Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 14/2005

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

í málinu nr. 14/2005

 

Eignarhald: Rými á jarðhæð. Aðgangsréttur: Inntak og mælar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 29. mars 2005, mótteknu 31. sama mánaðar, beindi A hdl., f.h. B, X nr. 11, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við D, sama stað, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga, nr. 26/1994, um fjöleignarhús.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð E hrl., f.h. gagnaðila, dags. 2. maí 2005, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 26. maí 2005, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 14. júlí 2005.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 11 í Reykjavík, alls tveir eignarhlutar. Álitsbeiðandi er eigandi eignarhluta á jarðhæð hússins en gagnaðili eigandi eignarhluta á efri hæð. Ágreiningur er um eignarhald á rými á jarðhæð við hlið eignarhluta álitsbeiðanda en undir eignarhluta gagnaðila og aðgangsrétt álitsbeiðanda að inntaki og mælum sem staðsett eru í bílageymslu gagnaðila.

 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

I. Að óinnréttað rými í kjallara hússins sé í sameign eigenda hússins og því séu gagnaðila óheimil hvers kyns einkaafnot rýmisins.

II. Að viðurkennt verði að leyfi byggingarfulltrúa til hagnýtingar rýmisins svo og samþykki fyrir gerð glugga hafi verið gefið á röngum forsendum.

III. Að álitsbeiðanda og heimilisfólki hans verði heimilaður ótakmarkaður aðgangur að inntaki og mælum í bílageymslu gagnaðila.

 

Í álitsbeiðni og gögnum sem henni fylgja kemur fram að teikningar af umræddu fjöleignarhúsi hafi verið samþykktar í byggingarnefnd Reykjavíkur 29. mars 1990. Rýmið sem deilt er um sé í sökklum hússins og hafi að öllum líkindum verið skilið eftir óuppfyllt. Gagnaðili telji rýmið sína séreign og hafi byggingarfulltrúi samþykkt nýtingu hans á því. Álitsbeiðandi telji rýmið hins vegar í sameign. Fyrsti eigandi eignarhluta álitsbeiðanda hafi fest kaup á eignarhlutanum með kaupsamningi, dags. 17. maí 1990, þegar húsið hafi enn verið á byggingarstigi, af byggingaraðilanum, T. Í kaupsamningi sé vísað í áðurnefndar teikningar en ekki minnst einu orði á rými meðfram norðurvegg jarðhæðar sem skilið hafi verið eftir óuppfyllt. Hinu selda sé svo lýst: „Neðri hæð hússins nr. 11 við X í Reykjavík, ásamt hlutdeild í tilheyrandi leigulóðarréttindum. Íbúðin er ca. 67,5 m2.“ Eignaskiptayfirlýsing hafi verið þinglesinn í ágúst 1990. Þar séu séreignir hússins skilgreindar en ekki minnst á sameign eða hið umdeilda rými.

Eignarhluti á efri hæð hafi verið seldur með kaupsamningi, dags. 14. október 1990. Í lýsingu eignarinnar sé ekki minnst á hið umþrætta rými. Þessum kaupum hafi verið rift í desember sama ár. Gagnaðili hafi keypt eignarhluta sinn 22. apríl árið 1991 af áðurnefndum byggingaraðila. Ekki sé tiltekið í afsali að hið umþrætta rými fylgi með í kaupunum en eigninni sé svo lýst í kaupsamningi: „Efri hæð, aðalhæð merkt 02-01, og bílskúr í húsinu nr. 11 við X í Reykjavík, ásamt hlutdeild í leigulóðarréttindum og öðru því sem fylgir og fylgja ber.“ Þann 14. júlí 1995 hafi sýslumanni borist yfirlýsing T til gagnaðila, dags. 27. júlí 1991. Í yfirlýsingunni segi að með í kaupum á eignarhluta gagnaðila hafi fylgt „óinnréttað rými í fokheldu ástandi í kjallara hússins, sem eingöngu var innangengt í um stiga úr íbúðinni“. Tekið sé fram að afsal gagnaðila taki og til þess rýmis, sbr. orðalagið „sem fylgir og fylgja ber“. Yfirlýsingunni hafi verið þinglýst með athugasemd um að henni væri ekki þinglýst sem eignarheimild heldur sem einhliða yfirlýsingu um að óinnréttað rými í kjallara fylgi íbúðinni. Í yfirlýsingunni komi fram að hún sé gefin út samtímis afsali en það sé rangt, sbr. framangreint.

Gagnaðili hafi sótt um leyfi til byggingarfulltrúa til hagnýtingar umrædds rýmis hinn 30. júlí 1995 en þáverandi eigandi eignarhluta álitsbeiðanda hafi mótmælt með bréfi, dags. 12. desember 1995. Málinu hafi verið vísað til skrifstofustjóra borgarverkfræðings. Í áliti hans komi fram að umsóknin verði ekki samþykkt að óbreyttri eignaskiptayfirlýsingu án samþykkis eiganda eignarhluta á jarðhæð. Umsókninni hafi verið synjað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 13. nóvember 1995. Synjuninni hafi verið skotið til umhverfisráðherra sem staðfesti hana.

Álitsbeiðandi hafi keypt eignarhluta sinn á árinu 2001. Í kaupsamningi hafi verið vísað til áðurnefndrar þinglýstrar eignaskiptayfirlýsingar. Við undirritun afsals hinn 2. ágúst 2001 hafi verið óskað eftir því að álitsbeiðandi undirritaði jafnframt yfirlýsingu, dags. 2. mars 1998, að efni til samkomulag um skiptingu lóðar, bílastæða og nýtingu óuppfyllts rýmis í kjallara ofl. Álitsbeiðandi hafi óskað eftir tómi til að hugsa málið því hann hafi ekki áður séð skjalið og viljað bera það undir ráðgjafa sína. Þegar álitsbeiðanda hafi orðið efni skjalsins ljóst hafi hann ekki verið reiðubúinn til að samþykkja það og ákveðið að afhenda það ekki. Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 26. nóvember 2003, hafi álitsbeiðandi mótmælt hagnýtingu gagnaðila á hinu umþrætta rými og sent með ljósrit af nefndri yfirlýsingu til þess að árétta að hann teldi sig óbundinn af henni enda hafi yfirlýsingin aldrei verið afhent.

Gagnaðili hafi aftur sótt um leyfi til að stækka eignarhluta sinn í maí 2004 og var í bréfi hans byggt á að samþykki lægi fyrir á grundvelli áðurnefndrar yfirlýsingar frá 2. mars 1998. Málinu hafi verið frestað og óskað eftir athugasemdum sameigenda. Í bréfi álitsbeiðanda, dags. 11. júní 2004, hafi hagnýtingu gagnaðila á rýminu verið mótmælt og ítrekaður sá skilningur að rýmið væri sameign. Því hafi jafnframt harðlega verið mótmælt að ljósrit skjals sem ekki var afhent jafngilti samþykki. Afgreiðslunni hafi verið frestað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. júní 2004. Í áliti frá skrifstofu skipulags- og byggingarsviðs, dags. 23. júlí 2004, komi fram að ekki þurfi samþykki eiganda eignarhluta á jarðhæð til að unnt sé að samþykkja stækkun eignarhluta gagnaðila í sökkulrýmið með hringstiga. Skrifstofan líti svo á að samþykki fyrir gerð glugga á rýminu hafi verið dregið tilbaka með bréfi álitsbeiðanda, dags. 11. júní 2004. Rökstuðningur skrifstofunnar byggi á því að gagnaðili hafi öðlast eignarrétt yfir rýminu með áðurnefndri einhliða yfirlýsingu, dags. 27. júlí 1991, sem þinglýst var með athugasemdum. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. nóvember 2004, hafi gagnaðila verið heimilað að stækka íbúð sína niður í sökkulrýmið með hringstiga milli hæða ásamt leyfi fyrir glugga á vesturhlið.

Álitsbeiðandi byggi á því að um sameign sé að ræða í skilningi 6. gr. laga nr. 26/1994 enda sé hún skilgreind neikvætt, þ.e. allir þeir hlutar húss, bæði innan húss og utan, og lóðar sem ekki eru ótvírætt í séreign skv. 4. gr. laganna. Engar þinglýstar heimildir lýsi hið umþrætta rými séreign. Segir að ef yfirlýsingin, dags. 27. júlí 1991, sé viðurkennd sem eignarheimild þýði það að breyta þurfi eignaskiptayfirlýsingu og það verði ekki gert án samþykkis álitsbeiðanda þar sem breytingarnar feli í sér eignayfirfærslu, sbr. 18. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994.

Ljósrit af yfirlýsingu, dags. 2. mars 1998, geti ekki skapað eignarrétt að rýminu. Ekkert annað hafi komið fram í máli seljanda en að um væri að ræða sérhæð. Hafi verið ætlunin að breyta eignarhlutföllunum í húsinu og staðfesta eignarhald gagnaðila á hinu umþrætta rými hefði verið eðlilegast að það kæmi fram í kaupsamningi, dags. 2. mars 1998, þegar þeir aðilar sem seldu álitsbeiðanda eignarhluta í húsinu keyptu af fyrsta eiganda hans. Þar sé á hinn bóginn vísað í gildandi eignaskiptayfirlýsingu. Eftir að hafa kynnt sér efni yfirlýsingarinnar hafi álitsbeiðandi tekið þá ákvörðun að standa ekki að samningsgerðinni. Ljósriti af þessari yfirlýsingu verði ekki þinglýst.

Vilji svo ólíklega til að kærunefnd álíti hið umdeilda rými vera séreign en ekki sameign sé því haldið fram að eigandi efri hæðar geti ekki sýnt fram á að hann eigi rýmið frekar en einhver annar.

Þá óski álitsbeiðandi eftir afstöðu nefndarinnar til leyfis byggingarfulltrúa til hagnýtingar rýmisins en álitsbeiðandi telji að það hafi verið veitt á röngum forsendum. Í áliti lögmanns embættis byggingarfulltrúa, sem liggi til grundvallar heimildinni, sé byggt á því að eignarréttur hafi stofnast með áðurnefndri einhliða yfirlýsingu seljanda til gagnaðila. Því mótmælir álitsbeiðandi.

Kröfu um óhindraðan aðgang að inntaki og mælum í séreign gagnaðila byggi álitsbeiðandi á því að aðgangur með samþykki gagnaðila tryggi ekki hagsmuni álitsbeiðanda. Gagnaðili hafi ekki einvörðungu hindrað álitsbeiðanda í að komast að sameiginlegum mælum heldur hafi hann gagngert skrúfað fyrir kalda vatnið eins og lögregluskýrsla sýni. Þá er bent á að sé gagnaðili ekki heima hafi álitsbeiðandi ekki aðgang nema brjótast inn. Hagmunir álitsbeiðanda af frjálsum og óhindruðum aðgangi að sameiginlegu inntaki séu mun meiri en hagsmunir gagnaðila af að útiloka aðra frá bílskúr.

Í greinargerð E hrl., f.h. gagnaðila, kemur fram að gagnaðili leggi áherslu á að álitsbeiðanda var kunnugt um skipan eignarhalds húss og lóðar allt frá öndverðu og hafi undirritað yfirlýsingu, dags. 2. mars 1998. Álitsbeiðandi sé því ekki grandlaus þegar hann setji fram kröfur sem fari gegn efni yfirlýsingarinnar. Að gefnu tilefni sé tekið fram að aldrei hafi komið upp vandamál varðandi staðsetningu inntaka og orkumæla hússins. Þess er krafist að öllum kröfum álitsbeiðanda verði hafnað.

Í athugasemdum álitsbeiðanda kemur fram að álitsbeiðandi hafi fest kaup á eignarhluta sínum með kauptilboði dagsett 13. júlí 2001. Ekki hafi verið gerður fyrirvari um gildandi eignaskiptayfirlýsingu við undirritun tilboðsins og ekki getið um rými það sem um er deilt í málinu. Álitsbeiðandi hafi ekki með neinum hætti verið upplýstur um að breytingar á eignaskiptahlutdeild hafi verið fyrirhugaðar. Það hafi ekki verið fyrr en við gerð kaupsamnings hinn 2. ágúst 2001 en þá hafi jafnframt verið gengið frá afsali. Eftir að hafa undirritað yfirlýsinguna við þetta tækifæri hafi álitsbeiðandi ákveðið að bera hana undir ráðgjafa sína áður en samþykki væri veitt fyrir þeirri ráðstöfun sem mælt var fyrir um í yfirlýsingunni. Álitsbeiðandi hafi eftir það ákveðið að afhenda ekki yfirlýsinguna þar sem um væri að ræða óviðunandi breytingar á þeirri eign sem hann hafði nýverið fest kaup á. Forsendur álitsbeiðanda hafi einkum verið þær að hann hafi talið sig vera að kaupa sérhæð en með þessu móti myndi gagnaðili eignast rými við hlið eignar álitsbeiðanda. Það sé því rangt sem fram komi í greinargerð að álitsbeiðandi hafi ekki verið grandlaus. Sú staðreynd að álitsbeiðandi hafi undir höndum bæði frumrit yfirlýsingarinnar styðji frásögnina að fullu.

 

III. Forsendur

I.

Í 4. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 segir að séreign samkvæmt lögunum sé afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum sé lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið, ásamt því sem honum fylgi sérstaklega hvort heldur er húsrými í húsinu sjálfu, bílskúr á lóð þess eða sameiginlegri lóð margra húsa, lóðarhluti, búnaður eða annað samkvæmt sömu heimildum, ákvæðum laga þessara eða eðli máls. Í 1. mgr. 6. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, segir að sameign samkvæmt lögunum séu allir þeir hlutar húss, bæði innan og utan, og lóðar sem ekki eru ótvírætt í séreign skv. 4. gr., svo og öll kerfi, tækjabúnaður, lagnir og tilfæringar sem þjóna aðallega þörfum heildarinnar eða hluta hennar með þeim hætti að sanngjarnt og eðlilegt er að allir eigendur eða eftir atvikum tiltekinn hópur þeirra beri kostnað og áhættu af þeim.

Í gögnum málsins liggur fyrir eignaskiptayfirlýsing frá því í ágúst 1990, þinglýst 29. þess mánaðar. Í lýsingu á séreignarhlutum hússins er eignarhluti álitsbeiðanda talinn 25,5 hundraðshlutar af heildareigninni en eignarhluti gagnaðila 74,5 hundraðshlutar. Hvorki er minnst á hið umþrætta rými í eignaskiptayfirlýsingunni né í þeim kaupsamningum og afsölum sem fyrir liggja en þau mynda óslitna röð eignarheimilda. Í þeim afsölum sem gerð hafa verið er sérstaklega vísað til umræddrar eignaskiptayfirlýsingar.

Þá liggur fyrir yfirlýsing, dags. 27. júlí 1991, þar sem segir: „[T] hf., kt. [...], seljandi að íbúð 02–01 í húsinu nr. 11 við [...] í Reykjavík ásamt tilheyrandi, sbr. kaupsamning þar um, dags. 16. nóvember 1990, við þau [...], gefur nú samhliða undirritun afsals fyrir íbúðinni til framangreindra kaupenda svohljóðandi yfirlýsingu: Það er hér með staðfest að með í kaupum íbúðar 02–01 að [...] 11, Reykjavík óinnréttað rými [sic] í fokheldu ástandi í kjallara hússins, sem eingöngu var innangengt í um stiga úr íbúðinni. Rými þetta nær gafla á milli í húsinu um 2,35 metrar á breidd og liggur að kjallaraíbúðinni að norðanverðu. [...] Hið tilvitnaða afsal, dags. í dag, tekur og til þessa rýmis, sbr. orðalagið „sem fylgir og fylgja ber“. Það er áskilið að kaupendur annist sjálfir að láta útbúa nýja skiptayfirlýsingu i samræmi við framangreint.“ Afsal það sem vitnað er til er dagsett 22. apríl 1991, þ.e. nokkru áður en yfirlýsingin er gerð. Hvoru tveggja er gert eftir að áðurnefndri eignaskiptayfirlýsingu var þinglýst, 29. ágúst 1990. Fram kemur á skjalinu að það er fært í þinglýsingabækur 17. júlí 1995. Þá fylgir einnig endurrit úr tölvuskrá sýslumannsembættisins þar sem fram kemur að yfirlýsingu þessari sé ekki þinglýst sem eignarheimild heldur sem einhliða yfirlýsingu um að óinnréttað rými í kjallara fylgi íbúðinni og er þessi athugasemd dagsett 12. apríl 1996. Hið umþrætta rými á jarðhæðinni er því ekki í séreign á grundvelli þinglýstra heimilda.

Þá er að líta til skjals sem nefnt er „Yfirlýsing“ og er dagsett 2. mars 1998, sama dag og kaupsamningur um eignarhluta á neðri hæð hússins milli fyrsta eiganda eignarhlutans og þeirra aðila sem síðar seldu álitsbeiðanda eignarhlutann. Óskað var eftir að álitsbeiðandi undirritaði skjalið við gerð kaupsamnings og afsals vegna eignarhluta síns 2. ágúst 2001. Í yfirlýsingunni segir: „Undirritaðir eigendur fasteignarinnar á lóðinni nr. 11 við [...], Reykjavík gera með sér eftirfarandi samkomulag: Lóð. Lóð hússins er 719 ferm. og er í óskiptri hlutfallslegri sameign. [.........] Byggingarréttur. Eigandi neðri hæðar samþykkir að eigandi efri hæðar setji glugga á vesturhlið óuppfyllts rýmis í kjallara og sameini efri hæð, þegar hann óskar eftir og byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkir. Sömuleiðis samþykkir eigandi efri hæðar að eigandi neðri hæðar fái að byggja sólstofu undir svölum efri hæðar á suðurhlið, þegar hann óskar eftir og byggingarnefnd samþykkir. Inntök ásamt mælum eru staðsett í bílgeymslu efri hæðar. Neðri hæð hefur með samþykki eiganda efri hæðar aðgengi að þeim til nauðsynlegs viðhalds og viðgerða auk álesturs.“ Undir þetta skrifa eigendur eignarhluta 02.01, þ.e. gagnaðili og [...], og eigendur eignarhluta 01.01, þ.e. þeir aðilar sem seldu álitsbeiðanda og sá sem seldi þeim, fyrsti eigandi eignarhluta álitsbeiðanda. Þá er einnig undirskrift álitsbeiðanda undir yfirlýsingunni. Eins og fram kemur að framan segir álitsbeiðandi að honum hafi ekki verið kynnt umrætt samkomulag við undirritun kauptilboðs í eignina en þar er ekki gerður fyrirvari við gildandi eignaskiptayfirlýsingu. Sér hafi fyrst verið kynnt samkomulagið við undirritun kaupsamnings og afsals sem fram hafi farið samhliða. Álitsbeiðandi hafi ritað undir samkomulagið en tekið með sér frumritin þar sem hann hafi viljað taka sér frest til að kynna sér málið betur og hafi síðan í framhaldi ákveðið að fallast ekki á samkomulagið og því ekki afhent frumrit þess.

Líta verður svo á að deilt sé um hvort álitsbeiðandi hafi með undirritun sinni á umrætt skjal gert samkomulag um að gagnaðila sé heimilt að sameina hið umþrætta rými eignarhluta sínum jafnframt samkomulagi um ýmis önnur atriði sem ekki er ágreiningur um í máli þessu.

Álitsbeiðandi leggur áherslu á að sú staðreynd að hann hafi tekið með sér bæði frumrit umræddrar yfirlýsingar og síðan ekki afhent þau leiði til þess að hann sé ekki bundinn af henni þótt hann hafi skrifað undir yfirlýsinguna í vitna viðurvist í tengslum við kaup sín á eignarhlutanum. Kærunefnd telur að með undirritun sinni á yfirlýsinguna hafi álitsbeiðandi gerst aðili að því samkomulagi sem yfirlýsingin geymir. Ekki sé óeðlilegt að álitsbeiðandi hafi tekið með sér bæði frumritin og eftir hjá seljanda hafi aðeins orðið ljósrit þar sem frumritin séu fyrst og fremst ætluð álitsbeiðanda og gagnaðila sem eigendum hússins.

Þá bendir kærunefnd á að í bréfi álitsbeiðanda til byggingarfulltrúa, dags. 26. nóvember 2003, sem finna má í gögnum málsins, segir m.a.: „Við kaup á íbúð minni þann 2. ágúst 2001 undirritaði ég bréf dagsett 2. mars 1998 (sjá meðfylgjandi afrit) þar sem ég samþykki að gluggi verði settur á vesturhlið hússins á óuppfyllt rými sem ég vissi ekki hvort var samþykkt eða ei. Í staðinn átti ég sem nýr eigandi neðri hæðar að fá byggingarrétt fyrir sólstofu undir svölum efri hæðar á suðurhlið hússins. Engar teikningar af húsinu lágu fyrir við undirritun kaupsamnings/afsals sem fór fram á sama tíma á fasteignasölunni. Þar sem umræddu plaggi hefur ekki verið þinglýst, tel ég mig á engan hátt vera bundin af samkomulaginu og lýsi því yfir að ég sé á engan hátt samþykk því að leyfi verði veitt fyrir útgröfnu rými á neðri hæð hússins.

Framangreint bréf, dags. 26. nóvember 2003, er ekki hægt að skilja öðru vísi en að álitsbeiðandi hafi talið sig hafa gert samkomulag þó að hann telji sig síðar ekki bundinn af því. Ljóst er að eins og máli þessu er háttað ræðst réttarsamband aðila máls þessa ekki af því að umræddu skjali hefur ekki verið þinglýst enda er þinglýsing ráðstöfun sem ætlað er að vernda þriðja mann en er ekki ákvarðandi um hvort samkomulag hafi tekist með aðilum.

Það er því álit kærunefndar að álitsbeiðandi hafi gert samkomulag um að eigandi efri hæðar mætti setja glugga á óuppfyllt rými í kjallara og sameina það eignarhluta sínum þegar hann óskaði þess.

Kærunefnd vill taka fram að ágreiningur þessi lýtur ekki aðeins að túlkun laga um fjöleignarhús heldur einnig og ekki síður að sönnun á eignarrétti. Nefndin telur hins vegar rétt að veita álit í málinu á grundvelli þeirra laga og fyrirliggjandi gagna, enda brýnt fyrir aðila að réttarstaða þeirra sé upplýst eftir megni. Kærunefnd getur ekki útilokað að með hefðbundinni sönnunarfærslu sem fram færi fyrir dómi yrði niðurstaða önnur.

II.

Samkvæmt 80. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 takmarkast valdsvið kærunefndar fjöleignarhúsamála við ágreining um réttindi og skyldur eigenda fjöleignarhúsa samkvæmt þeim lögum. Það er ekki á valdsviði kærunefndar að gefa álit sitt á þeim leyfum sem gefin eru út af byggingarfulltrúa. Unnt er að leita til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og eftir atvikum til dómstóla. Í ljósi þessa er kröfunni vísað frá kærunefnd.

III.

Álitsbeiðandi krefst óhindraðs aðgangs að inntaki og mælum sem staðsett eru í séreign gagnaðila. Kvaðir af þessu tagi á séreign verða almennt að sæta þröngri túlkun. Það að álitsbeiðandi hafi ótakmarkaðan aðgang að séreign gagnaðila er slík takmörkun á hagnýtingar- og ráðstöfunarrétti gagnaðila yfir séreign sinni að honum verður ekki gert að sæta því. Kærunefnd telur að aðgangsréttur álitsbeiðanda að séreign sé ekki víðtækari en nauðsynlegt er til að álitsbeiðandi geti komist að mælum sínum og töflum eftir þörfum í samráði við gagnaðila. Telur kærunefnd að gagnaðila beri að sjá til þess með öruggum hætti, eftir atvikum í samráði við álitsbeiðanda, að rétti álitsbeiðanda til aðgangs sé fullnægt þegar þess gerist þörf.

 

IV. Niðurstaða

Kröfu álitsbeiðanda um að óinnréttað rými í kjallara hússins sé í sameign eigenda hússins og gagnaðila óheimil hvers kyns einkaafnot rýmisins er hafnað.

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi og heimilisfólk hans hafi aðgangsrétt að inntaki og mælum í bílageymslu gagnaðila í samráði við gagnaðila.

 

 

Reykjavík, 14. júlí 2005

 

 

Valtýr Sigurðsson

Karl Axelsson

Kornelíus Traustason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum