Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2004

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

í málinu nr. 10/2004

 

Skyldur stjórnar húsfélags. Viðgerð dyrasíma.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 19. febrúar 2004, móttekið 23. febrúar 2004, beindi A, X nr. 16, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við stjórn húsfélagsins X 16, hér eftir nefnd gagnaðili.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar og samþykkt að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 5. mars 2004, auk athugasemda álitsbeiðanda, dags. 11. mars 2004 og frekari athugasemda gagnaðila, dags. 16. mars 2004 var lögð fram á fundi nefndarinnar 19. apríl 2004 og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 16. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar merkt 0401 í húsinu. Ágreiningur er við stjórn húsfélagsins um kostnað við viðgerð á dyrasíma.

  

Kærunefnd lítur svo á að krafa álitsbeiðanda sé:

Að kostnaður við viðgerð dyrasíma teljist sameiginlegur kostnaður.

  

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi haft samband við gagnaðila þar sem ekki hafi heyrst í dyrabjöllu í íbúð hans þegar hringt væri við útihurð. Formaður hússtjórnar hafi komið og litið á símann þegar eftir því var leitað og í kjölfarið kallað til viðgerðarmann. Álitsbeiðandi hafi síðan verið krafinn um greiðslu fyrir viðgerðarkostnaði. Þessu hafi hann mótmælt í bréfi til gagnaðila enda talið að um sameiginlegan kostnað væri að ræða, sbr. B-lið 45. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Í svari gagnaðila kæmi fram að sú grein ætti ekki við þar sem um bilun í tóli í íbúð álitsbeiðanda hafi verið að ræða en ekki í sameiginlegri stjórnstöð. Í bréfinu sé vísað til 5. og 50. gr. fjöleignarhúsalaga. Álitsbeiðandi telur að gagnaðili hefði átt að láta sig vita að um séreign væri að ræða og ef kallað væri á viðgerðarmann þyrfti álitsbeiðandi að greiða viðgerðina.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að álitsbeiðandi hafi komið að máli við formann gagnaðila og sagt að ekki væri hægt að svara í dyrasíma íbúðar hans vegna ýlfurs í símanum. Formaður hafi eftir skoðun lagt til að kallað væri í viðgerðarmann hússins og hafi álitsbeiðandi samþykkt það. Viðgerðarmaður segi að bilunin í síma álitsbeiðanda hafi verið í tólinu og stafað af því að það hafi fallið í gólfið.

Þá kemur fram í greinargerð gagnaðila að þegar húsið hafi verið tekið í notkun hafi verið samið við fjölda þjónustuaðila. Skrá um þá hafi verið dreift til allra íbúa eftir að húsfundur hafi samþykkt það og hafi íbúar í gegnum árin notfært sér þjónustu þeirra en sé frjálst að leita annað.

Í athugasemdum sínum ítrekar álitsbeiðandi að það hefði átt að láta hann vita að bilunin væri í séreign hans og gefa honum þannig kost á að leita viðgerðar annars staðar, en í fjölskyldunni sé maður sem hefði getað gert við símann. Þá mótmælir álitsbeiðandi því að hann hafi misst símann í gólfið en segir að það hafi viðgerðarmaður hins vegar gert meðan á viðgerð stóð.

Í frekari athugasemdum sínum segir gagnaðili að strax hafi verið ljóst að ekki væri um bilun í símstöð í sameign að ræða þar sem álitsbeiðandi hafi leitað til formanns gagnaðila vegna þess að ýlfur hafi heyrst í tóli þegar því var lyft. Engin þörf hafi því verið á að kalla til formann gagnaðila ef ekki hafi verið ætlun álitsbeiðanda að þiggja þjónustu rafvirkja sem þjónustað hafi íbúa hússins. Gagnaðili segist ekki geta tjáð sig um hvort viðgerðarmaður hafi misst tólið en ljóst sé þó að síminn hafi verið bilaður áður en viðgerðarmaðurinn kom því þess vegna hafi hann verið til kallaður.

   

III. Forsendur

Samkvæmt 50. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 skal eigandi sjá um og kosta allt viðhald og allan rekstur á séreign sinni, þar með talið á búnaði, tækjum og lögnum sem henni tilheyra, sbr. 4. og 5. gr. Telst allur slíkur kostnaður, hverju nafni sem hann nefnist, vera sérkostnaður. Samkvæmt 4. tölulið 5. gr. fjöleignarhúsalaga, sbr. 4. gr. sömu laga, falla tæki, búnaður og þess háttar inni í séreignarhluta, þótt tengd séu sameiginlegu kerfi eða lögnum undir séreign fjöleignarhúss. Dyrasímtól í íbúð álitsbeiðanda fellur því undir séreign og skal álitsbeiðandi sjá um og kosta viðhald þess.

Að mati kærunefndar hefur það ekki áhrif á niðurstöðu málsins þótt formaður gagnaðila hafi ekki upplýst álitsbeiðanda um að viðgerðarkostnaðurinn væri sérkostnaður hans þegar hann leitaði atbeina hans um viðgerðina enda var honum það ekki skylt.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri að greiða viðgerð á dyrasíma í íbúð sinni.

 

 

Reykjavík, 19. apríl 2004

  

  

Valtýr Sigurðsson

Pálmi R. Pálmason

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum