/1994 fellur allur búnaður, kerfi og þess háttar, án tillits til staðsetningar, bæði innan húss og utan, svo sem lyftur, rafkerfi, hitakerfi, vatnskerfi, símakerfi, dyrasímakerfi, sjónvarpsloftnet og útvarpsloftnet, leiktæki o.fl., sem þjóna þörfum heildarinnar, en þó að undanskildum tækjum og búnaði, sem tengd eru við kerfin inni í hverjum séreignarhluta, undir sameign fjöleignarhúss. Kostnaður vegna kaupverðs og viðhalds dyrasíma, sjónvarps- útvarpskerfa, loftneta, póstkassa, nafnskilta og annars búnaðar sem eigendur hafa jöfn afnot og gagn af með líkum hætti, skiptist og greiðist af jöfnu, sbr. 4. tl. B-liðar 45. gr. laga nr. 26/1994. Allir hlutaðeigandi eigendur fjöleignarhúsa eiga óskoraðan rétt á að taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss og utan, sbr. 39. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Það er álit kærunefndar, með vísan til ofangreinds, að álitsbeiðandi hafi sama rétt og aðrir eigendur hússins til hagnýtingar á sameiginlegu loftnetskerfi hússins og að húsfélaginu sé skylt að sjá til þess að það sé í lagi.

Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús skulu ákvarðanir teknar á sameiginlegum fundi eigenda. Tilgangur þessa ákvæðis er að eigendum gefist kostur á að mæta og taka þátt í umræðum, ákvörðun og atkvæðagreiðslu, svo sem fram kemur í athugasemdum við frumvarp til laganna. Einstökum eiganda er þannig ekki heimilt upp á sitt eindæmi að taka ákvarðanir eða gera ráðstafanir sem snerta sameign eða sameiginleg málefni nema svo sé ástatt sem greinir í 37. og 38. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 26/1994.

Varðandi kröfu álitsbeiðanda um rétt sinn skv. 38. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 vísast til niðurlags forsendna í kröfulið nr. I um sama atriði.

 

III.

Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús skulu ákvarðanir teknar á sameiginlegum fundi eigenda. Tilgangur þessa ákvæðis er að eigendum gefist kostur á að mæta og taka þátt í umræðum, ákvörðun og atkvæðagreiðslu, svo sem fram kemur í athugasemdum við frumvarp til laganna. Einstökum eiganda er þannig ekki heimilt upp á sitt eindæmi að taka ákvarðanir eða gera ráðstafanir sem snerta sameign eða sameiginleg málefni nema svo sé ástatt sem greinir í 37. og 38. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 26/1994.

Í málinu liggja ekki fyrir nægjanleg gögn um nauðsyn viðgerðar á loftneti hússins. Af þeim sökum tekur kærunefnd ekki afstöðu til þeirrar kröfu álitsbeiðanda að gagnaðila beri að greiða sér útlagðan kostnað vegna skoðunar á loftnetsbúnaði í íbúð sinni.

 

IV.

Álitsbeiðandi telur að henni sé ekki skylt að taka afstöðu til óska eigenda atvinnuhúsnæðis á jarðhæð um að breyta því í íbúðarhúsnæði fyrr en fyrir liggi teikningar af breytingum og frekari upplýsingar um framkvæmdirnar. Kærunefndin bendir á að álitsbeiðanda sé heimilt að óska frekari gagna áður en hún taki afstöðu á húsfundi telji hún þess þörf. Það er hins vegar ekki á verksviði kærunefndarinnar að kveða á um skyldu til að leggja fram þessi gögn eða hvernig eigandi atvinnuhúsnæðis vinnur tillögu sinni fylgi á húsfundi. Er því þessari kröfu álitsbeiðanda vísað frá nefndinni.

 

V.

Samkvæmt 6. mgr. 69. gr. laga nr. 26/1994 er stjórn húsfélags skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varða málefni húsfélagsins, rekstur þess, efnahag og fjárhagsstöðu. Eigendur hafa rétt til að skoða bækur félagsins, reikninga og fylgiskjöl með hæfilegum fyrirvara, en þó jafnan að viðstöddum stjórnarmanni. Að mati kærunefndar ber gagnaðili ótvíræða skyldu til þess að veita álitsbeiðanda aðgang að þeim bókhaldsgögnum sem hún hefur óskað eftir.

 

VI.

Samkvæmt 2.-3. mgr. 64. gr. laga nr. 26/1994 skal rita í sérstaka fundargerðabók meginatriði allra mála sem tekin eru fyrir á húsfundum og allar ákvarðanir sem teknar eru og hvernig atkvæði hafa fallið. Skal fundargerð lesin upp í lok fundar, hún leiðrétt og athugasemdir skráðar. Síðan skal fundargerð undirrituð af fundarstjóra og a.m.k. einum öðrum félagsmanni sem fundurinn hefur tilnefnt til þess. Rík skylda er á aðilum að gæta að fundargerð sé rituð í samræmi við ákvæði fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 enda gegnir fundargerð mikilvægu hlutverki sem heimild um einstaka húsfundi og sönnun þess sem þar fór fram. Í máli þessu hefur álitsbeiðandi ekki sýnt fram á að fundargerð geti á einhvern hátt talist ófullnægjandi, þvert á móti liggur fyrir afrit fundargerðar húsfélagsins, dags. 31. ágúst sl., sem er í fullu samræmi við ákvæði fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 nema að hún hefur einungis verið undirrituð af einum aðila.

 

VII.

Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 er hlutverk kærunefndar fjöleignarhúsalaga að gefa álit þegar eigendum fjöleignarhúsalaga greinir á um réttindi sín og skyldur. Málatilbúnaður fyrir nefndinni er einfaldur og á færi málsaðila sjálfra. Málsaðilum er hins vegar í sjálfvald að leita sér aðstoðar sérfræðinga við málatilbúnað sinn enda bera þeir sjálfir kostnað af slíkri aðstoð. Er því hafnað þeirri kröfu álitsbeiðanda að gagnaðilum beri að taka þátt í kostnaði álitsbeiðanda vegna lögfræðilegra ráðlegginga og aðstoðar.

      

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri skylda til að gæta þess að brunavarnir X séu í samræmi við kröfur opinberra aðila.

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að sjá til þess að sjónvarpsloftnet sé til staðar og því sé haldið við.

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um greiðslu kostnaðar vegna skoðunar á sjónvarpsloftneti í íbúð sinni.

Hafnað er kröfu álitsbeiðanda að kærunefnd kveði á um skyldu eiganda atvinnuhúsnæðis til upplýsingagjafar í tengslum við beiðni hans um samþykki íbúa hússins fyrir fyrirhugaðra framkvæmda.

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að veita álitsbeiðanda aðgang að bókhaldsgögnum og reikningum húsfélagsins X.

Það er álit kærunefndar fundargerðir gagnaðila hafi verið ritaðar í samræmi við ákvæði fjöleignarhúsalaga.

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðili taki þátt í kostnaði sínum vegna lögfræðilegra ráðlegginga og aðstoðar.

 

    

Reykjavík, 23. desember 2005

  

  

Valtýr Sigurðsson

Karl Axelsson

Kornelíus Traustason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum