Hoppa yfir valmynd
25. júní 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 14/2003

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

í málinu nr. 14/2003

 

Ákvarðanataka: Lagnir.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2003, mótteknu 19. febrúar 2003, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 26. febrúar 2003. Samþykkt var að óska eftir frekari upplýsingum frá álitsbeiðanda, sem bárust nefndinni 4. mars 2002. Á fundi nefndarinnar 20. mars 2003 var samþykkt að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 16. júní 2003, var lögð fram á fundi nefndarinnar 25. júní 2003 og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr.10, sem er tvíbýlishús, kjallari og hæð, byggt árið 1958. Álitsbeiðandi er eigandi kjallaraíbúðar en gagnaðili eigandi íbúðar á hæð. Ágreiningur er um ákvarðanatöku.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að gagnaðili láti leggja nýja hitalögn í geymslur sínar í kjallara og leggi hitalögn í þvottahús til móts við hitalögn álitsbeiðanda.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að ágreiningur sé um hvor eigenda eigi að kosta nýja hitalögn í tvær geymslur í kjallara sem séu í eigu gagnaðila og hitalögn í sameiginlegt þvottahús í kjallara til móts við hitalögn sem þar sé og tilheyri eignarhluta álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi segist hafa látið leggja nýja hitalögn í kjallaraíbúð, þ.m.t. geymslu sína í kjallara og í þvottahús með ofni sem dugi að hálfu leyti fyrir þvottahúsið. Hafi hann gert þetta þar sem gamla hitalögnin hafi verið ónýt. Gagnaðili hafi farið fram á það við álitsbeiðanda að hann legði hitalögn á sinn kostnað í allan kjallarann. Telur álitsbeiðandi sér hins vegar aðeins skylt að leggja hitalögn í sinn hluta eignarinnar.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að gagnaðili hafi keypt eignarhluta sinn árið 1998. Við skoðun á eigninni hafi aldrei verið greint frá því að hluti neðri hæðar væri tengdur inn í hitakerfi neðri hæðar og hafi verið ómögulegt að sjá að svo væri. Gagnaðili hafi hins vegar orðið áþreifanlega var við það þegar skipt hafi verið um hitalögn á neðri hæð, en þá hafi fallið niður hiti í geymslum hans og að hluta til í þvottahúsi. Hafi hann þá farið þess á leit við álitsbeiðanda að hann endurnýjaði jafnframt lagnir í þeim eignarhluta sem hafi verið hitalaus.

Gagnaðili bendir á að hann hafi keypt eignarhluta sinn af foreldrum álitsbeiðanda sem hafi verið íbúar í húsinu til magra ára og hafi því álitsbeiðanda mátt vera ljóst að skipting hitakerfanna hafi ekki verið rétt og borið að greina gagnaðila frá því. Telur gagnaðili því eðlilegt að honum verði skilað sínum eignarhluta með hitalögn eins og þegar hann hafi keypt eignina.

 

III. Forsendur

Um eignarhald á lögnum í fjöleignarhúsum er fjallað í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, en þar segir að undir sameign fjöleignarhúss, sbr. 6. gr. laganna, falli allar lagnir, svo sem fyrir heitt vatn, kalt vatn og skolp, og þjóna sameiginlegum þörfum og þörfum heildarinnar, án tillits til þess hvar þær liggja í húsinu. Jafnan eru líkur fyrir því að lagnir í fjöleignarhúsi séu í sameign allra. Hér er um meginreglu að ræða og ber því samkvæmt almennum lögskýringarreglum að túlka undantekningar frá henni þröngt.

Í málinu er ágreiningur um framkvæmdir við hitalagnir í tveimur geymslum í eigu gagnaðila og í sameiginlegu þvottahúsi. Greinir aðila fyrst og fremst á um hvorum þeirra beri að ráðast í og greiða fyrir umræddar framkvæmdir. Kærunefnd telur í ljósi fyrrgreindrar meginreglu 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 26/1994, sbr. 6. gr. laganna, að lagnir hússins séu í sameign og því séu umræddar framkvæmdir ekki á forræði einstakra eigenda hússins heldur verði að taka ákvarðanir sem þessar, þ.e. um að ráðast í framkvæmdir við lagnir eða viðhald þeirra, á vettvangi húsfélagsins eða á húsfundi, sbr. ákvæði 39. gr. laga nr. 26/1994. Slík ákvörðun verður almennt tekin með einföldum meirihluta miðað við eignarhlutföll, sbr. meginreglu D-liðar 1. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994, og um skiptingu kostnaðar fer eftir meginreglu A-liðar 1. mgr. 45. gr. laganna um hlutfallsskiptan kostnað. Það er því álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðila beri að leggja nýja hitalögn í geymslur sínar í kjallara og hitalögn í þvottahús til móts við hitalögn álitsbeiðanda.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðila beri að leggja nýja hitalögn í geymslur sínar í kjallara og hitalögn í þvottahús til móts við hitalögn álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 25. júní 2003

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson       

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum