Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2013.

 

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

 

Miðvikudaginn 3. júlí 2013 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, nr. 11/2013, en með kærðri ákvörðun barnaverndarnefndar Garðabæjar verður barnaverndarmáli kæranda lokað þegar hún verður 18 ára gömul, 17. júlí 2013.

 

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

I.

Málsmeðferð og kröfugerð

 

Með bréfi, mótteknu 7. júní 2013, skaut B, fyrir hönd dóttur sinnar, A, ákvörðun barnaverndarnefndar Garðabæjar frá 18. apríl 2013 til kærunefndar barnaverndarmála. Ákvörðunin varðar það að loka barnaverndarmáli kæranda 16. júlí 2013, en kærandi er í barnaverndarúrræði á vegum barnaverndarnefndar Garðabæjar til þess dags, en hún verður 18 ára 17. júlí 2013. Fram kemur í gögnum málsins að kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðun barnaverndarnefndar Garða­bæjar á fundi með talsmanni hennar 10. maí 2013.

 

Kærandi krefst þess að barnaverndarráðstöfunin haldist eftir að hún verður 18 ára gömul, 17. júlí 2013 í tvö ár.

 

Móðir kæranda, B, sendi kæruna fyrir hönd dóttur sinnar. Af kærunni má ráða að móðirin hefur þungar áhyggjur af því hvað kunni að verða um dóttur hennar þegar hún verður 18 ára gömul, þar sem ekkert liggi fyrir um það skriflega. Hún telur að ekki sé grundvöllur fyrir því að loka barnaverndarmálinu vegna stúlkunnar við 18 ára aldur hennar. Í tölvuskeyti hennar til kærunefndarinnar 1. júlí síðastliðinn, kemur fram ósk um að nefndin ákveði að réttaráhrifum ákvörðunar barnaverndarnefndar Garðabæjar um að loka máli kæranda verði frestað þar til nefndin kveður upp úrskurð sinn.

 

Barnaverndarnefnd Garðabæjar telur að vanda kæranda megi fyrst og fremst rekja til þess að hún er fötluð. Þjónustuþarfir hennar séu viðvarandi og fjölbreytilegar og hún muni þurfa á að halda fjölbreytilegum stuðningi og þjónustu. Þess vegna eigi hún við 18 ára aldur rétt á þjónustu á grundvelli laga um félagsþjónustu nr. 40/1991 með síðari breytingum, laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 með síðari breytingum og reglugerðar um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu nr. 1054/2010.

 

Í bréfi Sonju Maríu Hreiðarsdóttur hdl. til kærunefndar barnaverndarmála, dags. 2. júlí 2013, fyrir hönd Fjölskyldusviðs Garðabæjar, kemur fram að Fjölskyldusviðið óski eftir því, með vísan til 4. mgr. 52. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, að kærunefndin ákveði að framkvæmd hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað þar til nefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn. Ástæða þess sé formgalli sem verið hafi á tilkynningu ákvörðunar til kæranda og foreldra hennar. Láðst hafi að geta hver kærufrestur til kærunefndar barnaverndarmála væri og ennfremur hafi láðst að kynna fyrir kæranda að hún ætti rétt til fjárstyrks frá barnaverndarnefnd vegna lögmannsaðstoðar vegna hugsanlegrar kæru til kærunefndar.

 

 

Í tengslum við meðferð málsins var kæranda skipaður talsmaður, Sveindís Jóhannsdóttir. Fyrir liggja tvær greinargerðir talsmannsins, dags. 17. apríl og 22. maí 2013.

 

 

II.

Málavextir

 

Kærandi er 17 ára gömul fötluð stúlka. Hún stundar nám í sérdeild Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Foreldrar hennar eru B og C, en þau slitu samvistir þegar stúlkan var á þriðja ári. Stúlkan bjó ásamt fjölskyldu sinni, þ.e. móður, stjúpa og yngri systkinum, í D árin 2001 til 2011. Mál stúlkunnar voru þar til meðferðar og fékk fjölskyldan m.a. fjölskyldumeðferð og stuðningsfjölskyldu auk þess sem kærandi var í tvígang innlögð á barnageðdeild. Fjölskyldan flutti til landsins árið 2011 og í október það ár flutti hún í Sveitarfélagið Álftanes.

 

Í gögnum málsins kemur fram að fljótlega hafi borist tilkynningar til barnaverndarnefndar Álftaness um vímuefnaneyslu kæranda og erfiða hegðun. Ítrekuð afskipti barnaverndaryfirvalda voru af málefnum kæranda vegna sjálfsskaða hegðunar, hótana um sjálfsvíg og erfiðleika í samskiptum við forsjáraðila. Auk þess var stúlkan staðin að því að reykja hass og neyta áfengis. M.a. var kæranda vísað tímabundið úr Lækjarskóla, sem hún gekk þá í, vegna þess að hún hafði verið staðin að því að reykja hass í frímínútum. Foreldrar kæranda voru á þessum tíma í sambandi við Barna- og unglingageðdeild og frá hausti 2011 var reynt að aðstoða stúlkuna. Fram kemur að þeim hafi verið leiðbeint og kærandi ítrekað verið vistuð utan heimilis og á neyðarvistun Stuðla vegna hegðunarerfiðleika og sjálfsskaða hegðunar. Sumarið 2012 hafi kærandi verið lögð inn til frekari greiningar á Barna- og unglingageðdeild vegna sjálfsskaða hegðunar. Samkvæmt læknabréfi, dags. 23. júlí 2012, hafi niðurstaða greiningar á kæranda verið væg þroskahefting, veruleg skerðing atferlis sem krefjist athygli eða meðferðar, Tourettesheilkenni, Hyperkinetic conduct disorder og aðrar blandnar raskanir hegðunar og geðbrigða. Fram kemur að þau úrræði sem gripið hafi verið til hafi ekki skilað þeim árangri sem að hafi verið stefnt. Erfiðleikar kæranda hafi verið farnir að hafa verulega truflandi áhrif á aðra fjölskyldumeðlimi, bæði börn og fullorðna. Foreldrarnir hafi að lokum gefist upp og ekki treyst sér lengur til þess að hafa kæranda heima og beðið um að hún yrði vistuð utan heimilis. Í framhaldinu hafi kærandi verið vistuð í Vinakoti í Hafnarfirði 1. nóvember 2012 á grundvelli 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með síðari breytingum og er hún þar enn. Við sameiningu Garðabæjar og Álftaness 1. janúar 2013 tók barnaverndarnefnd Garðabæjar við máli kæranda. Móðir kæranda og stjúpi hennar búa nú í Grindavík ásamt yngri börnum sínum.

 

Áætlun barnaverndarnefndar Garðabæjar um lokun máls er dagsett 10. júní 2013. Þar kemur fram að markmið áætlunarinnar sé að tryggja samfellu í þjónustu við kæranda. Ákveðið hafi verið að loka barnaverndarmálinu við 18 ára aldur stúlkunnar, þar eð vandi hennar sé fyrst og fremst fötlun. Eftir það eigi hún rétt á þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks. Komið hafi fram hjá stúlkunni, með aðstoð talsmanns, að hún óski sjálf eftir að afskiptum barnaverndarnefndar af hennar málum ljúki. Einnig komi fram að stúlkan óski eftir búsetu áfram í Vinakoti og að njóta þjónustu þar áfram. Stúlkan óski eftir að halda áfram námi í starfsdeild Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Stúlkan eigi lögheimili í Grindavík. Muni þjónustan við hana samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks verða á hendi lögheimilissveitarfélags eftir 18 ára aldur. Samstarfsferli sé framundan milli Garðabæjar og Grindavíkur til að koma upplýsingum um þjónustuþörf stúlkunnar á framfæri og tryggja það sem best að ekki verði rof í þjónustu við hana við flutning málsins.

 

Í fyrrnefndri áætlun barnaverndarnefndar Garðabæjar kemur fram að starfsmaður barnaverndarnefndar muni fara á fund félagsmálastjóra Grindavíkur og gera grein fyrir stöðu barnsins og flutningi málsins. Talsmaður stúlkunnar muni ræða við félagsmálastjóra Grindavíkur um þjónustuþörf stúlkunnar. Bréf með upplýsingum um málefni stúlkunnar verði sent Skóla- og félagsþjónustu Grindavíkur. Fundað verði eftir þörfum með þeim aðilum sem komi að máli stúlkunnar. Bent er á að kærandi þurfi á búsetuúrræði að halda og sólarhringsþjónustu vegna fötlunar sinnar.

 

 

III.

Afstaða kæranda

 

Eins og fram hefur komið er Sveindís Jóhannsdóttir talsmaður kæranda. Í greinargerð talsmannsins, dags. 22. maí 2013, kemur fram að kærandi hafi mjög takmarkaðar forsendur til að taka ákvarðanir um líf sitt og búsetu miðað við þroska. Hægt sé að hafa mikil áhrif á skoðun kæranda og bærist hún að mörgu leyti eins og lauf í vindi. Miklu máli skipti hvaðan vindáttin sé. Hins vegar sé ljóst að kærandi geri sér grein fyrir að hún muni áfram þurfa þjónustu. Kærandi geti verið hættuleg bæði sjálfri sér og öðrum og þurfi mjög mikla þjónustu vegna þroska- og hegðunarerfileika. Kærandi vilji helst búa í Hafnarfirði, geta hafið sambúð með G kærasta sínum eða að þau geti gist hjá hvort öðru þegar þau vilji. Kærandi vilji halda áfram í Flensborgarskóla og námið þar virðist ganga samkvæmt áætlun. Þeir sem séu nánastir kæranda hafi allir sína skoðun á því hvernig hennar framtíð sé best borgið en í þessum hópi séu móðir, stjúpi, G kærasti og starfsmenn Vinakots.

 

Fram kemur að kærandi sé ekkert frábrugðin öðrum ungmennum með það að hún kæri sig lítið um að hennar málefni séu barnaverndarmál. Hún vilji einnig geta tekið ákvarðanir um eigið líf en hafi til þess mun minni forsendur en flest önnur ungmenni. Flest ungmenni á hennar aldri þurfi ekki að velta fyrir sér sjálfstæðri búsetu ásamt þjónustu á grundvelli mismunandi laga. Aðalatriðið sé að kærandi þurfi á mikilli þjónustu að halda auk búsetuúrræðis. Um skeið virðist sem nokkur stöðugleiki hafi komist á líf hennar og hún tekið miklum framförum bæði námslega og hegðunarlega. Öll rök hnígi að því að velferð hennar sé einna best komið, eins og staðan er í dag, í búsetu og þjónustu í Vinakoti. Hafa beri í huga að meðferðarsambandið sjálft sé ein helsta forspá um árangur meðferðar. Mikilvægt sé að sú þjónusta og úrræði sem standi kæranda til boða sé kynnt henni og foreldrum hennar. Rekstrarfyrirkomulag Vinakots veiki stöðu þeirra sem helstu umönnunaraðila kæranda varðandi álit þeirra á hvað þeir telji að sé best fyrir velferð kæranda. Ekki beri þó á öðru en að almenn velferð kæranda sé öllum starfsmönnum Vinakots efst í huga og að styðja hana í átt að auknum þroska. Fötlun kæranda sé með þeim hætti að hún geti skipt um skoðun mjög ört og hún verði fyrir miklum áhrifum frá þeim sem standi henni næst hverju sinni.

 

Framtíðarsýn kæranda sé þó í grunnatriðum skýr, hún vilji búa í Hafnarfirði, geta verið með kærasta sínum og stundað sitt nám í Flensborgarskóla. Þau sveitarfélög og aðilar sem komi að þjónustu hennar þurfi að tryggja að samfella verði í þjónustu við hana, ekki komi gap vegna þess að enginn vilji ,,eiga“ málið sökum mikilla erfiðleika og kostnaðar. Lausnin í þessu máli sé samvinna tveggja ef ekki þriggja sveitarfélaga, foreldra, þjónustuaðila og annarra sem að málinu komi.  

 

 

IV.

Afstaða barnaverndarnefndar Garðabæjar

 

Af hálfu barnaverndarnefndar Garðabæjar kemur fram að vandi kæranda stafi fyrst og fremst af fötlun hennar og að hún muni vegna fötlunar sinnar þurfa á áframhaldandi og viðvarandi þjónustu að halda eftir að hún verði 18 ára. Ekki sé útlit fyrir að kærandi geti flutt aftur á heimili forsjáraðila þar sem komið hafi skýrt fram að þau treysti sér alls ekki til að hafa hana heima. Kærandi hafi tjáð sig um að hún vilji fá að búa áfram í Vinakoti eftir 18 ára aldur en án afskipta barnaverndaryfirvalda auk þess sem hún hafi hug á áframhaldandi námi við Flensborgarskólann í Hafnarfirði.

 

Fram kemur að það sé mat starfsmanna barnaverndarnefndar Garðabæjar, Önnu Karinar Júlíussen og Guðrúnar Hrefnu Sverrisdóttur, að ekki sé þörf fyrir að vistunarráðstöfun kæranda á grundvelli 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga standi lengur en fram að því að hún verði 18 ára. Það sé ljóst að grundvöllur vistunar kæranda utan heimilis á vegum barnaverndarnefndar hafi byggst fyrst og fremst á þörf hennar fyrir örugga búsetu vegna fjölskylduaðstæðna og úrræða sökum fötlunar. Um sé að ræða atriði sem stúlkan muni þurfa aðstoð við til framtíðar. Þjónustuþörfum stúlkunnar verði best mætt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðs fólks. Þau lög ásamt reglugerð nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu taki til félagslegrar þjónustu og sérstaks stuðnings við fatlað fólk, 18 ára og eldra, sem hafi þörf fyrir húsnæðisúrræði og stuðning til að geta lifað sjálfstæðu lífi á heimili sínu.

 

Eins og fram hefur komið hefur Fjölskyldusvið Garðabæjar óskað þess að framkvæmd hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað. Með því séu hagsmunir kæranda tryggðir hjá barnaverndarnefnd á meðan málið sé til meðferðar hjá kærunefndinni. Þá gefist kæranda tækifæri á að leita sér lögmannsaðstoðar telji hún þörf á því og í framhaldi að sækja um styrk til barnaverndarnefndar vegna þess kostnaðar sem af því hljótist.

 

 

V.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að kröfu kæranda um að synjun barnaverndarnefndar Garðabæjar um að hún verði áfram í barnaverndarúrræði eftir að 18 ára aldri verði náð, verði hrundið. Í 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 13. gr. laga nr. 80/2011, er fjallað um úrræði utan heimilis með samþykki foreldra og barns. Í 2. mgr. lagagreinarinnar stendur m.a.:

 

,,Ef fóstur eða vistun varir þar til barn verður lögráða ber barnaverndarnefnd eigi síðar en þremur mánuðum áður en það verður 18 ára að meta þarfir barnsins fyrir frekari úrræði. Barnaverndarnefnd getur ákveðið með samþykki ungmennis að ráðstöfun haldist eftir að það verður 18 ára, allt til 20 ára aldurs. Ungmenni getur skotið synjun barnaverndarnefndar, um að ráðstöfun í fóstur eða vistun haldist eftir að viðkomandi verður 18 ára, til kærunefndar barnaverndarmála.“

 

Ljóst er af gögnum málsins og því sem hér að framan er rakið að kærandi þarf áfram á þjónustu og aðstoð að halda. Markmiðið með framangreindu lagaákvæði er að samfella haldist varðandi úrræði sem nauðsynlegt er að beita til verndar ungmennum sem þurfa á slíku að halda. Fyrir liggur að kærandi telur sjálf mikilvægt að samfella verði í þjónustu við hana.

 

Samkvæmt því sem að framan er rakið eru áætlanir um að kærandi komi til með að njóta þjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðs fólks. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að ætla að þær áætlanir séu skammt á veg komnar. Einnig verður að telja að nauðsynlegt sé að sú ráðstöfun sem beitt hefur verið samkvæmt barnaverndarlögum haldist þar til fyrir liggur að kærandi muni njóta viðeigandi þjónustu og aðstoðar áfram. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir kæranda varðandi það að hún njóti áfram öryggis og verndar og að samfella verði í þeim úrræðum sem hún á rétt á að gripið verið til lögum samkvæmt. Var því ekki tímabært af hálfu barnaverndarnefndar Garðabæjar að ákveða að fella niður ráðstöfun samkvæmt barnaverndarlögum sem móðir kæranda hefur fyrir hennar hönd óskað eftir að haldist áfram. Verður að telja að rétt sé að ráðstöfun haldist þar til annað og viðeigandi úrræði kemur til framkvæmda. Ber með vísan til þess og 2. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga, sbr. 13. gr. laga nr. 80/2011, að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Ekki reyndist þörf á því að taka afstöðu til þess hvort fresta bæri framkvæmd ákvörðunarinnar, eins og farið var fram á af hálfu kæranda með tölvuskeyti móður hennar 1. júlí sl. og bréfi fjölskylduráðs Garðabæjar 2. júlí sl., þar sem úrskurðurinn er kveðinn upp áður en til þess kom.

 

 

 


 

 

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun barnaverndarnefndar Garðabæjar frá 18. apríl 2013 um að loka barnaverndarmáli A 16. júlí 2013 er felld úr gildi.

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

Gunnar Sandholt                            Jón R. Kristinsson

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum