Hoppa yfir valmynd
31. mars 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 64/2004

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

í málinu nr. 64/2004

 

Ákvarðanataka: Uppsetning móttökudisks fyrir gervihnattasendingar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 10. desember 2004, mótteknu 13. desember 2004, beindi húsfélagið X nr. 8, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við A, X nr. 8, hér eftir gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga, nr. 26/1994, um fjöleignarhús.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 28. janúar 2005, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 31. mars 2005.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 8, alls 36 eignarhlutar. Álitsbeiðandi er húsfélag fjöleignarhússins en gagnaðili eigandi eignarhluta í húsinu. Ágreiningur er um hvort gagnaðila sé að heimilt að hafa móttökudisk fyrir gervihnattasjónvarp á svölum eignarhluta síns.

 

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

Að gagnaðila sé skylt, í samræmi við samþykkt húsfundar, að taka strax niður móttökudisk fyrir gervihnattasjónvarp sem settur hefur verið upp á svölum íbúðar hans og tilheyrandi festingar. Þá beri honum að fjarlægja allar tilheyrandi lagnir og ganga þannig frá múrhúð og málningu að ummerki festinga verði afmáð.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að tveir íbúðareigendur í húsinu hafi sett upp móttökudiska fyrir gervihnattasjónvarp á þak/svalir hússins án þess að leita samþykkis húsfélags eða byggingarfulltrúa. Húsfélaginu hafi borist bréf byggingarfulltrúa, dags. 17. apríl 2004, varðandi málið. Á fundum húsfélagsins 8. og 20. september 2004 hafi verið lagst gegn þeirri tillögu að einstökum íbúðareigendum væri heimilað að setja upp móttökudisk fyrir gervihnattasjónvarp. Húsfélagið hafi því markað þá stefnu að móttökudiskar fyrir gervihnattasjónvarp séu ekki leyfðir á húsinu. Í kjölfar ákvörðunarinnar hafi eigendum móttökudiskanna verið send ábyrgðarbréf og þess farið á leit að diskarnir yrðu fjarlægðir. Gagnaðili hafi ekki farið að þeim tilmælum. Stjórn húsfélagsins hafi ítrekað, sbr. bréf dags. 27. september, 23. október og 10. nóvember 2004, reynt að fá gagnaðila til að taka niður diskinn en án árangurs. Móttökudiskurinn sé festur á innanverðan svalavegg, ofan handriðshæðar. Þá hafi verið rætt við hann og óskað eftir því að hann færi að samþykktum húsfélagsins en hann neitað að taka niður diskinn. Gagnaðili hafi ekki mætt á nefnda húsfundi né nokkur fyrir hann.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að það sé eindregin ósk gagnaðila að hann fái að hafa þennan disk. Diskurinn sé ætlaður til þess að horfa á stöð sem sendir frá Z. Gagnaðili eigi erfitt með að skilja íslensku og óski auk þess eftir að börnin hans læri móðurmál sitt.

 

III. Forsendur

Í 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, segir að sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu þá verði ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um sé að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal á útliti hússins. Í 2. mgr. sömu greinar segir að sé um að ræða framkvæmdir sem hafi breytingar á sameign, utan húss eða innan, í för með sér sem þó geta ekki talist verulegar þá nægi að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir.

Hinn umdeildi móttökudiskur fyrir gervihnattasendingar er staðsettur á svölum eignarhluta gagnaðila, festur á innanverðan svalavegg, ofan handriðshæðar. Kærunefnd telur að uppsetning hans sé framkvæmd sem feli í sér breytingar á sameign í skilningi 2. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga, þ.e. á útliti hússins, og þurfi því samþykki 2/3 hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, sbr. einnig 3. tölulið B-liðar 41. gr. laganna.

Fram kemur í gögnum málsins að málið hafi verið tekið fyrir á húsfundi en ekki hlotið tilskilinn meiri hluta atkvæða. Það er því álit kærunefndar að fallast beri á kröfu álitsbeiðanda.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila sé skylt, í samræmi við samþykkt húsfundar, að taka strax niður móttökudisk fyrir gervihnattasjónvarp sem settur hefur verið upp á svölum íbúðar hans og tilheyrandi festingar. Þá ber honum að fjarlægja allar tilheyrandi lagnir og ganga þannig frá múrhúð og málningu að ummerki festinga verði afmáð.

 

 

Reykjavík, 31. mars 2005

 

 

Valtýr Sigurðsson

Karl Axelsson

Kornelíus Traustason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum