Hoppa yfir valmynd
5. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 25/2013

Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn 5. mars 2014 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A og B nr. 25/2013 vegna ákvörðunar félagsmálanefndar C, sem fer með hlutverk barnaverndarnefndar, um að svipta þau leyfi til þess að taka börn í sumardvöl.

Upp var kveðinn svofelldur:

 

Ú R S K U R Ð U R :

I. Málsmeðferð og kröfugerð

Mál þetta varðar þá ákvörðun félagsmálanefndar Cað svipta kærendur, A, og , B, leyfi til þess að taka börn í sumardvöl. Kærð er ákvörðun félagsmálanefndar C frá fundi 4. nóvember 2013. Kæruheimild er í 21. gr. reglugerðar nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Í bókun fundarins þar sem hin kærða ákvörðun var tekin kemur eftirfarandi meðal annars fram:

Nefndin lítur það mjög alvarlegum augum að börn sem vistuð voru hjá A og B hafi umgengist D þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um að D myndi ekki hafa samskipti við börnin né vera inni á heimilinu. Nefndin telur það ekki þjóna tilgangi að veita frekari áminningar enda hafi fyrri áminningar sýnilega ekki verið virtar. Þá telur nefndin ljóst að aðstæður hafi breyst þannig að öryggi barna sé ekki tryggt á heimilinu og hefur því ákveðið að svipta þau A og A leyfi til þess að taka börn í sumardvöl með vísan til 3. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Bæjarlögmanni er falið að tilkynna um ákvörðunina.“

Í bréfi E hrl. fyrir hönd Sveitarfélagsins C til kærenda 5. nóvember 2013 var kærendum tilkynnt um hina kærðu ákvörðun og jafnframt bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála.

Með bréfi lögmanns kærenda 28. nóvember 2013 var kærð sú ákvörðun sveitarfélagsins frá 4. sama mánaðar, sem kærendum var tilkynnt með bréfi 5. s.m., um að svipta þau leyfi til að taka börn í sumardvöl. Kærendur krefjast þess að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið.

Af hálfu Sveitarfélagsins C hafa ekki komið fram kröfur í málinu en í greinargerð 3. janúar síðastliðinn er sjónarmiðum sveitarfélagsins lýst varðandi hina kærðu ákvörðun.

 

II. Málavextir

Kærendur hafa haft leyfi til þess að taka börn í sumardvöl samkvæmt IV. kafla reglugerðar nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Í bréfi barnaverndar C til kærenda 16. júní 2011 kemur fram að á meðferðarfundi Barnaverndarinnar sama dag hafi verið tekið til umfjöllunar og samþykktar endurnýjun á leyfi kærenda, með lögheimili að F, en sem dvelja tímabundið á G, til að taka börn í sumardvöl á heimili sitt á G. Var leyfið veitt til þriggja ára.

Í bréfi Barnaverndarstofu til kærenda 7. september 2010 kemur fram að stofunni hafi borist upplýsingar um að D, áður H, hafi verið gestkomandi á heimili kærenda. Umræddur maður hafi hlotið þungan dóm fyrir gróf kynferðisbrot gegn sex börnum, sem og vörslu barnakláms. Sjúkdómsgreining geðlæknis hljóði meðal annars upp á paedophilia, öðru nafni barnagirnd. Í bréfinu segir að Barnaverndarstofa telji að ekki sé hægt að útiloka að þessi kynhneigð D til barna sé enn til staðar og mælir svo fyrir um að hann komi aldrei inn á heimili kærenda þegar börn eru vistuð þar á vegum barnaverndarnefnda eða umgangist börnin með nokkrum hætti.

Í öðru bréfi Barnaverndarstofu til kærenda 25. ágúst 2011 er vísað til fyrra bréfsins 7. september 2010, þar sem stofan mælti fyrir um að D komi aldrei inn á heimili kærenda þegar börn séu vistuð þar á vegum barnaverndarnefndar né að maðurinn umgangist börnin með nokkrum hætti. Í bréfinu kemur fram að þrátt fyrir þessi tilmæli Barnaverndarstofu hafi stofunni ítrekað borist upplýsingar um að umræddur maður hafi verið gestkomandi á heimili kærenda á sama tíma og börn voru vistuð þar á vegum barnaverndarnefnda. Sú staðreynd leiði til þess að Barnaverndarstofa telji sér ekki fært að mæla með því að barnaverndarnefndir ráðstafi börnum í fóstur á heimilið né að kærendur séu á skrá yfir mögulega fósturforeldra. Barnaverndarstofa ítrekar loks í bréfinu að umræddur maður komi aldrei inn á heimili kærenda þegar börn eru vistuð þar á vegum barnaverndarnefnda né að maðurinn umgangist börnin með nokkrum hætti.

Í bréfi kærenda 7. september 2011, sem skrifað var í tilefni af bréfi Barnaverndarstofu 25. ágúst 2011, kemur fram að það sé ekki rétt að ekki hafi verið brugðist við tilmælum Barnaverndarstofu, en kærendur viðurkenna að umræddur maður hafi komið tvisvar sinnum inn á heimili þeirra á tímabilinu. Fram kemur að mikið hafi verið talað um mál þetta og heimili þeirra verið undir smásjá auk þess sem umræddur D hafi verið borinn ósönnum sökum. Þau telji að Barnaverndarstofa sýni þeim vantraust með því að banna allt samneyti við D. Hann sé dæmdur maður og hundeltur, eina fólkið sem sýni honum einhvern vinahug séu þau og sé þeim refsað fyrir það. Kærendur kveðast gera sér fulla grein fyrir brotum D og þau treysti sér fullkomlega til þess að gæta skjólstæðinga sinna gagnvart honum. Það væri erfiðara að verjast þeim sem þau vissu ekki um.

Í svarbréfi Barnaverndarstofu 19. september 2011 við framangreindu bréfi kærenda 7. september 2011 segir að stofan líti svo á að með svari kærenda hafi þau heitið því að umræddur D komi ekki framar inn á heimili þeirra meðan fósturbörn dvelji þar. Auk þess meti stofan svar þeirra svo að þeim sé ljóst mikilvægi þess að stuðla að því í umhverfi sínu að svo miklu leyti sem þau hafi stjórn á því að Deigi ekki í samskiptum við börnin. Í því ljósi lýsir stofan jafnframt fullu trausti til starfa kærenda sem fósturforeldra.

Í gögnum þessa máls kemur fram að í byrjun árs 2013 hafi starfsmenn Sveitarfélagsins C fengið upplýsingar frá lögreglu um að börn, vistuð á heimili kærenda, hefðu sakað D um kynferðisbrot gegn þeim. Á fundi félagsmálanefndar 30. janúar 2013 var ákveðið að sveitarfélagið sliti samstarfi við kærendur þannig að ekki yrðu gerðir fleiri samningar við þau um að vista börn á vegum sveitarfélagsins. Jafnframt var ákveðið af hálfu félagsmálanefndar að kanna hvort grundvöllur væri til þess að svipta kærendur leyfi til þess að taka börn í sumardvöl.

Í bréfi Barnaverndarstofu til lögreglunnar á F 10. júní 2013 kemur fram að á vegum barnaverndarnefndar hafi verið rætt við flest börn sem dvalið hafi á heimili kærenda frá árinu 2010. Samkvæmt upplýsingum frá þeim barnaverndarnefndum sem vistuðu börn hjá kærendum hafi ekkert komið fram sem benti til þess að börnin hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu umrædds manns.

Félagsmálanefnd C spurðist fyrir um það hjá lögreglunni í ÁJí bréfi 4. júlí 2013 hvort börn í vistun hjá kærendum hefðu haft samskipti við D frá hausti 2010. Í svari lögreglunnar 5. júlí 2013 kemur fram að umræddur maður hafi umgengist börn í vistun hjá kærendum á þeim tíma sem spurt var um.

Með hinni kærðu ákvörðun frá 4. nóvember 2013 voru kærendur svipt leyfi til þess að taka börn í sumardvöl með vísan til 3. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, eins og fram hefur komið.

 

III. Afstaða kærenda

Í kæru kemur fram að kærendur hafi árum saman haft börn í fóstri á vegum sveitarfélaga. Undanfarin ár hafi þau einnig haft börn í sumardvöl, meðal annars á vegum Sveitarfélagsins C, en slíkt leyfi hafi þau fengið síðast frá sveitarfélaginu 16. júní 2011 til þriggja ára.

Í kærunni kemur einnig fram að þrátt fyrir það að staðfest hafi verið af Barnaverndarstofu að kærendur hafi farið eftir þeim fyrirmælum sem þeim hafi verið gefin á árinu 2010, að börn í vistun hjá þeim skuli hvorki umgangast né hafa önnur samskipti við D, þá hafi verið ákveðið að svipta kærendur leyfi til þess að taka börn í sumardvöl, sbr. bréf 5. nóvember 2013. Eins og komi fram í andmælum kærenda 14. október 2013 hafi umræddur maður ekki komið á heimili þeirra eftir að athugasemdir hafi verið gerðar í september 2010, ef frá eru talin tvö skipti, en í bæði skiptin hafi maðurinn komið óboðinn örstutt í forstofu heimilis kærenda og hvorki hitt börnin né haft önnur samskipti við þau, enda hafi kærendum verið umhugað um að fara eftir fyrirmælum Barnaverndarstofu og hafi því ekki boðið manninum inn. Í andmælum kærenda séu rakin dæmi þess að tilkynningar um samskipti D við börn í vistun hjá þeim, séu augljóslega á misskilningi byggð og vísist því til þess. Félagsþjónusta Sveitarfélagsins C hafi kosið að líta frekar til sögusagna og munnlegra óstaðfestra tilkynninga, en litið framhjá bréfum frá Barnaverndarstofu, sem eftir að hafa rætt við eða látið ræða við börn í vistun hjá kærendum, hafi staðfest að engin samskipti hafi verið milli barnanna og D eftir september 2010, þegar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu Barnaverndarstofu.

Kærendur vísa til 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til stuðnings kröfunni um að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið. Það varði þau verulega miklu að halda leyfinu, enda sé slíkt leyfi forsenda þess að kærendur geti tekið börn í sumardvöl frá öðrum barnaverndar­nefndum, sbr. 1. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 652/2004.

 

IV. Afstaða félagsmálanefndar C

Af hálfu félagsmálanefndar C kemur fram að ákveðið hafi verið að hefja könnun á því hvort tilefni væri til þess að svipta kærendur leyfi til þess að taka börn í sumardvöl á grundvelli reglugerðar nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Í tilefni af ummælum í kæru sé rétt að taka fram að afstaða sveitarfélagsins hafi ávallt verið sú að um þá ákvörðun bæri að fara eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Kærendum hafi verið tilkynnt um þetta með bréfi 14. júní 2013. Sveitarfélagið hafi í framhaldinu óskað eftir frekari upplýsingum frá lögreglu með bréfi 4. júlí 2013 og hafi svar lögreglu borist með bréfi 5. júlí 2013 þar sem fram komi að D hafi umgengist börn í vistun hjá kærendum eftir að þau höfðu fengið fyrirmæli um að slíkt mætti ekki gerast. Kærendum hafi gefist kostur á að tjá sig um gögn málsins og í máli þeirra hafi mest borið á þeirri röksemd að Barnaverndarstofa bæri traust til þeirra og teldi þau ekki hafa brotið af sér. Til stuðnings þessu hafi kærendur lagt fram bréf starfsmanna Barnaverndarstofu. Barnaverndarnefnd Sveitarfélagsins Chafi hins vegar talið sig óbundna af afstöðu og áliti Barnaverndarstofu og hafi talið sig hafa óyggjandi yfirlýsingu frá lögreglu um að D hefði umgengni börn í vistun hjá kærendum. Þá hafi það verið mat nefndarinnar að ekki myndi þjóna tilgangi að ítreka fyrri áminningar um að D mætti ekki umgangast börn í vistun hjá kærendum og hafi talið ljóst að aðstæður hefðu breyst þannig að öryggi barna væri ekki tryggt á heimilinu. Þar með hafi nefndin talið að uppfyllt væru skilyrði 3. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga til þess að svipta kærendur leyfi til þess að taka börn í sumardvöl.


V. Niðurstaða

Með ákvörðun félagsmálanefndar C 4. nóvember 2013 voru kærendur svipt leyfi til þess að taka börn í sumardvöl vegna þess að maður sem hlotið hafði dóm fyrir gróf kynferðisbrot gegn sex börnum, sem og vörslu barnakláms auk þess sem hann var greindur með barnagirnd, var talinn hafa verið í einhverjum samvistum við börnin sem voru í sumardvöl hjá kærendum.

Í 1. mgr. 86. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur fram að þeir sem óska eftir að taka barn á vegum barnaverndarnefndar til dvalar á einkaheimili í allt að þrjá mánuði yfir sumartíma skuli sækja um leyfi til barnaverndarnefndar í sínu heimilisumdæmi. Barnaverndarnefnd skuli tilkynna Barnaverndarstofu um þá sem fengið hafi leyfi. Kærendur höfðu slíkt leyfi. Á grundvelli 2. mgr. 86. gr. barnaverndarlaga var sett reglugerð um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga nr. 652/2004. Í 3. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar er fjallað um eftirlit barnaverndarnefnda og er hún svohljóðandi:

Barnaverndarnefndirnar skulu tilkynna hvor annarri ef í ljós kemur að umönnun og aðbúnaður barns á heimili er óviðunandi eða aðstæður á heimilinu hafa breyst þannig að ekki sé sýnt að aðbúnaður og öryggi barnsins sé tryggt. Barnaverndarnefnd þar sem leyfishafi býr getur leitast við að fá úr því bætt með leiðbeiningum og áminningum eða svipt leyfishafa leyfi komi annað ekki að haldi að mati nefndarinnar. Barnaverndarnefnd sem ber ábyrgð á ráðstöfun barns skal grípa til viðeigandi ráðstafana vegna barnsins, svo sem að rifta samningi um vistun.

Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar reglugerðarinnar ber barnaverndarnefnd þar sem leyfishafi býr að fylgjast með því að leyfishafi uppfylli hverju sinni almenn skilyrði fyrir leyfisveitingu.

Í málinu er ekki deilt um það að kærendur fengu fyrirmæli frá starfsmönnum félagsmálanefndar C um að D mætti ekki umgangast eða hafa samskipti við börn á heimili kærenda sem þar voru á vegum barnaverndarnefnda. Ástæða þess var sú að hann hafði samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins verið dæmdur fyrir mörg alvarleg kynferðisbrot gegn börnum. Hin kærða ákvörðun er byggð á því að kærendur hefðu fengið sömu fyrirmæli frá Barnaverndarstofu í bréfi til þeirra 7. september 2010. Í bréfinu er tekið fram að ekki sé hægt að útiloka að kynhneigð D til barna sé enn til staðar og mælir Barnaverndarstofa svo fyrir um að hann komi aldrei inn á heimili kærenda þegar börn eru vistuð þar á vegum barnaverndarnefnda eða að hann umgangist börn með nokkrum hætti. Í bréfi Barnaverndarstofu til kærenda 25. ágúst 2011 er þetta ítrekað. Í hinni kærðu ákvörðun er byggt á því að fyrirmælin hafi verið ítrekuð af hálfu starfsmanna félagsmálanefndar og Barnaverndarstofu í kjölfar tilkynninga um að D hefði verið inni á heimilinu. Í fundargerð félagsmálanefndar frá 30. janúar 2013 kemur fram að starfsmenn barnaverndar hefðu rökstuddan grun um að D, sem sé frændi kæranda B og búi ská á móti kærendum, hefði heimsótt heimilið þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli barnaverndar C og Barnaverndarstofu. Börn sem hefðu verið í vistun hjá kærendum hefðu sakað D um kynferðislegt áreiti.

Af hinni kærðu ákvörðun verður ráðið að upphaf málsins sé að rekja til þess að í byrjun árs 2013 hafi starfsmenn félagsmálanefndar fengið upplýsingar frá lögreglu um að börn, sem vistuð voru á heimili kærenda, hefðu sakað D um kynferðisbrot gegn sér. Ákveðið var á fundi félagsmálanefndar 30. janúar s.á. að Sveitarfélagið C sliti samstarfi við kærendur þannig að ekki yrðu gerðir fleiri samningar við þau um að vista börn hjá þeim á vegum sveitarfélagsins. Jafnframt var ákveðið að kanna hvort grundvöllur væri til þess að svipta kærendur leyfi til þess að taka börn í sumardvöl. Samkvæmt því sem fram hefur komið var kærendum gefinn kostur á að koma að andmælum vegna fyrirhugaðrar leyfis­sviptingar með bréfi 14. júní 2013.

Hin kærða ákvörðun er byggð á því að aflað hafi verið upplýsinga hjá lögreglu um það hvort börn í vistun hjá kærendum hefðu haft samskipti við D frá hausti 2010. Lögreglan hafi veitt þau svör 5. júlí 2013 að í tengslum við rannsókn á meintum kynferðisbrotum D gegn börnum hafi komið fram að hann hefði umgengist börn í vistun hjá kærendum eftir þann tíma sem tilgreindur er í fyrirspurninni. Af bréfi lögreglunnar var talið ljóst að kærendur hefðu ekki farið að fyrirmælum starfsmanna sveitarfélagsins og Barnaverndarstofu um að D hefði ekki samskipti við börn sem vistuð voru á heimili kærenda og að hann væri ekki inni á heimilinu á meðan þar væru vistuð börn. Félagsmálanefndin taldi það ekki þjóna tilgangi að veita frekari áminningar enda hefðu fyrri áminningar ekki verið virtar. Nefndin taldi ljóst að aðstæður hefðu breyst þannig að öryggi barna væri ekki tryggt á heimilinu. Hin kærða ákvörðun var tekin á grundvelli þessa og voru kærendur svipt leyfi til að taka börn í sumardvöl með vísan til 3. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga.

Af hálfu kærenda er því mótmælt að börn í vistun hjá þeim hefðu umgengist D eftir að athugasemdir voru gerðar við það af hálfu félagsmálayfirvalda og Barnaverndarstofu haustið 2010. Engin gögn hefðu stutt framkomnar upplýsingar frá lögreglu og ekki hefði verið útskýrt í svari lögreglu á hverju fullyrðingar lögreglu væru byggðar. Ekkert hefði heldur komið fram í svarbréfi lögreglunnar um það að D væri grunaður um kynferðisbrot gegn börnum sem vistuð hefðu verið á heimili kærenda. Þá vísa kærendur til þess að fram komi í bréfi starfsmanns Barnaverndarstofu til lögreglunnar 10. júní 2013 að ekkert hefði komið fram í viðtölum við börnin, sem vistuð höfðu verið á heimili kærenda, sem benti til þess að þau hefðu orðið fyrir ofbeldi af hálfu umrædds manns.

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að félagsmálanefndin líti það mjög alvarlegum augum að börn sem vistuð voru hjá kærendum hafi umgengist manninn þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um að hann myndi hvorki hafa samskipti við börnin né vera inni á heimilinu. Gögn málsins, þar með talið framangreint svarbréf lögreglunnar, veita ekki óyggjandi svör við því hvernig hinni meintu umgengni barnanna við manninn var háttað, hvort hann var inni á heimili kæranda þegar börnin voru þar í sumardvöl eða hvort tilmælin, sem kærendur höfðu fengið frá félagsmálanefndinni og Barnaverndarstofu, voru virt af þeirra hálfu. Upplýsingar, sem vísað er til í þessu sambandi og byggt er á í hinni kærðu ákvörðun, eru óljósar og ekki studdar viðhlítandi gögnum. Þá er heldur ekki nægilega ljóst hvert efni áminninganna var sem talið er í hinni kærðu ákvörðun að kærendur hefðu sýnilega ekki virt.

Af gögnum málsins má engu að síður ráða að upplýsingar um það hvort maðurinn hafi verið í samskiptum við börnin eftir að athugasemdir voru gerðar við það af hálfu félagsmálayfirvalda haustið 2010 eru misvísandi. Þar sem því er haldið fram að um slík samskipti hafi verið að ræða eru lýsingar á því hvernig þeim var háttað ófullnægjandi og því ófært að byggja úrlausn í málinu á þeim. Brýnir hagsmunir voru af því að afla viðhlítandi gagna og upplýsa betur en gert var af hálfu félagsmálanefndarinnar áður en hin kærða ákvörðun var tekin hvernig hinum meintu samskiptum var háttað eða hvort staðhæfingar um slík samskipti áttu við rök að styðjast.

Af hálfu kærenda hefur komið fram að maðurinn hafi í tvö skipti komið óboðinn örstutt í forstofu heimilis kærenda en hvorki hitt börnin né hafi hann haft önnur samskipti við þau. Kærendur lýsa því að þeir hafi ekki boðið manninum inn enda hafi þeim verið umhugað um að fara eftir fyrirmælum Barnaverndarstofu. Í bréfi kærenda 7. september 2011 er því lýst að þeim þyki Barnaverndarstofa sýna þeim mikið vantraust með því að banna allt samneyti við D. Hann sé dæmdur maður og hundeltur í litlu samfélagi en eina fólkið sem sýni honum vinahug séu kærendur. Þeim sé refsað fyrir að sýna náunganum hlýhug. Kærendur staðhæfa í bréfinu að þeir geri sér fulla grein fyrir brotum D og þeir treysti sér fullkomlega til að gæta skjólstæðinga sinna gagnvart honum. Kærendur taka fram að þau hafi rætt þetta við D og sé honum ljóst að hann megi ekki undir nokkrum kringumstæðum koma inn á heimilið og ekki umgangast börn sem kærendur væru með. Hann hafi sagst skilja þessa bón og heitið því að þetta kæmi ekki fyrir aftur.

Í ljósi þessa verður að telja óvíst hvort kærendur geri sér nægilega grein fyrir því hve brýnt er að vernda börnin með fyrirbyggjandi aðgerðum fyrir öllum samskiptum eða umgengni við manninn. Í því sambandi nægir ekki að kærendur lýsi því yfir að þau treysti sér til að gæta barnanna fyrir honum. Með vísan til þess hve barnaverndarnefnd gegnir mikilvægu eftirlitshlutverki við aðstæður sem þessar verða kærendur að rækja skyldur sínar gagnvart börnum sem dveljast hjá þeim á þann hátt að barnaverndarnefndin geti treyst kærendum til að gera það og að þau fari í hvívetna að réttmætum fyrirmælum barnaverndar­nefndar sem leyfisveitanda varðandi ráðstafanir sem gera þarf þannig að því megi treysta að öryggi viðkomandi barna sé tryggt.

Eins og þegar hefur komið fram er með 3. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 652/2004 gert ráð fyrir því að barnaverndarnefndir, sem veita leyfi til að taka börn á vegum barnaverndarnefnda til dvalar á einkaheimili yfir sumartíma, grípi til viðeigandi ráðstafana ef í ljós kemur að umönnun og aðbúnaður barns á heimili er óviðunandi eða aðstæður á heimilinu hafi breyst þannig að ekki sé sýnt að aðbúnaður og öryggi barnsins sé tryggt. Barnaverndarnefnd getur leitast við að fá úr því bætt með leiðbeiningum og áminningum eða svipt leyfishafa leyfi komi annað ekki að haldi að mati nefndarinnar.

Skyldur félagsmálanefndarinnar, sem tók hina kærðu ákvörðun, verður að skilgreina í samræmi við þetta. Kærunefndin telur að fram hafi komið í málinu rökstuddur grunur fyrir því að öryggi barnanna, sem dvelja hjá kærendum á grundvelli leyfis samkvæmt 1. mgr. 86. gr. barnaverndarlaga, kynni að vera ógnað verði ekki sýnt fram á gripið sé til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir að D geti haft nokkur samskipti við börnin. Gögn í málinu veita hins vegar ekki viðhlítandi upplýsingar um það með hvaða hætti kærendur gerðu ráðstafanir í þeim tilgangi að tryggja öryggi barnanna að þessu leyti. Félagsmála­nefndinni bar að upplýsa málið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt lagagreininni ber stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga getur kærunefnd barnaverndarmála metið að nýju bæði lagahlið máls og sönnunargögn. Kærunefndin telur með vísan til þess sem að ofan greinir að sönnunargögnum í málinu sé verulega áfátt. Hér verður að líta til hinna miklu hagsmuna í málinu, annars vegar hvað varðar öryggi barnanna, sem dvelja hjá kærendum á grundvelli leyfisins, og hins vegar hagsmuna kærenda en eins og fram hefur komið af þeirra hálfu varðar það þau verulega miklu að halda leyfinu enda sé slíkt leyfi forsenda þess að kærendur geti tekið börn í sumardvöl frá öðrum barnaverndarnefndum. Nauðsynlegt er því í samræmi við það sem áður greinir að málið sæti frekari rannsókn af hálfu félagsmálanefndar C.

Samkvæmt sama lagaákvæði getur kærunefndin hrundið úrskurði að nokkru eða öllu leyti og einnig vísað málinu til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju. Að öllu þessu virtu er hinni kærðu ákvörðun hrundið og málinu vísað til félagsmálanefndarinnar til meðferðar að nýju.


Úrskurðarorð

Ákvörðun félagsmálarnefndar C frá 4. nóvember 2013 þess efnis að svipta A og B leyfis til þess að taka börn í sumardvöl er hrundið og málinu vísað til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

 Jón R. Kristinsson

Guðfinna Eydal

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum