Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 7. janúar 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn B vegna umgengni við dóttur hennar, C, nr. 15/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 1. október 2014 skaut D hdl., fyrir hönd A, úrskurði B frá 18. september 2014, vegna umgengni kæranda við dóttur hennarC, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni C við móður hennar á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 15:00–18:00. Starfsmaður á vegum fjölskyldu- og velferðarnefndar skal sinna eftirliti og stuðningi við A á umgengnistíma. B fer með hlutverk barnaverndarnefndar í þessum sveitarfélögum.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

B ákveður að A, skuli eiga umgengni við barn sitt C á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 15:00-18:00. Starfsmaður á vegum B skal sinna eftirliti og stuðningi við A á umgengnistíma.

 Kærandi krefst þess að eiga umgengni við dóttur sína á föstudögum og sunnudögum klukkan 15:00–18:00. Umgengni fari fram á heimili kæranda. Jafnframt verði umgengni fjórðu hverju helgi á heimili kæranda frá föstudagseftirmiðdegi klukkan 16:00 til klukkan 16:00 á sunnudagseftirmiðdegi.

Af hálfu fósturforeldra stúlkunnar, E og F, kemur fram í tölvupósti 3. desember 2014 að þau telji ekki rétt að auka umgengni stúlkunnar við kæranda.

B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

I. Málavextir

Fram kemur í gögnum málsins að barnaverndaryfirvöld hafi haft afskipti af kæranda frá því að hún gekk með dóttur sína, C, en kærandi átti í vanda vegna neyslu vímuefna og óstöðugleika sem ríkti hjá henni og í umhverfi hennar. Stúlkan fæddist 30. apríl 2013. Aðstæður kæranda þóttu óviðunandi og var stúlkan vistuð utan heimilis á heimili fósturforeldra frá 19. september 2013, en áður höfðu móðir og barn verið vistaðar saman hjá vistunaraðilum. B hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi G og gert þá kröfu að kærandi verði svipt forsjá barnsins.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að umgengni kæranda við barnið hafi verið eftir skriflegu samkomulagi við B frá 21. febrúar 2014 samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Ágreiningur hafi verið um fyrirkomulag umgengninnar og hafi samningur um umgengni verið endurskoðaður einu sinni á tímabilinu. Kærandi hafi ekki sinnt umgengni við barnið frá 21. ágúst 2014 en skriflegur samningur um umgengni hafi runnið út 7. september s.á. Ekki hafi náðst samkomulag um umgengni og hafi kærandi farið fram á að nefndin úrskurði um rétt hennar til umgengni við barnið og fyrirkomulag hennar í samræmi við 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga.

Í gögnum málsins kemur fram að umgengni kæranda við stúlkuna hafi gengið sæmilega eftir að stúlkunni var ráðstafað í fóstur. Kærandi sinni stúlkunni vel og virðist hafa ágætistök á foreldrahlutverkinu þegar komi að því að gæta barnsins og að leika við það. Hins vegar skorti kæranda almennt úthald varðandi foreldrahæfni og forgangsröðun, samanber mætingar í umgengni en þær hafi verið stopular síðustu mánuðina, og það hvernig kærandi kjósi að nýta umgengnistíma með dóttur sinni.

Fram kemur í niðurstöðum forsjármats H sálfræðings 30. apríl 2014 að kærandi er talin hafa ágæta styrkleika og geti að mestu séð um dóttur sína í umgengni og séu þær vel tengdar. Hins vegar hafi kærandi ekki náð þeim þroska sem verði að teljast nægjanlegur til að annast stúlkuna. Kæranda hafi verið boðin töluverð úrræði og stuðningur sem hún hafi lítið nýtt sér frá því að dóttir hennar fæddist. Hún hafi ekki hafið endurhæfingarferli, virtist enn vera í neyslu fíkniefna og sé í alvarlegum deilum og ofbeldissambandi við kærasta sinn. Í forsjárhæfnimatinu kemur einnig fram að kærandi hafi ekki nægjanlega hæfni eða skilning á þörfum dóttur sinnar til að geta tryggt öryggi hennar á eigin heimili.

Í greinargerð B 7. nóvember 2014 segir að kærandi hafi lítið sinnt þeim úrræðum sem henni hafa staðið til boða. Hún hafi fengið þrjá viðtalstíma hjá félagsráðgjafa sínum í október 2014 sem hún hafi ekki mætt í. Hún hafi heldur ekki sinnt úrræðum sem henni hafi staðið til boða hjá J - K. Fram kemur að kærandi hafi mælst hrein af ávanabindandi lyfjum 11. ágúst 2014 samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun L og ekki hafi verið framkvæmt annað próf síðan þá. Hún hafi verið handtekin [...] þar sem hún hafi framvísað meintu fíkniefni til lögreglu. Í greinargerðinni segir einnig að kærandi hafi rækt umgengni tvívegis frá því að hin kærða ákvörðun var tekin 18. september 2014. Umgengni sé tvisvar í viku í þrjár klukkustundir í senn. Kærandi hafi ekki talið tímann henta skipulagi sínu vegna endurhæfingar og hafi ítrekað óskað breytinga. Auk þess hafi hún boðað forföll vegna veikinda og annarra ástæðna. Í gögnum frá félagsráðgjafa G og J kemur fram að kærandi hafi ekki sinnt þeirri endurhæfingu sem vísað er til í kæru, þ.e. námskeið í hugrænni atferlismeðferð og hug og heilsu.

Varðandi eftirlit með umgengninni kemur fram í áðurnefndri greinargerð B að gögn í málinu bendi til þess að það hvernig kærandi kjósi að verja umgengninni miði ekki að þörfum barnsins og að rækta tengsl þeirra. Mikilvægt hafi verið talið að koma á meiri formfestu varðandi umgengni með tilliti til þarfa barnsins, staðsetningar umgengninnar og markmiða. Talið var að kærandi hefði ekki úthald til þess að sinna barninu í lengri tíma og forgangsröðun hennar þótti athugunarverð. Í ljósi þessa var talið nauðsynlegt að eftirlit yrði með umgengninni.

II. Afstaða kæranda

Í kærunni kemur fram að kærandi sé á námskeiði á vegum J - K, en kennsla fari fram mánudaga og fimmtudaga klukkan 13:00–15:00. Þá muni hún auk þess fara á námskeið í hugrænni atferlismeðferð [...], en tímar á því námskeiði verði vikulega klukkan 9:45–11:45. Þrátt fyrir þetta hafi B ákveðið umgengni kæranda við barn sitt sem skarist á við endurhæfingu hennar. Kærandi búi í M en umgengnin hafi alla jafna farið fram á heimili fósturforeldra eða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. B hafi ekkert gert til að koma til móts við kæranda vegna umgengni við barnið, hvorki með samgöngustyrk né með því að umgengni fari fram á heimili kæranda. Kærandi sé ekki með bílpróf og eigi í töluverðum erfiðleikum með að komast á höfuðborgarsvæðið í umgengni. Það sé augljóst að kærandi geti ekki bæði sinnt endurhæfingu sinni og umgengni við barnið með þessum hætti. Kærandi telji tilhögun umgengninnar að öllum líkindum eingöngu gerða til þess að koma í veg fyrir eðlilegt bataferli kæranda og tengslamyndun hennar og barnsins. Af þessum sökum sé nauðsynlegt að kveða á um umgengni sem henti kæranda. Það sé ekki ásættanlegt að barnaverndaryfirvöld beiti valdi sínu með þessum hætti til þess að styrkja stöðu sína í því forsjársviptingarmáli sem nú sé rekið fyrir dómstólum. Telji kærandi blasa við að kærunefnd barnaverndarmála þurfi að breyta umgengnistímum svo þeir henti aðstæðum kæranda betur.

Kærandi sé ekki í endurhæfingu á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og leggi því til að umgengni verði klukkan 15:00–18:00 á föstudögum og sunnudögum. Hún telji jafnframt aðra tíma frá föstudegi til sunnudags koma til greina henti þeir barnaverndaryfirvöldum eða fósturforeldrum betur. Kærandi hafi bent barnaverndaryfirvöldum í M á þá rökvillu sem felist í hinum kærða úrskurði, en stjórnvaldið vilji að umgengni verði á þeim tíma þegar kæranda sé ómögulegt að sinna bæði umgengni og endurhæfingu sinni. Það sé nauðsynlegt að kærunefnd barnaverndarmála grípi hér inn í, kæranda og barninu til heilla.

Kærandi telji einnig að henni beri að fá reglulega helgarumgengni við barnið. Ekkert bendi til þess að hún geti ekki séð um barnið til skamms tíma. Hún tengist barninu vel, geti séð um það til skamms tíma án vandamála, hún hafi verið laus við fíkniefni í að verða ár og því engin áhætta fólgin í því að hún fái viðameiri umgengni en verið hafi. Það sé í samræmi við niðurstöðu matsmanns og ummæli félagsráðgjafans N sem hafi sinnt eftirliti með umgengni. Kærandi telji hæfilegt að helgarumgengni verði fjórðu hverja helgi og einnig mætti reyna helgarumgengni til reynslu í einhvern tíma sem yrði síðan endurskoðuð með tilliti til þess hvernig gengi. Kærandi telji nauðsynlegt að hún fái tækifæri til þess að sýna fram á að hún sé tilbúin til þess að vera með barnið lengur en í 2–3 klukkustundir.

Að mati kæranda er það ekki rökstutt í hinum kærða úrskurði hvers vegna þörf sé á eftirliti með umgengninni. Hún telji fráleitt að hafa slíkt eftirlit miðað við stöðu hennar en hún hafi verið í stöðugu bataferli frá haustmánuðum 2013, hafi verið vímuefnalaus í langan tíma og ekkert sem bendi til þess að eftirlit sé nauðsynlegt í málinu. Hún telji einnig að í þessu sambandi hafi B ekki starfað í samræmi við 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem fram komi að ávallt skuli beita vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Ekki skuli beita svo íþyngjandi úrræði þegar ekkert bendi til þess að hagsmunir barnsins skaðist við það að eftirliti sé sleppt.

Kærandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 74. gr. a barnaverndarlaga skuli ávallt kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið er frá samningi eða kveðinn er upp úrskurður um umgengni. Ekki liggi fyrir að þetta hafi verið gert í máli þessu. Telji kærandi að það skuli valda ógildingu hins kærða úrskurðar telji kærunefnd barnaverndarmála ekki efni til þess að breyta úrskurðinum í samræmi við hennar málflutning.

Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð B í máli þessu. Bendir hún meðal annars á að ekki sé að finna rökstuðning af nokkru tagi fyrir niðurstöðunni heldur fyrst og fremst einhvers konar ályktanir um hvað B telji rétt. Telji kærandi úrskurðinn ekki uppfylla þær kröfur sem fram komi í 49. gr. barnaverndarlaga, þar sem rökstuðning skorti algjörlega.

Loks gerir kærandi athugasemdir við það að hún hafi aldrei fengið aðgang að stórum hluta gagna málsins þrátt fyrir ítrekaðar óskir þess efnis. Til að mynda sé vísað til skýrslu fósturforeldra í úrskurðinum sem kærandi hafi aldrei fengið aðgang að og sé ekki hluti af gögnum málsins. Þá vísi H sálfræðingur í forsjárhæfnimati sínu til fjölda gagna sem hann hafi verið með við gerð matsins en kærandi hafi ekki fengið aðgang að nema að litlum hluta. Með þessu hafi velferðarnefndin brotið í bága við andmælarétt kæranda, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga og 13. gr. stjórnsýslulaga.

III. Afstaða B

Í greinargerð B 7. nóvember 2014 til kærunefndar barnaverndarmála kemur fram að samkomulag hafi verið við kæranda um fyrirkomulag umgengni frá því að umgengni hafi hafist. Það hafi verið mat starfsmanna og fósturforeldra sökum ungs aldurs barnsins að regluleg umgengni í heimabyggð kæranda skapaði álag fyrir barnið. Mikilvægt þætti að umgengnin hefði jákvæð áhrif á barnið og miðaði að þörfum þess og þroska. Þar sem umgengni ætti sér stað í skemmri tíma væri talið heillavænlegast að umgengnin ætti sér stað í nærumhverfi barnsins, meðal annars sökum fjarlægðar heimilis kæranda. Fram kemur að ekkert í gögnum málsins sýni fram á að umgengni kæranda við barnið komi í veg fyrir að hún geti hafið ferli endurhæfingar. Kærandi hafi rækt umgengni tvívegis frá því að ákvörðun um hana hafi verið tekin 18. september 2014. Kærandi hafi ekki talið tímann henta skipulagi sínu vegna endurhæfingar og hafi hún ítrekað óskað breytinga. Auk þess hafi hún boðað forföll vegna veikinda og annarra ástæðna. Fram komi í gögnum frá félagsráðgjafa G og J að kærandi hafi ekki sinnt þeirri endurhæfingu sem vísað sé til í kæru, þ.e. námskeiði í hugrænni atferlismeðferð og hug og heilsu.

Bent er á að forsjárhæfnismat H sé afgerandi um að kærandi hafi ekki hæfni eða skilning á þörfum dóttur sinnar til að geta tryggt öryggi hennar á eigin heimili. Samkvæmt gögnum frá lögreglu sé kærandi enn í átakasambandi við fyrrverandi og núverandi sambýlismenn sína sem tengist innbyrðis. Þá hafi komið til átaka á milli allra þessara einstaklinga. Jafnframt liggi fyrir grunur um neyslu og/eða meðferð fíkniefna. B meti það þannig að það sé áhættusamt að fela kæranda umgengni barns hennar yfir nótt og yfir lengri tíma í senn.

Varðandi eftirlit með umgengninni kemur fram að starfsmenn hafi sinnt eftirliti og stuðningi við kæranda og fósturforeldra í umgengninni. Samstarf kæranda og fósturforeldra hafi gengið vel og því hafi ekki lengur verið talin þörf á eftirliti og stuðningi starfsmanna í umgengni. Hafi þetta verið í samráði við kæranda. Síðar hafi borið á samskiptavanda milli kæranda og fósturforeldra. Kærandi hafi talið stuðning við fósturforeldra íþyngjandi og hafi hún óskað eftir því að hafa umgengnina utan fósturheimilis. Í kjölfar þess hafi kærandi valið að hafa umgengnina í sérrými á fósturheimilinu eða utan heimilisins með stuðningsaðila. Fram kemur að það hvernig kærandi hafi valið að verja umgengnistímanum hafi ekki miðað að þörfum barnsins og að rækta tengsl þeirra. Hafi því verið talið mikilvægt að formfesta umgengnina betur með tilliti til þarfa barnsins. Bendi gögn í málinu til þess að kærandi geti ekki sinnt barninu í lengri tíma og hafi verið áhyggjur af úthaldi hennar og forgangsröðun. B hafi talið að kærandi væri ekki fær um að rækja forsjárskyldur sínar og því farið fram á forsjársviptingu. Í því ljósi væri mikilvægt að umgengnin fari fram undir eftirliti og stuðningur veittur á sama tíma.

Í greinargerðinni segir að starfsmaður B hafi kynnt viðhorf fósturforeldra til umgengninnar fyrir lögmanni kæranda með símtali sama dag og tillögur starfsmanna um umgengni hafi legið fyrir eða 17. september 2014. Fósturforeldrar hafi greint frá áhyggjum sínum af forgangsröðun kæranda, hvernig hún veldi að verja umgengnistíma sínum, þeim aðilum sem kærandi umgengist meðan á umgengni standi og einnig úthaldi kæranda.

Varðandi meðferð málsins er tekið fram að ekki hafi náðst samkomulag við kæranda um umgengnina og hafi því verið ákveðið að kveða upp úrskurð um það. Hafi starfsmaður nefndarinnar farið yfir tillögur sínar sem og viðhorf fósturforeldra munnlega við lögmann kæranda 17. september 2014 fyrir úrskurðarfundinn, þar sem óskað hafi verið eftir úrskurði sem allra fyrst. Hafi starfsmaðurinn lagt fram drög að umgengnissamningi ásamt tillögum kæranda. Því er mótmælt að kærandi hafi ekki fengið aðgang að öllum gögnum málsins.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra C, þeirra E og F, sem barst kærunefnd barnaverndarmála 3. desember 2014, kemur fram að kærandi hafi mætt ágætlega í umgengni frá mars 2014 þar til um mitt sumar 2014. Þá hafi eitt og eitt skipti farið að detta út og hafi komið fyrir að hún hafi ekki mætt í heila viku í einu. Eftir tillögu nefndarinnar um að svipta kæranda forsjá stúlkunnar 29. ágúst 2014 hafi hún mætt í fjögur skipti í umgengnina. Umgengnin hafi farið fram á heimili fósturforeldra að öllu jöfnu og hafi félagsráðgjafi verið eftirlitsaðili með umgengninni. Kærandi hafi þó mátt fara út af heimili fósturforeldranna með barnið ásamt félagsráðgjafanum. Enn fremur hafi verið í boði að hafa umgengni í safnaðarheimili O og hafi kærandi nýtt sér það í tvö skipti af þeim fjórum sem hún hafi komið eftir að úrskurður um umgengni hafi verið kveðinn upp. Hin tvö skiptin hafi farið fram á heimili fósturforeldra. Þegar umgengni hafi verið tvisvar sinnum í viku í tvo tíma í senn hafi kærandi farið mikið út með stúlkuna. Tekið er fram að þegar kærandi hafi óskað eftir því að fara eitthvert með barnið hafi það alltaf verið á hennar forsendum. Hún hafi aldrei virst hugsa út í þarfir barnsins og hvað barninu hentaði best. Kæranda hafi langað í bakarí, kaffihús eða út að borða, í P og svo framvegis. Þá hafi kærandi sýnt skort á skilningi á þörfum barnsins og aðstæðum þegar hún hafi ítrekað sagt fyrir umgengni að hún ætlaði með barnið í sund en það hafi þá verið lasið og hún hafi síðan ekkert spurt um heilsu þess. Hún hafi ekki mætt í þessar umgengnir. Kærandi hafi einnig tekið þriðja aðila með sér í umgengni þrátt fyrir að vita að það sé ekki í boði.

Varðandi þær kröfur kæranda að hafa umgengnina á hennar heimili telji fósturforeldrar það engan veginn þjóna hagsmunum stúlkunnar. Kærandi virtist vera að krefjast þess að vera með stúlkuna án eftirlits. Afstaða fósturforeldranna sé sú að í fyrsta lagi búi kærandi við ótryggar aðstæður þar sem ekki sé vitað hvar aðsetur hennar sé nú. Hún búi með manni sem að hennar sögn sé ofbeldisfullur og eigi mjög erfitt með að hemja skap sitt og eigi sér langa sögu um fíkniefnaneyslu. Þar áður hafi hún búið með manni sem hafi lagt hendur á kæranda. Í öðru lagi sé fósturheimilið eina heimilið sem stúlkan þekki og sé örugg á. Stúlkan átti sig ekki alltaf á aðstæðum í umgengninni og þá sé gott að geta leitað til fósturforeldra ef eitthvað bjátar á. Í þriðja lagi sé það skoðun fósturforeldra að ekki eigi að auka við umgengnina miðað við þann farveg sem málið sé í. Verði í því tilliti að horfa til markmiðs umgengninnar í ljósi þess að um kröfu um forsjársviptingu sé að ræða. Þau séu sammála því að umgengin sé tvisvar í viku meðan málið bíði dóms en ekki eigi að auka við hana. Markmiðið sé ekki lengur að tengja kæranda og stúlkuna saman heldur eigi hún rétt á að hitta kæranda og vita af henni. Það að kærandi fari fram á að fá barnið á heimili sitt yfir heila helgi sé engan veginn ásættanlegt og myndi að mati fósturforeldranna stefna velferð og heilsu stúlkunnar í hættu. Vísi þau þá til þess sem fram hafi komið um ótraustar heimilisaðstæður kæranda. Þá hafi kærandi heldur aldrei, fyrir utan e.t.v. fyrstu tvo mánuði í lífi barnsins, haft það í sinni umsjá. Hún hafi þá búið sjálf ásamt barninu hjá fósturfjölskyldu þannig að sú umsjá hafi verið með stuðningi. Kærandi hafi heldur ekki sýnt þá staðfestu að sinna þeirri umgengni sem nú sé kveðið á um þannig að ætla megi að hún geti hugsað um barnið ein yfir heila helgi, fjórðu hverja helgi.

Af hálfu fósturforeldra er tekið fram að enginn sérstakur samningur sé við móðurömmu stúlkunnar en góð samskipti séu milli hennar og fósturforeldra. Móðuramman hringi nokkrum sinnum í viku til þess að fá fréttir. Hún komi einnig í heimsóknir á heimili fósturforeldra og öfugt. Hafi þær heimsóknir verið að jafnaði tvisvar í mánuði frá því að stúlkan hafi komið í fóstur 1. nóvember 2013.

Samandregið sé afstaða fósturforeldranna sú að krafa kæranda sé algjörlega úr takti við málið þar sem það sé statt í dag. Enn fremur miðað við það að kærandi hafi ekki getað sinnt umgengni tvisvar í viku af staðfestu þá eigi ekki að auka hana. Hagsmunum stúlkunnar yrði ekki þjónað með slíkri breytingu á umgengni og myndi að mati fósturforeldra stefna velferð og heilsu hennar verulega í hættu miðað við þær aðstæður sem kærandi búi við og hafi í lífi sínu.

V. Niðurstaða

B hefur gert kröfu fyrir Héraðsdómi G þess efnis að kærandi verði svipt forsjá dóttur sinnar, C, þar sem ekki er talið að kærandi sé fær um að rækja forsjárskyldur sínar. Stúlkan hefur verið í fóstri á vegum nefndarinnar frá júlí 2013. Umgengni kæranda við stúlkuna var í fyrstu samkvæmt samkomulagi en eftir að það rann út óskaði kærandi eftir því að úrskurðað yrði um umgengnina og var það gert 18. september 2014. Þar var ákveðið að umgengnin yrði á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 15:00–18:00. Starfsmaður á vegum B skyldi sinna eftirliti og stuðningi á umgengnistíma.

Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þegar barni er ráðstafað í fóstur. Skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Náist samkomulag gerir barnaverndarnefnd skriflegan samning við þá sem umgengni eiga að rækja. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndar­nefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt 2. mgr. 49. gr. barnaverndarlaga skal úrskurður barnaverndarnefndar vera skriflegur og rökstuddur. Þar skal rekja málavexti og greina forsendur og niðurstöður. Um efni rökstuðnings segir í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati skuli í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar skal í rökstuðningi, þar sem ástæða er til, rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Samkvæmt því sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var hann kveðinn upp í tilefni af því að kærandi gerði kröfu um að B úrskurðaði um rétt hennar til umgengni við barn hennar og um fyrirkomulag umgengninnar samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Eins og að framan greinir rann samningur um umgengni út 7. september 2014 og ekki hafði náðst samkomulag um umgengnina eftir það.

Í niðurstöðukafla hins kærða úrskurðar kemur fram að B telji ekki rétt að koma í veg fyrir umgengni að svo stöddu, þrátt fyrir ákvörðun nefndarinnar um að krefjast þess fyrir dómi að kærandi verði svipt forsjá stúlkunnar, enda liggi niðurstaða dómsins ekki fyrir. Umgengni kæranda við stúlkuna er ákveðin í úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar án þess að fram komi röksemdir fyrir þeirri ákvörðun í úrskurðinum. Enn fremur kemur fram í úrskurðarorðunum að starfsmaður á vegum B skuli sinna eftirliti og stuðningi við kæranda á umgengnistímanum. Í hinum kærða úrskurði koma ekki fram með beinum hætti röksemdir fyrir þessu en í niðurstöðukafla úrskurðarins segir að nefndin ákveði að fela sérfræðingi á vegum nefndarinnar að sinna eftirliti með umgengninni til að tryggja að hún taki mið af þörfum og hagsmunum barnsins. Í úrskurðinum eru þarfir og hagsmunir barnsins ekki skilgreindir þrátt fyrir að fyrir liggi ítarlegar skýrslur sálfræðings um forsjárhæfni kæranda, umgengni og tengsl mæðgnanna og greinargerðir félagsráðgjafa, barnaverndar og eftirlitsaðila um aðstæður barnsins, kæranda og umgengni. Samkvæmt þeirri grundvallarreglu sem fram kemur í 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best þegar afstaða er tekin til umgengnis barns í fóstri við foreldra. Þrátt fyrir það er sjónarmiðum sem að þessu lúta og þar hljóta að hafa skipt máli ekkert lýst í hinum kærða úrskurði. Málavextir eru heldur ekki raktir með fullnægjandi hætti í úrskurðinum.

Með vísan til alls þessa verður að telja að hinn kærði úrskurður sé ekki í samræmi við framangreindar reglur í 2. mgr. 49. gr. barnaverndarlaga og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Þá er í hinum kærða úrskurði vísað til skýrslu fósturforeldra og sérfræðings sem veitt hafi kæranda stuðning í umgengni, en samkvæmt henni hafi umgengni verið ábótavant af hálfu kæranda. Skýrslan er ekki meðal gagna málsins. Af hálfu kæranda er vísað til þess að ágalli þessi eigi að valda ógildingu úrskurðarins en samkvæmt 1. mgr. 74. gr. a barnaverndarlaga skuli ávallt kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið er frá samningi eða kveðinn er upp úrskurður um umgengni. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn er málið varða og koma til álita við úrlausn þess. Telja verður að ágalli hafi verið að þessu leyti á málsmeðferð fjölskyldu- og velferðarnefndar í máli kæranda.

Þar sem málsmeðferð og úrlausn B samkvæmt hinum kærða úrskurði var ekki í samræmi við framangreindar lagareglur ber að fella úrskurðinn úr gildi.

Krafa kæranda fyrir kærunefndinni er eins og að framan greinir að hún eigi umgengni við dóttur sína á föstudögum og sunnudögum klukkan 15:00–18:00. Umgengni fari fram á heimili kæranda. Jafnframt verði umgengni fjórðu hverju helgi á heimili kæranda frá föstudagseftirmiðdegi klukkan 16:00 til klukkan 16:00 á sunnudagseftirmiðdegi. Þar sem B hefur ekki fjallað um þessa kröfu kæranda ber samkvæmt 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga að vísa málinu til meðferðar B að nýju.

 

Úrskurðarorð

Úrskurður B um umgengni A við dóttur sína, C, er felldur úr gildi og málinu vísað til B að nýju.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Jón R. Kristinsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum