Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 24/2013.

Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, miðvikudaginn 5. febrúar 2014, var tekið fyrir mál nr. 24/2013, A gegn barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar vegna meðferðar nefndarinnar í máli dóttur kæranda, B.

Kveðinn var upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

I.

Málsmeðferð og kröfugerð

Kæra A til kærunefndar barnaverndarmála er dagsett 19. nóvember 2013. Þar er kærð meðferð máls dóttur kæranda, B, fyrir barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, einkum vegna rannsóknar á meintu kynferðisbroti gegn stúlkunni. Kærandi hafði áður leitað til umboðsmanns Alþingis vegna málsins sem svaraði henni með bréfi 18. september 2013. Þar kemur fram að með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, verði afstaða Barnaverndarstofu og eftir atvikum kærunefndar barnaverndarmála að liggja fyrir áður en hann geti fjallað um mál kæranda.

Í kærunni til kærunefndar barnaverndarmála kemur meðal annars fram að einkum og sér í lagi sé kært vegna málsmeðferðar hjá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar eftir að dóttir kæranda hafði fundið upptökutæki í ermavasa sínum 26. apríl 2012. Framganga barnaverndarnefndarinnar samræmist ekki barnaverndarlögum, nr. 80/2002, sérstaklega eftir að barnið hafi tjáð sig um meint kynferðisbrot af hendi föður síns við rannsóknarlögreglu í Kópavogi.


 

 

Eftir að framangreind kæra barst kærunefnd barnaverndarmála var Fjölskylduþjónustunni í Hafnarfirði sent bréf 13. janúar 2014 þar sem spurst var fyrir um það hvort teknar hefðu verið ákvarðanir eða kveðnir upp úrskurðir í máli þessu hjá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar sem væru kæranlegir til kærunefndarinnar samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002.

Í svari barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar til kærunefndar barnaverndarmála 22. janúar 2014 kemur fram að á meðan mál dóttur kæranda, B, hafi verið til meðferðar hjá barnaverndarnefndinni hafi ekki verið teknar neinar ákvarðanir eða kveðnir upp úrskurðir sem kæranlegir væru til kærunefndar barnaverndarmála samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Kæranda var sent afrit þessa bréfs til kynningar.

Í 3. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga kemur fram að Barnaverndarstofa skuli hafa með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu. Enn fremur hafi Barnaverndarstofa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt lögunum. Í 8. gr. laganna er fjallað um eftirlit Barnaverndarstofu með barnaverndarnefndum og í 4. mgr. 8. gr. er fjallað um úrræði stofunnar telji hún að barnaverndarnefnd fari ekki að lögum við rækslu starfa sinna.

Kærandi leitaði til Barnaverndarstofu en í bréfi lögmanns kæranda 12. júní 2012 var þess krafist að Barnaverndarstofa nýtti heimildir sínar samkvæmt 8. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, til að óska eftir frekari gögnum, upplýsingum og skýringum frá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar og að málsmeðferðin verði tekin til skoðunar af Barnaverndarstofu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um afdrif málsins fyrir Barnaverndarstofu.

 


 

 

II.

Forsendur og niðurstaða

Í 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, segir að heimilt sé að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefndar eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Í 1. mgr. 51. gr. sömu laga segir að aðilar barnaverndarmála geti skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Hlutverk kærunefndar barnaverndarmála er því að kveða upp úrskurði þegar skotið er til nefndarinnar úrskurðum eða stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda sem kæranlegar eru samkvæmt barnaverndarlögum.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hafi kveðið upp úrskurð eða tekið ákvörðun sem kæranleg er til kærunefndar barnaverndarmála meðan mál kæranda vegna dóttur hennar var til meðferðar fyrir barnaverndarnefndinni. Með bréfi barnaverndarnefndarinnar 22. janúar síðastliðinn er staðfest að á meðan mál dóttur kæranda var til meðferðar hjá barnaverndarnefndinni hafi ekki verið teknar neinar ákvarðanir eða kveðnir upp úrskurðir sem kæranlegir væru til kærunefndar barnaverndarmála samkvæmt barnaverndarlögum. Verður með vísan til þessa að líta svo á að ekki sé fyrir að fara kæranlegri ákvörðun í máli þessu og er því þar af leiðandi vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

 

 


 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli A er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

Guðfinna Eydal                                 Jón R. Kristinsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum