Hoppa yfir valmynd
10. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 6/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 10. júní 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við systurdóttur hennar, B, nr. 6/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 12. mars 2015 skaut C hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 3. febrúar 2015, vegna umgengni kæranda við systurdóttur hennar, B, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði hefur B ekki umgengni við kæranda, dætur hennar eða aðra ættingja. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi ekki umgengni við móðursystur sína, A, dætur hennar eða aðra ættingja.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að kærunefnd barnaverndarmála ákveði að fjölskylda stúlkunnar fái umgengni við stúlkuna og leitist við að koma sem mest til móts við kröfur fjölskyldunnar varðandi umgengni.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þess krafist að kæru kæranda verði vísað frá kærunefnd barnarverndarmála sem of seint fram kominni.

Af því tilefni var kæranda veittur andmælaréttur og bárust athugasemdir kæranda með tölvupósti 24. apríl 2015. Þar er því mótmælt að kæran sé of seint fram komin.

I. Helstu málavextir

Stúlkan B er fædd árið X og ólst upp á D til tæplega X ára aldurs. Hún kom til Íslands í fylgd móðurafa síns, E, haustið X og framvísaði hann gögnum um að hann færi með forsjá telpunnar. Kærandi, sem er dóttir E, hefur búið á Íslandi frá árinu X. B og E komu til landsins ásamt dóttur E, F (X ára), barnabarni hans, G (X ára), og H móður kæranda sem er jafnframt amma B og fyrrum eiginkona E.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur 3. febrúar 2015 vegna umgengni hennar við kæranda. Fyrir fundinum lá greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar 19. janúar 2015 ásamt fylgiskjölum. Þar var lagt til að ekki yrði um neina umgengni að ræða. Mætti lögmaður kæranda á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir afstöðu ættingja. Fósturmóðir stúlkunnar mætti einnig á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir afstöðu sinni. Kom fram að hún væri sammála tillögum starfsmanna. Á fundinum var lögð fram skýrsla talsmanns stúlkunnar 1. febrúar 2015 en þar kemur meðal annars fram afstaða stúlkunnar gagnvart umgengni við kæranda en stúlkan kveðst ekki vilja hitta hana.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni var úrskurðað í málinu 3. febrúar 2015, sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í úrskurðarorði kemur fram að úrskurði megi skjóta til kærunefndar barnaverndarmála, sbr. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, innan fjögurra vikna frá því að aðilum er kunnugt um úrskurðinn.

Með ábyrgðarbréfi starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur til lögmanns kæranda 4. febrúar 2015 var lögmanni kæranda send úrskurðarorð barnaverndarnefndarinnar frá 3. febrúar 2015. Kom fram í bréfinu að bókun og úrskurður yrðu send síðar. Var það gert með ábyrgðarbréfi 6. febrúar 2015.

Í kæru kæranda 12. mars 2015 kemur fram að þess sé krafist að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að kærunefnd barnaverndarmála ákveði að fjölskylda stúlkunnar fái umgengni við hana og leitist við að koma sem mest til móts við kröfur fjölskyldunnar varðandi umgengni.

Barnavernd Reykjavíkur telur í athugasemdum til kærunefndarinnar 8. apríl 2015 að ljóst sé að lögmanni kæranda hafi fljótlega eftir 4. febrúar 2015 verið kunnugt um hver niðurstaða nefndarinnar væri. Kæra lögmannsins til kærunefndar barnaverndarmála sé dagsett 12. mars 2015 eða fimm vikum eftir að lögmanninum hafi verið niðurstaða nefndarinnar kunn. Með vísan til þessa og í ljósi þess að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra lögmannsins kom fram, sbr. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, sé þess krafist að kærunni verði vísað frá kærunefnd barnaverndarmála sem of seint fram kominni.

Í tölvupósti sem lögmaður kæranda sendi kærunefnd barnaverndarmála 24. apríl 2015 kemur fram að þess sé krafist að barnaverndarnefnd Reykjavíkur framvísi gögnum um hvenær ábyrgðarbréfið til lögmannsins um úrskurðinn hafi verið móttekið til sönnunar á því að kæran hafi verið send of seint og því mótmælt að svo hafi verið.

Frekari gögn frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur bárust kærunefndinni með tölvupósti 4. júní 2015. Þar er að finna upplýsingar úr móttökubók Barnaverndar Reykjavíkur og viðtökunúmer póstsendingar, ásamt afhendingarskýrslu.

Með tölvupósti 5. júní 2015 voru framkomin gögn send lögmanni kæranda og henni veittur andmælaréttur. Engar frekari athugasemdir bárust frá lögmanninum.

II. Niðurstaða

Í 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga kemur fram að þeir sem umgengni eigi að rækja geti skotið úrskurði samkvæmt greininni til kærunefndar barnaverndarmála. Í 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga kemur fram að aðilar barnaverndarmáls geti skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun.

Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 3. febrúar 2015. Í gögnum málsins eru tvö afrit af bréfum frá Barnavernd Reykjavíkur til lögmanns kæranda. Það fyrra er dagsett 4. febrúar 2015 og segir að meðfylgjandi séu úrskurðarorð vegna máls kæranda. Það síðara er dagsett 6. febrúar 2015 og þar segir að meðfylgjandi sé bókun fundar barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 3. febrúar 2015. Af hálfu kæranda er vísað til þess að barnaverndarnefndinni beri að sanna að kæran hafi komið fram of seint. Þess er jafnfram krafist af hennar hálfu að barnaverndarnefndin framvísi gögnum um það hvenær ábyrgðarbréf til lögmanns hennar um úrskurðinn hafi verið móttekin til sönnunar á því að kæran hafi komið of seint fram. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur skilaði inn gögnum varðandi afhendingu framangreindra bréfa þar sem kemur fram að fyrra bréfið frá 4. febrúar 2015 var afhent lögmanninum og má sjá undirskrift hennar í móttökubók sem þjónustuver Barnaverndar Reykjavíkur notast við. Að sögn starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur var starfsmaðurinn í þann mund að póstleggja bréfið í ábyrgðarpósti þegar hún hitti fyrir lögmann kæranda og kom bréfinu í hendur lögmannsins. Síðara bréfið var póstlagt í ábyrgðarpósti 6. febrúar 2015 og móttekið af lögmanni kæranda 10. febrúar 2015, eins og má ráða af afhendingarskýrslu sem barst kærunefndinni með viðbótargögnum frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur 4. júní 2015. Það er því ljóst að lögmanni kæranda var í síðasta lagi afhent umrætt bréf 10. febrúar 2015 og þar með tilkynnt um hinn kærða úrskurð.

Samkvæmt framangreindu byrjaði kærufrestur að líða 10. febrúar 2015 samkvæmt 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga. Hinum kærða úrskurði var af hálfu kæranda skotið til kærunefndar barnaverndarmála 12. mars 2015. Var þá liðinn fjögurra vikna frestur sem veittur er samkvæmt lagaákvæðinu til að kæra úrskurð barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála. Kæra kæranda telst því of seint fram komin. Með vísan til þess ber að vísa málinu frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

Úrskurðarorð

 

Kæru A vegna systurdóttur hennar, B, er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála sem of seint fram kominni.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Jón R. Kristinsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum