Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2013

 Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Föstudaginn 11. apríl 2014 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 28/2013, A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Málið varðar umgengni kæranda við dóttur sína, B. Upp var kveðinn svofelldur

  Ú R S K U R Ð U R:

 

Með bréfi 13. desember 2013 kærði C hdl., fyrir hönd A, úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 10. desember 2013 varðandi umgengni kæranda við dóttur sína, B. Ákvörðunin er svohljóðandi:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við móður sína, A, ..................‟

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður varðandi umgengni hennar við B verði úr gildi felldur og til vara að barnaverndarnefnd Reykjavíkur verði falið að taka málið aftur til meðferðar. Í stjórnsýslukæru eru kröfur kæranda um aukna umgengni ítrekaðar og er þess krafist að einungis verði tekið mið af hagsmunum B við ákvarðanatöku í málinu. Nauðsynlegt sé að rökstyðja betur niðurstöður barnaverndaryfirvalda. Rökstuðningur virðist til málamynda og ekkert sem bendi til annars en að fella eigi úrskurðinn úr gildi eða eftir atvikum fela barnaverndarnefnd að taka málið aftur til meðferðar. Í athugasemdum kæranda 14. febrúar 2014 kemur fram að kærandi leggi höfuðáherslu á að umgengni verði breytt á sunnudögum þannig að hún verði með sama hætti og á laugardögum.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er krafist staðfestingar á hinum kærða úrskurði.


 I Málsmeðferð fyrir kærunefnd barnaverndarmála

 Kæra kæranda barst kærunefnd barnaverndarmála 23. desember 2013. Kærunefndin sendi Barnavernd Reykjavíkur kæruna með bréfi 3. janúar 2014 og óskaði jafnframt eftir greinargerð fyrir 17. janúar 2014. Greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur er dagsett 16. janúar 2014 og barst 17. janúar 2014 ásamt frekari gögnum. Lögmanni kæranda, C hdl., var sent afrit af greinargerðinni með bréfi 24. janúar 2014, og honum gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri. Þann 18. febrúar 2014 bárust athugasemdir lögmanns kæranda frá 14. febrúar s.á.

Kærunefnd barnaverndarmála óskaði eftir afstöðu talsmanns B, E hdl., en hún var skipuð talsmaður stúlkunnar með bréfi 13. mars 2013. Talsmaðurinn hefur ekki orðið við því en ítarleg skýrsla frá honum frá 6. desember sl. er meðal gagna málsins sem lögð var fram á fundi barnaverndarnefndar 10. desember sl.

………………

 Mál kæranda vegna umgengni hennar við dóttur sína, B, hefur áður verið til meðferðar hjá kærunefnd barnaverndarmála. Kveðinn var upp úrskurður um umgengni kæranda við B 19. júní 2013. Gögn þess máls eru enn fremur meðal gagna þessa máls.

 

II Helstu málavextir

 Mál þetta varðar barnaverndarmál A vegna dóttur hennar, B…….B var tekin úr umsjón kæranda af K yfirvöldum í janúar 2012. Við komu til Íslands í ágúst 2012 var B vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur úrskurðaði 30. október 2012 um vistun allra ........utan heimilis í allt að tvo mánuði, sbr. b lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur um vistun ........utan heimilis í alls sex mánuði eða til 30. apríl 2013. Hæstiréttur Íslands staðfesti úrskurð héraðsdóms 22. janúar 2013.

Eftir komu kæranda til landsins í ágústbyrjun 2012 hafði hún umgengni við B fimm daga vikunnar í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti af hálfu Barnaverndar. Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 18. september 2012 var fjallað um umgengnina. Ekki var fallist á kröfur kæranda um að umgengnin yrði ótakmörkuð. Samkomulag náðist um að umgengnin yrði daglega á tilteknum tímum og færi fram í .... Umgengnin yrði án eftirlits starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur en að heilbrigðisstarfsmaður yrði ávallt viðstaddur. Umgengnissamningur við kæranda var undirritaður 2. október 2012.

Yfirlit barst Barnavernd Reykjavíkur frá .... 12. desember 2012 yfir þann tíma sem kæranda hafði komið í umgengni þangað. Frá 19. nóvember til 9. desember 2012 hafði kærandi hvorki nýtt sér umgengni að fullu né kom hún á réttum tíma í umgengnina, þ.e. hún kom þegar henni hentaði. Helgina 1. og 2. desember 2012 fór kærandi með B út af …. og í annað skiptið var enginn fylgdarmaður með.

Kærandi óskaði rýmri umgengni yfir jól og áramót 2012 og náðist samkomulag um þá umgengni á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 11. desember 2012. Barnavernd Reykjavíkur stóð ekki að fullu við gert samkomulag um umgengni yfir hátíðirnar, þar sem ekki tókst að manna umgengnina með þeim hætti sem þurfti. Umgengnin gekk vel á jóladag og annan í jólum, en síður þann tíma sem eftir lifði jól og áramót, þar sem kærandi mætti ítrekað ekki á tilsettum tímum, eins og fram kemur í gögnum málsins.

Í byrjun árs 2013 komu fram upplýsingar frá ...... um að vandamál væru í sambandi við umgengni kæranda við B. Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur um umgengni kæranda við stúlkuna var kveðinn upp 5. febrúar 2013. Úrskurðinum var skotið til kærunefndar barnaverndarmála sem kvað upp úrskurð í málinu 19. júní sama ár þar sem úrskurður barnaverndarnefndarinnar var staðfestur. 

Kærandi samþykkti vistun B utan heimilis í eitt ár í D á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 30. apríl 2013. Stúlkan flutti í D í júlí 2013. Kærandi dró samþykki sitt til baka í september 2013. Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 1. október 2013 var lögð fram tillaga um að kæranda afsalaði sér forsjár stúlkunnar en hún hafnaði því og var þá úrskurðað um áframhaldandi vistun stúlkunnar utan heimilis á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga. Jafnframt var ákveðið að fela borgarlögmanni að gera þá kröfu fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá B samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.

Gerður var samningur um umgengni kæranda við B 29. ágúst 2013. Samkvæmt honum hafði kærandi umgengni við stúlkuna .......

Með bréfi lögmanns kæranda 14. október 2013 barst beiðni um að fyrirkomulagi umgengni yrði breytt og hún aukin lítillega en yrði auk þess sveigjanlegri.

Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 18. nóvember 2013 var málið tekið fyrir og bókað að kærandi óskaði eftir sveigjanlegri og rýmri umgengni og enn fremur óskaði hún eftir rúmri umgengni um jólin. Þá óskaði kærandi eftir ótakmarkaðri umgengni meðan B væri á sjúkrahúsi vegna aðgerðar ....... Á fundinum voru lagðar fram tillögur um umgengnina.

Í greinargerð kæranda 9. desember 2013 kemur fram að hún krefjist þess að umgengni verði .........., en heimild til þess að breyta umgengnistímum í samráði við D geti kærandi ekki rækt umgengni á umræddum umgengnistíma. Auk þess hafi kærandi heimild til þess að fara einu sinni í viku virka daga með B út af D. Kærandi óskaði þess að umgengni .................. Þá gerði kærandi ítarlegar kröfur um umgengni hennar við B um jól og áramót.

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur 9. desember 2013 kemur fram að starfsmaður nefndarinnar hafi fundað með starfsmönnum D 21. nóvember 2013. Fram hafi komið að kærandi virti ekki umgengnissamning sem hún gerði við Barnavernd Reykjavíkur…..

Í bréfi M-skóla 20. nóvember 2013 kemur fram að kærandi heimsæki B í skólann u.þ.b. ...... B hafi liðið ágætlega í skólanum en þó komi dagar inn á milli þar sem hún sé döpur þegar kærandi komi og virðist ekki líða vel.

Í gögnum málsins kemur fram að eftir að hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur var kveðinn upp 10. desember 2013 hafi umgengi kæranda við dóttur sína ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Kærandi kæmi ekki á réttum tíma í umgengni á virkum dögum og þá hafi hún verið erfið og fjandsamleg í samskiptum við starfsmenn D í desember. Kærandi mótmælir því ekki alfarið að hún hafi ekki farið að fullu eftir úrskurði barnaverndarnefndar en telur að um smávægileg atriði sé að ræða. Fram kemur að umgengni kæranda við dóttur sína um jól og áramót hafi að flestu leyti gengið vel út frá stúlkunni og hafi tímasetningar verið virtar.  

Reykjavíkurborg hefur krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að kærandi verði svipt forsjá stúlkunnar en dómur í málinu hefur ekki enn fallið þegar úrskurður þessi er upp kveðinn.

 

III B

 B er……..


IV Sjónarmið kæranda

 Af hálfu kæranda er vísað til þess að með bréfi 14. október 2013 hafi kærandi óskað eftir aukinni umgengni við B. Kærandi hafi lagt til að umgengni yrði aukin hóflega um helgar. Barninu líði vel í umgengni um helgar og hafi kærandi nýtt þá umgengni að fullu án undantekninga. Þessu hafi verið hafnað af hálfu barna­verndarnefndarinnar og lagðar til breytingar sem kærandi hafi ekki samþykkt. Málið hafi því verið lagt fyrir barnaverndarnefndina 10. desember 2013.

Kærandi byggir á því að hinn kærði úrskurður sé andstæður 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, hagsmunum B og sjónarmiðum um meðalhóf. Hún telur að ekkert í rökstuðningi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur í greinargerð sinni eða í rökstuðningi barnaverndarnefndar Reykjavíkur útskýri hvers vegna aukin umgengni kæranda við B sé andstæð hagsmunum hennar. Umgengni um helgar gangi vel samkvæmt öllum sem komi að umgengninni, ............og séu starfsmenn D sammála um það. ….Engar röksemdir séu því fyrir því að hún geti ekki aukið umgengni lítillega á þeim tíma þegar auðvelt er að rækja umgengni á sunnudögum…. Til þess verði að líta að B sé ekki með veruleg persónuleg tengsl við aðra en kæranda og …og litlar líkur á að hún muni mynda slík tengsl við aðra í ljósi þess að hún sé vistuð á stofnun sem sé með verulega starfsmannaveltu.

…..

Varðandi þá litlu umgengni sem kærandi hafi fengið yfir jól og áramót telji kærandi sömu sjónarmið eiga við. Það sé órökstutt af hverju ekki sé veitt meiri umgengni…..

Hvað varði kröfur barnaverndaryfirvalda um að til staðar sé starfsmaður sem fáist til að fylgja með í umgengnina sé það að segja að frumkvæði þess að starfsmaður frá ….hafi verið með í umgengni á laugardögum hafi komið frá kæranda. Ekkert eftirlit sé með umgengni kæranda og gegni umræddur starfsmaður ekki slíku hlutverki. Ef kærandi hefði ekki sérstaklega óskað eftir því að fá aðstoðarmann á laugardögum hefði hann aldrei verið með. Það sé nýtilkomin krafa að slíkur aðstoðarmaður sé forsenda fyrir umgengni og óskiljanlegt að slík krafa sé gerð á þeim tíma þar sem kærandi hafi hvað besta möguleika til þess að fá stuðning frá sínum nánustu, yfir jólahátíðina. Kærandi telji ekkert benda til þess að dvöl yfir nótt hjá kæranda geti talist að einhverju leyti gegn hagsmunum barnsins. Alvanalegt sé að börn í fóstri utan heimilis fái að fara til kynforeldra sinna um jólahátíðina og þá yfir nótt. Ekki eigi að meina B slíka samveru með málamyndarökstuðningi barnaverndaryfirvalda.

Ákvörðun barnaverndarnefndar gangi gegn hagsmunum barnsins, niðurstaða stjórnvaldsins sé órökstudd og óskiljanlegt hvers vegna ekki sé gengið að hluta eða öllu leyti að kröfum kæranda sem hafi verið hóflegar og skynsamlegar í ljósi þess hvernig staða málsins sé í dag.

Í athugasemdum lögmanns kæranda við greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 14. febrúar 2014, er ítrekað að kærandi leggi höfuðáherslu á að umgengni á sunnudögum verði með sama hætti og umgengni á laugardögum. Hafi sú umgengni gengið vel og hafi kærandi fullnýtt hana samkvæmt greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Ekki sé rökstutt í greinargerð Barnaverndar með hvaða hætti aukin umgengni sé gegn hagsmunum barnsins sem um ræði. Það að einhver vandamál hafi verið gagnvart starfsmönnum D undanfarið geti ekki haft nein áhrif á það mat, enda starfsmenn D ekki viðstaddir þá umgengni sem fram fari utan D.

Kærandi nefnir að geðtengsl kæranda og B séu verulega mikil og sé kærandi í raun sú eina sem hafi myndað veruleg tengsl við barnið, hugsanlega fyrir utan….. Hagsmunir barnsins standi til þess að hún eyði verulegum tíma með kæranda og …..

Varðandi staðhæfingar í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur mótmælir kærandi því að hún sé fjandsamleg gagnvart starfsmönnum D eða beiti þá andlegu ofbeldi. Kærandi mótmælir því að hún mæti sjaldan á réttum tíma í umgengni. Í janúarmánuði hafi hafist matsvinna við dómkvatt mat í forsjársviptingarmáli því sem Reykjavíkurborg reki gegn kæranda. Í undantekningartilvikum hafi hún þurft að hitta matsmenn á þeim tíma þegar hún eigi umgengni við B og því hafi hún ekki getað nýtt allan umgengnistímann.

 

V Sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur

……..

Fram kemur að ekki hafi náðst samkomulag á fundinum 10. desember 2013 um fyrirkomulag umgengninnar um jól og áramót eða reglulega umgengni og hafi málið því verið tekið til úrskurðar. Hafi niðurstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur verið að það þjóni hagsmunum B að eiga góða umgengni við móður sína. Nauðsynlegt sé að mikil regla sé á umgengni við stúlkuna, það sé til þess fallið að veita B öryggi og festu sem dragi úr óvissu og stuðli að betri andlegri líðan hennar. Með tilliti til málsins í heild hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að hæfilegt væri að B hefði umgengni við kæranda með þeim hætti sem tillögur í greinargerð starfsmanna geri ráð fyrir, þó með þeirri aukningu að umgengni yrði einnig heimil á heimili kæranda á afmælisdegi B … í allt að þrjár klukkustundir. Í bókun barnaverndarnefndar og úrskurði komi enn fremur fram að skilyrði fyrir umgengni um jól sé að kærandi tryggi að stuðningur sé við umönnun stúlkunnar á heimili kæranda, fáist ekki starfsmaður til að sinna stuðningi yfir hátíðar af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur. Sé það í samræmi við það sem fram hafi komið hjá kæranda að hún hefði stuðning fjölskyldu sinnar yfir jólin. Að sögn starfsmanna barnaverndarnefndar hafi umgengni um jól og áramót að mestu leyti gengið vel út frá stúlkunni og hafi tímasetningar verið virtar.

……

VI Niðurstaða

 Mál þetta lýtur að kröfu kæranda um rýmri umgengni við dóttur sína en hinn kærði úrskurður kveður á um. B er .....fötluð .....gömul stúlka sem þarfnast aðstoðar við flestar athafnir daglegs lífs. Hún dvelur á D eins og þegar hefur fram komið.

 Umgengnin er samkvæmt hinum kærða úrskurði …..Í hinum kærða úrskurði var enn fremur tíundað ítarlega með hvaða hætti umgengni um jól og áramót ætti að vera.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að kærandi krefjist þess að umgengnin verði …..Í kæru er á því byggt að hinn kærði úrskurður sé andstæður 74. gr. barnaverndarlaga, hagsmunum B og sjónarmiðum um meðalhóf. Niðurstaða stjórnvaldsins sé órökstudd og óskiljanlegt hvers vegna ekki sé gengið að hluta eða öllu leyti að kröfum kæranda sem séu hóflegar og skynsamlegar í ljósi þess hvernig staða máls þessa sé í dag. 

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn rétt á umgengni við kynforeldra og kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Við mat á því hvað teljist hæfileg umgengni ber meðal annars að líta til þess hversu lengi vistun er ætlað að vara, til aldurs barnsins og þess hvort ástæða sé til þess að ætla að umgengni geti á einhvern hátt raskað stöðugleika og jafnvægi barnsins.

Af hálfu kæranda er byggt á því að rök skorti fyrir því að telja það vera andstætt hagsmunum barnsins að auka umgengni á sunnudögum en þeirri kröfu kæranda hafi verið hafnað með hinum kærða úrskurði. Í bréfi lögmanns kæranda 14. febrúar 2014 kemur fram að kærandi leggi höfuðáherslu á að umgengni á sunnudögum verði með sama hætti og umgengni á laugardögum.

Í úrskurði kærunefndar barnaverndarmála frá 19. júní 2013 kemur meðal annars fram að það sé samdóma álit barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sérfræðinga sem hafi komið að málinu, móður og talsmanns barnsins að barnið hafi þörf fyrir tengsl við móður. ….veikindi B kalli á samvinnu margra aðila og þurfi að vera sameiginlegt verkefni þeirra sem annist hana. Þessi samskipti þurfi að einkennast af jafnvægi, ró og stöðugleika. Í úrskurðinum var talið að kærandi hefði fram að úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 5. febrúar 2013 rækt umgengnina stopult og stofnað til síendurtekinna og alvarlegra samskiptaörðugleika við umönnunaraðila B. Kærunefnd barnaverndarmála komst að þeirri niðurstöðu að til þess að verja hagsmuni barnsins og varna því að alvarlega veikt barn þyrfti að búa við andlegt álag og streitu af völdum samskiptaörðugleika fullorðinna hafi nauðsyn borið til að takmarka umgengni eins og gert var. Með vísan til þessa staðfesti kærunefnd barnaverndarmála þann úrskurð sem barnaverndarnefnd Reykjavíkur kvað upp 5. febrúar 2013 um umgengni kæranda við B og kærður var 12. mars sama ár til kærunefndarinnar.  

 Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga getur kærunefnd barnaverndarmála metið að nýju bæði lagahlið málsins og sönnunargögn. Nefndin getur ýmist staðfest úrskurðinn að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti.

Kærunefnd barnaverndarmála telur að mikilvægt sé að hlúa að persónulegum tengslum sem B hefur þegar myndað við þá aðila sem standa henni næst, þ.e. móðir hennar og….  Við þær aðstæður sem stúlkan býr nú við á heimilinu í D er sérstaklega mikilvægt að varðveita þessi einu varanlegu tengsl sem stúlkan hefur.

Samkvæmt upplýsingum starfsmanna D um líðan og háttalag B í samskiptum við móður sína hefur komið fram að stúlkan sé yfirleitt glöð, fagni móður sinni og krefjist fullrar athygli frá henni. B hefur sýnt þess merki að fara í ákveðið uppnám ef hún væntir móður sinnar sem kemur ekki. Hún verður fyrir vonbrigðum og hjartsláttur hennar rýkur upp. Þessar aðstæður valda henni mikilli tilfinninglegri streitu og því mikilvægt að huga að þessum þætti. Kærunefndin telur afar mikilvægt að móðir virði tímamörk umgegnistímans og mæti á umsömdum tíma. Kærunefndin telur að líta verði til þess sem starfsmenn D hafa upplýst um líðan og háttalag stúlkunnar eftir lengri samveru við kæranda og ………að stúlkan komi glöð en þreytt til baka.

Það er í ljósi framangreinds mat kærunefndarinnar að umgengin skuli vera fimm klukkustundir á sunnudögum, frá klukkan 13.00- 18.00. Kærandi hefur heimild til þess að fara með B út af D á sunnudögum á sama hátt og á laugardögum með því skilyrði að aðstoðarmaður fylgi með.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að kærandi hefði ekki nýtt umgengni á virkum dögum. Sú óregla sem verið hefði á umgengninni virtist valda telpunni vanlíðan. Kærandi hefði óskað eftir sveigjanlegri umgengni á virkum dögum í þrjár klukkustundir. Vísað er til þess að samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga eigi foreldrar rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Í málinu sé stefnt að því að barnið búi á núverandi heimili til frambúðar. Meta verði umgengni með hliðsjón af hagsmunum barnsins. Það sé mat barnaverndarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum B að eiga góða umgengni við móður sína. Nauðsynlegt sé að mikil regla sé á umgengni telpunnar við móður, það sé til þess fallið að veita telpunni öryggi og festu og dragi úr óvissu og stuðli að betri andlegri líðan hennar. Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að umgengni verði …..Með vísan til þeirra forsendna sem fram koma í hinum kærða úrskurði um hagsmuni og líðan barnsins, sem hér að framan er lýst, verður að telja að réttilega hafi verið metið af hálfu barnaverndarnefndarinnar að regla á umgengni þjónaði hagsmunum barnsins best eins og skylt er að miða við samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Verður því ekki fallist á að hinn kærði úrskurður hvað varðar umgengni á ofangreindum tíma sé andstæður lagagreininnni, hagsmunum barnsins eða sjónarmiðum um meðalhóf eins og kærandi heldur fram. Með vísan til þessa ber að staðfesta hinn kærða úrskurð hvað varðar umgengni á virkum dögum.

Með vísan til sömu forsendna ber að staðfesta hinn kærða úrskurð um umgengni kæranda við barnið að öðru leyti en hér að framan greinir varðandi umgengni á sunnudögum.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 10. desember 2013 varðandi umgengni A við dóttur sínar, B, er staðfestur að öðru leyti en því að umgengni á sunnudögum skal vera fimm klukkustundir frá klukkan 13.00 til 18.00 og kærandi hefur heimild til þess að fara með B út af D á sunnudögum með því skilyrði að aðstoðarmaður fylgi með.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Gunnar Sandholt

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum